Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir bréfanna til Títusar, Fílemons og Hebreanna

Höfuðþættir bréfanna til Títusar, Fílemons og Hebreanna

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir bréfanna til Títusar, Fílemons og Hebreanna

PÁLL postuli heimsækir eyna Krít einhvern tíma eftir að hann er leystur úr fyrri fangavistinni í Róm árið 61. Þegar hann sér að söfnuðirnir á eynni þurfa að styrkja samband sitt við Jehóva skilur hann Títus eftir þar. Hann er líklega staddur í Makedóníu þegar hann skrifar Títusi til að leiðbeina honum um verkefni hans og veita honum postullegan stuðning sinn.

Nokkru áður en Páll er leystur úr haldi árið 61 skrifar hann bréf til Fílemons, trúbróður síns, sem er búsettur í Kólossu. Bréfið hefur að geyma persónulega beiðni til vinar.

Páll skrifar einnig kristnum Hebreum í Júdeu árið 61 eða þar um bil og bendir þeim á hvernig kristnin skari fram úr gyðingdóminum. Öll bréfin þrjú hafa að geyma leiðbeiningar sem eru verðmætar fyrir okkur. — Hebr. 4:12.

VERIÐ HEILBRIGÐ Í TRÚNNI

(Tít. 1:1–3:15)

Eftir að hafa gefið leiðbeiningar um það hvernig skipa eigi öldunga í hverri borg hvetur hann Títus til að „vanda harðlega um við [óstýriláta] til þess að þeir hljóti heilbrigða trú“. Hann hvetur alla í söfnuðunum á Krít til að „afneita óguðleik . . . og lifa hóglátlega“. — Tít. 1:5, 10-13; 2:12.

Páll gefur ýmsar aðrar leiðbeiningar til að hjálpa trúsystkinum sínum á Krít til að vera heilbrigð í trúnni. Hann bendir Títusi á að „forðast . . . heimskulegar þrætur . . . og lögmálsstælur“. — Tít. 3:9.

Biblíuspurningar og svör:

1:15 — Hvernig geta „allir hlutir“ verið „hreinum hreinir“ en óhreinir þeim sem eru ‚flekkaðir og vantrúaðir‘? Til að svara því þurfum við að vita hvað Páll á við þegar hann segir „allir hlutir“. Hann er ekki að tala um það sem er fordæmt berum orðum í Biblíunni heldur það sem þjónar hans meta á mismunandi vegu eftir samvisku sinni. Slíkir hlutir eru hreinir þeim sem hugsa í samræmi við mælikvarða Guðs. Hið gagnstæða er uppi á teningnum hjá þeim sem hugsa ekki rétt eða hafa saurgað samvisku sína. *

3:5 — Hvernig frelsast hinir andasmurðu í „laug endurfæðingar“ og hljóta ‚endurnýjun heilags anda‘? Þeir frelsast á þann hátt að Guð hefur laugað þá eða hreinsað með blóði Jesú og lausnarfórn. Þeir hljóta ‚endurnýjun heilags anda‘ þegar þeir eru ‚skapaðir á ný‘ sem andagetnir synir Guðs. — 2. Kor. 5:17, Biblían 1981.

Lærdómur:

1:10-13; 2:15. Umsjónarmenn safnaðarins þurfa að vera hugrakkir og leiðrétta það sem aflaga fer í söfnuðinum.

2:3-5. Þroskaðar systur í söfnuðinum þurfa, líkt og á fyrstu öld, að „vera í háttum sínum eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur vera öðrum til fyrirmyndar.“ Þá geta þær einslega kennt yngri konum í söfnuðinum á áhrifaríkan hátt.

3:8, 14. Það er bæði „gott og mönnum nytsamlegt“ að láta sér „umhugað um að stunda góð verk“. Það hjálpar okkur að ná árangri í þjónustu Guðs og vera aðgreind frá illum heimi.

HVATNING „VEGNA KÆRLEIKA“

(Fílem. 1-25)

Fílemon er hrósað fyrir trú sína og kærleika. Hann hefur endurnært trúsystkini sín og það hefur veitt Páli „mikla gleði og uppörvun“. — Fílem. 4, 5, 7.

