Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitið „þrefaldan þráð“ í hjónabandinu

Varðveitið „þrefaldan þráð“ í hjónabandinu

Varðveitið „þrefaldan þráð“ í hjónabandinu

„Þrefaldan þráð er torvelt að slíta.“ — PRÉD. 4:12.

1. Hver gaf fyrstu hjónin saman?

JEHÓVA skapaði fyrsta manninn, Adam, eftir að hafa skapað jurtir og dýr. Síðar lét hann djúpan svefn falla á manninn, tók eitt af rifjum hans og myndaði af því fullkomna konu til að vera meðhjálp hans. Þegar Adam kom auga á hana sagði hann: „Loks er hér bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ (1. Mós. 1:27; 2:18, 21-23) Jehóva lýsti yfir ánægju sinni með tilurð konunnar, gaf fyrstu hjónin saman og blessaði þau. — 1. Mós. 1:28; 2:24.

2. Hvernig rak Satan fleyg milli Adams og Evu?

2 Því miður leið ekki á löngu áður en hrikti í stoðum hjónabandsins sem Guð hafði stofnað. Hvernig bar það til? Illur andi, síðar kallaður Satan, tældi Evu til að borða ávöxt af eina trénu sem þau máttu ekki borða af. Adam fetaði í fótspor konu sinnar. Þar með gerðu hjónin uppreisn gegn góðri og réttmætri stjórn Guðs. (1. Mós. 3:1-7) Þegar Jehóva spurði hjónin hvað þau hefðu gert var augljóst að komin var upp spenna milli þeirra. Adam kenndi konunni um og sagði: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ — 1. Mós. 3:11-13.

3. Hvaða röngu hugmyndir þróuðust meðal sumra Gyðinga?

3 Allar götur síðan hefur Satan beitt ýmsum slægum aðferðum til að spilla milli hjóna. Stundum hefur hann til dæmis notað trúarleiðtoga til að ýta undir óbiblíuleg viðhorf til hjónabands. Sumir af leiðtogum Gyðinga gerðu lítið úr meginreglum Guðs og leyfðu körlum að nota ýmsar tylliástæður til að skilja við eiginkonur sínar. Til dæmis gat maður fengið skilnað ef konan saltaði matinn um of. Jesús sagði hins vegar: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ — Matt. 19:9.

4. Hvað veldur því að hjónabandið á undir högg að sækja?

4 Enn þá reynir Satan allt hvað hann getur til að sundra hjónaböndum. Óvígð sambúð, staðfest sambúð samkynhneigðra og auðfengnir hjónaskilnaðir bera vitni um að honum hefur orðið mikið ágengt. (Lestu Hebreabréfið 13:4.) Hvað getum við sem þjónum Jehóva gert til að láta ekki brenglaðar hugmyndir umhverfisins hafa áhrif á okkur? Byrjum á því að kanna hvað einkennir gott og farsælt hjónaband.

Hafið Jehóva með í hjónabandinu

5. Hvað er átt við með ‚þreföldum þræði‘ í hjónabandinu?

5 Jehóva þarf að vera þáttur í hjónabandinu til að það sé sterkt. „Þrefaldan þráð er torvelt að slíta,“ segir í orði hans. (Préd. 4:12) ‚Þrefaldur þráður‘ hefur táknræna merkingu. Þegar þessi líking er heimfærð á hjónaband tákna tveir af þráðunum hjónin sem eru eins og samofin þriðja þræðinum sem er Jehóva. Að vera nátengdur Guði er lykillinn að farsælu hjónabandi og gefur hjónunum styrk til að takast á við erfiðleika sem verða á veginum.

6, 7. (a) Hvað er hægt að gera til að tryggja að Jehóva sé þáttur í hjónabandinu? (b) Hvað metur systir nokkur mest í fari eiginmanns síns?

6 En hvað geta hjón gert til að tryggja að hjónabandið sé eins og þrefaldur þráður? Sálmaskáldið Davíð söng: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ (Sálm. 40:9) Ef við elskum Guð er það okkur hvati til að þjóna honum af heilu hjarta. Bæði hjónin ættu því að byggja upp sterkt og innilegt samband við Jehóva og njóta þess að gera vilja hans. Þau ættu einnig að gera sér far um að styrkja kærleika hvort annars til Guðs. — Orðskv. 27:17.

