Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Máttug þrátt fyrir veikleika

Máttug þrátt fyrir veikleika

Máttug þrátt fyrir veikleika

ERTU að kikna undan veikleikum þínum? Finnst þér að þeir liggi á þér eins og mara og að þú munir aldrei geta unnið bug á þeim? Manni geta líka fallist hendur þegar maður ber sig saman við aðra og finnst maður síðri en þeir. Ef til vill ertu haldinn sjúkdómi sem dregur úr þér þrótt. Hver sem ástæðan er kann þér að finnast þú vera í sjálfheldu. Þá líður þér kannski eins og Job sem bað Guð: „Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum, hylja mig uns reiði þinni slotar, ákveða mér stund og minnast mín þá.“ — Job. 14:13.

Hvernig geturðu losnað við þessa vonleysistilfinningu? Þó að það sé kannski hægara sagt en gert þarftu að leiða hugann frá vandanum um stund. Þú gætir til dæmis hugleitt það sem Jehóva spurði Job, trúfastan þjón sinn: „Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina? Segðu það ef þú veist það og skilur. Hver ákvað umfang hennar, veist þú það, eða hver þandi mælivað yfir henni?“ (Job. 38:4, 5) Ef við hugleiðum hvað þessar spurningar fela í sér getum við líklega skilið hvað máttur og viska Jehóva er hátt yfir okkur hafin. Hann hefur góða og gilda ástæðu fyrir því að leyfa núverandi heimskerfi að standa enn um sinn.

„Fleinn í holdið“

Páll postuli er annar trúfastur þjónn Jehóva sem átti við þrálátan vanda að stríða. Hann kallaði þennan vanda ‚flein í holdinu‘ og bað Guð í þrígang að losa sig við þessa raun. Hver sem þessi „fleinn“ var, olli hann Páli stöðugum óþægindum og hefði getað rænt hann gleðinni í þjónustu Jehóva. Páll líkti þessu við að vera sleginn æ ofan í æ. Svar Jehóva við bænum Páls var: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Jehóva fjarlægði ekki fleininn. Páll þurfti að berjast við hann áfram, en hann sagði samt: „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur.“ (2. Kor. 12:7-10) Hvað átti hann við með því?

Vandi Páls hvarf ekki fyrir kraftaverk en hann kom heldur ekki í veg fyrir að hann næði einstökum árangri í þjónustunni við Jehóva. Hann reiddi sig á stuðning Jehóva og bað hann stöðuglega um hjálp. (Fil. 4:6, 7) Undir lok jarðlífs síns gat hann sagt: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ — 2. Tím. 4:7.

Jehóva notar ófullkomið fólk til að framkvæma vilja sinn þrátt fyrir galla þeirra og vandamál. Og hann á með réttu allan heiðurinn af því sem er gert. Hann getur gefið þeim leiðbeiningar og visku til að þola erfiðar aðstæður og halda gleði sinni í þjónustunni. Já, Jehóva getur notað ófullkomið fólk til að gera mikið starf þrátt fyrir veikleika þeirra.

Páll útskýrði hvers vegna Guð fjarlægði ekki fleininn sem hann hafði í holdinu: „Til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig.“ (2. Kor. 12:7) „Fleinn“ Páls minnti hann á takmarkanir sínar og hjálpaði honum að vera auðmjúkur. Það er í samræmi við kennslu Jesú: „Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Matt. 23:12) Erfiðleikar geta kennt þjónum Guðs auðmýkt og minnt þá á að þeir þurfa að reiða sig á Jehóva til að vera trúfastir. Þannig geta þeir ‚hrósað sér í Drottni‘ eins og Páll gerði. — 1. Kor. 1:31.

Leyndir veikleikar

Sumir hafa ef til vill veikleika sem þeir vita ekki af eða eru ekki tilbúnir að viðurkenna. Til dæmis gæti einhver verið of sjálfsöruggur og treyst algerlega á sjálfan sig. (1. Kor. 10:12) Annar algengur veikleiki hjá ófullkomnum mönnum er framagirni.

