Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Virtu yfirráð Jehóva

Virtu yfirráð Jehóva

Virtu yfirráð Jehóva

„Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. JÓH. 5:3.

1, 2. (a) Af hverju hugnast mörgum illa að lúta yfirráðum annarra? (b) Eru þeir sem segjast fara eigin leiðir sjálfstæðir í raun og veru? Skýrðu svarið.

MÖRGUM hugnast illa að lúta yfirráðum annarra. Þeim finnst það ógeðfelld hugmynd að beygja sig undir vilja annarrar manneskju. „Enginn segir mér fyrir verkum,“ segja sumir sem halda því fram að þeir fari eigin leiðir. En er þetta fólk sjálfstætt í raun og veru? Nei, það hefur að jafnaði sömu viðmið og ótal aðrir sem fylgja „háttsemi þessa heims“. (Rómv. 12:2) Þetta er sannarlega ekki sjálfstætt fólk heldur „þrælar spillingarinnar“, svo notuð séu orð Péturs postula. (2. Pét. 2:19) Það lifir „samkvæmt aldarhætti þessa heims að vilja valdhafans í loftinu“, Satans djöfulsins — Ef. 2:2.

2 Rithöfundur nokkur sagði stoltur í bragði: „Ég leyfi hvorki foreldrum mínum, presti, andlegum leiðbeinanda eða Biblíunni að ákveða fyrir mig hvað sé rétt eða rangt.“ Sumir misbeita auðvitað valdi sínu og verðskulda ekki að við hlýðum þeim. En er þá lausnin sú að láta sem maður þurfi enga leiðsögn? Við þurfum ekki annað en að renna yfir fyrirsagnir dagblaða til að átta okkur á svarinu. Það er dapurlegt til þess að vita að núna þegar mennina bráðvantar leiðsögn skuli færri en nokkru sinni fyrr vilja þiggja hana.

Hvernig lítum við á yfirráð?

3. Hvernig sýndu frumkristnir menn að þeir hlýddu ekki valdamönnum í blindni?

3 Kristnir menn taka aðra afstöðu en heimurinn. Ekki svo að skilja að við gerum í blindni allt sem okkur er sagt að gera. Stundum þurfum við meira að segja að neita að lúta vilja annarra jafnvel þó að þeir séu í valdastöðu. Þetta gerðist líka hjá kristnum mönnum á fyrstu öld. Postulunum var til dæmis bannað að prédika en þeir létu ekki undan æðstaprestinum og öðrum valdamönnum sem sátu í æðstaráðinu. Þeir hættu ekki að gera rétt til að þóknast valdamönnum. — Lestu Postulasöguna 5:27-29.

4. Hvaða dæmi í Hebresku ritningunum sýna að margir þjónar Guðs tóku rétta afstöðu þó að það aflaði þeim ekki vinsælda?

4 Margir þjónar Guðs fyrir daga kristninnar sýndu sömu einbeitni. Móse hafnaði því til dæmis „að vera talinn dóttursonur faraós og kaus fremur að þola illt með lýð Guðs“, jafnvel þó að hann kallaði þar með yfir sig „reiði konungsins“. (Hebr. 11:24, 25, 27) Jósef var staðfastur þegar kona Pótífars reyndi að fá hann til að eiga mök við sig, þó að hún væri í aðstöðu til að hefna sín og gera honum mein. (1. Mós. 39:7-9) Daníel „einsetti sér að saurga sig [ekki] á krásum af konungsborði“, þó svo að æðsti hirðmaður Babýlonar ætti erfitt með að sætta sig við það. (Dan. 1:8-14) Dæmi sem þessi sýna að þjónar Guðs hafa í aldanna rás tekið einarða afstöðu með því sem rétt er, óháð afleiðingunum. Þeir létu ekki undan mönnum til að afla sér velvildar þeirra. Við ættum ekki heldur að gera það.

5. Að hvaða leyti er afstaða okkar til yfirvalda ólík afstöðu heimsins?

5 Einörð afstaða okkar á ekkert skylt við þrjósku og við líkjumst ekki heldur þeim sem gera uppreisn til að gefa pólitíska yfirlýsingu. Við erum öllu heldur ákveðin í að virða yfirráð Jehóva meir en yfirráð nokkurs manns. Þegar lög manna stangast á við lög Guðs eigum við ekki erfitt með að ákveða okkur. Við líkjum eftir postulunum á fyrstu öld og hlýðum Guði framar en mönnum.

