Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Augu Jehóva rannsaka allt

Augu Jehóva rannsaka allt

Augu Jehóva rannsaka allt

„Augu [Drottins] . . . rannsaka mennina.“ — SÁLM. 11:4, Biblían 1981.

1. Að hvers konar fólki löðumst við?

HVAÐ finnst þér um fólk sem sýnir þér einlægan áhuga? Það segir skoðun sína hreinskilningslega þegar þú óskar eftir því. Það hjálpar þér þegar þú þarft á því að halda. Og það veitir þér kærleiksríka leiðsögn þegar þess er þörf. (Sálm. 141:5; Gal. 6:1) Laðast þú ekki að slíku fólki? Svona eru Jehóva og sonur hans. Þeir hafa meiri áhuga á þér en nokkur annar. Hvatir þeirra eru algerlega óeigingjarnar — þeir vilja hjálpa þér að höndla „hið sanna líf“. — 1. Tím. 6:19; Opinb. 3:19.

2. Hve mikinn áhuga hefur Jehóva á þjónum sínum?

2 Sálmaritarinn Davíð lýsti því hve mikinn áhuga Jehóva hefur á okkur og sagði: „Augu [Drottins] sjá, sjónir hans rannsaka mennina.“ (Sálm. 11:4, Biblían 1981) Já, Guð horfir ekki einfaldlega á okkur heldur rannsakar okkur. Davíð skrifaði líka: „Þú prófar hjarta mitt, rannsakar mig en finnur ekkert illt.“ (Sálm. 17:3) Við sjáum að Davíð gerði sér grein fyrir því hve mikinn áhuga Jehóva hafði á honum. Hann vissi að hann myndi særa Jehóva og afla sér vanþóknunar hans ef hann myndi dvelja við syndugar hugsanir eða ala með sér illt hjarta. Er Jehóva þér jafn raunverulegur og hann var Davíð?

Jehóva sér hjartað

3. Hvernig lítur Jehóva á veikleika okkar?

3 Jehóva hefur mestan áhuga á hinum innri manni — því sem býr í hjartanu. (Sálm. 19:15; 26:2) Hann sýnir okkur þann kærleika að dvelja ekki við veikleika okkar. Tökum dæmi. Þegar Sara, eiginkona Abrahams, talaði við holdgaðan engil sagði hún ekki alveg satt. En engillinn sá greinilega að hún fór hjá sér og var hrædd og því fékk hún aðeins milda leiðréttingu. (1. Mós. 18:12-15) Þegar ættfaðirinn Job „taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði“ tók Guð ekki blessun sína frá honum. Hann vissi að Job hafði liðið miklar kvalir af hendi Satans. (Job. 32:2, Biblían 1981; 42:12) Og Jehóva móðgaðist ekki þegar ekkjan í Sarefta var hranaleg við Elía spámann. Hann skildi að hún var harmi slegin eftir að hafa misst einkabarnið sitt. — 1. Kon. 17:8-24.

4, 5. Hvernig sýndi Jehóva Abímelek miskunn?

4 Jehóva rannsakar hjartað og því hefur hann jafnvel sýnt vantrúuðum miskunn. Tökum sem dæmi samskipti hans við Abímelek, konung í Filistaborginni Gerar. Abímelek gerði sér ekki grein fyrir því að Abraham og Sara væru gift og tók því Söru og ætlaði að gera hana að eiginkonu sinni. En áður en það tókst sagði Jehóva við hann í draumi: „Ég vissi vel að þú gerðir þetta í einlægni hjartans og ég forðaði þér meira að segja frá því að syndga gegn mér. Þess vegna leyfði ég þér ekki að snerta hana. Nú skaltu fá manninum aftur konu sína því að hann er spámaður og mun biðja fyrir þér, að þú haldir lífi.“ — 1. Mós. 20:1-7.

5 Þar sem Abímelek tilbað falsguði hefði Jehóva vissulega getað sýnt honum hörku. En Guð sá að maðurinn hafði gert þetta í fullri einlægni og tók mið af því. Þess vegna sýndi hann konunginum miskunn og sagði honum hvernig hann gæti hlotið fyrirgefningu og haldið lífi. Vilt þú ekki tilbiðja svona Guð?

