Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú veist ekki hvað muni heppnast

Þú veist ekki hvað muni heppnast

Þú veist ekki hvað muni heppnast

„Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt.“ — PRÉD. 11:6.

1. Af hverju finnum við bæði til auðmýktar og undrunar þegar við fylgjumst með vaxtarferlinu?

BÓNDINN verður að vera þolinmóður. (Jak. 5:7) Eftir að hafa sáð í akur sinn þarf hann að bíða eftir að kornið spretti. Þegar skilyrði eru hagstæð fer fljótlega að glitta í sprotana sem brjóta sér leið upp úr moldinni. Plönturnar vaxa og gefa síðan af sér fullvaxið korn. Að lokum er akur bóndans tilbúinn til uppskeru. Það er stórkostlegt að verða vitni að þessu vaxtarferli. Og við finnum til auðmýktar að hugsa til þess hver stendur að baki þessu kraftaverki. Við getum hlúð að sæðinu og vökvað það. En aðeins Guð getur gefið vöxtinn. — Samanber 1. Korintubréf 3:6.

2. Hvað kenndi Jesús varðandi tilurð nýrra lærisveina í dæmisögunum sem farið var yfir í greininni á undan?

2 Eins og fram kom í greininni á undan líkti Jesús boðun fagnaðarerindisins við bónda sem sáir sæði. Í dæmisögunni um mismunandi jarðveg benti hann á að þótt bóndinn sái góðu sæði ráðist það af hjartalagi einstaklingsins hvort sæðið nái þroska eða ekki. (Mark. 4:3-9) Í dæmisögunni um sáðmanninn sem sefur segir Jesús að bóndinn skilji ekki nákvæmlega vaxtarferlið. Það er af því að vöxturinn á sér stað vegna kraftar Guðs en ekki viðleitni manna. (Mark. 4:26-29) Nú skulum við skoða þrjár dæmisögur til viðbótar — um mustarðskornið, súrdegið og netið. *

Dæmisagan um mustarðskornið

3, 4. Hvað kemur fram varðandi boðskapinn um ríkið í dæmisögunni um mustarðskornið?

3 Í dæmisögunni um mustarðskornið, sem er líka að finna í 4. kafla Markúsarguðspjalls, er lögð áhersla á tvennt: Í fyrsta lagi hina miklu útbreiðslu fagnaðarerindisins og í öðru lagi að þeir sem taka við boðskapnum hljóti vernd. Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ — Mark. 4:30-32.

4 Hér er verið að lýsa því hvernig „Guðs ríki“ vex eins og sjá má af útbreiðslu fagnaðarerindisins og vexti kristna safnaðarins frá og með hvítasunnu árið 33. Mustarðskornið er örsmátt fræ og getur táknað eitthvað agnarlítið. (Samanber Lúkas 17:6.) En að lokum getur mustarðsplantan orðið þriggja til fimm metra há með sterkbyggðar greinar og er því næstum eins og tré. — Matt. 13:31, 32.

5. Hvaða vöxtur átti sér stað í kristna söfnuðinum á fyrstu öld?

5 Vöxtur kristna safnaðarins byrjaði smátt árið 33 þegar um 120 lærisveinar voru smurðir heilögum anda. Á tiltölulega stuttum tíma bættust þúsundir manna við þennan litla söfnuð lærisveina. (Lestu Postulasöguna 2:41; 4:4; 5:28; 6:7; 12:24; 19:20.) Á þremur áratugum hafði uppskerumönnum fjölgað svo mikið að Páll postuli gat skrifað söfnuðinum í Kólossu að fagnaðarerindið hefði þegar verið boðað „öllu sem skapað er í heiminum“. (Kól. 1:23) Hvílíkur vöxtur!

6, 7. (a) Hvaða vöxtur hefur átt sér stað frá árinu 1914? (b) Hvaða vöxtur á enn eftir að eiga sér stað?

