Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Byggjum upp nákvæma þekkingu á Guði og vilja hans

Byggjum upp nákvæma þekkingu á Guði og vilja hans

Byggjum upp nákvæma þekkingu á Guði og vilja hans

ALLIR þjónar Jehóva vilja hafa velþóknun hans. Þess vegna höfum við mikinn áhuga á að styrkja trú okkar og þjóna honum af öllu hjarta. En Páll postuli benti á gryfju sem sumir Gyðingar féllu í á hans dögum. Hann sagði: „Þeir eru heitir í trú sinni á Guð en skortir réttan skilning.“ (Rómv. 10:2) Það er greinilegt að trú okkar og tilbeiðsla á ekki aðeins að byggjast á tilfinningum. Við þurfum að hafa nákvæma þekkingu á skaparanum og vilja hans.

Annars staðar í bréfum sínum tengdi Páll breytni, sem Guð hefur velþóknun á, við ítarlega þekkingaröflun. Hann sagði við fylgjendur Krists: „Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum . . . svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði.“ (Kól. 1:9, 10) Af hverju er svona nauðsynlegt að hafa þekkingu á Guði? Og af hverju ættum við að byggja upp slíka þekkingu jafnt og þétt?

Grundvöllur trúar

Grundvöllur trúar okkar er nákvæm þekking á Guði og vilja hans sem opinberaður er í Biblíunni. Án þessarar áreiðanlegu þekkingar væri trúin á Jehóva eins og spilaborg sem gæti hrunið við smá andvara. Páll hvetur okkur til að veita Guði heilaga þjónustu með því að tileinka okkur ‚nýtt hugarfar‘ og ‚læra að skilja hver vilji Guðs er‘. (Rómv. 12:1, 2) Reglulegt biblíunám hjálpar okkur til þess.

Ewa, brautryðjandasystir í Póllandi, segir: „Ef ég stundaði ekki reglulegt biblíunám myndi ég ekki vaxa að þekkingu á Jehóva. Ég myndi fljótlega hætta að hugsa eins og kristin manneskja og trú mín á Guð myndi veikjast — ég myndi stefna í andlegt gjaldþrot.“ Megi það aldrei henda okkur. Skoðum dæmi um mann sem byggði upp nákvæma þekkingu á Jehóva og hafði þar af leiðandi velþóknun hans.

„Hve mjög elska ég lögmál þitt“

Söngljóðið í Sálmi 119 lýsir tilfinningum sálmaritarans til laga Jehóva, boða hans, skipana, fyrirmæla og ákvæða. Hann skrifaði: „Ég leita unaðar í lögmáli þínu . . . Fyrirmæli þín eru unun mín.“ Hann skrifaði líka: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ — Sálm. 119:16, 24, 47, 48, 77, 97.

Þegar sálmaritarinn talar um að hafa unun af lögmálinu og íhuga það segir það okkur að hann hafi haft yndi og ánægju af því að hugleiða orð Guðs og rannsaka það. Þessi gleði var ekki eingöngu tilfinning sem kviknaði í hjarta sálmaritarans heldur hafði hann einlæga löngun til að „íhuga“ lögmálið og fá innsýn í orð Jehóva. Við sjáum af viðhorfi hans að hann vildi kynnast Guði og vilja hans eins nákvæmlega og kostur er.

Greinilegt er að ást sálmaritarans á orði Guðs átti sér rætur djúpt í hjarta hans. Við getum spurt okkur: Er mér eins innanbrjósts? Hef ég yndi af því að lesa í Biblíunni á hverjum degi og rannsaka það sem ég les? Er ég iðinn við biblíulestur og bið ég til Jehóva áður en ég les? Ef við getum svarað þessum spurningum játandi erum við líklega að ‚vaxa að þekkingu á Guði‘.