6. Af hverju er alltaf best að hlýða boðum Jehóva?

6 Hvað hjálpar okkur að virða og viðurkenna yfirráð Guðs? Við tökum sömu afstöðu og lýst er í Orðskviðunum 3:5, 6: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ Við trúum að allt sem Guð ætlast til af okkur sé okkur fyrir bestu til langs tíma litið. (Lestu 5. Mósebók 10:12, 13.) Jehóva sagði um sjálfan sig á dögum Ísraels: „Ég . . . kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.“ Síðan sagði hann: „Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum væri hamingja þín sem fljót og réttlæti þitt eins og öldur hafsins.“ (Jes. 48:17, 18) Við treystum þessum orðum. Við erum sannfærð um að það sé okkur alltaf fyrir bestu að hlýða boðum Guðs.

7. Hvað eigum við að gera ef við skiljum ekki alveg ákveðin fyrirmæli sem er að finna í Biblíunni?

7 Við viðurkennum yfirráð Jehóva og hlýðum honum jafnvel þó að við skiljum ekki fyllilega ástæðuna fyrir ákveðnum fyrirmælum sem er að finna í Biblíunni. Þetta er ekki trúgirni heldur traust. Það endurspeglar að við treystum fullkomlega að Jehóva viti hvað er okkur fyrir bestu. Með því að hlýða erum við líka að sýna kærleika því að Jóhannes postuli skrifaði: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans.“ (1. Jóh. 5:3) En það er önnur hlið á þessu máli sem við megum ekki horfa fram hjá.

Að aga hugann

8. Hvernig er það að virða yfirráð Jehóva tengt því að aga hugann?

8 Í Biblíunni er talað um að við þurfum að ‚aga hugann til að greina gott frá illu‘. (Hebr. 5:14) Það er ekki markmið okkar að hlýða lögum Jehóva vélrænt heldur viljum við geta ‚greint gott frá illu‘ með hliðsjón af lögum hans. Okkur langar til að koma auga á viskuna í ákvæðum hans til að geta sagt eins og sálmaskáldið: „Lögmál þitt er innra með mér.“ — Sálm. 40:9.

9. Hvernig getum við samstillt samvisku okkar meginreglum Jehóva og af hverju er það mikilvægt?

9 Til að meta lög Guðs að verðleikum eins og sálmaskáldið gerði þurfum við að hugleiða það sem við lesum í Biblíunni. Þegar við lesum um ákveðin fyrirmæli Jehóva gætum við til dæmis spurt okkur: Af hverju er þessi meginregla eða þessi fyrirmæli viturleg? Af hverju er það mér fyrir bestu að hlýða? Hvernig hefur farið fyrir þeim sem hafa ekki virt leiðbeiningar Guðs í þessu máli? Þannig samstillum við samvisku okkar meginreglum Jehóva og þá er líklegra að ákvarðanir okkar séu í samræmi við vilja hans. Þá getum við skilið „hver sé vilji Drottins“ og látið hann stjórna gerðum okkar. (Ef. 5:17) En það er ekki alltaf auðvelt.

Satan reynir að grafa undan yfirráðum Guðs

10. Á hvaða sviði hefur Satan reynt að grafa undan yfirráðum Guðs?

10 Satan hefur löngum reynt að grafa undan yfirráðum Guðs. Sjálfstæðisandi hans birtist í mörgum myndum. Tökum sem dæmi virðingarleysið fyrir hjónabandinu sem Guð er höfundur að. Sumir velja óvígða sambúð og aðrir reyna að losna frá maka sínum. Fólk í báðum hópunum tekur ef til vill undir með þekktri leikkonu sem fullyrti: „Það er ómögulegt, bæði fyrir karla og konur, að búa við einkvæni.“ Síðan bætti hún við: „Ég þekki engan sem er trúr maka sínum eða langar til að vera það.“ Vinsæll leikari tók í sama streng þegar hann talaði um fyrri sambönd sín: „Ég er ekki viss um að það sé í eðli okkar að búa með sömu manneskju alla ævi.“ Það er gott að spyrja sig: Viðurkenni ég að Jehóva hafi vald til að setja lög um hjónaband eða hef ég látið léttúð heimsins hafa áhrif á mig?