7 Ef lögmál Guðs er innra með okkur birtist það meðal annars í því að við sýnum trú, von og kærleika og það hjálpar okkur að styrkja hjónabandið. (1. Kor. 13:13) Sandra hefur verið gift í 50 ár. Hún segir: „Mest af öllu met ég það að eiginmaður minn skuli byggja forystu sína og leiðsögn á Biblíunni og elska Jehóva enn heitar en mig.“ Þið eiginmenn, má segja eitthvað svipað um ykkur?

8. Hvað þurfa hjón að gera til að hljóta „betri laun“?

8 Setjið þið hjónin sambandið við Jehóva og safnaðarstarfið í fyrsta sætið í lífinu? Líturðu á maka þinn sem félaga í þjónustu Jehóva? (1. Mós. 2:24) Salómon konungur skrifaði þessi viturlegu orð: „Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt.“ (Préd. 4:9) Hjón þurfa að leggja sig vel fram til að hljóta „betri laun“ sem eru fólgin í sterku og ástríku hjónabandi og blessun Guðs.

9. (a) Hvaða ábyrgð hvílir á eiginmönnum? (b) Hvernig á eiginmaður að koma fram við konu sína samkvæmt Kólossubréfinu 3:19?

9 Ef bæði hjónin gera eins og Guð ætlast til af þeim er það merki þess að hann sé þáttur í hjónabandinu. Ein af frumskyldum eiginmanna er að sjá fyrir efnislegum og andlegum þörfum fjölskyldunnar. (1. Tím. 5:8, Biblían 1981) Þeir eru einnig hvattir til að vera næmir á tilfinningalegar þarfir eiginkvenna sinna. Í Kólossubréfinu 3:19 segir: „Karlar, elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær.“ Biblíufræðingur segir að orðið ‚beiskur‘ gefi til kynna „beisk orð eða barsmíð, að neita konunni um ástúð, umhyggju, viðurværi, vernd og aðstoð“. Ljóst er að slík framkoma á ekki að þekkjast á kristnu heimili. Þegar eiginmaður fer á kærleiksríkan hátt með forystu sína leggur konan sig að jafnaði fram um að vera honum undirgefin.

10. Hvers konar hugarfar ættu kristnar eiginkonur að sýna?

10 Kristnar eiginkonur, sem vilja að Guð sé þáttur í hjónabandinu, þurfa einnig að gera það sem hann ætlast til af þeim. Páll postuli skrifaði: „Sýnið . . . hvert öðru auðsveipni: konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar.“ (Ef. 5:21-23) Satan blekkti Evu og hélt fram þeirri lygi að það yrði henni til varanlegrar gæfu að vera óháð Guði. Ljóst er að sjálfstæðisandi gerir vart við sig í mörgum hjónaböndum. Guðrækinni konu finnst hins vegar ekkert athugavert við það að vera undirgefin kærleiksríkum eiginmanni. Hún hefur hugfast að Jehóva fól Evu það hlutverk að mynda eina heild með eiginmanni sínum þannig að það var augljóslega göfugt hlutverk í augum Jehóva. (1. Mós. 2:18) Kristin eiginkona, sem er sátt við stöðu sína, er „kóróna“ eiginmanns síns. — Orðskv. 12:4.

11. Hvað segir bróðir nokkur hafa skipt miklu máli í hjónabandi sínu?

11 Sameiginlegt biblíunám er önnur hjálp til að hafa Guð með í hjónabandinu. Gerald hefur búið í hamingjuríku hjónabandi í 55 ár. Hann segir: „Mikilvægasti þátturinn í farsælu hjónabandi er sameiginlegur lestur og nám í Biblíunni.“ Hann bætir við: „Það dregur hjónin nær hvort öðru og styrkir tengslin við Jehóva að gera hlutina saman, einkum það sem tengist trúnni.“ Sameiginlegt biblíunám hjálpar fjölskyldunni að hafa mælikvarða Jehóva skýrt í huga, styrkir sambandið við hann og stuðlar að stöðugum framförum.

12, 13. (a) Af hverju er mikilvægt fyrir hjón að biðja saman? (b) Hvað annað styrkir hjónabandið?