6 Frá því að Guðsríki var stofnað á himnum árið 1914 hafa greinar „mustarðstrésins“ vaxið framar öllum vonum. Þjónar Guðs hafa séð spádóm Jesaja uppfyllast bókstaflega: „Hinn minnsti verður að þúsund, hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.“ (Jes. 60:22) Hinn fámenni hópur andasmurðra þjóna Guðs, sem boðaði fagnaðarerindið snemma á 20. öld, gat ekki gert sér í hugarlund að árið 2008 myndu um sjö milljónir votta taka þátt í þessu starfi í meira en 230 löndum. Þetta er ótrúlegur vöxtur, sambærilegur við mustarðskornið í dæmisögu Jesú.

7 En er vöxturinn þar með á enda? Nei, að lokum verða allir jarðarbúar þegnar Guðsríkis. Öllum andstæðingum hefur þá verið rutt úr vegi. Þetta mun ekki eiga sér stað vegna viðleitni manna heldur vegna þess að hinn alvaldi Jehóva grípur inn í málefna jarðarbúa. (Lestu Daníel 2:34, 35.) Þá sjáum við lokauppfyllingu annars spádóms sem Jesaja skráði: „Landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ — Jes. 11:9.

8. (a) Hverja tákna fuglarnir í dæmisögu Jesú? (b) Gegn hverju hljótum við nú þegar vernd?

8 Jesús sagði að fuglar himinsins geti hreiðrað sig í skugga ríkis hans. Þessir fuglar tákna ekki óvini Guðsríkis sem reyna að éta upp góða sæðið eins fuglarnir í dæmisögunni um manninn sem dreifði sáðkorni í mismunandi jarðveg. (Mark. 4:4) Í þessari dæmisögu tákna fuglarnir hjartahreint fólk sem leitar skjóls í kristna söfnuðinum. Þetta fólk hlýtur nú þegar vernd frá saurgandi venjum og óhreinum verkum þessa illa heims. (Samanber Jesaja 32:1, 2.) Jehóva líkti einnig Messíasarríkinu við tré og sagði í spádómi: „Ég mun gróðursetja hann á hæsta fjalli Ísraels og hann mun skjóta greinum og bera ávöxt og verða voldugt sedrustré. Hvers kyns fuglar munu setjast að í því og alls kyns vængjuð dýr finna sér skjól í skugga greina þess.“ — Esek. 17:23.

Dæmisagan um súrdeigið

9, 10. (a) Hvað kemur fram í dæmisögunni um súrdeigið? (b) Hvað er súrdeig oft látið tákna í Biblíunni og hvaða spurning vaknar fyrst Jesús notar það í dæmisögu?

9 Vöxtur er ekki alltaf sýnilegur. Þetta kemur fram í næstu dæmisögu Jesú. Þar segir: „Líkt er himnaríki súrdeigi er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt.“ (Matt. 13:33) Hvað táknar þetta súrdeig og hvernig tengist það Guðsríki og vaxandi starfsemi þess?

10 Í Biblíunni er súrdeig oft látið tákna synd. Páll postuli notar súrdeig í þessari merkingu þegar hann talar um spillandi áhrif syndara í söfnuðinum í Korintu. (1. Kor. 5:6-8) Var Jesús þá að tala um að eitthvað skaðlegt myndi vaxa og breiðast út þegar hann sagði dæmisöguna um súrdeigið?

11. Hvernig var súrdeig notað í Ísrael til forna?

11 Áður en við svörum þessari spurningu er þrennt sem við verðum að taka mið af. Í fyrsta lagi þáði Jehóva fórnir sem innihéldu súrdeig þótt hann hafi ekki leyft súrdeig á páskahátíðinni. Súrdeig var notað í þakkar- og heillafórnum. Fólk færði slíkar fórnir sjálfvilja til að sýna þakklæti fyrir allar blessanir Jehóva. Þessar fórnarmáltíðir voru gleðilegir viðburðir. — 3. Mós. 7:11-15.

12. Hvað getum við lært af því hvernig myndmál er notað í Biblíunni?

12 Í öðru lagi getur ákveðið myndmál í Biblíunni haft jákvæða merkingu í einu samhengi þótt það hafi neikvæða merkingu í öðru samhengi. Í 1. Pétursbréfi 5:8 er Satan til dæmis líkt við ljón til að draga fram hvað hann er grimmur og hættulegur. En í Opinberunarbókinni 5:5 er Jesú líkt við ljón — „ljónið af Júda ættkvísl“. Í síðara dæminu táknar ljónið hugrekki og réttlæti.

