Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveittu þinn „fyrri kærleik“

Varðveittu þinn „fyrri kærleik“

Varðveittu þinn „fyrri kærleik“

„Haltu fast því sem þú hefur.“ — OPINB. 3:11.

1, 2. Hvernig leið þér þegar þú sannfærðist um að það sem þú varst að læra um Jehóva væri sannleikurinn?

MANSTU þegar þú heyrðir í fyrsta sinn um þá frábæru framtíð sem Jehóva hefur lofað hlýðnu mannkyni? Ef þú tilheyrðir áður öðru trúfélagi, hvernig leið þér þá þegar fyrirætlun Guðs var útskýrð fyrir þér út frá Biblíunni eða þegar þú fékkst skýringar á kenningum sem þér fannst áður flóknar? Kannski áttaðirðu þig á því að þér höfðu verið kennd ósannindi. En ertu ekki þakklátur fyrir að nú skulirðu vita sannleikann? Ef þú fékkst kristið uppeldi, manstu þá hvernig þér leið þegar þú sannfærðist um að það sem þú varst að læra um Jehóva væri sannleikurinn og þú ákvaðst að lifa í samræmi við það? — Rómv. 12:2.

2 Margir í söfnuðinum geta eflaust sagt þér að samband þeirra við Jehóva styrktist og þeir urðu glaðir og þakklátir fyrir að hann skyldi hafa dregið þá til sín. (Jóh. 6:44) Gleði þeirra knúði þá til að taka þátt í starfi safnaðarins og þeir vildu segja öllum frá því sem þeir höfðu lært. Upplifðir þú eitthvað þessu líkt?

3. Hvernig var ástandið hjá kristnum mönnum í Efesus þegar Jesús ávarpaði þá?

3 Þegar Jesús ávarpaði söfnuðinn í Efesus á fyrstu öldinni talaði hann um „fyrri kærleik“ þeirra. Efesusmenn bjuggu yfir mörgum góðum eiginleikum en samt höfðu þeir leyft kærleikanum, sem þeir báru til Jehóva í fyrstu, að dvína. Þess vegna sagði Jesús við þá: „Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt. Ég veit að þú getur ekki sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá sem segja sjálfa sig vera postula en eru það ekki og þú hefur komist að því að þeir eru lygarar. Þú ert þolgóður og hefur þolað mikið vegna mín og ekki gefist upp. En það hef ég á móti þér að þú hefur fallið frá þínum fyrri kærleik.“ — Opinb. 2:2-4.

4. Af hverju eiga leiðbeiningar Jesú til Efesusmanna erindi til okkar?

4 Leiðbeiningar Jesú til Efesusmanna og hinna safnaðanna, sem hann ávarpaði í Opinberunarbókinni, áttu líka við aðstæðurnar sem komu upp um tíma meðal hinna andasmurðu eftir 1914. (Opinb. 1:10) En það getur líka gerst núna að sumir í söfnuðinum falli frá sínum „fyrri kærleik“ til Jehóva og sannleikans. Með það í huga skulum við rifja upp og hugleiða eigin reynslu og athuga hvernig það getur styrkt og endurvakið eldmóð okkar og kærleikann sem við bárum í fyrstu til Guðs og sannleikans.

Hvað sannfærði þig?

5, 6. (a) Hvað verða allir kristnir menn að sanna fyrir sjálfum sér? (b) Hvað sannfærði þig um að Vottar Jehóva kenna sannleikann? (c) Hvað getur hjálpað okkur að endurvekja kærleikann sem við höfðum í fyrstu?

5 Allir sem vígja sig Jehóva verða að sanna fyrir sjálfum sér „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómv. 12:1, 2) Það felur meðal annars í sér að fræðast um það sem Biblían kennir. Það getur verið mismunandi frá einum manni til annars hvað sannfærði hann um að Vottar Jehóva kenni sannleikann. Sumir minnast þess að hafa sannfærst þegar þeir lásu nafn Guðs í Biblíunni eða þegar þeir skildu hvað gerist við dauðann. (2. Mós. 6:3, neðanmáls; Préd. 9:5, 10) Aðrir hrifust af kærleikanum meðal þjóna Jehóva. (Jóh. 13:34, 35) Enn aðrir veltu fyrir sér hvað felst í því að vera ekki hluti af þessum heimi. Þeir komust að því að sannkristnir menn geta ekki tekið þátt í stjórnmálum eða styrjöldum þjóðanna. — Jes. 2:4; Jóh. 6:15; 17:14-16.

