Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er styrkur minn

Jehóva er styrkur minn

Jehóva er styrkur minn

Segir frá: Joan Coville

Ég fæddist í júlí 1925 í Huddersfield á Englandi. Ég var einkabarn og heilsuveil. Faðir minn var vanur að segja: „Vindurinn má ekki blása á þig þá verður þú veik.“ Það virtust orð að sönnu!

ÞEGAR ég var barn báðu prestar ákaft fyrir friði en þegar síðari heimsstyrjöldin braust út báðu þeir fyrir sigri. Þetta var mér ráðgáta og efasemdir vöknuðu hjá mér. Einmitt um þetta leyti kom Annie Ratcliffe við hjá okkur en hún var eini votturinn á svæðinu.

Ég kynnist sannleikanum

Annie skildi eftir hjá okkur bókina Salvation og bauð mömmu að hlusta á biblíulega umræðu sem átti að fara fram á heimili Annie. * Mamma bað mig um að koma með sér. Ég man enn eftir fyrsta umræðuefninu. Það fjallaði um lausnargjaldið og mér til undrunar var umræðan alls ekki leiðinleg. Hún veitti mér svör við mörgum spurningum. Vikuna eftir mættum við aftur. Þá var útskýrður spádómur Jesú um tákn síðustu daga. Þegar við mamma hugleiddum hið illa ástand í heiminum skildum við strax að þetta var sannleikurinn. Þennan sama dag var okkur boðið að koma á samkomu í ríkissalnum.

Í ríkissalnum hitti ég nokkrar ungar brautryðjendasystur og meðal þeirra var Joyce Barber (nú Ellis) sem þjónar enn á Betelheimilinu í Lundúnum ásamt Peter, eiginmanni sínum. Mér skildist að allir væru brautryðjendur. Ég fór því strax að boða fagnaðarerindið í 60 klukkustundir á mánuði þó að ég væri enn í skóla.

Fimm mánuðum síðar, 11. febrúar 1940, létum við mamma skírast á svæðismóti í Bradford. Pabbi umbar þessa nýfundnu trú okkar en hann varð aldrei vottur Jehóva. Um það leyti sem ég lét skírast var byrjað að vitna fyrir fólki á götuhornum. Ég tók þátt í því og hélt á auglýsingaspjöldum og tösku með ritum. Einn laugardaginn var mér úthlutaður staður á verslunarsvæði þar sem umferðin var einna mest. Ég var enn haldin ótta við menn og það kom á daginn að svo virtist sem allir skólafélagar mínir færu um hornið þar sem ég stóð!

Árið 1940 þurfti að skipta söfnuðinum sem við vorum í. Eftir það voru næstum allir jafnaldrar mínir í hinum söfnuðinum. Ég kvartaði yfir þessu við umsjónarmanninn í forsæti. Hann sagði: „Ef þig langar til að eignast félaga á þínum aldri skaltu leita þá uppi í boðunarstarfinu.“ Og það var nákvæmlega það sem ég gerði! Stuttu síðar hitti ég Elsie Noble. Hún tók við sannleikanum og hefur verið vinkona mín upp frá því.

Brautryðjandastarfið var mikil blessun

Eftir að ég lauk skólagöngu vann ég hjá endurskoðanda. En þegar ég sá gleði þeirra sem þjónuðu Jehóva í fullu starfi fékk ég sterka löngun til að þjóna honum sem brautryðjandi. Í maí 1945 hlaust mér sú ánægja að byrja að starfa sem sérbrautryðjandi. Fyrsta daginn rigndi látlaust. Samt var ég svo ánægð að vera úti í boðunarstarfinu að rigningin skipti mig engu máli. Það hafði reyndar góð áhrif á heilsuna að vera úti alla daga og fá daglega þjálfun á hjólinu í boðunarstarfinu. Þótt ég hafi aldrei orðið þyngri en 42 kíló kom aldrei til að ég þyrfti að gera hlé á brautryðjandastarfinu. Á liðnum árum hef ég í bókstaflegum skilningi upplifað að Jehóva er „styrkur minn“. — Sálm. 28:7.

Með það markmið í huga að stofna nýja söfnuði var ég sem sérbrautryðjandi send til borga og bæja þar sem enginn vottur var fyrir. Fyrst starfaði ég í þrjú ár á Englandi og síðan þrjú ár á Írlandi. Þegar ég starfaði í Lisburn á Írlandi fékk ég tækifæri til að lesa með manni sem var aðstoðarprestur í mótmælendakirkju. Þegar hann kynntist sannleikanum um grundvallarkenningar Biblíunnar lét hann söfnuð sinn njóta þessarar nýju þekkingar. Nokkrir í söfnuðinum kvörtuðu til stjórnar safnaðarins og aðstoðapresturinn var auðvitað beðinn um skýringar. Hann sagði að sér fyndist það vera kristileg skylda sín að segja söfnuðinum að hann hefði kennt honum margar falskenningar. Þó að fjölskylda hans hafi staðið harkalega gegn honum vígði hann líf sitt Jehóva og þjónaði honum trúfastlega allt til dauðadags.