Ewa segir: „Ég reyni stöðugt að bæta sjálfsnám mitt. Frá því að bæklingurinn ‚See the Good Land‘ kom út hef ég notað hann í næstum hvert sinn sem ég sest niður við biblíunám. Ég reyni að vera duglegri að fletta upp í Insight on the Scriptures og öðrum heimildaritum.“

Lítum á annað dæmi. Wojciech og Małgorzata hafa mikla fjölskylduábyrgð. Hvernig tekst þeim að taka frá tíma fyrir biblíunám? „Við reynum eftir fremsta megni að gefa okkur tíma til að lesa orð Guðs sitt í hvoru lagi. Í fjölskyldunáminu eða daglegum umræðum okkar segjum við síðan hvert öðru frá því sem okkur fannst athyglisvert eða hvetjandi.“ Ítarlegt sjálfsnám veitir þeim mikla gleði og hjálpar þeim að vaxa „að þekkingu á Guði“.

Stundum biblíunám af „mesta áhuga“

Kristnir menn trúa því að það sé vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Þess vegna er svo mikilvægt að lesa Biblíuna og reyna að skilja það sem við lesum. (Matt. 15:10) Við þurfum að lesa og rannsaka með opnum huga. Berojumenn til forna gerðu það þegar Páll boðaði þeim fagnaðarerindið: „Þeir tóku við orðinu með mesta áhuga og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“ — Post. 17:11.

Sýnirðu sama áhuga og Berojumenn og forðastu allar óþarfar truflanir þegar þú lest og rannsakar Biblíuna? Kristnir menn geta reynt að líkja eftir Berojumönnum jafnvel þótt þeir hafi ekki haft ánægju af námi áður fyrr. Sumum hættir líka til að lesa og rannsaka minna þegar þeir eldast en svo þarf ekki að vera með kristna menn. Óháð aldri geta allir reynt að skapa sér kyrrlátt umhverfi til náms. Þegar þú lest geturðu leitað að upplýsingum sem þú getur miðlað til annarra. Þú gætir til dæmis vanið þig á að segja maka þínum eða vini innan safnaðarins frá því sem þú hefur lesið eða lært í sjálfsnámi þínu. Ef þú gerir það festir þú efnið í huga þér og hjarta og hefur auk þess jákvæð áhrif á aðra.

Esra var þjónn Guðs forðum daga. Þú getur fylgt fordæmi hans við sjálfsnám en sagt er að hann hafi „einbeitt sér að því að rannsaka lög Drottins“. (Esra. 7:10) Hvernig geturðu gert það? Þú getur skapað þér gott námsumhverfi. Síðan geturðu sest niður og beðið Jehóva um leiðsögn hans og visku. (Jak. 1:5) Spyrðu þig: Hvað býst ég við að læra núna? Þegar þú lest skaltu vera vakandi fyrir aðalatriðum. Þú gætir ákveðið að skrifa þau niður eða merkja við atriði sem þú vilt sérstaklega leggja á minnið. Hugleiddu hvernig þú getur notað efnið þegar þú boðar trúna, tekur ákvarðanir eða hvetur trúsystkini. Undir lok námsstundarinnar skaltu rifja stuttlega upp það sem þú hefur farið yfir. Það hjálpar þér að muna það sem þú hefur lært.

Ewa lýsir hvernig hún fer að: „Þegar ég les í Biblíunni nota ég millivísanir, efnisskrá Varðturnsfélagsins og geisladiskinn Watchtower Library. Svo skrifa ég hjá mér punkta sem ég ætla að nota í boðunarstarfinu.“

Sumir hafa í áraraðir haft ánægju af því að sökkva sér niður í ítarlegt sjálfsnám. (Orðskv. 2:1-5) Samt hafa þeir mörgum skyldum að gegna og eiga erfitt með að finna tíma til biblíunáms. Hvaða breytingar geturðu gert á stundaskrá þinni ef þetta á við um þig?

Að gefa sér tíma til náms

Þú ert örugglega sammála því að það er auðveldara að gefa sér tíma til að gera það sem maður hefur ánægju af. Mörgum hefur fundist auðveldara að sökkva sér niður í sjálfsnám ef þeir setja sér raunhæf markmið, eins og að lesa alla Biblíuna. Að vísu gæti virst erfitt að lesa langar ættarskrár, ítarlegar lýsingar á musterinu til forna eða flókna spádóma sem virðast ekki tengjast lífinu nú á dögum. Reyndu að stíga markviss skref í átt að markmiði þínu. Áður en þú lest efni úr Biblíunni sem virðist erfitt gætirðu til dæmis lesið þér til um sögulegan bakgrunn þess eða heimfærslu. Slíkar upplýsingar er að finna í bókinni „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial“ sem er fáanleg á næstum 50 tungumálum og í greinaröðinni „Orð Jehóva er lifandi“ sem birtist í Varðturninum frá 2004 til 2008.

