Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við óttuðumst ekki — Jehóva var með okkur

Við óttuðumst ekki — Jehóva var með okkur

Við óttuðumst ekki — Jehóva var með okkur

Egyptia Petridou segir frá

Árið 1972 söfnuðust allir vottar á Kýpur saman til að hlusta á Nathan H. Knorr flytja sérstaka ræðu. Hann hafði um langt árabil tekið forystuna í boðunarstarfi Votta Jehóva. Hann þekkti mig þegar í stað og áður en ég náði að kynna mig spurði hann: „Ertu með einhverjar fréttir frá Egyptalandi?“ Ég hafði hitt bróðir Knorr 20 árum áður í heimabæ mínum, Alexandríu í Egyptalandi.

ÉG FÆDDIST í Alexandríu 23. janúar árið 1914 og var elst fjögurra systkina. Við ólumst upp rétt við sjávarsíðuna. Í þá daga var Alexandría falleg heimsborg og þekkt fyrir byggingarlist sína og sögu. Þar sem Arabar og evrópskir íbúar umgengust hver annan lærðum við systkinin að tala arabísku, ensku, frönsku og ítölsku auk þess að læra grísku, móðurmál foreldra minna.

Eftir að ég útskrifaðist úr skóla fékk ég vinnu í frönsku tískuhúsi þar sem ég lagði metnað minn í að hanna og sauma glæsilega kvöldkjóla fyrir hefðarfrúr. Ég var líka mjög trúuð og hafði unun af því að lesa Biblíuna þótt ég skildi ekki mikið af því sem ég las.

Á þessum tíma — um miðjan fjórða áratug síðustu aldar — kynntist ég ungum manni frá Kýpur. Theodotos Petrides var mikill glímukappi en hann hafði líka lært konfektgerð og vann í þekktu kökuhúsi. Theodotos varð ástfanginn af mér, smávaxinni ungri konu með brúna lokka. Hann stóð oft fyrir neðan gluggann minn og söng grísk ástarljóð. Við giftum okkur 30. júní 1940. Þetta voru góðir dagar. Við bjuggum í íbúð fyrir neðan móður mína og árið 1941 eignuðumst við John, okkar fyrsta barn.

Við kynnumst sannleika Biblíunnar

Theodotos hafði um nokkurt skeið verið með efasemdir um trú sína og hafði ýmsar spurningar um Biblíuna. Án minnar vitundar hafði hann byrjað að fræðast um Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Dag einn, þegar ég var heima með barnið okkar, var bankað á dyrnar og kona rétti mér spjald með boðskap frá Biblíunni. Ég las það fyrir kurteisissakir. Síðan bauð hún mér lesefni. Og viti menn, þetta voru sömu bækurnar og Theodotos hafði komið með heim.

„Já, ég á þessar bækur,“ sagði ég. „Gjörðu svo vel að koma inn.“ Ég lét spurningarnar dynja á konunni sem hét Eleni Nicolaou. Hún svaraði þeim þolinmóðlega út frá Biblíunni. Það líkaði mér. Ég fór allt í einu að skilja boðskap Biblíunnar. Þegar stutt hlé varð á samtali okkar kom Eleni auga á ljósmynd af Theodotosi. „Ég þekki þennan mann!“ hrópaði hún upp yfir sig. Nú komst upp um Theodotos. Ég var furðu lostin. Theo hafði verið að sækja kristnar samkomur án mín — og án þess að segja mér frá því. Þegar hann kom heim þennan dag sagði ég við hann: „Í þessari viku ætla ég að fá að koma með þér á staðinn sem þú fórst síðasta sunnudag.“

Á fyrstu samkomunni, sem ég fór á, voru um það bil tíu manns að ræða saman um spádómsbók Míka. Ég drakk allt í mig sem sagt var. Eftir þetta komu George og Katerini Petraki í heimsókn á hverju föstudagskvöldi til að fræða okkur um Biblíuna. Faðir minn og báðir bræður mínir voru á móti því að við hefðum samband við vottana. Systir mín var hins vegar umburðarlynd þótt hún gerðist aldrei vottur. Móðir mín tók við sannleika Biblíunnar. Árið 1942 skírðumst við Theodotos ásamt henni í sjónum við Alexandríu til tákns um vígslu okkar við Jehóva.

