Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva fylgist með okkur til að veita okkur hjálp

Jehóva fylgist með okkur til að veita okkur hjálp

Jehóva fylgist með okkur til að veita okkur hjálp

„Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ — 2. KRON. 16:9.

1. Af hverju rannsakar Jehóva okkur?

JEHÓVA er fullkominn faðir. Hann skilur okkur svo vel að sagt er að hann ‚þekki allar hugsanir‘ okkar. (1. Kron. 28:9) En hann fylgist ekki aðeins með okkur til að finna að. (Sálm. 11:4; 130:3) Hann vill í kærleika sínum vernda okkur gegn öllu sem gæti skaðað samband okkar við hann eða orðið til þess að við glötum voninni um eilíft líf. — Sálm. 25:8-10, 12, 13.

2. Hverjum kemur Jehóva til hjálpar?

2 Jehóva er almáttugur og sér allt. Þess vegna getur hann komið trúum þjónum sínum til hjálpar hvenær sem þeir ákalla hann og styrkt þá í raunum þeirra. „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann,“ segir í 2. Kroníkubók 16:9. Taktu eftir að Jehóva notar mátt sinn í þágu þeirra sem eru heils hugar við hann, það er að segja þjóna honum af hreinu og einlægu hjarta. Hann sýnir hræsnurum eða svikurum hins vegar enga slíka umhyggju. — Jós. 7:1, 20, 21, 25; Orðskv. 1:23-33.

Göngum með Guði

3, 4. Hvað þýðir það að ‚ganga með Guði‘ og hvaða dæmi í Biblíunni varpa ljósi á þetta orðalag?

3 Mörgum finnst óhugsandi að skapari hins víðáttumikla alheims leyfi mönnum að ganga sér við hlið í andlegum skilningi. En það er einmitt það sem Jehóva vill að við gerum. Á biblíutímanum gengu Enok og Nói með Guði. (1. Mós. 5:24; 6:9) Móse „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Hebr. 11:27) Davíð konungi leið eins og hann gengi við hlið föður síns á himnum. Hann sagði í auðmýkt: „Þegar [Drottinn] er mér til hægri handar hnýt ég ekki.“ — Sálm. 16:8.

4 Að sjálfsögðu getum við ekki bókstaflega tekið í hönd Jehóva og gengið við hlið hans. En við getum gert það í táknrænum skilningi. Hvernig? Sálmaritarinn Asaf skrifaði: „Ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína, þú leiðir mig eftir ályktun þinni.“ (Sálm. 73:23, 24) Í stuttu máli má segja að við göngum með Jehóva þegar við fylgjum í öllu ráðleggingum hans, sem við fáum aðallega í rituðu orði hans og fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. — Matt. 24:45; 2. Tím. 3:16.

5. Í hvaða skilningi fylgist Jehóva með trúföstum þjónum sínum og hvernig ættum við að líta á hann?

5 Jehóva þykir innilega vænt um þá sem ganga við hlið hans og því hefur hann auga með þeim eins og ástríkur faðir. Þannig getur hann annast þá, verndað og kennt þeim. „Ég vil fræða þig,“ segir Guð, „vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ (Sálm. 32:8) Spyrðu þig: Sé ég sjálfan mig ganga með Jehóva, halda í hönd hans og hlýða á visku hans? Geri ég mér grein fyrir því að hann fylgist með mér og hefur sú vitneskja áhrif á hugsanir mínar, orð og verk? Og þegar mér verður á, sé ég þá Jehóva fyrir mér sem fáskiptinn og strangan Guð eða sem hlýlegan og miskunnsaman föður sem vill hjálpa iðrandi þjónum sínum að öðlast aftur náið samband við sig? — Sálm. 51:19.

6. Hvað hefur Jehóva umfram mennska foreldra?

6 Stundum kemur Jehóva okkur til hjálpar jafnvel áður en við tökum ranga stefnu. Hann sér kannski að hjarta okkar, sem getur verið svikult, fer að þrá óviðeigandi hluti. (Jer. 17:9) Við slíkar aðstæður er hann fær um að bregðast fyrr við en mennskir foreldrar því að augu hans sjá innstu hvatir okkar og rannsaka dýpstu hugsanir okkar. (Sálm. 11:4; 139:4; Jer. 17:10) Tökum sem dæmi viðbrögð Guðs þegar vissar aðstæður komu upp í lífi Barúks en hann var ritari Jeremía spámanns og náinn vinur hans.

Jehóva reyndist Barúk sannur faðir

7, 8. (a) Hver var Barúk og hvaða hættulega hugarfar fór ef til vill að gera vart við sig hjá honum? (b) Hvernig sýndi Jehóva Barúk föðurlega umhyggju?