6. Hvernig líkti Jesús eftir föður sínum?

6 Jesús líkti fullkomlega eftir föður sínum. Hann horfði á hið góða í fari lærisveinanna og var fús til að fyrirgefa þeim. (Mark. 10:35-45; 14:66-72; Lúk. 22:31, 32; Jóh. 15:15) Viðhorf Jesú var í samræmi við orð hans í Jóhannesi 3:17: „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann.“ Já, kærleikurinn, sem Jehóva og Jesús bera til okkar, er djúpur og óhagganlegur. Hann birtist í því að þeir þrá að við hljótum líf. (Job. 14:15) Slíkur kærleikur varpar ljósi á það hvers vegna Jehóva rannsakar okkur, hvaða viðhorf hann hefur til okkar og hvernig hann bregst við því sem hann sér. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:8, 19.

Jehóva rannsakar okkur með augum kærleikans

7. Af hvaða tilefni rannsakar Jehóva okkur?

7 Það er rangt að ímynda sér að Jehóva sé lögreglumaður sem fylgist með okkur af himnum ofan bara til að sjá þegar við syndgum. Það er Satan sem horfir á okkur með tortryggni og er tilbúinn að ákæra okkur. (Opinb. 12:10) Hann ætlar fólki jafnvel rangar hvatir. (Job. 1:9-11; 2:4, 5) Sálmaritarinn sagði um Guð: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálm. 130:3) Með þessari spurningu gefur hann í skyn að enginn gæti það. (Préd. 7:20) Jehóva horfir á okkur með miskunn og góðvild eins og umhyggjusamt foreldri sem vill vernda börnin sín gegn skaða. Oft bendir hann okkur á ófullkomleika okkar og veikleika svo að við förum okkur ekki að voða. — Sálm. 103:10-14; Matt. 26:41.

8. Hvernig leiðbeinir Jehóva þjónum sínum og agar þá?

8 Kærleikur Guðs birtist í þeim leiðbeiningum og aga sem er að finna í Ritningunni og andlegu fæðunni sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ sér okkur fyrir. (Matt. 24:45; Hebr. 12:5, 6) Jehóva aðstoðar okkur líka fyrir milligöngu kristna safnaðarins og umsjónarmannanna sem hann hefur gefið söfnuðinum. (Ef. 4:8) Það sem meira er, hann fylgist með því hvernig við nýtum okkur föðurlega leiðsögn hans og reynir að veita okkur frekari hjálp. Í Sálmi 32:8 segir: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að hlusta alltaf á Jehóva. Við verðum að vera auðmjúk frammi fyrir honum og viðurkenna að hann er ástríkur faðir okkar og kennari. — Lestu Matteus 18:4.

9. Hvaða eiginleika verðum við að forðast og hvers vegna?

9 Gætum þess að forherðast aldrei af „táli syndarinnar“, stolti eða trúarskorti. (Hebr. 3:13; Jak. 4:6) Þessir eiginleikar fara oft að gera vart við sig þegar einstaklingur elur á óheilnæmum hugsunum eða löngunum. Hann gæti byrjað að hafna viðeigandi ráðum byggðum á Biblíunni. Og það sem verra er, hann gæti farið að halda svo fast í röng viðhorf og venjur að hann gerir sig að óvini Guðs — það er sannarlega skelfileg staða. (Orðskv. 1:22-31) Tökum sem dæmi frásöguna af Kain, frumburði Adams og Evu.

Jehóva sér allt og breytir eftir því

10. Af hverju hafði Jehóva vanþóknun á fórn Kains og hvernig brást Kain við?

10 Þegar Kain og Abel færðu Jehóva hvor sína fórn hafði Jehóva ekki aðeins áhuga á fórnum þeirra heldur líka á hvötinni að baki. Þess vegna sýndi hann velþóknun á fórn Abels sem færð var í trú en vanþóknun á fórn Kains sem vitnaði að einhverju leyti um skort á trú. (1. Mós. 4:4, 5; Hebr. 11:4) Í stað þess að læra af þessu og breyta viðhorfi sínu varð Kain gagntekinn reiði í garð bróður síns. — 1. Mós. 4:6.