6 Hjá mörgum voru það ástæður á borð við þessar sem vöktu kærleika þeirra til Guðs. Gefðu þér tíma til að rifja upp hvað sannfærði þig um að þetta væri sannleikurinn. Persónuleiki okkar og aðstæður eru mismunandi og þess vegna höfum við ólíkar ástæður fyrir því að elska Jehóva og treysta loforðum hans. Það sem sannfærði okkur í upphafi hefur sennilega jafnmikil áhrif á okkur núna. Sannleikurinn hefur ekki breyst. Með því að rifja upp hugsanir og tilfinningar okkar getum við endurvakið fyrri kærleika okkar til sannleikans. — Lestu Sálm 119:151, 152; 143:5.

Styrktu þinn fyrri kærleik

7. Af hverju þurfum við að styrkja kærleikann sem við höfðum í fyrstu og hvernig getum við gert það?

7 Kannski hefur margt breyst í lífi þínu síðan þú vígðir þig Jehóva. Kærleikurinn, sem þú upplifðir fyrst, var mikilvægur en með tímanum þurftirðu á sterkari kærleik að halda til að standast erfiðleika sem reyndu á trú þína. En Jehóva kom þér til hjálpar. (1. Kor. 10:13) Þess vegna er það sem þú hefur upplifað með árunum þér líka mikils virði. Þessi reynsla hefur hjálpað þér að styrkja kærleikann sem þú hafðir í fyrstu og hún hefur gefið þér tækifæri til að sanna fyrir sjálfum þér hinn góða og fagra vilja Guðs. — Jós. 23:14; Sálm. 34:9.

8. Hvernig opinberaði Jehóva sig fyrir Móse og hvernig kynntust Ísraelsmenn honum betur?

8 Skoðum til dæmis frásöguna af því þegar Jehóva sagðist ætla að frelsa Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi. Guð opinberaði Móse hvað nafn hans þýddi og sagði: „Ég verð sá sem ég verð.“ (2. Mós. 3:7, 8, 13, 14, NW) Hann var í raun að segja að hann myndi verða hvaðeina sem á þyrfti að halda til að frelsa þjóð sína. Í kjölfarið birti Jehóva mismunandi hliðar á persónuleika sínum þegar þess þurfti. Hann birtist Ísraelsmönnum sem hinn almáttugi, sem dómari, leiðtogi, frelsari, stríðhetja og örlátur gjafari. — 2. Mós. 12:12; 13:21; 14:24-31; 16:4; Nehem. 9:9-15.

9, 10. Við hvaða tækifæri getum við kynnst Guði betur og af hverju er gott að rifja upp þessi atvik?

9 Þótt þú sért ekki í sömu sporum og Ísraelsmenn til forna hefurðu líklega upplifað eitthvað sem sannfærði þig um að Guð hefði persónulegan áhuga á þér. Og það styrkti trú þína. Kannski upplifðirðu að hann annaðist þig, huggaði eða kenndi þér á einhvern hátt. (Lestu Jesaja 30:20b, 21.) Þú gætir til dæmis hafa fengið skýrt svar við bænum þínum. Ef til vill fékkstu hjálp frá trúsystkini þegar þú gekkst í gegnum erfiðleika. Og í sjálfsnámi þínu gætirðu hafa lesið ritningarstaði sem þú þurftir einmitt á að halda.