Jóab varð hershöfðingi í her Davíðs konungs. Hann var bæði hugrakkur, einbeittur og úrræðagóður maður. En hann gerðist samt sekur um alvarlegt misferli sem sýndi hroka og metnaðargirni. Hann myrti grimmilega tvo hershöfðingja. Til að byrja með drap hann Abner í hefndarskyni. Síðar þóttist hann ætla að heilsa Amasa frænda sínum og þreif í skegg hans með hægri hendi eins og til að kyssa hann en rak hann svo í gegn með sverðinu sem hann hafði í vinstri hendi. (2. Sam. 17:25; 20:8-10) Amasa hafði verið settur í hershöfðingjastöðu Jóabs og Jóab notaði tækifærið til að losa sig við keppinautinn, væntanlega í von um að vera settur aftur í stöðuna. Sjá má af þessu að Jóab hafði ekki taumhald á röngum hvötum sínum, þar á meðal á metnaðargirninni. Hann var miskunnarlaus og sýndi enga iðrun fyrir það sem hann gerði. Stuttu fyrir dauða sinn fyrirskipaði Davíð konungur syni sínum, Salómon, að sjá til þess að Jóab fengi að gjalda fyrir illsku sína. — 1. Kon. 2:5, 6, 29-35.

Við ættum alls ekki að láta undan röngum hvötum. Við getum haft stjórn á veikleikum okkar. Fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir þeim og viðurkenna þá. Síðan getum við gert eitthvað til að sigrast á þeim. Við getum beðið reglulega til Jehóva um að hann hjálpi okkur að sigrast á þessum veikleikum og lesið og hugleitt orð hans vandlega í leit að leiðum til að berjast á móti röngum hvötum. (Hebr. 4:12) Við ættum ekki að missa kjarkinn þó að við þurfum stöðugt að berjast við þessa veikleika. Við getum jafnvel þurft að halda baráttunni áfram eins lengi og við erum ófullkomin. Páll viðurkenndi að hann þyrfti að berjast við syndina: „Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata, það geri ég.“ Eins og þú veist gafst Páll samt ekki upp fyrir syndugum tilhneigingum og lét sem hann gæti ekkert við þeim gert. Nei, hann barðist á móti þeim og treysti á hjálp Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists. (Rómv. 7:15-24) Á öðrum stað sagði Páll: „Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.“ — 1. Kor. 9:27.

Við höfum öll tilhneigingu til að réttlæta okkur. En við getum unnið á móti þessari tilhneigingu með því að temja okkur að sjá hlutina sömu augum og Jehóva og taka til okkar áminningar Páls sem hann gaf kristnum mönnum: „Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða.“ (Rómv. 12:9) Við þurfum að vera heiðarleg og hafa sjálfsaga og þrautseigju þegar við berjumst við veikleika okkar. Davíð bað Jehóva: „Prófa nýru mín og hjarta.“ (Sálm. 26:2) Hann vissi að Guð getur lagt nákvæmt mat á innstu tilhneigingar okkar og hjálpað okkur þegar við þurfum þess með. Ef við förum eftir leiðbeiningunum sem Jehóva gefur okkur í orði sínu og með heilögum anda sínum getur okkur miðað vel áfram í að sigrast á veikleikum okkar.

Einhverjir hafa kannski áhyggjur af vandamálum sem þeim finnst þeir ekki ráða við sjálfir. Kærleiksríkir safnaðaröldungar geta vissulega veitt uppörvun og aðstoðað. (Jes. 32:1, 2) En verum raunsæ. Sum vandamál munum við ekki losna algerlega við meðan þetta heimskerfi stendur. Þó hafa margir lært að lifa við þau og það hefur gert þeim kleift að lifa innihaldsríku lífi.