11. Hvernig kom illt hjartalag Kains í ljós og hvað getum við lært af frásögunni um hann?

11 Jehóva tók eftir þessari hættulegu þróun. Hann talaði vinsamlega við Kain og benti honum á að ef hann breytti rétt gæti hann verið upplitsdjarfur. Því miður hunsaði Kain leiðbeiningar skapara síns og myrti bróður sinn. Þegar Guð spurði hann: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ kom illt hjartalag hans enn betur í ljós þegar hann svaraði fullum hálsi: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ (1. Mós. 4:7-9) Hjartað getur greinilega verið mjög svikult og jafnvel fengið fólk til að hunsa leiðbeiningar sem koma beint frá Guði. (Jer. 17:9) Við skulum því læra af frásögum sem þessum og vera fljót til að hafna röngum hugsunum og löngunum. (Lestu Jakobsbréfið 1:14, 15.) Ef við fáum leiðbeiningar byggðar á Biblíunni skulum við vera þakklát fyrir þær og líta á þær sem merki um kærleika Jehóva.

Það er ekki hægt að leyna synd

12. Hvernig tekur Jehóva á rangri breytni?

12 Sumir telja að þeir komist upp með illa breytni ef enginn sér til þeirra. (Sálm. 19:13) Segja má að engin synd sé hulin. „Allt er bert og öndvert augum [Guðs]. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ (Hebr. 4:13) Jehóva er dómari sem rannsakar dýpstu hvatir okkar og tekur á rangri breytni af fullkomnu réttlæti. Hann er „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur“. En hann ‚lætur ekki óhegnt‘ þeim sem eru iðrunarlausir og syndga „af ásettu ráði“ eða eru undirförlir og útsmognir. (2. Mós. 34:6, 7; Hebr. 10:26) Þetta má sjá af samskiptum Jehóva við Akan og við Ananías og Saffíru.

13. Hvernig stuðlaði rangt hugarfar Akans að synd hans?

13 Akan braut gegn skýrum boðum Jehóva þegar hann tók ránsfeng úr Jeríkóborg og faldi í tjaldi sínu, sennilega með vitund fjölskyldunnar. Þegar synd hans var opinberuð sýndi Akan að hann skildi alvöru málsins því að hann sagði: „Ég syndgaði gegn Drottni.“ (Jós. 7:20) Akan var kominn með spillt hjarta eins og Kain. Græðgi átti stóran þátt í því að hann varð sviksamur. Þar sem ránsfengurinn úr Jeríkó tilheyrði Jehóva má segja að Akan hafi stolið frá Jehóva og það varð honum og fjölskyldu hans dýrkeypt. — Jós. 7:25.

14, 15. Hvers vegna verðskulduðu Ananías og Saffíra vanþóknun Guðs og hvað getum við lært af þessu dæmi?

14 Ananías og Saffíra, eiginkona hans, tilheyrðu frumkristna söfnuðinum í Jerúsalem. Eftir hvítasunnuna árið 33 var stofnaður sjóður til að annast efnislegar þarfir nýrra lærisveina frá fjarlægum löndum en þessir lærisveinar voru enn gestkomandi í Jerúsalem. Safnað var í sjóðinn með frjálsum framlögum. Ananías seldi akur og gaf hluta af peningunum í sjóðinn. Með fullri vitnesku eiginkonu sinnar þóttist hann hins vegar hafa gefið allt sem hann fékk fyrir akurinn. Hjónin vildu eflaust hljóta sérstakan heiður innan safnaðarins. En framkoma þeirra var spillt. Fyrir kraftaverk opinberaði Jehóva Pétri postula misferlið og Pétur afhjúpaði Ananías sem svikara. Þá féll Ananías niður og dó. Stuttu seinna dó Saffíra líka. — Post. 5:1-11.

15 Framkoma Ananíasar og Saffíru var ekki augnabliksveikleiki. Þau lugu og lögðu á ráðin um að blekkja postulana. Það sem verra er, þau lugu að heilögum anda og Guði. Viðbrögð Jehóva sýna svo ekki verður um villst að hann er reiðubúinn að vernda söfnuðinn gegn hræsnurum. Já, „óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs“. — Hebr. 10:31.