13. Hvað lærum við af dæmisögu Jesú um það ferli sem á sér stað þegar einhver tekur við sannleikanum?

13 Í þriðja lagi sagði Jesús ekki að súrdeigið hafi skemmt mjölið og gert það ónothæft. Hann var einfaldlega að lýsa því hvernig brauð er venjulega búið til. Húsmóðirin bætti súrdeiginu af ásettu ráði út í mjölið og árangurinn varð góður. Súrdegið var falið í mjölinu. Gerjunin átti sér því stað án þess að húsmóðirin sæi. Þetta minnir á manninn sem sáir í akur og sefur á nóttunni. Jesús sagði: „Sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.“ (Mark. 4:27) Er þetta ekki einföld leið til að lýsa því ósýnilega ferli sem á sér stað þegar einhver tekur við sannleikanum? Við sjáum vöxtinn ef til vill ekki fyrst í stað en að lokum verður árangurinn augljós.

14. Hvað táknar það að súrdeigið skuli sýra allt deigið?

14 Þessi vöxtur er ekki aðeins hulinn augum manna heldur breiðir hann sig líka út um allt. Þetta má einnig sjá af dæmisögunni um súrdeigið. Súrdeigið sýrir allt deigið, alla ‚þrjá mæla mjölsins‘. (Lúk. 13:21) Boðunarstarfið veldur því að lærisveinum fjölgar og er eins og súrdeig að því leyti að það hefur vaxið og fagnaðarerindið er nú boðað „til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8; Matt. 24:14) Það er mikill heiður að eiga þátt í þessum mikla vexti.

Dæmisagan um netið

15, 16. (a) Endursegðu í stuttu máli dæmisöguna um netið. (b) Hvað táknar netið og á hvaða staðreynd bendir dæmisagan?

15 Það er ekki aðalatriðið hve margir segjast vera lærisveinar Jesú Krists heldur hvort þeir eru sannir lærisveinar eða ekki. Á þetta er bent í annarri dæmisögu Jesú, dæmisögunni um netið. Hann sagði: „Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.“ — Matt. 13:47.

16 Netið safnar alls kyns fiski og táknar boðun fagnaðarerindisins um ríkið. Jesús heldur áfram: „Þegar [netið] er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða þegar veröld endar [„á lokakafla heimskerfisins“, NW]: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ — Matt. 13:48-50.

17. Á hvaða tímabili á aðgreiningin í dæmisögunni um netið sér stað?

17 Er þessi aðgreining það sama og lokadómurinn yfir sauðunum og höfrunum sem Jesús sagði að myndi eiga sér stað þegar hann kæmi í dýrð sinni? (Matt. 25:31-33) Nei, sá lokadómur fer fram þegar Jesús kemur í þrengingunni miklu. Aðgreiningin, sem talað er um í dæmisögunni um netið, á sér hins vegar stað „á lokakafla heimskerfisins“. * Það er sá tími sem við lifum núna — tímabilið sem nær hámarki í þrengingunni miklu. Hvernig er þá verið að aðgreina fólk núna?

18, 19. (a) Hvaða aðgreiningarstarf er unnið nú á dögum? (b) Hvað verða hjartahreinir menn að gera? (Sjá einnig neðanmálsgrein á bls. 21.)

18 Milljónir táknrænna fiska úr mannhafinu hafa laðast að söfnuði Jehóva nú á dögum. Sumir koma á minningarhátíðina, aðrir sækja safnaðarsamkomur og sumir þiggja biblíunámskeið. En verða þeir allir sannkristnir? Þeir eru ef til vill ‚dregnir á land‘ en Jesús segir að aðeins „þeim góðu“ sé safnað í ker sem tákna söfnuði Votta Jehóva. Hinum „óætu“ er kastað burt og þeir lenda að lokum í táknrænum eldsofni en þar er átt við eyðingu í framtíðinni.