Páll er umsjónarmönnum góð fyrirmynd með því að taka rétt á viðkvæmu máli sem varðar Onesímus. Hann gefur Fílemon ekki fyrirmæli heldur hvetur hann „vegna kærleika“ hans. Páll skrifar: „Fullviss um hlýðni þína rita ég til þín og veit að þú munt gera jafnvel fram yfir það sem ég mælist til.“ — Fílem. 8, 9, 21.

Biblíuspurningar og svör:

10, 11, 18 — Hvernig varð Onesímus „þarfur“ eftir að hafa verið „óþarfur“? Onesímus var þræll sem hafði strokið af heimili Fílemons í Kólossu og flúið til Rómar. Líklegt er að hann hafi stolið frá húsbónda sínum til að kosta ferðina sem var um 1.400 kílómetrar. Hann var Fílemon óþarfur. Þegar til Rómar kom snerist hann til trúar fyrir atbeina Páls. Nú var þessi þrjóski og ‚óþarfi‘ þræll orðinn kristinn og „þarfur“ Fílemon.

15, 16 — Af hverju bað Páll ekki Fílemon að veita Onesímusi frelsi? Páll hélt sig einbeittur við það að ‚boða ríki Guðs og fræða um Drottin Jesú Krist‘. Hann kaus því að blanda sér ekki í þjóðfélagsmál eins og spurninguna um þrælahald. — Post. 28:31.

Lærdómur:

2. Fílemon bauð fram heimili sitt til samkomuhalds. Það er heiður að fá að hafa samansafnanir fyrir boðunarstarfið á heimili sínu. — Rómv. 16:5; Kól. 4:15.

4-7. Við ættum að hrósa fúslega trúsystkinum sem eru til fyrirmyndar vegna trúar sinnar og kærleika.

15, 16. Við ættum ekki að vera kvíðin úr hófi fram þó að við verðum fyrir áföllum í lífinu. Afleiðingarnar geta orðið jákvæðar eins og varð með Onesímus.

21. Páll vænti þess að Fílemon fyrirgæfi Onesímusi. Þess er líka vænst af okkur að fyrirgefa trúsystkini sem hefur móðgað okkur. — Matt. 6:14.

NÝTUM OKKUR ‚FRÆÐSLUNA FYRIR LENGRA KOMNA‘

(Hebr. 1:1–13:25)

Páll sýnir fram á að það sé miklu betra að trúa á fórn Jesú en vinna lögmálsverk. Hann bendir á yfirburði stofnanda kristninnar, prestdóms hans, fórnar og nýja sáttmálans. (Hebr. 3:1-3; 7:1-3, 22; 8:6; 9:11-14, 25, 26) Þessi vitneskja hlýtur að hafa auðveldað kristnum Hebreum að standast þær ofsóknir sem þeir sættu af hendi Gyðinga. Páll hvetur trúsystkini sín til að snúa sér að „fræðslunni fyrir lengra komna“. — Hebr. 6:1.

Hve miklu skiptir trúin í lífi kristins manns? „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar,“ skrifar Páll. Hann hvetur kristna Hebrea: „Þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan“ og gerum það í trú. — Hebr. 11:6; 12:1.

Biblíuspurningar og svör:

2:14, 15 — Nú er sagt að Satan hafi „mátt dauðans“. Merkir það að hann geti orðið hverjum sem hann vill að bana? Nei, hins vegar hafa lygar Satans valdið dauða alla tíð síðan hann fór út á braut illskunnar í Eden, því að Adam syndgaði og arfleiddi mannkynið að synd og dauða. (Rómv. 5:12) Enn fremur hafa handbendi Satans á jörð ofsótt þjóna Guðs og stundum orðið þeim að bana, líkt og gerðist með Jesú. En þetta þýðir ekki að Satan hafi ótakmarkaðan mátt til að drepa hvern sem hann vill. Þá væri hann eflaust búinn að útrýma þjónum Jehóva fyrir löngu. En Jehóva verndar þjóna sína sem heild og leyfir ekki Satan að útrýma þeim. Jafnvel þó að Jehóva leyfi að árásir Satans verði sumum okkar að fjörtjóni getum við treyst að hann eigi eftir að bæta það tjón sem við kunnum að verða fyrir.