Sýnum ráðvendni öllum stundum

16. (a) Hvernig reynir Satan að spilla þjónum Guðs? (b) Hvaða aðferðir notar Satan til að spilla fólki á þínum heimaslóðum?

16 Satan gerir allt sem hann getur til að spilla okkur og fá okkur til að missa velþóknun Jehóva. (Opinb. 12:12, 17) Illur ásetningur Satans endurspeglast greinilega í heiminum sem er gagntekinn af siðleysi og ofbeldi. Núna má auðveldlega nálgast klám með hjálp tölvu eða annarra tækja. Gætum þess að falla aldrei fyrir árásum Satans. Tökum öllu heldur undir orð Davíðs sem skrifaði: „Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda . . . Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.“ — Sálm. 101:2.

17. (a) Af hverju opinberar Jehóva að lokum huldar syndir? (b) Hver ætti að vera ásetningur okkar?

17 Nú á dögum afhjúpar Jehóva ekki með kraftaverki grófar syndir og sviksamlega hegðun eins og hann gerði stundum áður. Samt sér hann allt sem gerist og á sínum tíma og með sínum aðferðum opinberar hann leynda hluti. Páll sagði: „Syndirnar hjá sumum mönnum blasa við áður en til dóms kemur en hjá öðrum koma þær síðar í ljós.“ (1. Tím. 5:24) Það er aðallega vegna kærleika síns sem Jehóva opinberar slæma hluti. Hann elskar söfnuðinn og vill varðveita hreinleika hans. Auk þess sýnir hann miskunn þeim sem hafa syndgað en sýna nú sanna iðrun. (Orðskv. 28:13) Við skulum því leggja okkur fram um að hafa heilt hjarta frammi fyrir Guði og hafna öllum spillandi áhrifum.

Höfum heilt hjarta

18. Hvernig samband vildi Davíð að Salómon hefði við Guð?

18 Davíð konungur sagði við Salómon son sinn: „Lærðu að þekkja Guð föður þíns og þjónaðu honum af heilum hug og af fúsum vilja því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugsanir.“ (1. Kron. 28:9) Davíð fannst ekki nóg að sonur hans tryði bara á Guð. Hann vildi að Salómon væri þakklátur fyrir þann mikla áhuga sem Jehóva sýnir þjónum sínum. Kannt þú að meta þennan eiginleika Jehóva?

19, 20. Hvað hjálpaði Davíð að styrkja samband sitt við Guð samkvæmt orðum hans í Sálmi 19:8-12 og hvernig getum við líkt eftir honum?

19 Jehóva veit að hjartahreinir menn laðast að honum og að þekking á fögrum eiginleikum hans dregur þá nær honum. Þess vegna vill Jehóva að við kynnumst sér og dásamlegum persónuleika sínum. Hvernig gerum við það? Með því að lesa og rannsaka orð hans og finna fyrir þeim blessunum sem hann veitir okkur. — Orðskv. 10:22; Jóh. 14:9.

20 Lest þú í orði Guðs á hverjum degi með þakklátum huga? Biðurðu Jehóva að hjálpa þér að fara eftir því sem þú lest? Skilurðu gildi þess að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar? (Lestu Sálm 19:8-12.) Þá mun trú þín á Jehóva og kærleikur þinn til hans halda áfram að vaxa og dafna. Og hann mun nálgast þig enn meir rétt eins og hann héldi í höndina á þér. (Jes. 42:6; Jak. 4:8) Já, Jehóva mun sanna kærleika sinn til þín með því að blessa þig og vernda þig andlega þegar þú gengur á mjóa veginum sem liggur til lífsins. — Sálm. 91:1, 2; Matt. 7:13, 14.

Hvert er svarið?

• Af hverju rannsakar Jehóva okkur?

• Af hverju urðu sumir óvinir Guðs?

• Hvernig getum við sýnt að Jehóva sé okkur raunverulegur?

• Hvernig getum við þjónað Guði af heilu hjarta?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Af hverju má segja að Jehóva fylgist með okkur eins og ástríkur faðir?

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hvaða lærdóm getum við dregið af frásögunni af Ananíasi?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hvað getur hjálpað okkur að halda áfram að þjóna Jehóva af heilu hjarta?