Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve miklu viltu fórna til að hljóta eilíft líf?

Hve miklu viltu fórna til að hljóta eilíft líf?

Hve miklu viltu fórna til að hljóta eilíft líf?

„Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ — MATT. 16:26.

1. Af hverju brást Jesús harkalega við átölum Péturs?

PÉTUR postuli trúði ekki sínum eigin eyrum. Ástkær leiðtogi hans, Jesús Kristur, sagði „berum orðum“ að hann myndi innan tíðar þjást og deyja. Pétri gekk eflaust gott eitt til þegar hann átaldi Jesú og sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér frá Pétri og leit á hina lærisveinana. Sennilega voru þeir haldnir sömu ranghugmynd og Pétur. Síðan sagði hann við Pétur: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ — Mark. 8:32, 33; Matt. 16:21-23.

2. Til hvers ætlast Jesús af sönnum lærisveinum sínum?

2 Það sem Jesús sagði í framhaldinu hefur kannski hjálpað Pétri að átta sig á hvers vegna Jesús brást svona harkalega við. „Jesús kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði: ‚Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins mun bjarga því.‘“ (Mark. 8:34, 35) Jesús var í þann mund að fórna lífi sínu og hann ætlaðist einnig til þess að fylgjendur sínir væru reiðubúnir að fórna lífinu í þjónustu Guðs. Ef þeir gerðu það myndu þeir hljóta mikil laun. — Lestu Matteus 16:27.

3. (a) Hvaða spurninga spurði Jesús áheyrendur sína? (b) Á hvað hefur síðari spurning Jesú ef til vill minnt áheyrendur hans?

3 Síðan spurði Jesús tveggja umhugsunarverðra spurninga: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ (Mark. 8:36, 37) Svarið við fyrri spurningunni er augljóst frá mannlegum bæjardyrum séð. Það kemur manninum að engu gagni að eignast allan heiminn ef hann glatar sál sinni, það er að segja lífinu. Eignir eru gagnslausar nema maður sé lifandi til að njóta þeirra. Seinni spurningin: „Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ hefur kannski minnt áheyrendur Jesú á aðdróttanir Satans á dögum Jobs: „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ (Job. 2:4) Það sem Satan sagði gildir kannski um suma sem tilbiðja ekki Jehóva. Margir myndu gera hvað sem er og brjóta allar siðferðisreglur til að bjarga lífi sínu. En kristnir menn taka aðra afstöðu.

4. Af hverju hafa spurningar Jesú dýpri merkingu í hugum kristinna manna?

4 Við vitum að Jesús kom ekki til jarðar til að gefa okkur ríkidæmi eða veita okkur heilbrigði og langlífi í þessum heimi. Hann kom til að gefa okkur tækifæri til að hljóta eilíft líf í nýja heiminum, og það er okkur afar mikils virði að eiga þá von. (Jóh. 3:16) Kristinn maður skilur fyrri spurningu Jesú svo: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata voninni um eilíft líf?“ Það er auðvitað til einskis. (1. Jóh. 2:15-17) Til að hjálpa okkur að svara síðari spurningu Jesú gætum við kannski spurt okkur: Hve miklu viljum við fórna núna til að tryggja okkur vonina um líf í nýja heiminum? Svarið sést af því hvernig við lifum og leiðir í ljós hve sterk vonin er í hjörtum okkar. — Samanber Jóhannes 12:25.

5. Hvernig getum við hlotið eilíft líf?

5 Jesús átti auðvitað ekki við það að við getum áunnið okkur eilíft líf. Lífið er gjöf frá Guði — jafnvel þessi stutta ævi sem við eigum í þessu heimskerfi. Við getum ekki keypt okkur líf eða gert nokkurn skapaðan hlut til að verðskulda það. Eina leiðin til að hljóta eilíft líf er að taka „trú á Krist Jesú“ og Jehóva sem ‚umbunar þeim er leita hans‘. (Gal. 2:16; Hebr. 11:6) En trúin þarf að birtast í verkum vegna þess að „trúin [er] dauð án verka“. (Jak. 2:26) Þegar við ígrundum spurningu Jesú ættum við þess vegna að hugleiða alvarlega hve miklu við séum tilbúin til að fórna í þessu heimskerfi og hvað við séum fús til að gera í þjónustu Jehóva til að sýna að trú okkar sé lifandi.

„Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig“

6. Hvað lét Jesús ganga fyrir í lífinu?

6 Í stað þess að horfa löngunaraugum á það sem heimur samtíðarinnar hafði upp á að bjóða einbeitti Jesús sér að því sem máli skipti. Hann stóðst freistinguna að afla sér efnislegra hluta og lifa þægilegu lífi. Hann var fórnfús og hlýðinn Guði. Hann hugsaði ekki um sjálfan sig heldur sagði: „Ég geri ætíð það sem [Guði] þóknast.“ (Jóh. 8:29) Hve miklu var Jesús tilbúinn að fórna til að þóknast Guði?

7, 8. (a) Hvaða fórn færði Jesús og hvernig var honum launað? (b) Um hvað ættum við að spyrja okkur?

7 Einhverju sinni sagði Jesús við lærisveinana: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Matt. 20:28) Þegar Jesús byrjaði að búa fylgjendur sína undir það að hann yrði bráðlega að „gefa líf sitt“ hafði Pétur sagt að hann yrði að hlífa sér og mætti ekki láta það gerast. En Jesú varð ekki haggað. Hann gaf fúslega fullkomið líf sitt í þágu mannkyns. Framtíð hans var örugg af því að hann var fórnfús. Hann var reistur upp frá dauðum og „hafinn upp til hægri handar Guðs“. (Post. 2:32, 33) Hann er okkur frábær fyrirmynd.

8 Páll postuli hvatti kristna menn í Róm til að ‚hugsa ekki aðeins um sjálfa sig‘ og minnti þá á að ‚Kristur hafi ekki hugsað um sjálfan sig‘. (Rómv. 15:1-3) Í hvaða mæli erum við tilbúin til að líkja eftir Kristi og vera fórnfús eins og Páll hvatti til?

Jehóva vill að við gefum okkar besta

9. Hvað er kristinn maður í rauninni að gera þegar hann vígist Guði?

9 Samkvæmt ákvæðum Móselaganna átti að veita hebreskum þrælum í Forn-Ísrael frelsi annaðhvort á sjöunda ári eða á fagnaðarárinu. En þeir gátu líka valið að gera annað. Ef þræll elskaði eiganda sinn gat hann ákveðið að vera þræll á heimili hans til æviloka. (Lestu 5. Mósebók 15:12, 16, 17.) Við tökum sambærilega ákvörðun þegar við vígjumst Guði. Við föllumst fúslega á að gera vilja hans í stað þess að láta eigin tilhneigingar ráða ferðinni. Þannig sýnum við Jehóva hve heitt við elskum hann og að við þráum að þjóna honum að eilífu.

10. Af hverju á Guð okkur og hvaða áhrif ætti það að hafa á hugarfar okkar og hátterni?

10 Þú átt hrós skilið ef þú ert að kynna þér Biblíuna með hjálp votta Jehóva, boðar fagnaðarerindið og sækir safnaðarsamkomur. Vonandi finnurðu fljótlega hvöt hjá þér til að vígjast Jehóva og spyrja: „Hvað hamlar mér að skírast?“ eins og Eþíópíumaðurinn spurði Filippus. (Post. 8:35, 36) Þá eignast þú sams konar samband við Guð og Páll talaði um þegar hann skrifaði: „Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt.“ (1. Kor. 6:19, 20) Jehóva á okkur ef við höfum vígst honum og gildir þá einu hvort við höfum von um að lifa á himnum eða jörð. Það er því ákaflega mikilvægt að berjast gegn eigingjörnum löngunum og vera ekki lengur „þrælar manna“. (1. Kor. 7:23) Er ekki einstakt að mega vera dyggur þjónn Jehóva sem hann getur notað eins og hann vill?