Jehóva lofar okkur stuðningi

Það er sama hvaða erfiðleikar mæta okkur á þessum erfiðu tímum, við getum alltaf verið viss um að Jehóva leiðbeini okkur og haldi okkur uppi. Við finnum eftirfarandi hvatningu í Biblíunni: „Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ — 1. Pét. 5:6, 7.

Þegar Kathy, sem hefur þjónað á Betel um langt árabil, gerði sér grein fyrir að eiginmaðurinn væri með Alzheimer-sjúkdóminn fannst henni að það sem biði hennar yrði sér ofviða. Hún varð að biðja Jehóva á hverjum degi um visku og sálarþrek. Er heilsu eiginmannsins hrakaði smám saman tóku kærleiksríkir bræður sér tíma til að kynna sér hvernig hægt væri að fást við sjúkdóminn. Og umhyggjusamar systur voru henni til halds og trausts. Þessi trúsystkini voru þáttur í þeim stuðningi sem Jehóva veitti og Kathy gat séð um manninn sinn þar til hann dó 11 árum síðar. Hún segir: „Ég þakkaði Jehóva innilega og með tárum fyrir alla hjálpina. Hjálp hans hélt mér gangandi. Ég vissi ekki að það væri hægt að sinna skyldum sínum svona lengi þrátt fyrir örþreytu.“

Hjálp til að sigrast á leyndum veikleikum

Þegar mönnum finnst þeir lítils virði hugsa þeir ef til vill að Jehóva muni ekki hlusta á þá þegar þeim líður illa. Þá er sérstaklega gott að hugsa um hvað Davíð sagði þegar hann fékk samviskubit út af því að hafa syndgað alvarlega með Batsebu: „Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ (Sálm. 51:19) Davíð iðraðist í einlægni og hann vissi að hann gæti nálgast Guð og reitt sig á miskunn hans. Jesús endurspeglar umhyggju Jehóva. Guðspjallaritarinn Matteus heimfærði orð Jesaja upp á Jesú: „Brákaðan reyr brýtur hann ekki og dapraðan hörkveik slekkur hann ekki.“ (Matt. 12:20; Jes. 42:3) Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann kúguðum og þeim sem voru lítils metnir samúð. Hann slökkti ekki síðasta lífsneistann í þeim sem voru eins og kveikur á olíulampa sem var alveg að deyja út. Hann sinnti blíðlega þeim sem þjáðust og endurvakti lífsneistann í þeim. Þannig var hann meðan hann var hér á jörð. Trúir þú að hann sé enn þá þannig og að hann geti sýnt þér samúð þrátt fyrir veikleika þína? Taktu eftir að í Hebreabréfinu 4:15 er sagt að Jesús „geti séð aumur á veikleika okkar“.

Þegar Páll skrifaði að hann væri með ‚flein í holdinu‘ sagði hann að kraftur Krists gæti tekið sér „bústað“ í sér. (2. Kor. 12:7-9) Hann fann fyrir vernd Guðs í Kristi rétt eins og maður finnur skjól fyrir veðri og vindum þegar hann er kominn inn í hús. Við þurfum ekkert frekar en Páll að láta undan veikleikum okkar og erfiðleikum. Við megum nota allar þær ráðstafanir sem Jehóva sér okkur fyrir í jarðneskum söfnuði sínum til að halda áfram að vera sterk í trúnni. Við getum gert allt sem í okkar valdi stendur og treyst síðan á Jehóva, fullviss um að hann muni vísa okkur veginn. Þegar við finnum hvernig kraftur Guðs hjálpar okkur í veikleika okkar getum við sagt eins og Páll: „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur.“ — 2. Kor. 12:10.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Páll bað Jehóva stöðugt um leiðsögn til að fullna þjónustu sína.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Davíð konungur treysti Jóab fyrir hernum.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Jóab losaði sig við Amasa, keppinaut sinn.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Kærleiksríkir öldungar gefa leiðbeiningar sem geta hjálpað okkur að kljást við vandamál okkar.