4:9-11 — Hvernig ‚göngum við inn til hvíldar [Guðs]‘? Guð hvíldist þegar sköpunardagarnir sex voru á enda, í trausti þess að vilji hans með jörðina og mannkynið næði fram að ganga. (1. Mós. 1:28; 2:2, 3) Við ‚göngum inn til þessarar hvíldar‘ með því að taka við lausnarfórninni sem Guð lét í té og hætta að reyna að réttlæta okkur með eigin verkum. Við hvílumst og endurnærumst hvern dag þegar við trúum á Jehóva og fylgjum syni hans í stað þess að sinna eigingjörnum hugðarefnum. — Matt. 11:28-30.

9:16 — Hver gerði nýja sáttmálann? Það var Jehóva sem gerði nýja sáttmálann en í þessu samhengi er átt við Jesú. Hann var meðalgangari sáttmálans og færði með dauða sínum þá fórn sem þurfti til að fullgilda hann. — Lúk. 22:20; Hebr. 9:15.

11:10, 13-16 — Hvaða „borgar“ vænti Abraham? Hér er átt við táknræna borg en ekki bókstaflega. Abraham vænti „hinnar himnesku Jerúsalem“ og þar er átt við Jesú Krist og 144.000 meðstjórnendur hans. Eftir að hafa hlotið himneska dýrð eru þessir meðstjórnendur einnig kallaðir ‚borgin helga, nýja Jerúsalem‘. (Hebr. 12:22; Opinb. 14:1; 21:2) Abraham hlakkaði til að lifa þann tíma þegar ríki Guðs hefði tekið völd.

12:2 — Hvaða „gleði beið [Jesú]“ sem hann „leið með þolinmæði“ fyrir á kvalastaur? Það var sú gleði að sjá það sem þjónusta hans myndi áorka, þar á meðal að helga nafn Jehóva, réttlæta drottinvald hans og leysa mannkynið úr fjötrum dauðans með fórn sinni. Jesús horfði einnig fram til þeirra launa að fá að ríkja sem konungur og þjóna sem æðstiprestur í þágu mannkyns.

13:20 — Af hverju er nýi sáttmálinn kallaður eilífur? Fyrir því eru þrjár ástæður: (1) Hann víkur aldrei fyrir öðrum sáttmála, (2) það sem hann áorkar er varanlegt og (3) ‚aðrir sauðir‘ halda áfram að njóta góðs af honum eftir Harmagedón. — Jóh. 10:16.

Lærdómur:

5:14. Við ættum að vera duglegir biblíunemendur og fara eftir því sem við lærum. Það er eina leiðin til að ‚aga hugann til að greina gott frá illu‘. — 1. Kor. 2:10.

6:17-19. Ef við byggjum trú okkar tryggilega á eiði Guðs og fyrirheitum er mun minni hætta en ella á að við förum út af vegi sannleikans.

12:3, 4. Við ættum að sækja fram til þroska og auka úthald okkar í prófraunum í stað þess að ‚þreytast og láta hugfallast‘ þegar við verðum fyrir minni háttar andstöðu eða prófraunum. Verum staðföst jafnvel þó að það kosti okkur lífið. — Hebr. 10:36-39.

12:13-15. Látum enga „beiskjurót“ eða nokkurn í söfnuðinum, sem gagnrýnir starfsaðferðir, hindra okkur í að ‚láta fætur okkar feta beinar brautir‘.

12:26-28. Það sem er „skapað“ af öðrum en Guði á að „bifast“ og hverfa — það er að segja núverandi heimskerfi eins og það leggur sig og meira að segja hinn illi ‚himinn‘. Þegar það gerist stendur ekkert eftir nema það „sem eigi bifast“, það er að segja ríki Guðs og þeir sem styðja það. Það er ákaflega mikilvægt að við boðum ríki Guðs af kappi og lifum í samræmi við þær meginreglur sem það setur.

13:7, 17. Ef við höfum í huga þá hvatningu að vera hlýðin og eftirlát umsjónarmönnum safnaðarins eigum við auðveldara með að vera samvinnuþýð.

[Neðanmáls]