Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er Guð sem gefur vöxtinn

Það er Guð sem gefur vöxtinn

Það er Guð sem gefur vöxtinn

„Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn.“ — 1. KOR. 3:7.

1. Að hvaða leyti erum við „samverkamenn Guðs“?

„SAMVERKAMENN Guðs.“ Þannig lýsti Páll postuli einstöku verkefni sem við getum öll tekið þátt í. (Lestu 1. Korintubréf 3:5-9.) Hann var að tala um það starf að gera menn að lærisveinum og líkti því við að sá sæði og vökva það. Við þurfum á hjálp Jehóva að halda til að ná árangri í þessu mikilvæga starfi. Páll minnir okkur á að það sé Guð sem gefi vöxtinn.

2. Af hverju getur sú staðreynd að ‚Guð gefur vöxtinn‘ hjálpað okkur að sjá starf okkar í réttu ljósi?

2 Þessi staðreynd hjálpar okkur að vera auðmjúk og sjá starf okkar í réttu ljósi. Við getum unnið hörðum höndum að því að prédika og kenna en þegar allt kemur til alls er allur vöxtur, sem kann að verða, Jehóva að þakka. Af hverju? Af því að við getum aldrei skilið til fulls hvernig vöxturinn á sér stað og þaðan af síður stjórnað honum. Salómon konungur lýsti þessu vel þegar hann skrifaði: „[Þú] þekkir . . . ekki heldur verk Guðs sem allt gerir.“ — Préd. 11:5.

3. Hvað er líkt með boðunarstarfinu og því að sá bókstaflegu sæði?

3 En ætti það að trufla okkur að við skiljum ekki vaxtarferlið nema að takmörkuðu leyti? Nei, það gerir starf okkar öllu heldur spennandi og áhugavert. Salómon konungur sagði: „Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi því að þú veist ekki hvort muni heppnast þetta eða hitt eða hvort tveggja verði jafngott.“ (Préd. 11:6) Ef við sáum bókstaflegu sæði vitum við ekki hvort eitthvað muni vaxa af því og þá hvar. Það er svo margt sem við getum ekki stjórnað. Hið sama má segja um boðunarstarfið. Jesús benti á þetta í tveimur dæmisögum sem skráðar eru í 4. kafla Markúsarguðspjalls. Við skulum athuga hvað við getum lært af þessum dæmisögum.

Mismunandi jarðvegur

4, 5. Endursegðu í stuttu máli dæmisögu Jesú af sáðmanninum.

4 Í Markúsarguðspjalli 4:1-9 lýsir Jesús sáðmanni sem sáir eða dreifir sáðkorni sem fellur í mismunandi jarðveg: „Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur og það rann skjótt upp því það hafði ekki djúpa jörð. En er sól hækkaði visnaði það og sökum þess að það hafði ekki rótfestu skrælnaði það. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það og það bar ekki ávöxt. En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.“

5 Sáðmaður á biblíutímanum bar venjulega sáðkorn í íláti eða fellingu á klæðum sínum og tók síðan lúkufylli af því og dreifði með stórri sveiflu. Sáðmaðurinn í dæmisögunni sáir sæðinu því ekki vísvitandi í mismunandi jarðveg. Sáðkornið lendir hins vegar á ólíkum stöðum.

6. Hvernig útskýrði Jesús dæmisöguna um sáðmanninn?

6 Við þurfum ekki að geta okkur til um hvað dæmisagan merki. Útskýringu Jesú er að finna í Markúsarguðspjalli 4:14-20: „Sáðmaðurinn sáir orðinu. Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið sem í þá var sáð. Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði um leið og þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og þegar þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins bregðast þeir þegar. Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið svo það ber engan ávöxt. Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.“

7. Hvað táknar sæðið og hinn mismunandi jarðvegur?

7 Taktu eftir að Jesús segir ekki að notað sé mismunandi sáðkorn. Hann talar bara um eina tegund sáðkorns sem lendir í mismunandi jarðvegi og árangurinn er ólíkur eftir því. Fyrsti jarðvegurinn er harður eða troðinn, annar er grunnur, þriðji er alþakinn þyrnum en sá fjórði er góður og frjósamur og gefur vel af sér. (Lúk. 8:8) Hvað táknar sæðið? Það táknar fagnaðarerindið um ríkið sem er að finna í orði Guðs. (Matt. 13:19) Hvað táknar hinn mismunandi jarðvegur? Hann táknar fólk með ólíkt hjartalag. — Lestu Lúkas 8:12, 15.

8. (a) Hverja táknar sáðmaðurinn? (b) Af hverju er árangurinn af boðunarstarfinu breytilegur?

8 Hvern táknar sáðmaðurinn? Hann táknar samverkamenn Guðs sem boða fagnaðarerindið um ríkið. Þeir gróðursetja og vökva eins og Páll og Apollós. En þótt þeir leggi hart að sér er árangurinn breytilegur. Af hverju? Af því að þeir sem heyra boðskapinn hafa ólíkt hjartalag. Í dæmisögunni ræður sáðmaðurinn engu um árangurinn. Þetta er mjög hughreystandi, sérstaklega fyrir trúfasta bræður okkar og systur sem hafa starfað þrotlaust árum eða jafnvel áratugum saman án þess að sjá mikinn árangur. * Af hverju er þetta hughreystandi?