12 Hjón stuðla einnig að farsælu hjónabandi með því að biðja saman. Þegar eiginmaður ‚úthellir hjarta sínu‘ í bæn og nefnir sérstök atriði sem snerta fjölskylduna fer ekki hjá því að það styrki böndin milli hjónanna. (Sálm. 62:9) Það hlýtur til dæmis að vera miklu auðveldara að leysa ágreining við maka sinn eftir að hafa beðið saman til hins alvalda um leiðsögn og hjálp. (Matt. 6:14, 15) Í samræmi við bænina væri viðeigandi fyrir bæði hjónin að einsetja sér að hjálpast að og halda áfram að ‚umbera hvort annað og fyrirgefa hvort öðru‘. (Kól. 3:13) Höfum hugfast að bæn ber vitni um að við treystum Guði. Davíð konungur sagði: „Allra augu vona á þig.“ (Sálm. 145:15) Þegar við vonum á Guð og leitum til hans í bæn verða áhyggjurnar færri því að við vitum að ‚hann ber umhyggju fyrir okkur‘. — 1. Pét. 5:7.

13 Önnur mikilvæg leið til að tryggja að Jehóva sé þáttur í hjónabandinu er að sækja safnaðarsamkomur og boða fagnaðarerindið saman. Á samkomum læra hjón að sjá við þeim ‚vélabrögðum‘ sem Satan beitir til að reyna að sundra fjölskyldum. (Ef. 6:11) Og hjón, sem fara að staðaldri saman í boðunarstarfið, læra að vera „staðföst [og] óbifanleg“. — 1. Kor. 15:58.

Þegar erfiðleikar verða á veginum

14. Hvað getur reynt verulega á hjónabandið?

14 Tillögunar hér á undan eru ekki nýjar af nálinni en væri samt ekki ráð að ræða þær opinskátt við maka þinn? Kannið hvort þið þurfið að bæta ykkur á einhverju sviði hjónabandsins. Í Biblíunni er þó viðurkennt að jafnvel þeir sem hafa Guð með í hjónabandinu hljóti „þrenging . . . fyrir hold sitt“. (1. Kor. 7:28, Biblían 1912) Mannlegur ófullkomleiki, slæm áhrif frá löglausum umheiminum og snörur Satan geta valdið því að það reyni verulega á hjónabandið, einnig hjá trúum þjónum Guðs. (2. Kor. 2:11) En Jehóva gerir okkur kleift að standast álagið. Það þarf ekki að vera okkur ofviða. Job var trúfastur maður. Hann missti búpening sinn, þjóna og börn en samt segir í Biblíunni: „Þrátt fyrir allt þetta syndgaði Job ekki og álasaði Guði ekki.“ — Job. 1:13-22.

15. Hvað gerir fólk stundum þegar það er undir álagi og hvernig er best að bregðast við því?

15 Eiginkona Jobs sagði hins vegar við hann: „Ertu enn staðfastur í ráðvendni þinni? Formæltu Guði og farðu að deyja.“ (Job. 2:9) Þegar við verðum fyrir áföllum eða öðrum erfiðleikum getum við komist í svo mikla geðshræringu að við hugsum ekki skýrt. „Kúgun gerir vitran mann að heimskingja,“ segir í Prédikaranum 7:7. Reyndu að halda ró þinni ef maki þinn hreytir út úr sér reiðilegum orðum í örvilnan. Ef þú svarar í sömu mynt gæti annað ykkar eða bæði sagt eitthvað sem gerir illt verra. (Lestu Sálm 37:8.) Horfðu því fram hjá ‚gáleysislegum‘ orðum sem gætu verið sprottin af vonbrigðum eða vanmáttarkennd. — Job. 6:3.

16. (a) Hvernig má heimfæra orð Jesú í Matteusi 7:1-5 á hjón? (b) Af hverju er mjög mikilvægt fyrir hjón að sýna gott jafnvægi?