Þegar mér var úthlutað annað brautryðjandasvæðið á Írlandi starfaði ég ein míns liðs í sex vikur í bænum Larne. Samstarfsfélagi minn var staddur í New York á mótinu „Vöxtur safnaðar Guðs“ árið 1950. Þetta var erfiður tími. Mig dauðlangaði að vera á mótinu. Þessar vikur upplifði ég samt nokkur skemmtileg atvik í starfinu. Ég hitti eldri mann sem hafði þegið eitt af ritum safnaðarins fyrir meira en 20 árum. Hann hafði lesið það svo mörgum sinnum að hann kunni það næstum utanbókar. Hann tók á móti sannleikanum ásamt syni sínum og dóttur.

Nám í Gíleaðskólanum

Árið 1951 var mér, ásamt tíu öðrum brautryðjendum frá Englandi, boðið að sækja 17. bekk Gíleaðskólans í South Lansing í New York. Ég naut út í ystu æsar tilsagnarinnar sem við fengum í Biblíunni þessa mánuði. Systur voru ekki skráðar í Boðunarskóla heimasafnaðanna á þeim tíma en í Gíleaðskólanum fengum við að flytja nemendaræður og segja frásögur. En hvað við vorum taugaóstyrkar! Alla fyrstu ræðuna, sem ég flutti, skalf höndin sem hélt á minnisblaðinu. Leiðbeinandinn, bróðir Maxwell Friend, sagði í gamansömum tón: „Þú varst ekki bara taugaóstyrk í byrjun, eins og allir góðir ræðumenn, heldur varstu taugaóstyrk allt til enda.“ Á námskeiðinu tókum við öll framförum í að tjá okkur fyrir framan nemendahópinn. Okkur fannst tíminn líða allt of fljótt. Áður en varði vorum við nemendurnir búnir að fá verkefni í ýmsum löndum. Mér var falið að fara til Taílands.

„Broslandið“

Ég lít á það sem gjöf frá Jehóva að Astrid Anderson var falið að starfa með mér sem trúboði í Taílandi. Það tók okkur sjö vikur að komast þangað með flutningaskipi. Þegar við komum til höfuðborgarinnar Bangkok blasti við okkur borg með erilsömum markaðstorgum og skurðum sem voru umferðaræðar borgarinnar. Árið 1952 voru boðberar Guðsríkis í Taílandi innan við 150.

Þegar við sáum fyrst blaðið Varðturninn á taílensku veltum við fyrir okkur hvenær í ósköpunum okkur myndi takast að lesa og tala þetta tungumál. Það var sérstaklega erfitt að segja orðin rétt á þessu tónamáli. Til dæmis þegar orðið khaù er sagt með fyrsta tóninn háan og síðan fallandi merkir það „hrísgrjón“ en sama orðið sagt með djúpum tóni merkir „fréttir“. Þegar við vorum í boðunarstarfinu vorum við sífellt að segja fólki: „Ég flyt þér góð hrísgrjón“ í staðinn fyrir „góðar fréttir“! En smám saman — og eftir mikinn hlátur — tókst okkur að læra tungumálið.

Taílendingar eru mjög vingjarnlegir. Því hefur Taíland verið kallað Broslandið. Okkur var fyrst falið að starfa í borginni Khorat (sem nú heitir Nakhon Ratchasima) en þar störfuðum við í tvö ár. Síðan vorum við sendar til borgarinnar Chiang Mai. Flestir Taílendingar eru búddatrúar og þekkja ekki Biblíuna. Í Khorat hjálpaði ég póstmeistaranum að kynna sér hana. Við töluðum um ættföðurinn Abraham. Maðurinn hafði heyrt nafnið Abraham áður og kinkaði ákaft kolli. Ég komst þó fljótlega að raun um að við vorum ekki að tala um sama manninn. Póstmeistarinn var með Abraham Lincoln í huga, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna!

Við höfðum yndi af því að fræða einlæga Taílendinga um Biblíuna en um leið kenndu þeir okkur hvernig hægt er að vera hamingjusamur með því að lifa einföldu lífi. Sá lærdómur var dýrmætur því að á fyrsta trúboðsheimilinu í Khorat höfðum við hvorki rafmagn né rennandi vatn. Á slíkum stöðum kynntumst við því „að hafa allsnægtir og líða skort“. Líkt og Páll postuli reyndum við hvað það var að ‚megna allt fyrir hjálp hans sem okkur styrk gerir‘. — Fil. 4:12, 13.

Nýr félagi og nýtt starfssvæði

Árið 1945 kom ég aftur til Lundúna. Meðan á dvölinni stóð heimsótti ég British Museum með nokkrum öðrum brautryðjendum og Betelítum. Einn af þeim var Allan Coville sem stuttu síðar fór í 11. bekk Gíleaðskólans. Hann var sendur til Frakklands og síðan til Belgíu. * Síðar meir, meðan ég var enn að starfa sem trúboði í Taílandi, bað hann mín og ég tók bónorðinu.