9. Á hvað bentu bæði Páll og Jesús?

9 Árangurinn af starfi sáðmannsins er ekki mælikvarði á trúfesti hans. Páll ýjaði að því þegar hann sagði: „Sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu.“ (1. Kor. 3:8) Launin fara eftir erfiðinu en ekki árangrinum. Jesús benti líka á þetta þegar lærisveinar hans komu heim úr boðunarferð. Þeir voru himinlifandi yfir því að illu andarnir skyldu hlýða þeim í nafni Jesú. En þótt þetta hljóti að hafa verið spennandi sagði Jesús: „Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“ (Lúk. 10:17-20) Jafnvel þótt sáðmaður sjái ekki mikinn árangur af starfi sínu er ekki þar með sagt að hann hafi ekki verið eins iðinn eða trúfastur og aðrir. Árangurinn ræðst að miklu leyti af hjartalagi áheyrandans. En þegar allt kemur til alls er það Guð sem gefur vöxtinn.

Ábyrgð þeirra sem heyra orðið

10. Hvað ræður því hvort sá sem heyrir orðið líkist góðri jörð eða ekki?

10 En hvað um þá sem heyra orðið? Eru viðbrögð þeirra fyrir fram ákveðin? Nei, það er undir þeim sjálfum komið hvort þeir líkjast góðri jörð eða ekki. Hjartalag manna getur breyst til hins betra eða verra. (Rómv. 6:17) Í dæmisögu sinni sagði Jesús að „um leið og [sumir] heyra“ orðið komi Satan og taki það burt. En þetta þarf ekki að gerast. Í Jakobsbréfinu 4:7 eru kristnir menn hvattir til að ‚standa gegn djöflinum‘ því að þá muni hann flýja þá. Jesús segir að aðrir taki í fyrstu fagnandi við orðinu en ‚bregðist‘ síðan vegna þess að þeir „hafa enga rótfestu“. Þjónar Guðs eru hins vegar hvattir til að vera ‚rótfestir og grundvallaðir‘ svo að þeir geti skilið hvílík sé „víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og [fengið] að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu“. — Ef. 3:17-19; Kól. 2:6, 7.

11. Hvernig getur sá sem heyrir orðið komið í veg fyrir að áhyggjur og auðæfi kæfi það?

11 Þegar Jesús talaði um aðra sem heyrðu orðið sagði hann að „áhyggjur heimsins [og] tál auðæfanna“ kæmu og kæfðu orðið. (1. Tím. 6:9, 10) Hvernig geta þeir komið í veg fyrir það? Páll postuli svarar: „Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ — Hebr. 13:5.

12. Af hverju bera þeir sem góða jörðin táknar mismikinn ávöxt?

12 Að lokum sagði Jesús að það sem sáð væri í góða jörð bæri „þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt“. Jafnvel þótt sumir sem taka við orðinu hafi gott hjartalag og beri ávöxt er mismunandi eftir aðstæðum þeirra hvað þeir geta lagt af mörkum við boðun fagnaðarerindisins. Hár aldur eða veikindi geta til dæmis takmarkað hve mikið þeir geta gert. (Samanber Markús 12:43, 44.) Enn og aftur ræður sáðmaðurinn sennilega litlu eða engu um þetta en hann gleðst þegar hann sér vöxtinn sem Jehóva gefur. — Lestu Sálm 126:5, 6.

Sáðmaðurinn sem sefur

13, 14. (a) Endursegðu stuttlega dæmisögu Jesú af manni sem sáir sáðkorni. (b) Hvern táknar sáðmaðurinn og hvað er sæðið?

13 Í Markúsarguðspjalli 4:26-29 er önnur dæmisaga um sáðmann: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“

14 Hvern táknar sáðmaðurinn? Sumir innan kristna heimsins trúa að hann tákni Jesú. En hvernig er hægt að segja að Jesús sofi og viti ekki hvernig sæðið vex? Jesús hlýtur að þekkja vaxtarferlið. Líkt og í dæmisögunni á undan táknar sáðmaðurinn boðbera fagnaðarerindisins sem einstaklinga en þeir sá sæði Guðsríkis með ötulu boðunarstarfi. Sáðkornið, sem þeir sá í jörð, er orðið sem þeir prédika. *

15, 16. Hvað kemur fram um bókstaflegan og andlegan vöxt í dæmisögunni um sáðmanninn?