19 Margir líkjast óætu fiskunum. Sumir hafa um tíma kynnt sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva en svo hætt. Sumir eiga kristna foreldra en þá hefur aldrei langað til að feta í fótspor Jesú. Þeir hafa aldrei viljað taka þá ákvörðun að þjóna Jehóva eða hafa þjónað honum um tíma og svo hætt því. * (Esek. 33:32, 33) En það er bráðnauðsynlegt að allir hjartahreinir menn láti safna sér inn í söfnuðina fyrir dómsdag Jehóva og haldi sér á öruggum stað.

20, 21. (a) Hvað höfum við lært af því að fara yfir dæmisögur Jesú um Guðsríki og vaxandi starfsemi þess? (b) Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

20 Hvað höfum við þá lært af stuttri yfirferð okkar yfir dæmisögur Jesú um Guðsríki og vaxandi starfsemi þess? Í fyrsta lagi hefur þeim fjölgað gríðarlega sem hafa tekið við boðskapnum um ríkið og er það sambærilegt við vöxt mustarðskornsins. Ekkert getur stöðvað starf Jehóva og útbreiðslu þess. (Jes. 54:17) Auk þess fá þeir sem hafa „hreiðrað sig í skugga [trésins]“ vernd gegn Satan og illum heimi hans. Í öðru lagi er það Guð sem gefur vöxtinn. Þessi vöxtur er ekki alltaf sýnilegur eða skiljanlegur en hann á sér engu að síður stað eins og falda súrdeigið sem sýrði allt deigið. Í þriðja lagi hafa ekki allir sem sýna áhuga á fagnaðarerindinu reynst verðugir. Sumir hafa verið eins og óætu fiskarnir í dæmisögu Jesú.

21 En það er mjög hvetjandi að sjá hve marga verðuga einstaklinga Jehóva laðar til sín. (Jóh. 6:44) Þetta hefur skilað sér í gríðarlegri aukningu í hverju landi á fætur öðru. Jehóva á allan heiður skilið fyrir þennan vöxt. Við sem verðum vitni að þessu ættum að finna hjá okkur löngun til að hlýða hvatningunni sem skrifuð var endur fyrir löngu: „Sáðu sæði þínu að morgni . . . því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott.“ — Préd. 11:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Útskýringarnar í þessari námsgrein eru breyting á því sem áður var útskýrt í Varðturninum 1. nóvember 1992, bls. 23-27, og enskri útgáfu blaðsins 1. október 1975, bls. 589-608.

^ gr. 17 Þótt dæmisagan í Matteusi 13:39-43 fjalli um annan þátt boðunarstarfsins uppfyllist hún á sama tíma og dæmisagan um netið, það er að segja „á lokakafla heimskerfisins“. Aðgreining hinna táknrænu fiska heldur óslitið áfram á þessu tímabili á sama hátt og sáningin og uppskeran. — Varðturninn (á ensku) 15. október 2000, bls. 25-26; Tilbiðjum hinn eina sanna Guð, bls. 178-181, gr. 8-11.

^ gr. 19 Þýðir þetta að englarnir hafi kastað í burtu og dæmt óhæfa alla sem hafa hætt biblíunámi eða hætt að sækja samkomur? Nei, ef einhvern langar í einlægni að snúa aftur til Jehóva standa dyrnar opnar. — Mal. 3:7.

Hvert er svarið?

• Hvað lærum við af dæmisögunni um mustarðskornið um vöxt og viðgang boðunarstarfsins og vernd gegn Satan og illum heimi hans?

• Hvað táknar súrdeigið í dæmisögu Jesú og hvað má læra af henni um þá aukningu sem á sér stað?

• Á hvaða staðreynd er bent í dæmisögunni um netið?

• Hvernig getum við tryggt að við höldum okkur innan hópsins sem ‚safnað er í ker‘?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 18]

Hvað lærum við um vöxt og viðgang boðunarstarfsins af dæmisögunni um mustarðskornið?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hvað lærum við af dæmisögunni um súrdeigið?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hvað táknar aðgreining góðu fiskanna og þeirra óætu?