11, 12. (a) Af hverju getur verið erfitt fyrir unglinga að virða yfirráð Jehóva? (b) Segðu frá dæmi sem sýnir hve heimskulegt það er að virða ekki lög og meginreglur Jehóva.

11 Ertu unglingur í söfnuði Jehóva? Þá eru líkur á að Satan reyni allt hvað hann getur til að telja þér trú um að það sé þér alls ekki fyrir bestu að virða yfirráð Jehóva. „Æskunnar girndir“ ásamt þrýstingi frá jafnöldrunum getur vakið þá tilfinningu hjá þér að lög Guðs séu íþyngjandi. (2. Tím. 2:22) Láttu það ekki gerast. Reyndu að sjá viskuna að baki lögum Guðs. Í Biblíunni er okkur til dæmis sagt að ‚forðast saurlifnaðinn‘. (1. Kor. 6:18) Hér er enn og aftur gott að spyrja sig: Af hverju eru þetta viturleg fyrirmæli? Af hverju er það mér til góðs að vera hlýðinn á þessu sviði? Þú þekkir kannski einhverja sem hunsuðu leiðbeiningar Guðs og guldu það dýru verði. Eru þeir í raun og veru hamingjusamir núna? Er líf þeirra betra en það var þegar þeir tilheyrðu söfnuði Jehóva? Hafa þeir fundið lykil að hamingju sem aðrir þjónar Guðs vita ekki af? — Lestu Jesaja 65:14.

12 Kristin kona, Sharon að nafni, sagði fyrir nokkru: „Þar sem ég virti ekki lög Jehóva hef ég fengið alnæmi sem er banvænn sjúkdómur. Mér verður oft hugsað til allra þeirra hamingjuríku ára sem ég þjónaði Jehóva.“ Hún viðurkenndi að það hefði verið heimskulegt af sér að brjóta lög Jehóva og að hún hefði átt að virða þau í einu og öllu. Lög Jehóva vernda okkur. Sharon dó aðeins sjö vikum eftir að hún sagði orðin hér að ofan. Eins og sjá má af þessu sorglega dæmi hefur Satan ekkert gott að bjóða þeim sem tilheyra illum heimi hans. Hann er „lyginnar faðir“ og gefur fullt af loforðum en þau eru innantóm orð rétt eins og loforðið sem hann gaf Evu. (Jóh. 8:44) Það er okkur alltaf fyrir bestu að virða yfirráð Jehóva.

Varaðu þig á sjálfstæðisanda

13. Nefndu dæmi um svið þar sem við þurfum að varast sjálfstæðisanda.

13 Til að viðurkenna yfirráð Jehóva þurfum við að vara okkur á sjálfstæðisanda. Ef við erum stolt gæti okkur fundist við vera yfir það hafin að fá leiðsögn frá öðrum. Við gætum kannski spyrnt við fótum þegar við fáum leiðbeiningar frá þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum. Það er fyrirkomulag Jehóva að hópur, sem kallast trúr og hygginn þjónn, sjái okkur fyrir andlegri fæðu á réttum tíma. (Matt. 24:45-47) Við ættum að sýna þá auðmýkt að viðurkenna þessa leið Jehóva til að annast þjóna sína nú á tímum. Líktu eftir trúum postulum Jesú. Þegar sumir af lærisveinunum hneyksluðust á honum spurði hann postulana: „Ætlið þið að fara líka?“ Pétur svaraði: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ — Jóh. 6:66-68.

14, 15. Af hverju ættum við að sýna þá auðmýkt að fara eftir biblíulegum leiðbeiningum?

