Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í bréfi sínu til Hebrea talar Páll postuli um „handayfirlagningar“. Var hann að tala um útnefningu öldunga eða eitthvað annað? — Hebr. 6:2.

Þótt það sé engin ástæða til að hafa of stífa skoðun á þessu máli var Páll sennilega að tala um handayfirlagningar í því skyni að miðla gjöfum andans.

Biblían talar að vísu um að leggja hendur yfir menn til að útnefna þá til starfa í þjónustu Jehóva. Sagt er að Móse hafi „lagt hendur sínar yfir“ Jósúa þegar hann fól honum að vera arftaki sinn. (5. Mós. 34:9) Í kristna söfnuðinum voru sumir hæfir menn útnefndir með því að hendur voru lagðar yfir þá. (Post. 6:6; 1. Tím. 4:14) Og Páll varaði við því að leggja hendur yfir mann í fljótræði. — 1. Tím. 5:22, Biblían 1981.

Páll hvatti Hebrea hins vegar til að ‚snúa sér að fræðslunni fyrir lengra komna‘ og „sleppa byrjendafræðslunni“. Síðan taldi hann upp undirstöðuatriði eins og „að trúa á Guð og hverfa frá breytni sem leiðir til dauða, [kenninguna] um skírnir og handayfirlagningar“. (Hebr. 6:1, 2) Er hægt að segja að útnefning öldunga hafi verið byrjendafræðsla sem kristnir menn áttu að sleppa? Nei, það að vera safnaðaröldungur er markmið sem þroskaðir bræður ættu að vinna að og þeir sem sinna þessari þjónustu ættu að meta hana að verðleikum. — 1. Tím. 3:1.

En til voru annars konar handayfirlagningar. Á fyrstu öldinni hafnaði Jehóva Ísrael sem útvalinni þjóð sinni. Í staðinn valdi hann hinn andlega Ísrael, söfnuð andasmurðra kristinna manna. (Matt. 21:43; Post. 15:14; Gal. 6:16) Þessu til sönnunar veitti Jehóva þjónum sínum gjafir andans, eins og tungutal fyrir kraftaverk. (1. Kor. 12:4-11) Þegar Kornelíus og heimilisfólk hans tóku trú fengu þau heilagan anda sem birtist í því að þau fóru að „tala tungum“. — Post. 10:44-46.

Stundum var gjöfum andans miðlað með handayfirlagningu. Þegar Filippus boðaði fagnaðarerindið í Samaríu létu margir skírast. Hið stjórnandi ráð sendi postulana Pétur og Jóhannes þangað. Af hverju? Í Biblíunni segir: „Nú lögðu [þeir tveir] hendur yfir þá [sem voru nýskírðir] og fengu þeir heilagan anda.“ Það hlýtur að hafa þýtt að þeir hafi fengið gjafir andans, það er að segja sýnilega hæfileika. Þetta vitum við af því að þegar Símon, sem hafði verið töframaður, sá andann að verki fylltist hann græðgi. Hann vildi kaupa sér valdið til að leggja hendur yfir aðra og veita þeim heilagan anda með þeim árangri að þeir gætu unnið kraftaverk. (Post. 8:5-20) Seinna voru 12 einstaklingar skírðir í Efesus. Frásagan segir: „Er Páll hafði lagt hendur yfir þá kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og fluttu spámannlegan boðskap.“ — Post. 19:1-7; samanber 2. Tímóteusarbréf 1:6.

Í Hebreabréfinu 6:2 virðist Páll því hafa verið að tala um handayfirlagningar í því skyni að miðla gjöfum andans til nýrra lærisveina.