Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að sigrast á erfiðleikum í boðunarstarfinu hús úr húsi

Að sigrast á erfiðleikum í boðunarstarfinu hús úr húsi

Að sigrast á erfiðleikum í boðunarstarfinu hús úr húsi

„Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs þótt baráttan væri mikil.“ — 1. ÞESS. 2:2.

1. Við hvaða erfiðleika átti Jeremía að etja og hvernig gat hann sigrast á þeim?

JEREMÍA var maður eins og við. Þegar Jehóva sagði honum að hann hefði fengið það verkefni að vera „spámaður fyrir þjóðirnar“ hrópaði hann upp yfir sig: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ En hann treysti á Jehóva og tók verkefnið að sér. (Jer. 1:4-10) Í meira en 40 ár þurfti hann að þola áhugaleysi, höfnun, háðsglósur og jafnvel ofbeldi. (Jer. 20:1, 2) Stundum var hann kominn á fremsta hlunn með að gefast upp. En hann gerði það ekki heldur hélt áfram að boða óvinsælan boðskap fyrir þjóð sem sýndi upp til hópa lítinn sem engan áhuga. Með krafti Guðs tókst honum það sem hann hefði aldrei getað af eigin rammleik. — Lestu Jeremía 20:7-9.

2, 3. Hvernig eru þjónar Guðs nú á dögum í svipaðri stöðu og Jeremía?

2 Margir þjónar Guðs nú á tímum skilja mætavel hvernig Jeremía var innanbrjósts. Þegar boðunarstarf hús úr húsi bar á góma hugsuðu mörg okkar í fyrstu: ‚Þetta gæti ég aldrei gert.‘ En þegar við áttuðum okkur á því að það væri vilji Jehóva að við boðuðum fagnaðarerindið sigruðumst við á óttanum og tókum að prédika af kappi. Mörgum hefur samt einhvern tíma á ævinni þótt erfitt, að minnsta kosti um tíma, að halda áfram að boða trúna. Því er ekki að neita að það er töluverð áskorun að byrja að prédika hús úr húsi og halda því áfram allt til enda. — Matt. 24:13.

3 Hefurðu verið að kynna þér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og sótt samkomur um tíma en hikar við að byrja að prédika hús úr húsi? Eða ertu skírður vottur en finnst erfitt að fara hús úr húsi þó að þú hafir heilsu til? Hafðu þá hugfast að fólk af alls konar uppruna hefur sigrast á þeim erfiðleikum sem það mætir í boðunarstarfinu hús úr húsi. Þú getur það líka með hjálp Jehóva.

Að taka í sig kjark

4. Hvað gerði Páli postula kleift að flytja fagnaðarerindið af djörfung?

4 Þú gerir þér eflaust grein fyrir því að það er ekki mannlegum mætti eða visku að þakka heldur anda Guðs að fagnaðarerindið er prédikað um allan heim. (Sak. 4:6) Hið sama er að segja um boðunarstarf okkar sem einstaklinga. (2. Kor. 4:7) Tökum Pál postula sem dæmi. Einu sinni rifjaði hann upp hvernig andstæðingar misþyrmdu honum og trúboðsfélaga hans og skrifaði: „Ég hafði áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí en Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2; Post. 16:22-24) Það er kannski erfitt að ímynda sér að kappsömum trúboða eins og Páli hafi stundum þótt erfitt að prédika. En hann þurfti, líkt og við öll, að læra að treysta á Jehóva til að tala orð hans af djörfung. (Lestu Efesusbréfið 6:18-20.) Hvernig getum við farið að dæmi Páls?

5. Nefndu eina leið til að taka í sig kjark til að prédika.

5 Bænin er ein leið til að taka í sig kjark til að prédika. Brautryðjandi sagði: „Ég bið þess að ég geti talað af sannfæringu, bið þess að ég geti náð til hjartna fólks og bið þess að ég geti haft ánægju af boðunarstarfinu. Þegar allt kemur til alls er þetta verk Jehóva en ekki okkar eigið þannig að við getum ekkert gert án hjálpar hans.“ (1. Þess. 5:17) Við þurfum öll að biðja án afláts um hjálp heilags anda Guðs til að geta boðað trúna af djörfung. — Lúk. 11:9-13.

6, 7. (a) Hvaða sýn sá Esekíel og hvað merkti hún? (b) Hvað geta þjónar Guðs nú á tímum lært af sýn Esekíels?