10 Þegar þú segir öðrum frá reynslu þinni er ekki víst að þeim finnist mikið til koma enda var ekki um kraftaverk að ræða. En fyrir þig hafa þessir atburðir mikla þýðingu. Já, Jehóva varð sá sem þú þurftir á að halda. Rifjaðu upp árin þín í sannleikanum. Manstu eftir að hafa upplifað oftar en einu sinni að Jehóva annaðist þig persónulega? Það getur verið gott að minnast þessara atvika og hugsa um hvaða tilfinningar þetta vakti með þér. Þannig geturðu glætt hjá þér sama kærleika til Jehóva og þú hafðir þá. Varðveittu þessar minningar. Hugleiddu þær. Þær eru sönnun þess að Jehóva hefur persónulegan áhuga á þér og enginn getur tekið þá vitneskju frá þér.

Gerðu sjálfsrannsókn

11, 12. Hver gæti verið ástæðan fyrir því að kærleikur okkar hafi dofnað og hvað ráðlagði Jesús?

11 Ef þú berð ekki sama kærleikann til Guðs og sannleikans og þú gerðir áður er það ekki vegna þess að Guð hafi breyst. Hann breytist aldrei. (Mal. 3:6; Jak. 1:17) Hann hafði áhuga á þér þá og hann hefur ekki síður áhuga á þér núna. Hvað gæti hafa breytt sambandi þínu við Jehóva? Gæti verið að þér finnist þú vera undir meira álagi og hafir meiri áhyggjur en áður? Kannski varstu bænræknari hér áður fyrr, duglegri biblíunemandi og hugleiddir oftar andleg mál. Hafðirðu ef til vill meiri eldmóð í boðunarstarfinu og varstu duglegri að sækja samkomur? — 2. Kor. 13:5.

12 Það er ekki víst að neitt af þessu eigi við þig en ef svo er, hvað leiddi þá til þessara breytinga? Það er alveg eðlilegt að hafa áhyggjur af því að sjá fyrir fjölskyldunni, sinna heilsunni eða öðru slíku. En gæti þetta hafa fengið þig til að gleyma því hve nálægur dagur Jehóva er? Jesús sagði við postula sína: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara. En hann mun koma yfir alla menn sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á.“ — Lúk. 21:34-36.

13. Við hvað líkti Jakob orði Guðs?

13 Biblíuritarinn Jakob hvatti trúsystkini sín til að gera heiðarlega sjálfsrannsókn og nota til þess orð Guðs. Jakob skrifaði: „Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar sjálfan sig í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt hvernig það var. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því sem hann heyrir heldur framkvæmir það, verður sæll í verkum sínum.“ — Jak. 1:22-25.

14, 15. (a) Hvernig getur Biblían hjálpað þér að bæta sambandið við Jehóva? (b) Hvað gætum við þurft að íhuga?

14 Spegill kemur að góðum notum til að ganga úr skugga um að útlitið sé í lagi. Ef karlmaður sér til dæmis að bindið hans er skakkt getur hann lagað það og ef kona sér að hárið er í óreiðu getur hún lagað það. Á sama hátt getum við notað Biblíuna til að skoða okkar innri mann. Þegar við berum okkur saman við það hvernig Biblían segir að við eigum að vera erum við að nota hana eins og spegil. En til hvers að líta í spegil ef við lögum ekki það sem er ábótavant? Það er viturlegt að breyta í samræmi við það sem við sjáum í ‚fullkomnu lögmáli‘ Guðs og verða „gerendur orðsins“. Ef við komumst að því að fyrri kærleikur okkar til Jehóva og sannleikans hefur dvínað ættum við að hugleiða þessar spurningar: Undir hvers konar álagi er ég og hvernig tekst ég á við það? Hvernig tókst ég á við það áður fyrr? Hefur eitthvað breyst? Við skulum ekki horfa fram hjá því ef við uppgötvum einhverja veikleika í fari okkar. Ef breytinga er þörf ættum við að gera þær án tafar. — Hebr. 12:12, 13.

15 Sjálfsrannsókn af þessu tagi getur líka hjálpað þér að setja þér raunhæf markmið til að taka framförum í trúnni. Páll postuli gaf Tímóteusi, samverkamanni sínum, leiðbeiningar um það hvernig hann gæti bætt þjónustu sína. Páll hvatti hinn unga Tímóteus: „Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ Við þurfum líka að íhuga, með hliðsjón af Biblíunni, hvaða framförum við getum tekið. — 1. Tím. 4:15.