11. Hvaða fórn eru kristnir menn hvattir til að færa og hvað þýðir það, samanber fórnirnar sem færðar voru meðan Móselögin voru í gildi?

11 Páll hvatti trúsystkini sín: „Bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Rómv. 12:1) Þessi hvatning kann að hafa minnt kristna Gyðinga á fórnirnar sem höfðu verið þáttur í tilbeiðslu þeirra áður en þeir tóku að fylgja Jesú. Þeir vissu að samkvæmt Móselögunum urðu dýr, sem var fórnað á altari Jehóva, að vera þau bestu sem völ var á. Dýr var aðeins hæft til fórnar ef það var gallalaust. (Mal. 1:8, 13) Hið sama gildir þegar við bjóðum fram sjálf okkur að ‚lifandi fórn‘. Við gefum Jehóva það besta, ekki bara afganginn þegar við erum búin að gera allt sem okkur langar til. Þegar við vígjumst Guði gefum við honum líf okkar skilyrðislaust, þar á meðal krafta okkar, eignir og hæfileika. (Kól. 3:23) Hvað er fólgið í því?

Notaðu tímann viturlega

12, 13. Hvernig getum við meðal annars gefið Jehóva okkar besta?

12 Við getum meðal annars gefið Jehóva okkar besta með því að nota tímann viturlega. (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Það kostar sjálfsögun. Heimurinn og ófullkomleikinn, sem við höfum fengið í arf, veldur því að við höfum tilhneigingu til að nota tímann eingöngu í það sem okkur finnst skemmtilegt eða við höfum hag af. Víst er það svo að „öllu er afmörkuð stund“ og það gildir einnig um afþreyingu og um atvinnu sem gerir okkur kleift að rækja kristnar skyldur okkar. (Préd. 3:1) Vígður kristinn maður þarf þó að sýna gott jafnvægi og nota tímann viturlega.

13 Þegar Páll kom til Aþenu veitti hann athygli að „allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli“. (Post. 17:21) Margir sóa líka tímanum nú á dögum. Sjónvarpið, tölvuleikir og Netið geta gleypt mikinn tíma svo dæmi sé tekið. Alls konar afþreyingarefni keppir um tíma okkar og athygli. Ef við látum undan er hætta á að við vanrækjum andlegar þarfir okkar. Við gætum jafnvel talið okkur trú um að við höfum ekki tíma til að sinna ‚þeim hlutum sem máli skipta‘ — það er að segja þjónustunni við Jehóva. — Fil. 1:9, 10.

14. Hvaða spurningar ættum við að hugleiða alvarlega?

14 Vígður þjónn Jehóva ætti þar af leiðandi að spyrja sig: Gef ég mér tíma daglega til að lesa í Biblíunni, hugleiða og biðja? (Sálm. 77:13; 119:97, 1. Þess. 5:17) Ætla ég mér tíma til að búa mig undir safnaðarsamkomur? Hvet ég aðra með því að svara á samkomum? (Sálm. 122:1; Hebr. 2:12) Í orði Guðs segir að Páll og Barnabas hafi verið „alllangan tíma“ í Íkóníum og ‚talað einarðlega í trausti til Drottins‘. (Post. 14:3) Gætirðu skapað þér svigrúm til að nota meiri tíma, jafnvel „alllangan tíma“, til að boða fagnaðarerindið? Gætirðu gerst brautryðjandi? — Lestu Hebreabréfið 13:15.