Það er örvandi að nota ímyndunaraflið á meðan maður les. Það getur hjálpað manni að draga upp mynd í huganum af persónum og atburðum. Ef þú fylgir aðeins nokkrum af þessum tillögum verða námsstundirnar örugglega ánægjulegri og meira gefandi. Þá hefurðu líka meiri löngun til að gefa þér tíma til náms. Það verður auðveldara að halda þeim vana að lesa í Biblíunni á hverjum degi.

Ráðleggingarnar hér á undan geta hjálpað okkur hverju og einu. En hvað geta uppteknar fjölskyldur gert? Væri ekki ráð að fjölskyldan settist niður og ræddi um hve gagnlegt sé að stunda sameiginlegt biblíunám? Slíkar umræður gætu kveikt ýmsar góðar hugmyndir eins og að vakna nokkrum mínútum fyrr á hverjum degi, eða á vissum dögum, til að lesa í Biblíunni. Kannski kemur í ljós að fjölskyldan þarf að breyta stundarskrá sinni. Sumum fjölskyldum hefur til dæmis fundist gott að ræða um dagstextann eða lesa í Biblíunni eftir sameiginlega máltíð. Áður en nokkur byrjar að taka af borðinu eða fer að gera eitthvað annað notar fjölskyldan 10 til 15 mínútur til að ræða um Biblíuna eða lesa hluta af biblíulestri vikunnar. Í fyrstu virðist þetta kannski smá áskorun en fljótlega gæti þetta orðið eðlilegt fyrir fjölskylduna og mjög ánægjulegt.

Wojciech og Małgorzata útskýra hvað hefur hjálpað fjölskyldu þeirra: „Áður vorum við upptekin af ómerkilegum og hversdagslegum hugðarefnum. Við ákváðum að eyða minni tíma í að senda tölvupóst og sinna vissum áhugamálum og afþreyingu. Við tókum frá ákveðinn dag og tíma fyrir ítarlegt nám.“ Fjölskyldan sér sannarlega ekki eftir að hafa gert þessar breytingar og hið sama gæti átt við um þína fjölskyldu.

Það er gagnlegt að byggja upp þekkingu á Guði

Ítarlegt nám í orði Guðs getur borið „ávöxt með hvers kyns góðum verkum“. (Kól. 1:10) Þá verður framför þín öllum augljós. Þú færð yfirgripsmikinn skilning á sannindum Biblíunnar. Þú tekur yfirvegaðri ákvarðanir og verður betur í stakk búinn til að aðstoða aðra, laus við öfgarnar sem einkenna oft þá sem hafa ekki næga þekkingu á Guði. Umfram allt styrkir þú samband þitt við Jehóva. Þú kannt betur að meta eiginleika hans og það sýnir sig þegar þú segir öðrum frá honum. — 1. Tím. 4:15; Jak. 4:8.

Óháð aldri eða reynslu skaltu leggja þig allan fram um að hafa yndi af orði Guðs og stunda ítarlegt biblíunám af mesta áhuga. Þú getur verið öruggur um að Jehóva gleymir ekki verkum þínum. (Hebr. 6:10) Hann mun úthella yfir þig yfirgnæfanlegri blessun.

[Rammi á blaðsíðu 13]

ÞEGAR VIÐ ‚VÖXUM AÐ ÞEKKINGU‘ . . .

styrkjum við trú okkar á Guð og breytum í samræmi við vilja hans. — Kól. 1:9, 10.

verðum við hyggin og getum notað dómgreindina til að taka skynsamlegar ákvarðanir. — Sálm. 119:99.

höfum við meiri ánægju af því að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. — Matt. 28:19, 20.

[Myndir á blaðsíðu 14]

Þótt það geti verið erfitt er æskilegt að velja sér umhverfi sem hentar vel til biblíunáms.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Sumar fjölskyldur lesa í Biblíunni eftir matartíma.