15 Jesús segir að sáðmaðurinn ‚sofi og vaki, nætur og daga‘. Þetta er ekki vanræksla af hans hálfu heldur lýsir bara daglegu lífi flestra. Orðalagið, sem notað er í þessu versi, lýsir ákveðnu tímabili þar sem unnið er á daginn og sofið á nóttunni. Jesús útskýrir það sem gerist á þessum tíma. „Sæðið grær og vex,“ segir hann og bætir svo við: „Hann veit ekki með hverjum hætti.“ Jesús leggur áherslu á að vöxturinn eigi sér stað „sjálfkrafa“. *

16 Á hvað var Jesús að benda? Taktu eftir að hann leggur áherslu á vöxtinn og hvernig hann eigi sér stað. „Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.“ (Mark. 4:28) Þessi vöxtur á sér stað smám saman og í áföngum. Það er ekki hægt að þvinga hann fram eða flýta fyrir honum. Hið sama er að segja um þær framfarir sem fólk tekur í trúnni. Þær eiga sér stað í áföngum þegar Jehóva lætur sannleikann vaxa í hjörtum þeirra sem hafa rétt hugarfar. — Post. 13:48, NW; Hebr. 6:1.

17. Hverjir fagna þegar sæði sannleikans ber ávöxt?

17 Hvernig tekur sáðmaðurinn þátt í uppskerunni „þá er ávöxturinn er fullþroska“? Þegar Jehóva lætur sannleikann vaxa í hjörtum nýrra lærisveina kemur að því að lokum að kærleikur þeirra til Guðs fær þá til að vígja honum líf sitt. Þeir tákna vígslu sína með niðurdýfingarskírn. Bræður, sem halda áfram að þroskast í trúnni, geta smám saman axlað meiri ábyrgð í söfnuðinum. Sáðmaðurinn uppsker þannig ávöxt Guðsríkis ásamt öðrum boðberum sem tóku kannski ekki persónulega þátt í að sá sæðinu sem gaf af sér þennan ákveðna lærisvein. (Lestu Jóhannes 4:36-38.) Þannig getur „sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker“.

Lærdómur

18, 19. (a) Hvernig hefur þessi yfirferð yfir dæmisögur Jesú verið hvetjandi fyrir þig? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

18 Hvað höfum við lært af þessum tveimur dæmisögum sem skráðar eru í 4. kafla Markúsarguðspjalls? Við sjáum greinilega að við höfum verk að vinna — að sá. Við ættum aldrei að finna okkur átyllur til að víkja okkur undan þessu starfi eða láta hugsanleg vandamál og erfiðleika stöðva okkur. (Préd. 11:4) Við skulum vera meðvituð um þann mikla heiður sem það er að vera kölluð samverkamenn Guðs. Það er Jehóva sem gefur vöxtinn með því að blessa starf okkar og viðleitni þeirra sem heyra boðskapinn. Við gerum okkur grein fyrir því að við getum ekki neytt nokkurn mann til að gerast lærisveinn. Við þurfum ekki heldur að verða niðurdregin eða vonsvikin þótt vöxturinn sé lítill eða enginn. Það er hughreystandi að vita að Jehóva metur okkur eftir því hvort við erum trú honum og því sérstaka verkefni sem hann hefur falið okkur, að prédika „fagnaðarerindið um ríkið . . . til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. — Matt. 24:14.

19 Hvað fleira sagði Jesús um boðunarstarfið og framfarir nýrra lærisveina? Finna má svarið við þessari spurningu í öðrum dæmisögum í guðspjöllunum. Fjallað verður um sumar þeirra í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Sjá til dæmis frásöguna af bróður Georg Fjölni Líndal í bæklingnum Vottar Jehóva á Íslandi — saga þrautseigju og þolgæðis, bls. 8-9. Sjá einnig frásöguna af trúföstum vottum sem störfuðu árum saman á Írlandi en sáu lítinn árangur fyrst í stað, en hana er að finna í árbók Votta Jehóva 1988, bls 82-99.

^ gr. 14 Áður hefur verið útskýrt í þessu tímariti að sæðið tákni eiginleika sem þurfi að vaxa og þroskast og verði fyrir áhrifum af umhverfinu meðan á því stendur. En rétt er að taka eftir að í dæmisögu Jesú breytist sæðið ekki í slæmt sæði eða skemmdan ávöxt. Það þroskast bara. — Sjá Varðturninn, (á ensku) 15. júní 1980, bls. 17-19.

^ gr. 15 Þetta orð kemur aðeins tvisvar fyrir í Biblíunni, hér og í Postulasögunni 12:10 þar sem talað er um að járnhlið hafi opnast „af sjálfu sér“.

Manstu?

• Hvað er líkt með boðunarstarfinu og því að sá bókstaflegu sæði?

• Eftir hverju metur Jehóva trúfesti þeirra sem boða fagnaðarerindið?

• Hvað er líkt með bókstaflegum og andlegum vexti eins og Jesús benti á?

• Hvernig getur „sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker“?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Af hverju líkti Jesús boðbera fagnaðarerindisins við sáðmann?

[Myndir á blaðsíðu 15]

Góða jörðin táknar þá sem taka heilshugar þátt í boðunarstarfinu eftir því sem aðstæður þeirra leyfa.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Það er Guð sem gefur vöxtinn.