6 Í Esekíelsbók kemur fram annað sem getur hjálpað okkur að tala af djörfung. Esekíel sá sýn þar sem Jehóva afhenti honum bókrollu sem á voru rituð „harmakvein, andvörp og kveinstafir“ bæði á framhlið og bakhlið. Spámanninum var sagt að borða bókina: „Mannssonur, et bók þessa og láttu hana fylla magann.“ Hvað merkti þessi sýn? Esekíel átti að drekka í sig boðskapinn sem honum var sagt að flytja. Hann átti að tileinka sér hann svo að hann snerti innstu tilfinningar hans. Spámaðurinn segir: „Þá át ég hana og hún var sæt sem hunang í munni mér.“ Hann hafði yndi af því að boða boðskap Guðs meðal almennings — rétt eins og hann væri að gæða sér á hunangi. Honum fannst það mikill heiður að vera fulltrúi Jehóva og vinna það verk sem honum var falið, jafnvel þó að það þýddi að hann yrði að flytja áhugalausu fólki alvarlegan boðskap. — Lestu Esekíel 2:8–3:4, 7-9.

7 Þjónar Guðs nú á dögum geta dregið verðmætan lærdóm af þessari sýn. Við höfum líka alvarlegan boðskap að flytja fólki sem kann ekki alltaf að meta starf okkar. Til að halda áfram að líta á það sem heiður að mega boða fagnaðarerindið þurfum við að næra okkur vel andlega. Við tileinkum okkur ekki orð Guðs ef sjálfsnám okkar er yfirborðslegt eða tilviljun háð. Geturðu haft betri reglu á biblíulestri þínum og -námi og lagt þig betur fram við það? Geturðu gefið þér oftar tíma til að hugleiða það sem þú lest? — Sálm. 1:2, 3.

Að hefja samræður um Biblíuna

8. Hvaða aðferð hefur hjálpað sumum boðberum að hefja samræður um Biblíuna í starfinu hús úr húsi?

8 Mörgum boðberum finnst erfiðasti þáttur boðunastarfsins hús úr húsi vera sá að skiptast á fyrstu orðunum við húsráðanda. Það er vissulega áskorun sums staðar að koma af stað samræðum. Sumum boðberum finnst best að byrja á því að segja nokkur vel valin orð og afhenda síðan húsráðandanum smárit, svipað og lýst er í rammanum hér að neðan. Forsíðutitill smáritsins eða litríkar myndir geta hugsanlega gripið athygli viðmælandans og gefið okkur tækifæri til að nefna stuttlega til hvers við séum komin og varpa síðan fram spurningu. Önnur leið væri að sýna húsráðanda þrjú eða fjögur smárit og bjóða honum að velja það sem vekur helst áhuga hans. En markmið okkar er ekki bara það að skilja eftir smárit eða nota þau við hverjar dyr heldur að hefja samræður um Biblíuna sem leiða síðan til biblíunámskeiðs.

9. Af hverju er mikilvægt að undirbúa sig vel?

9 Hvaða aðferð sem þú notar er nauðsynlegt að undirbúa sig vel til að vera öruggur í fasi og tala af eldmóði þegar þú boðar trúna hús úr húsi. Brautryðjandi segir: „Ég hef meiri ánægju af starfinu ef ég er vel undirbúinn. Þá langar mig til að fara með kynningarorðin sem ég hef undirbúið.“ Annar brautryðjandi segir: „Þegar ég kynni mér vel ritin sem ég ætla að bjóða verð ég áfjáður í að nota þau.“ Það getur verið ágætt að fara yfir það í hljóði sem þú ætlar að segja en mörgum finnst enn betra að æfa kynninguna upphátt. Það hjálpar þeim að gefa Jehóva sitt besta. — Kól. 3:23; 2. Tím. 2:15.

10. Hvernig er hægt að gera samansafnanir fyrir boðunarstarfið sem gagnlegastar?

10 Vel undirbúnar samansafnanir fyrir boðunarstarfið stuðla að því að við höfum ánægju af starfinu hús úr húsi og okkur gangi vel. Ef dagstextinn fjallar beinlínis um boðunarstarfið má lesa hann og ræða stuttlega. En bróðirinn, sem stjórnar samansöfnuninni, ætti að taka nægan tíma til að ræða um eða sýna einfalda kynningu sem á vel við á svæðinu, eða fara yfir aðrar gagnlegar upplýsingar sem hægt er að nota í starfinu þann daginn. Þá verða viðstaddir vel í stakk búnir til að boða trúna á áhrifaríkan hátt. Með því að undirbúa sig vel geta öldungar og aðrir, sem sjá um samansafnanir, áorkað þessu innan settra tímamarka. — Rómv. 12:8.

