Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vitnað á markaðstorginu

Vitnað á markaðstorginu

Vitnað á markaðstorginu

ÞEGAR Páll postuli var í Aþenu fór hann daglega á markaðstorgið til að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. (Post. 17:17) Hann valdi markaðstorgið af því að það var miðpunkturinn í daglegu lífi Aþeninga.

Núna, næstum 2000 árum síðar, boða þjónar Jehóva enn þá boðskap Guðsríkis á markaðstorgum. Af hverju? Af því að þar er margt fólk að finna. Og nú á dögum getur „markaðstorgið“ til dæmis verið verslunarmiðstöð. Sumir vottar hafa fengið leyfi hjá framkvæmdarstjóra eða eiganda til að setja upp bás eða borð fyrir biblíurit.

Í verslunarmiðstöð í New Jersey í Bandaríkjunum var til dæmis sett upp aðlaðandi útstilling á ritum undir þemanu „Hvernig má varðveita góð fjölskyldugildi?“ Hver var árangurinn? Á einum degi var dreift 153 bókum á sex tungumálum.

Kona nokkur, sem kom að ritabásnum, hlustaði af athygli á einn af vottunum. Konan var sammála því að það væri mikilvægt að breyta í samræmi við vilja Guðs í lífinu almennt og innan fjölskyldunnar. Hún fékk eftirfarandi rit: Lærum af kennaranum mikla, Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn? og Spurningar unga fólksins — svör sem duga.

Síðdegis gekk maður fram hjá básnum. Hann var á leið inn í búðina við hliðina. En þá rak hann augun í bókina Spurningar unga fólksins. Systirin, sem stóð við básinn, tók eftir forvitni mannsins og spurði: „Er einhver sérstök bók sem vekur áhuga þinn?“ Hann kinkaði kolli og benti á bókina Spurningar unga fólksins. Hún rétti honum bókina sem hann var þegar farinn að teygja sig í. Hann sagði að hann ætti þrjú börn. Þegar samræðurnar héldu áfram minntist hann á að hann settist niður með börnunum einu sinni í viku til að ræða við þau um ýmis mál. Elstu börnin hans tvö eru unglingar. Þegar hann fletti í gegnum bókina sagði hann að hann gæti auðveldlega haft bókina til leiðsagnar í þessum fjölskylduumræðum. Boðberinn benti honum líka á bókina Farsælt fjölskyldulíf og fullvissaði hann um að bókin myndi nýtast honum og konunni hans vel til að taka ákvarðanir sem snerta fjölskylduna. Maðurinn kunni vel að meta tillöguna, gaf framlag og þáði boð um að einhver myndi heimsækja þau.

Hvernig leið vottunum eftir að hafa notað daginn til að vitna í verslunarmiðstöð? Ein systir sagði: „Ég hafði mjög gaman af því að prófa þessa aðferð. Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“ Önnur systir sagði: „Jehóva segir að fagnaðarerindið verði prédikað til endimarka jarðar. Í dag, í Paramus í New Jersy, snerti fagnaðarerindið hjörtu fólks sem talar ólík tungumál. Það var dásamlegt að fá að vera með í þessu. Allir sem tóku þátt í því voru ánægðir. Enginn vildi fara heim í lok dagsins.“

Gætirðu prófað fleiri leiðir til að boða fagnaðarerindið? Helsta aðferðin er vissulega sú að fara hús úr húsi. (Post. 20:20) En gætirðu hugsað þér að vitna á markaðstorgi eða í verslunarmiðstöð?