Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu trúr af heilu hjarta

Vertu trúr af heilu hjarta

Vertu trúr af heilu hjarta

„Lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — SÁLM. 86:11, Biblían 1981.

1, 2. (a) Hvað hjálpar okkur að vera Jehóva trú í prófraunum eða freistingum, samkvæmt Sálmi 86:2, 11? (b) Hvenær þurfum við að temja okkur sterka hollustu?

HVERNIG stendur á því að sumir vottar, sem hafa verið trúfastir árum saman í ofsóknum og fangavist, falla síðar fyrir efnishyggju? Ástæðunnar er að leita í hinu táknræna hjarta, hinum innri manni. Í 86. sálminum er tryggð og hollusta sett í samband við það að hafa heilt og óskipt hjarta. „Vernda líf mitt því að ég er þér trúr,“ bað sálmaskáldið Davíð. „Þú ert Guð minn, hjálpa þjóni þínum sem treystir þér.“ Síðar í sálminum biður hann: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — Sálm. 86:2, 11.

2 Ef við treystum ekki Jehóva af öllu hjarta er hætta á að önnur áhugamál og langanir veiki hollustu okkar við hann. Eigingjarnar langanir eru eins og jarðsprengjur faldar í veginum sem við göngum. Við getum fallið í gildrur Satans þó að við höfum verið Jehóva trú í ýmsum prófraunum. Það er því ákaflega mikilvægt að við temjum okkur sterka hollustu við Jehóva núna, áður en prófraunir eða freistingar verða á vegi okkar. „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 4:23) Við getum dregið dýrmætan lærdóm um þetta mál af spámanni frá Júda sem Jehóva sendi til Jeróbóams konungs í Ísrael.

‚Ég ætla að gefa þér gjöf‘

3. Hvernig brást Jeróbóam við dómsboðskapnum sem spámaður Guðs flutti?

3 Sjáðu aðstæðurnar fyrir þér. Guðsmaðurinn er nýbúinn að flytja Jeróbóam konungi harðan boðskap en Jeróbóam hafði komið á fót kálfadýrkun í tíuættkvíslaríkinu Ísrael. Konungur reiðist heiftarlega og skipar mönnum sínum að handtaka sendiboðann. En Jehóva stendur með þjóni sínum. Í reiði sinni hafði konungur rétt út höndina en nú visnar hún á augabragði. Altarið, sem notað var við falsguðadýrkunina, klofnar. Viðmót konungs breytist snarlega og hann sárbænir guðsmanninn: „Milda nú reiði Drottins, Guðs þíns, og bið fyrir mér svo að ég geti dregið að mér höndina.“ Spámaðurinn biður fyrir konungi og hönd hans læknast. — 1. Kon. 13:1-6.

4. (a) Af hverju reyndi boð konungs á hollustu spámannsins? (b) Hvernig svaraði spámaðurinn?

4 Þá segir Jeróbóam við guðsmanninn: „Komdu heim með mér og fáðu hressingu. Ég ætla líka að gefa þér gjöf.“ (1. Kon. 13:7) Hvað á spámaðurinn að gera? Á hann að þiggja boð konungs eftir að hafa boðað honum fordæmingu Guðs? (Sálm. 119:113) Eða á hann að afþakka boðið jafnvel þó að konungur virðist fullur iðrunar? Jeróbóam hefur vissulega efni á að hlaða dýrum gjöfum á vini sína. Hafi spámaður Guðs innst inni ágirnst efnislega hluti hefur boð konungs sennilega verið ákaflega freistandi fyrir hann. Jehóva hafði hins vegar sagt spámanninum: „Þú mátt hvorki eta né drekka og ekki máttu snúa aftur sömu leið og þú komst.“ Hann svarar því hiklaust: „Þó að þú gæfir mér helming eigna þinna færi ég ekki heim með þér. Ég mun hvorki neyta matar né drekka vatn á þessum stað.“ Hann yfirgefur síðan Betel og heldur heimleiðis aðra leið en hann kom. (1. Kon. 13:8-10) Hvað má læra um trúmennsku og hollustu af ákvörðun spámannsins? — Rómv. 15:4.