Við getum árokað miklu með því að hlusta

11, 12. Hvernig getum við opnað leið fyrir fagnaðarerindið með því að hlusta á fólk? Nefndu dæmi.

11 Ef við viljum koma af stað samræðum um Biblíuna og ná til fólks í boðunarstarfinu er ekki nóg að undirbúa sig vel. Við þurfum líka að sýna fólki persónulegan áhuga. Við sýnum slíkan áhuga meðal annars með því að hlusta á fólk. Farandumsjónarmaður segir: „Ef við erum þolinmóð og erum fús til að hlusta á fólk löðum við það að fagnaðarerindinu og sýnum því einlægan áhuga.“ Ef við erum umhyggjusöm og hlustum af áhuga getum við hugsanlega opnað hjarta húsráðandans eins og sjá má af eftirfarandi dæmi.

12 Í lesandabréfi, sem birtist í dagblaðinu Le Progrès í Saint-Étienne í Frakklandi, sagði kona frá heimsókn sem hún fékk skömmu eftir að hún missti þriggja mánaða dóttur sína. „Ég sá strax að þetta voru vottar Jehóva,“ skrifaði hún. „Ég ætlaði að vísa þeim kurteislega frá en rak þá augun í bækling sem þeir voru að bjóða. Hann fjallaði um hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Ég ákvað því að bjóða þeim inn og ætlaði mér að hrekja röksemdir þeirra . . . Vottarnir sátu hjá mér í rúman klukkutíma. Þeir hlustuðu á mig með mikilli samúð og þegar þeir fóru leið mér miklu betur og ég féllst á að þeir kæmu aftur.“ (Rómv. 12:15) Konan þáði seinna biblíunámskeið. Það er athyglisvert að það sem stóð upp úr eftir fyrstu heimsóknina var ekki það sem vottarnir sögðu heldur hvernig þeir hlustuðu.

13. Hvernig getum við lagað kynningu okkar á fagnaðarerindinu að fólkinu sem við hittum?

13 Þegar við hlustum með umhyggju og samúð erum við í rauninni að gefa fólki tækifæri til að segja okkur hvers vegna það þarfnist Guðsríkis. Þá erum við í miklu betri aðstöðu til að segja því frá fagnaðarerindinu. Þú hefur sennilega veitt því athygli að færir boðberar eru yfirleitt duglegir að hlusta á aðra. (Orðskv. 20:5) Þeir sýna ósvikinn áhuga á þeim sem þeir hitta í boðunarstarfinu. Þeir punkta ekki bara hjá sér nöfn og heimilisföng heldur einnig áhugamál fólks og þarfir. Þegar einhver sýnir sérstakan áhuga á ákveðnu málefni rannsaka þeir málið og koma svo fljótlega aftur til að segja frá því sem þeir fundu um efnið. Þeir líkja eftir Páli postula með því að laga kynningu sína á fagnaðarerindinu að fólkinu sem þeir hitta. (Lestu 1. Korintubréf 9:19-23.) Einlægur áhugi laðar fólk að fagnaðarerindinu og endurspeglar með fögrum hætti „hjartans miskunn Guðs“. — Lúk. 1:78.

Vertu jákvæður

14. Hvernig getum við endurspeglað eiginleika Jehóva í boðunarstarfinu?

14 Jehóva hefur sýnt okkur þá virðingu að gefa okkur frjálsan vilja. Þó að hann sé alvaldur Guð neyðir hann engan til að þjóna sér. Hann höfðar til fólks á grundvelli kærleikans og blessar þá sem taka þakklátir við því sem hann lætur í té. (Rómv. 2:4) Við sem erum þjónar hans ættum að vera reiðubúin að flytja fagnaðarerindið á þann hátt sem sómir miskunnsömum Guði okkar í hvert sinn sem við förum í boðunarstarfið. (2. Kor. 5:20, 21; 6:3-6) Til að gera það þurfum við að vera jákvæð gagnvart fólkinu á starfssvæði okkar. Hvað getur hjálpað okkur til þess?

15. (a) Hvað áttu postular Jesú að gera ef fólk hafnaði boðskapnum? (b) Hvað getur hjálpað okkur að einbeita okkur að því að finna verðuga einstaklinga?