Líf okkar tekur breytingum

Síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 og stigmagnaðist fljótt. Snemma á fimmta áratugnum var þýski herforinginn Erwin Rommel kominn til nágrannabæjarins El Alamein ásamt skriðdrekasveit sinni og Alexandría fylltist af breskum hermönnum. Við birgðum okkur upp af þurrkuðum mat. Theodotos var síðan beðinn um að sjá um nýja konfektgerð vinnuveitanda síns í Port Taufiq nálægt Súes þannig að við fluttum þangað. Tveir grískumælandi vottar reyndu að finna okkur. Þeir höfðu ekki heimilisfangið okkar en héldu áfram að prédika hús úr húsi þangað til þeir fundu okkur.

Þegar við bjuggum í Port Taufiq lásum við Biblíuna með Stavros og Giula Kypraios og börnum þeirra, Totos og Georgiu. Þau urðu góðir vinir okkar. Stavros hafði svo gaman af námi sínu í Biblíunni að hann átti það til að færa allar klukkur í húsinu aftur um eina klukkustund til að við myndum missa af síðustu lestinni heim og þyrftum að vera lengur hjá þeim. Við ræddum oft saman langt fram á nótt.

Við bjuggum í Port Taufiq í 18 mánuði en fluttum síðan aftur til Alexandríu þegar móðir mín varð veik. Hún lést trúföst árið 1947. Enn á ný fundum við hvernig Jehóva hughreysti okkur með uppörvandi félagsskap þroskaðra trúsystkina. Við fengum líka tækifæri til að sýna trúboðum gestrisni þegar skip þeirra höfðu viðdvöl í Alexandríu á leið þeirra til nýrra starfssvæða.

Gleði og erfiðleikar

Árið 1952 fæddist James, annar sonur okkar. Við hjónin gerðum okkur grein fyrir að það væri mikilvægt að ala syni okkar upp í umhverfi þar sem andleg gildi væru höfð í hávegum. Við buðumst því til að hafa samkomur á heimili okkar og hýstum oft boðbera í fullu starfi. Þetta fékk John, eldri son okkar, til að elska sannleika Biblíunnar og hann gerðist brautryðjandi meðan hann var enn á unglingsaldri. Samhliða því sótti hann kvöldskóla til að ljúka við menntun sína.

Stuttu seinna greindist Theodotos með alvarlegan hjartasjúkdóm og var ráðlagt að hætta að vinna þá vinnu sem hann stundaði. Yngri sonur okkar var þá aðeins fjögurra ára gamall. Hvað áttum við að gera? Hafði Jehóva ekki lofað: „Óttast eigi því að ég er með þér“? (Jes. 41:10) Það var okkur óvænt ánægja að vera boðið árið 1956 að þjóna sem brautryðjendur í borginni Ismailia sem er nálægt Súesskurðinum. Á næstu árum ríkti mikil ólga í Egyptalandi og trúsystkini okkar þörfnuðust uppörvunar og hvatningar.

Árið 1960 þurftum við að fara frá Egyptalandi með einungis eina ferðatösku hvert. Við fluttum til Kýpur sem var heimaland Theodotosar. Þegar hér var komið sögu var hann orðinn mjög veikur og gat ekki lengur unnið. En þá komu hjón í söfnuðinum okkur til hjálpar og útveguðu okkur húsnæði sem var í þeirra eigu. Tveimur árum seinna lést Theodotos og ég þurfti ein að sjá um James sem var enn ungur að aldri. John, eldri sonur okkar, hafði líka flutt til Kýpur en var nú giftur maður og hafði fyrir eigin fjölskyldu að sjá.