14 Til að viðurkenna yfirráð Jehóva þurfum við líka að fara eftir leiðbeiningum sem eru byggðar á orði hans. Hinn trúi og hyggni þjónn hefur til dæmis hvatt okkur til að ‚vaka og vera allsgáð‘, það er að segja skynsöm. (1. Þess. 5:6) Þetta eru sérlega viðeigandi ráð núna á síðustu dögum þegar margir eru „sérgóðir [og] fégjarnir“. (2. Tím. 3:1, 2) Geta þessi útbreiddu viðhorf hugsanlega haft áhrif á okkur? Já, veraldleg markmið gætu svæft okkur andlega eða gert okkur að efnishyggjumönnum. (Lúk. 12:16-21) Það er því viturlegt að fara eftir ráðleggingum Biblíunnar og forðast þann eigingjarna lífsstíl sem er svo útbreiddur í heimi Satans. — 1. Jóh. 2:16.

15 Öldungar í söfnuðunum á hverjum stað sjá um að dreifa andlegri fæðu frá hinum trúa og hyggna þjóni. Við fáum eftirfarandi hvatningu í Biblíunni: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlát til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri ykkur til ógagns.“ (Hebr. 13:17) Ber að skilja þetta svo að safnaðaröldungarnir séu óskeikulir? Auðvitað ekki. Guð sér ófullkomleika þeirra betur en nokkur maður. Samt ætlast hann til þess að við séum þeim undirgefin. Við sýnum að við viðurkennum yfirráð Jehóva með því að vera samvinnuþýð við öldungana, þó að þeir séu ófullkomnir.

Við verðum að vera hógvær

16. Hvernig getum við sýnt virðingu fyrir Jesú, höfði kristna safnaðarins?

16 Við verðum alltaf að hafa hugfast að Jesús er hið raunverulega höfuð safnaðarins. (Kól. 1:18) Það er ein ástæðan fyrir því að við fylgjum hógværlega leiðsögn safnaðaröldunganna og sýnum þeim „sérstaka virðingu“. (1. Þess. 5:12, 13) Öldungarnir geta auðvitað líka sýnt að þeir séu undirgefnir með því að gæta þess vel að flytja söfnuðinum boðskap Guðs en ekki eigin skoðanir. Þeir ‚fara ekki lengra en ritað er‘ því að þeir vilja ekki halda fram persónulegum hugmyndum. — 1. Kor. 4:6.

17. Af hverju er hættulegt að vera framagjarn?

17 Allir í söfnuðinum þurfa að gæta þess að hreykja sér ekki upp. (Rómv. 12:16) Greinilegt er að lærisveinn nokkur, sem Jóhannes postuli hitti, féll í þessa tálgryfju. Jóhannes skrifaði: „Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi mark á mér. Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að benda á gjörðir hans, hvernig hann lætur ófrægja mig með ljótum orðum.“ (3. Jóh. 9, 10) Við sem nú lifum getum dregið lærdóm af þessu. Við höfum ærna ástæðu til að uppræta úr fari okkar sérhvern vott af framagirni sem við kunnum að koma auga á. Í Biblíunni segir: „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“ Þeir sem virða yfirráð Guðs verða að gæta sín á hroka því að annars verða þeir sjálfum sér til smánar. — Orðskv. 11:2; 16:18.

18. Hvað hjálpar okkur að virða yfirráð Jehóva?

18 Settu þér það markmið að standa á móti sjálfstæðisanda heimsins og virða yfirráð Jehóva. Af og til skaltu minna þig á hve mikill heiður það er að mega þjóna honum. Sú staðreynd að þú tilheyrir söfnuði Jehóva er merki þess að hann hafi laðað þig til sín með heilögum anda sínum. (Jóh. 6:44) Líttu aldrei á það sem sjálfsagðan hlut að eiga samband við Guð. Kappkostaðu á öllum sviðum lífsins að sýna að þú hafnir sjálfstæðisanda og virðir yfirráð Jehóva.

Manstu?

• Hvað er fólgið í því að virða yfirráð Jehóva?

• Hvernig er það að virða yfirráð Jehóva tengt því að aga hugann?

• Á hvaða sviðum reynir Satan að grafa undan yfirráðum Guðs?

• Af hverju er nauðsynlegt að vera hógvær til að virða yfirráð Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

„Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“

[Mynd á blaðsíðu 20]

Það er alltaf viturlegt að fylgja meginreglum Guðs.