16. Hvað þarftu að varast þegar þú gerir sjálfsrannsókn með hliðsjón af Biblíunni?

16 En slík sjálfsrannsókn á líklega eftir að fletta ofan af einhverjum veikleikum. Það gæti gert þig niðurdreginn en leyfðu því ekki að gerast. Markmiðið með sjálfsrannsókn er að koma auga á hvar breytinga er þörf. Satan vill auðvitað að okkur finnist við einskis virði vegna ófullkomleika okkar. Því hefur jafnvel verið haldið fram að Guð horfi með lítilsvirðingu á viðleitni manna til að þjóna honum. (Job. 15:15, 16; 22:3) En það er lygi sem Jesús afsannaði kröftuglega. Við erum öll dýrmæt í augum Guðs. (Lestu Matteus 10:29-31.) Þegar við erum meðvituð um veikleika okkar ætti það að fá okkur til að sýna auðmýkt og leggja okkur fram um að gera betur með hjálp Jehóva. (2. Kor. 12:7-10) Ef veikindi eða aldur takmarka það sem við getum gert ættum við að setja okkur raunhæf markmið. En gefstu ekki upp og gættu þess að kærleikurinn dofni ekki.

Við getum verið þakklát fyrir margt

17, 18. Hvaða gagn höfum við af því að styrkja kærleikann sem við höfðum í fyrstu?

17 Það er okkur til góðs að halda áfram að styrkja kærleikann sem við höfðum í fyrstu. Við getum vaxið að þekkingu á Guði og orðið þakklátari fyrir kærleiksríka leiðsögn hans. (Lestu Orðskviðina 2:1-9; 3:5, 6.) „Að halda [ákvæði Drottins] veitir ríkuleg laun,“ sagði sálmaritarinn. „Vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gerir hinn fávísa vitran.“ Enn fremur segir í Sálmunum: „Sælir eru grandvarir, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.“ — Sálm. 19:8, 12; 119:1.

18 Þú ert örugglega sammála því að það er margt sem þú getur verið þakklátur fyrir. Þú skilur hvers vegna ástandið í heiminum er eins og það er. Þú nýtur góðs af öllu því sem Jehóva sér þjónum sínum fyrir nú á dögum. Þú ert sennilega líka mjög þakklátur fyrir að hann skyldi hafa dregið þig til alheimssafnaðar síns og veitt þér þann heiður að vera einn af vottum hans. Þú getur verið þakklátur fyrir það góða sem þú hefur. Ef þú ættir að gera lista yfir allar þær blessanir sem þú nýtur myndi hann líklega vera langur. En það getur verið gott að gera slíkan lista af og til því að það hjálpar þér að fylgja hvatningunni: „Haltu fast því sem þú hefur.“ — Opinb. 3:11.

19. Hvað er nauðsynlegt að gera til að halda sér sterkum í trúnni, auk þess að hugleiða samband sitt við Guð?

19 Eitt af því sem getur hjálpað þér að ‚halda fast því sem þú hefur‘ er að hugleiða hvernig þú hefur þroskast í trúnni með árunum. Í þessu tímariti hefur oft verið bent á önnur atriði sem hjálpa okkur að viðhalda góðu sambandi við Guð. Til dæmis er mikilvægt að vera bænrækinn, sækja samkomur og taka þátt í þeim og vera ötull í boðunarstarfinu. Allt þetta getur hjálpað þér að endurvekja og styrkja þann kærleika sem þú hafðir í fyrstu. — Ef. 5:10; 1. Pét. 3:15; Júd. 20, 21.

Hvert er svarið?

• Hvernig getur það verið þér til hvatningar að rifja upp ástæðurnar fyrir því að þú laðaðist að Jehóva?

• Um hvað geturðu sannfærst með því að hugleiða það sem þú hefur upplifað með árunum?

• Af hverju ættirðu að hugleiða hve sterkan kærleika þú berð til Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hvað laðaði þig að sannleikanum og hvað var það sem sannfærði þig?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sérðu hvað þú þarft að laga í fari þínu?