15. Hvernig nota safnaðaröldungar tímann viturlega?

15 Þegar Páll postuli og Barnabas heimsóttu kristna söfnuðinn í Antíokkíu „dvöldust þeir . . . alllengi þar hjá lærisveinunum“ til að hvetja þá og uppörva. (Post. 14:28) Safnaðaröldungar nú á tímum nota sömuleiðis töluverðan tíma til að styrkja aðra. Auk þess að boða fagnaðarerindið leggja þeir sig fram við að gæta hjarðarinnar, leita týndra sauða, aðstoða sjúka og sinna mörgum öðrum skyldum innan safnaðarins. Ertu skírður bróðir? Ertu þá í aðstöðu til að sækjast eftir slíku ábyrgðarstarfi í söfnuðinum?

16. Hvernig höfum við tækifæri til að gera trúsystkinum okkar gott?

16 Margir hafa ánægju af því að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir tjóni vegna náttúruhamfara eða af mannavöldum. Systir á sjötugsaldri, sem starfar á Betel, ferðaðist nokkrum sinnum um langan veg til að sinna hjálparstarfi. Af hverju notaði hún fríið sitt til þess? Hún svarar: „Ég hef að vísu enga fagkunnáttu en mér fannst það vera heiður að mega gera hvaðeina sem þörf var á. Það var mjög uppörvandi fyrir mig að sjá hve sterka trú bræður og systur sýndu sem höfðu orðið fyrir miklu eignatjóni.“ Þúsundir bræðra og systra um heim allan leggja sitt af mörkum til að byggja ríkissali og mótshallir. Með því að taka þátt í slíku höfum við tækifæri til að sýna óeigingirni og gera trúsystkinum okkar gott. — Gal. 6:10.

„Ég er með yður alla daga“

17. Hverju ert þú tilbúinn að fórna til að hljóta eilíft líf?

17 Mannlegt samfélag í heild er fráhverft Guði og er í þann mund að farast. Við vitum ekki með vissu hvenær það gerist. Hitt vitum við að „tíminn er orðinn naumur“ og „heimurinn í núverandi mynd líður undir lok“. (Lestu 1. Korintubréf 7:29-31.) Þessi staðreynd gefur spurningu Jesú: „Hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“ enn meira vægi. Við færum að sjálfsögðu hverja þá fórn, sem Jehóva fer fram á, til að geta höndlað „hið sanna líf“. (1. Tím. 6:19) Það er ákaflega mikilvægt að fylgja Jesú staðfastlega og leita fyrst ríkis Guðs eins og hann hvatti til. — Matt. 6:31-33; 24:13.

18. Hverju getum við treyst og af hverju?

18 Það er ekki alltaf auðvelt að fylgja Jesú, og það hefur kostað suma lífið í þessu heimskerfi eins og hann varaði við. Við líkjum engu að síður eftir Jesú og stöndumst þá freistingu að hlífa okkur. Við treystum loforðinu sem hann gaf andasmurðum fylgjendum sínum á fyrstu öld: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:20) Við skulum því nota tíma okkar og hæfileika eins vel og við getum í þjónustu Guðs. Þannig látum við í ljós að við treystum að Jehóva verndi okkur gegnum þrenginguna miklu eða reisi okkur aftur upp til lífs í nýja heiminum. (Hebr. 6:10) Þá sýnum við hve mikils við metum lífið sem við höfum fengið að gjöf.

Hvert er svarið?

• Hvernig sýndi Jesús hve fús hann var til að þjóna Guði og mönnum?

• Af hverju ættum við að afneita sjálfum okkur og hvernig gerum við það?

• Hvers konar fórnum hafði Jehóva velþóknun á í Forn-Ísrael og hvað lærum við af því?

• Hvernig getum við notað tímann viturlega?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 26]

Jesús gerði alltaf það sem Guð hafði velþóknun á.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Þakklátir Ísraelsmenn gáfu sitt besta til að styðja sanna tilbeiðslu.

[Myndir á blaðsíðu 29]

Við þóknumst Guði með því að nota tímann viturlega.