Hjálp á erfiðum tímum

Stavros og Dora Kairis réttu okkur þá hjálparhönd og buðu okkur að búa hjá sér. Ég kraup á kné og þakkaði Jehóva fyrir að annast okkur enn og aftur. (Sálm. 145:16) Þegar Stavros og Dora ákváðu að selja húsið sitt og byggja annað með ríkissal á fyrstu hæðinni voru þau svo elskuleg að byggja litla tveggja herbergja viðbyggingu þar sem við James gátum búið.

Síðan kom að því að James gekk í hjónaband. Hann og kona hans voru brautryðjendur þangað til þau eignuðust fyrsta barn sitt af fjórum. Árið 1974, tveim árum eftir eftirminnilega heimsókn bróður Knorrs, varð mikið pólitískt umrót á Kýpur. * Margir flúðu land, þar á meðal vottar, og settust að annars staðar. John, sonur minn, var einn af þeim. Hann flutti til Kanada ásamt konu sinni og þrem börnum. Þrátt fyrir þetta fjölgaði boðberum á Kýpur.

Þegar ég byrjaði að fá ellilífeyri gat ég tekið meiri þátt í boðunarstarfinu. En fyrir nokkrum árum fékk ég vægt heilablóðfall og flutti þá til James og fjölskyldu hans. Þegar heilsan versnaði enn frekar þurfti ég að dvelja á sjúkrahúsi í nokkrar vikur og að lokum var ég flutt á hjúkrunarheimili. Þótt ég finni stöðugt fyrir verkjum reyni ég að vitna fyrir starfsfólkinu á hjúkrunarheimilinu, öðrum sjúklingum og gestum. Ég nota líka mikinn tíma í sjálfsnám og með hjálp trúsystkina get ég sótt safnaðarbóknámið sem er í nágrenninu.

Huggun á efri árum

Það hlýjar mér um hjartaræturnar þegar ég fæ fréttir af þeim sem við Theodotos kenndum sannleika Biblíunnar. Börn og barnabörn margra þeirra þjóna nú í fullu starfi, meðal annars í Ástralíu, Kanada, Englandi, Grikklandi og Sviss. John býr enn í Kanada ásamt konu sinni og syni. Eldri dóttir þeirra og maðurinn hennar eru brautryðjendur. Yngsta dóttir þeirra og maðurinn hennar, Linda og Joshua Snape, voru í 124. bekk Gíleaðskólans.

James og konan hans búa nú í Þýskalandi. Tveir sona þeirra þjóna á Betel — annar í Aþenu í Grikklandi og hinn í Selters í Þýskalandi. Yngsti sonur þeirra, dóttir og maðurinn hennar eru brautryðjendur í Þýskalandi.

Það er sannarlega margt sem við getum sagt móður minni og Theodotosi frá þegar þau fá upprisu í nýja heiminum. Það mun gleðja þau mikið að sjá hversu dýrmæta arfleifð þau hafa gefið fjölskyldu sinni. *

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. október 1974, bls. 12-15.

^ gr. 26 Meðan verið var að búa þessa grein til prentunar lést systir Petridou, 93 ára að aldri.

[Rammi á blaðsíðu 24]

Enn á ný fundum við hvernig Jehóva hughreysti okkur með uppörvandi félagsskap þroskaðra trúsystkina.

[Kort á blaðsíðu 24]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

KÝPUR

NÍKÓSÍA

MIÐJARÐARHAF

EGYPTALAND

KAÍRÓ

El Alamein

Alexandría

Ismailia

Súes

Port Taufiq

Súesskurður

[Credit line]

Byggt á NASA/Visible Earth imagery.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Með Theodotosi árið 1938.

[Mynd á blaðsíðu 25]

James, sonur minn, og eiginkona hans.

[Mynd á blaðsíðu 25]

John, sonur minn, og eiginkona hans.