15 Jesús sagði fylgjendum sínum að gera sér ekki óþarfa áhyggjur þó að sumir höfnuðu boðskapnum heldur einbeita sér að því að finna hina verðugu. (Lestu Matteus 10:11-15.) Raunhæf markmið eru góð hjálp. Bróðir nokkur líkir sjálfum sér við gullgrafara. Kjörorð hans er þetta: „Ég hlakka til að finna gull í dag.“ Annar bróðir hefur það markmið að „hitta eina áhugasama manneskju í hverri viku og heimsækja hana aftur eftir nokkra daga til að glæða áhugann“. Sumir boðberar hafa það markmið að lesa að minnsta kosti einn ritningarstað fyrir hvern húsráðanda ef þess er kostur. Hvaða raunhæf markmið gætir þú sett þér?

16. Hvaða ástæður höfum við til að halda áfram að prédika?

16 Árangurinn af boðuninni hús úr húsi ræðst ekki eingöngu af viðbrögðum fólks á svæðinu. Boðunin er vissulega mikilvægur þáttur í hjálpræði hjartahreins fólks en hún þjónar líka öðrum mikilvægum tilgangi. Hún gefur okkur tækifæri til að sýna að við elskum Jehóva. (1. Jóh. 5:3) Hún gerir okkur kleift að umflýja blóðskuld. (Post. 20:26, 27) Með boðuninni fá óguðlegir að vita að ‚stundin sé komin er Guð kveður upp dóm sinn‘. (Opinb. 14:6, 7) Síðast en ekki síst er nafn Jehóva vegsamað út um alla jörðina þegar fagnaðarerindið er prédikað. (Sálm. 113:3) Við þurfum þess vegna að halda áfram að bera út boðskapinn um ríki Guðs, hvort sem fólk hlustar eða ekki. Allt sem við gerum til að boða fagnaðarerindið er fagurt í augum Jehóva. — Rómv. 10:13-15.

17. Hvað neyðist fólk bráðlega til að viðurkenna?

17 Enda þótt margir gefi engan gaum að boðun okkar eiga þeir bráðlega eftir að sjá hana í öðru ljósi. (Matt. 24:37-39) Jehóva fullvissaði Esekíel um að þegar dómarnir, sem hann boðaði, rættust myndu hinir uppreisnargjörnu Ísraelsmenn „játa að spámaður [hefði] verið á meðal þeirra“. (Esek. 2:5) Þegar Jehóva fullnægir dómum sína yfir núverandi heimskerfi neyðast menn sömuleiðis til að viðurkenna að boðskapurinn, sem vottar Jehóva boðuðu opinberlega og hús úr húsi, var í rauninni frá hinum eina sanna Guði kominn, og að vottarnir voru fulltrúar hans. Hvílíkur heiður að mega bera nafn hans og boða boðskap hans á þessum örlagaríku tímum. Höldum áfram, með hjálp hans, að boða fagnaðarerindið hús úr húsi þótt ýmsir erfiðleikar séu í veginum.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við tekið í okkur kjark til að prédika?

• Hvað getur hjálpað okkur að koma af stað samræðum um Biblíuna í starfinu hús úr húsi?

• Hvernig getum við sýnt fólki einlægan áhuga?

• Hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð gagnvart fólki á starfssvæðinu?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 9]

Leið til að hefja samræður um Biblíuna

Fyrstu orðin:

◼ Eftir að hafa heilsað húsráðanda gætirðu afhent honum smárit og sagt: „Ég kom hingað í dag til vekja athygli þína á þessu mikilvæga máli.“

◼ Önnur leið gæti verið að bjóða smárit og segja: „Ég bankaði upp á hjá þér af því að mig langar til að heyra hvað þér finnst um þetta mál.“

Ef húsráðandi þiggur smárit:

◼ Gerðu örstutt málhlé og spyrðu síðan húsráðanda hvaða skoðun hann hafi á málinu. Hafðu spurninguna einfalda og miðaðu hana við heiti smáritsins.

◼ Hlustaðu vel og reyndu að skilja sjónarmið húsráðanda. Þakkaðu honum fyrir að segja álit sitt og taktu mið af skoðunum hans í samtalinu.

Til að halda samtalinu áfram:

◼ Lestu og skýrðu einn eða fleiri ritningarstaði og lagaðu kynninguna að sjónarmiðum viðmælandans.

◼ Ef viðmælandinn sýnir áhuga skaltu bjóða rit og sýna biblíunámsaðferðina ef hægt er. Mæltu þér mót við hann aftur.