Verum nægjusöm

5. Af hverju stangast efnishyggja á við hollustu?

5 Fljótt á litið virðist efnishyggja ekki eiga neitt skylt við ótrúmennsku en sú er þó raunin. Treystum við loforði Jehóva þess efnis að sjá okkur fyrir nauðsynjum? (Matt. 6:33; Hebr. 13:5) Erum við sátt við að vera án sumra af „gæðum“ lífsins ef við höfum ekki ráð á þeim núna, í stað þess að reyna að eignast þau hvað sem það kostar? (Lestu Filippíbréfið 4:11-13.) Látum við freistast til að afþakka verkefni í þjónustu Jehóva til að geta eignast það sem okkur langar í? Er okkur mest í mun að þjóna Jehóva dyggilega? Svörin ráðast að miklu leyti af því hvort við þjónum Guði af heilu hjarta. „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur,“ skrifaði Páll postuli, „því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ — 1. Tím. 6:6-8.

6. Hvaða „gjafir“ gætu okkur boðist og hvernig getum við ákveðið hvort við eigum að þiggja þær?

6 Segjum til dæmis að vinnuveitandinn bjóði þér stöðuhækkun með hærri launum og meiri hlunnindum. Eða kannski uppgötvarðu að þú getir þénað meira ef þú færð þér vinnu í öðru landi eða landshluta. Í fyrstu virðist þetta ef til vill vera blessun frá Jehóva. En ættum við ekki að skoða hvatir okkar áður en við tökum ákvörðun? Við ættum alltaf að spyrja okkur hvaða áhrif ákvörðunin hafi á samband okkar við Jehóva.

7. Af hverju er mikilvægt að uppræta alla efnishyggju úr hjörtum okkar?

7 Kerfi Satans elur linnulaust á efnishyggju. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.) Markmið Satans er að spilla okkur. Þess vegna þurfum við að vera vel á verði og uppræta alla efnishyggju sem við verðum vör við í hjörtum okkar. (Opinb. 3:15-17) Jesús átti ekki í neinum erfiðleikum með að hafna boði Satans um öll ríki heims. (Matt. 4:8-10) Hann sagði: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúk. 12:15) Ef við erum Jehóva trú reiðum við okkur á hann en ekki sjálf okkur.

Gamall spámaður „sagði ósatt“

8. Hvernig reyndi á hollustu spámanns Guðs?

8 Spámanni Guðs hefði vegnað vel ef hann hefði haldið áfram heimleiðis. En hann var varla lagður af stað þegar önnur prófraun varð á vegi hans. „Í Betel bjó gamall spámaður,“ segir í Biblíunni. „Þegar synir hans komu heim sögðu þeir honum frá öllu“ sem gerst hafði fyrr um daginn. Eftir að hafa hlustað á frásögnina biður gamli maðurinn synina að leggja á asna handa sér svo að hann geti elt uppi spámann Guðs. Stundu síðar finnur hann spámanninn þar sem hann hvílist undir stóru tré. Gamli maðurinn segir við hann: „Komdu heim með mér og fáðu þér að eta.“ Þegar guðsmaðurinn afþakkar boðið svarar gamli maðurinn: „Ég er einnig spámaður eins og þú. Engill sagði við mig að boði Drottins: Far þú með hann aftur heim til þín, að hann megi matar neyta og vatn drekka.“ En frásaga Biblíunnar bætir við: „Hann sagði ósatt.“ — 1. Kon. 13:11-18.

9. Hvað segir í Biblíunni um þá sem fara með ósannindi og blekkingar og hverju spilla þeir?

9 Við vitum ekki hvað gamla spámanninum gekk til en það breytir ekki því að hann laug. Kannski hafði hann einhvern tíma verið trúfastur spámaður Jehóva. Núna fór hann hins vegar með ósannindi og blekkingar. Slíkt er harðlega fordæmt í Biblíunni. (Lestu Orðskviðina 3:32.) Þeir sem blekkja aðra spilla ekki aðeins sínu eigin sambandi við Jehóva heldur oft annarra líka.