Við vorum gefin saman í Brussel 9. júlí 1955. Mig hafði alltaf dreymt um að fara til Parísar í brúðkaupsferð. Allan kom því þannig fyrir að við færum þangað á mót í vikunni sem var fram undan. En um leið og við komum á staðinn var Allan beðinn um að hjálpa til við að túlka meðan á mótinu stæði. Á hverjum degi varð hann að fara snemma af stað og við komum aftur á gististaðinn seint að kvöldi. Ég eyddi að vísu hveitibrauðsdögunum í París en ég sá Allan að mestu leyti úr fjarlægð — á sviðinu! Ég var samt ánægð að sjá að maðurinn, sem ég var nýbúin að giftast, var notaður til að þjóna bræðrum sínum og systrum. Ef Jehóva yrði mikilvægasti þátturinn í hjónabandi okkar efaðist ég ekki um að við yrðum hamingjusöm.

Hjónabandið hafði einnig í för með sér nýtt starfssvæði fyrir mig — Belgíu. Ég vissi fátt um landið annað en að þar hafði verið vígvöllur í nokkrum styrjöldum. En ég komst fljótt að raun um að flestir Belgar eru friðelskandi fólk. Þetta nýja starfssvæði fól einnig í sér að ég varð að læra frönsku en hún er töluð í suðurhluta landsins.

Árið 1955 voru um 4500 boðberar í Belgíu. Í næstum 50 ár þjónuðum við Allan á Betel og í farandhirðisstarfi. Fyrstu tvö og hálft árið ferðuðumst við hjólandi upp og niður hæðirnar í alls konar veðráttu. Með árunum höfum við gist á meira en 2000 vottaheimilum! Ég hitti oft bræður og systur sem voru líkamlega veikburða en þjónuðu Jehóva með öllum þeim styrk sem þau höfðu. Fordæmi þeirra var mér hvatning til að gefast ekki upp í þjónustunni. Í lok hverrar viku fannst okkur alltaf uppörvandi að hafa heimsótt einhvern söfnuðinn. (Rómv. 1:11, 12) Allan var sannkallaður félagi. Það sem segir í Prédikaranum 4:9,10 er satt og rétt: „Betri eru tveir en einn . . . Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“

Ævilöng þjónusta með styrk frá Jehóva

Með árunum höfum við Allan notið margs konar ánægju við að hjálpa öðrum að þjóna Jehóva. Til dæmis heimsóttum við franska söfnuðinn í Antwerpen árið 1983. Þar bjuggum við hjá fjölskyldu sem hýsti einnig Benjamin Bandiwila, ungan bróður frá Saír (nú Alþýðulýðveldið Kongó). Benjamin hafði flust til Belgíu til að leita sér æðri menntunar. Hann sagði við okkur: „Ég öfunda ykkur af lífsstefnu ykkar, sem er algerlega helguð þjónustunni við Jehóva.“ Allan svaraði: „Þú segist öfunda okkur og samt stefnir þú að veraldlegum starfsframa. Finnst þér það ekki mótsagnakennt?“ Þessi vafningalausa athugasemd leiddi huga Benjamins að eigin lífsstefnu. Þegar hann fór síðar meir aftur til Saír varð hann brautryðjandi og núna starfar hann í deildarnefndinni.

Árið 1999 gekkst ég undir uppskurð til að fjarlægja meinsemd í vélinda. Síðan hef vegið 30 kg. Ég er ósköp brothætt ‚leirker‘. Ég er samt þakklát Jehóva fyrir að geta sýnt „að krafturinn mikli kemur frá Guði“. Eftir uppskurðinn gat ég með hjálp Jehóva fylgt Allan aftur í farandhirðisstarfinu. (2. Kor. 4:7) Þá gerðist það í mars 2004 að Allan lést í svefni. Ég sakna hans mjög mikið en það er huggun harmi gegn að vita að Jehóva mun minnast hans.

Ég er nú 83 ára og á að baki meira en 63 ár í fullu starfi. Ég er enn í boðunarstarfinu, stýri heimabiblíunámskeiði og leita daglega tækifæra til að segja frá hinni dásamlegu fyrirætlun Jehóva. Stundum velti ég því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði ekki gerst brautryðjandi 1945. Þá virtist heilsuleysi mitt fullgild ástæða fyrir því að láta það vera. Ég er samt mjög þakklát fyrir að ég gerðist brautryðjandi þegar ég var ung. Ég hef kynnst því af eigin raun að þegar við höfum Jehóva í fyrsta sæti verður hann styrkur okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Bókin Salvation var gefin út árið 1939. Hún er nú ófáanleg.

^ gr. 22 Ævisaga bróður Coville birtist í Varðturninum á ensku 15. mars 1961.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Með Astrid Anderson, trúboðsfélaga mínum (til hægri).

[Mynd á blaðsíðu 18]

Í farandhirðisstarfinu með eiginmanni mínum árið 1956.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Við Allan árið 2000.