16 Hjón þurfa að gera sér raunhæfar væntingar. Annað þeirra tekur kannski eftir einhverju sérviskulegu í fari hins og ákveður með sjálfu sér að breyta því. Kannski getum við með kærleika og þolinmæði hjálpað makanum að bæta sig smám saman. En gleymdu samt ekki að Jesús líkti þeim sem finnur að smávægilegum göllum í fari annarra við mann sem sér ‚flís‘ í auga bróður síns en tekur ekki eftir „bjálkanum“ í sínu eigin. „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd,“ hvatti Jesús. (Lestu Matteus 7:1-5.) Það er ekki þar með sagt að fólk eigi ekki að reyna að bæta úr alvarlegum göllum í fari sínu. Robert á næstum 40 ára hjónaband að baki. Hann segir: „Hjón þurfa að vera opinská og hreinskilin hvort við annað. Þau þurfa að vera fús til að taka mark á réttmætum ábendingum og gera síðan viðeigandi breytingar.“ Sýndu því gott jafnvægi. Í stað þess að ergja þig yfir einhverju sem þér finnst vanta í fari maka þíns skaltu læra að meta þá góðu eiginleika sem hann býr yfir núna og njóta þeirra. — Préd. 9:9.

17, 18. Hvar getum við leitað hjálpar þegar erfiðleikar steðja að?

17 Breyttar aðstæður í lífinu geta reynst hjónum þungar í skauti. Það getur til dæmis fylgt því töluvert álag að eignast börn. Maki eða barn getur veikst alvarlega. Aldraðir foreldrar þarfnast ef til vill sérstakrar umönnunar. Uppkomin börn flytjast kannski langt að heiman. Og verkefni á vegum safnaðarins geta kallað á ýmsar breytingar. Allt getur þetta valdið kvíða eða einhverri spennu milli hjóna.

18 Hvað er til ráða ef þér finnst álagið í hjónabandinu vera svo mikið að þú getir ekki meira? (Orðskv. 24:10) Gefstu ekki upp! Satan myndi gleðjast stórlega ef einhver af þjónum Guðs sneri baki við sannri tilbeiðslu. Og ekki myndi það kæta hann minna ef hjón hættu að tilbiðja Guð. Gerið því allt sem þið getið til að tryggja að hjónaband ykkar sé eins og þrefaldur þráður. Í Biblíunni er fjöldi frásagna af fólki sem sýndi Guði hollustu þrátt fyrir erfiðar prófraunir. Davíð úthellti einu sinni hjarta sínu fyrir Jehóva og sagði í bæn til hans: „Ver mér náðugur, Guð, því að menn ofsækja mig.“ (Sálm. 56:2) Hefur þér einhvern tíma fundist menn þrengja að þér? Hvort sem það er einhver utanaðkomandi eða þér nákominn sem veldur því skaltu hafa eitt hugfast: Davíð fékk styrk til að halda út og þú getur það líka. Hann sagði: „Ég leitaði Drottins og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu sem ég hræddist.“ — Sálm. 34:5.

Það er til blessunar að varðveita „þrefaldan þráð“ í hjónabandinu

19. Hvernig getum við staðist árásir Satans?

19 Núna á endalokatímanum þurfa hjón sannarlega að ‚hvetja og uppbyggja hvort annað‘. (1. Þess. 5:11) Höfum hugfast að Satan heldur því fram að hollusta okkar við Jehóva byggist á eigingirni. Hann beitir öllum ráðum til að spilla ráðvendni okkar við Guð, og reynir jafnvel að eyðileggja hjónaband okkar. Til að standast árásir hans þurfum við að treysta Jehóva í einu og öllu. (Orðskv. 3:5, 6) Páll skrifaði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ — Fil. 4:13.

20. Hvaða blessun fylgir því að hafa Guð með í hjónabandinu?

20 Það fylgir því margs konar blessun að hafa Guð með í hjónabandinu. Joel og eiginkona hans hafa verið gift í 51 ár. Joel segir: „Ég þakka Jehóva í sífellu fyrir eiginkonu mína og hamingjuríka sambúð okkar. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri lífsförunaut.“ Hvernig hafa þau farið að? „Við höfum alltaf reynt að vera góð, þolinmóð og ástrík hvort við annað.“ Enginn getur auðvitað gert það fullkomlega í þessu heimskerfi. Við skulum engu að síður leggja hart að okkur til að fylgja meginreglum Biblíunnar og láta Jehóva vera með í hjónabandinu. Ef við gerum það verður hjónaband okkar eins og ‚þrefaldur þráður sem er torvelt að slíta‘. — Préd. 4:12.

Manstu?

• Hvað merkir það að hafa Jehóva með í hjónabandinu?

• Hvað eiga hjón að gera þegar erfiðleikar verða á veginum?

• Hvernig er hægt að vita að Guð sé með í hjónabandinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Sameiginlegar bænir hjálpa hjónum að takast á við erfiðleika.