„Guðsmaðurinn sneri við með“ gamla manninum

10. Hvernig brást spámaður Guðs við boði gamla mannsins og hvernig fór fyrir honum?

10 Spámaðurinn frá Júda hefði átt að geta séð í gegnum blekkingar gamla spámannsins. Hann hefði getað spurt sig: „Af hverju ætti Jehóva að senda engil til annars manns til að gefa mér ný fyrirmæli?“ Hann hefði getað beðið Jehóva að skýra fyrirmælin en frásaga Biblíunnar bendir ekki til þess að hann hafi gert það. Hann „sneri við með [gamla manninum] og át og drakk heima hjá honum“. Jehóva hafði ekki velþóknun á því. Þegar spámaðurinn frá Júda lagði loks af stað heim á ný varð ljón á vegi hans og drap hann. Það var sorglegur endir á spámannsferli hans. — 1. Kon. 13:19-25. *

11. Hvernig er Ahía góð fyrirmynd?

11 Ahía spámaður var hins vegar ráðvandur fram á gamals aldur en hann hafði verið sendur til að smyrja Jeróbóam til konungs. Ahía var orðinn gamall og blindur þegar Jeróbóam sendi eiginkonu sína til að spyrja hann hvernig veikum syni þeirra myndi reiða af. Ahía spáði djarfmannlega að sonur Jeróbóams myndi deyja. (1. Kon. 14:1-18) Ahía hlaut meðal annars þann heiður að eiga óbeinan þátt í ritun Biblíunnar því að Esra prestur notaði skrif hans sem heimild að ritum sínum. — 2. Kron. 9:29.

12-14. (a) Hvað má læra af sögunni um unga spámanninn? (b) Lýstu með dæmum nauðsyn þess að hugleiða vel biblíuleg ráð sem öldungarnir gefa og leggja þau fyrir Jehóva í bæn.

12 Ósagt er í Biblíunni af hverju ungi spámaðurinn leitaði ekki ráða hjá Jehóva áður en hann vék af leið og þáði mat og drykk á heimili gamla mannsins. Skyldi gamli maðurinn hafa sagt það sem hann langaði til að heyra? Hvaða lærdóm má draga af þessu? Við þurfum að vera algerlega sannfærð um að kröfur Jehóva séu réttar. Og við verðum að vera staðráðin í að fylgja þeim hvað sem það kostar.

13 Sumir heyra það sem þeir vilja heyra þegar einhver ræður þeim heilt. Segjum til dæmis að boðbera sé boðin vinna sem getur haft í för með sér að hann hafi minni tíma til að vera með fjölskyldunni og sinna þjónustunni við Jehóva. Hann ráðfærir sig við safnaðaröldung. Öldungurinn byrjar kannski á því að segja að það sé ekki hlutverk sitt að segja bróðurnum hvernig hann eigi að sjá fyrir fjölskyldunni. Síðan bendir hann bróðurnum ef til vill á að hann geti stofnað sambandi sínu við Jehóva í hættu ef hann þiggi vinnuna. Ætli bróðirinn muni bara eftir því fyrsta sem öldungurinn sagði eða skyldi hann hugsa alvarlega um það sem hann sagði í framhaldinu? Bróðirinn þarf auðvitað að ákveða hvað sé best fyrir samband sitt við Jehóva.

14 Hugsum okkur annað dæmi. Systir kemur að máli við öldung og spyr hann hvort hún eigi að slíta samvistum við eiginmann sinn sem er ekki í trúnni. Öldungurinn gerir henni eflaust grein fyrir því að það sé hennar að ákveða hvort hún slíti samvistum við hann. Síðan fer hann trúlega yfir leiðbeiningar Biblíunnar um málið. (1. Kor. 7:10-16) Ætli systirin hugleiði alvarlega það sem öldungurinn segir? Eða er hún nú þegar búin að ákveða með sjálfri sér að fara frá eiginmanninum? Þegar hún tekur ákvörðun er skynsamlegt af henni að hugleiða vel þau biblíulegu ráð sem hún fékk og leggja þau fyrir Jehóva í bæn.

Vertu hógvær

15. Hvað má læra af því hvernig spámaður Guðs fór að ráði sínu?

15 Hvað annað má læra af því hvernig spámaðurinn frá Júda fór að ráði sínu? Í Orðskviðunum 3:5 segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ Í þetta sinn treysti spámaðurinn frá Júda ekki á Jehóva eins og hann hafði gert áður heldur reiddi sig á eigin dómgreind. Það kostaði hann lífið og velþóknun Guðs. Þetta er áhrifamikið dæmi um mikilvægi þess að þjóna Jehóva með hógværð og hollustu.

16, 17. Hvað hjálpar okkur að vera Jehóva trú?

16 Við höfum tilhneigingu til að láta eigingjarnar langanir hjartans leiða okkur á ranga braut. „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert.“ (Jer. 17:9) Til að vera Jehóva trú þurfum við að leggja okkur fram um að afklæðast hinum gamla manni ásamt tilhneigingu hans til hroka og sjálfstrausts. Og við verðum að íklæðast hinum nýja manni „sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. — Lestu Efesusbréfið 4:22-24.

17 „Hjá hinum hógværu er viska,“ segir í Orðskviðunum 11:2. Við getum forðast dýrkeypt mistök ef við erum hógvær og reiðum okkur á Jehóva. Ef við erum niðurdregin getur það til dæmis ruglað dómgreind okkar. (Orðskv. 24:10) Við gætum til dæmis orðið lúin á einhverjum þætti þjónustunnar við Jehóva og fundist við hafa lagt nóg af mörkum. Við hugsum kannski sem svo að nú sé kominn tími til að aðrir axli byrðina. Eða kannski langar okkur til að lifa svolítið „eðlilegra“ lífi. Við verndum hins vegar hjartað með því að leggja okkur kappsamlega fram og vera „síauðug í verki Drottins“. — Lúk. 13:24; 1. Kor. 15:58.

18. Hvað getum við gert ef við vitum ekki hvernig við eigum að ráða fram úr ákveðnu máli?

18 Stundum getum við þurft að taka erfiðar ákvarðanir og rétta leiðin liggur ekki í augum uppi. Finnst okkur þá freistandi að ráða fram úr málinu upp á eigin spýtur? Þegar við lendum í þessari stöðu er skynsamlegt að biðja Jehóva hjálpar. „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega,“ segir í Jakobsbréfinu 1:5. Faðirinn á himnum gefur okkur heilagan anda sem við þurfum á að halda til að taka viturlegar ákvarðanir. — Lestu Lúkas 11:9, 13.

Vertu staðráðinn í að vera trúr

19, 20. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Þegar Salómon sneri baki við sannri tilbeiðslu tóku við ólgusöm ár sem reyndu alvarlega á hollustu þjóna Guðs. Margir viku frá trúnni með einum eða öðrum hætti á þeim tíma. Sumir reyndust þó trúir Jehóva.

20 Við stöndum daglega frammi fyrir valkostum og ákvörðunum sem reyna á hollustu okkar. Við getum líka reynst trúföst. Verum alltaf trú Jehóva með heilu hjarta og treystum að hann haldi áfram að blessa dygga þjóna sína. — 2. Sam. 22:26.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Biblían lætur ósagt hvort það var Jehóva sem lét gamla spámanninn deyja.

Hvert er svarið?

• Af hverju eigum við að uppræta efnishyggju úr hjörtum okkar?

• Hvað hjálpar okkur að vera Jehóva trú?

• Hvernig getur hógværð verið okkur hjálp til að vera Guði trú?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Áttu erfitt með að standast freistingar?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Ætlar þú að hugleiða biblíuleg ráð sem þú færð og leggja þau fyrir Jehóva í bæn?