7 Ritarinn Barúk vann trúfastlega með Jeremía að verkefni sem reyndist mjög erfitt — að boða Júdamönnum dómsboðskap Jehóva. (Jer. 1:18, 19) Barúk tilheyrði ef til vill vel stæðri fjölskyldu og á vissum tímapunkti fór hann að ætla sér „mikinn hlut“. Kannski fór hann að ala með sér framagirni eða þrá efnislega velmegun. Hvað svo sem það var tók Jehóva eftir þessu hættulega hugarfari sem gerði vart við sig hjá Barúk. Jehóva tók strax á málinu og fyrir milligöngu Jeremía sagði hann við Barúk: „Þú hefur sagt: Vei mér því að Drottinn bætir kvíða við kvöl mína. Ég er orðinn örmagna af andvörpum mínum og finn enga hvíld.“ Síðan sagði Guð: „Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því.“ — Jer. 45:1-5.

8 Þótt Jehóva væri ákveðinn við Barúk var hann ekki reiður við hann heldur sýndi honum föðurlega umhyggju. Guð sá greinilega að hugarfar mannsins bar ekki vitni um spillt eða svikult hjarta. Jehóva vissi líka að þetta voru síðustu dagar Jerúsalem og Júda og vildi ekki að Barúk hrasaði á þessum mikilvæga tíma. Til að hjálpa þjóni sínum að sjá hlutina í réttu ljósi minnti Guð hann á að hann myndi senda „ógæfu yfir allt dauðlegt“ og bætti við að ef Barúk breytti viturlega myndi hann lifa. (Jer. 45:5) Í rauninni var Guð að segja: „Vertu raunsær Barúk. Gleymdu ekki því sem mun bráðum koma yfir synduga íbúa Júda og Jerúsalem. Vertu trúfastur og þá muntu lifa. Ég mun vernda þig.“ Jehóva náði greinilega til hjarta Barúks því að hann brást vel við og lifði af eyðingu Jerúsalem 17 árum síðar.

9. Hvernig myndirðu svara spurningunum í greininni?

9 Hugleiddu eftirfarandi spurningar og ritningarstaði í tengslum við frásöguna af Barúk: Hvað má læra um Jehóva og tilfinningar hans í garð þjóna sinna af framkomu hans við Barúk? (Lestu Hebreabréfið 12:9.) Hvað getum við lært af leiðbeiningunum sem Guð gaf Barúk og af viðbrögðum Barúks í ljósi þeirra erfiðu tíma sem við lifum á? (Lestu Lúkas 21:34-36.) Hvernig geta safnaðaröldungar líkt eftir Jeremía og endurspeglað umhyggju Jehóva í garð þjóna sinna? — Lestu Galatabréfið 6:1.

Kærleikur föðurins birtist í syninum

10. Hvað gerir Jesú kleift að sinna stöðu sinni sem höfuð safnaðarins?

10 Fyrir daga kristninnar birtist kærleikur Jehóva til þjóna sinna fyrir milligöngu spámannanna og annarra trúfastra þjóna. Núna birtist hann aðallega í Jesú Kristi sem er höfuð safnaðarins. (Ef. 1:22, 23) Í Opinberunarbókinni er Jesú lýst sem lambi með „sjö augu, og eru það sjö andar Guðs sem eru sendir út um alla jörðina“. (Opinb. 5:6) Já, Jesús fær anda Guðs í fullum mæli og hefur því fullkomna dómgreind. Hann sér líka okkar innri mann og ekkert fer fram hjá honum.

11. Hvaða hlutverki gegnir Kristur og hvernig endurspeglar hann viðhorf föður síns?

11 En líkt og Jehóva er Jesús ekki lögreglumaður sem fylgist með okkur af himni ofan. Hann rannsakar okkur með augum kærleikans. Einn af titlum Jesú, „Eilífðarfaðir“, minnir okkur á það hlutverk sem hann gegnir í því að veita öllum sem trúa á hann eilíft líf. (Jes. 9:5) Sem höfuð safnaðarins getur Kristur auk þess knúið andlega þroskaða kristna menn, sérstaklega öldunga, til að veita þeim sem þurfa á því að halda huggun eða leiðbeiningar. — 1. Þess. 5:14; 2. Tím. 4:1, 2.

12. (a) Hvað má læra um Jesú af bréfunum til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu? (b) Hvernig endurspegla öldungarnir viðhorf Krists til hjarðar Guðs?

12 Kærleikur Krists til hjarðarinnar birtist í bréfunum til öldunganna í söfnuðunum sjö í Litlu-Asíu. (Opinb. 2:1–3:22) Þar kemur bæði fram að Jesús vissi hvað var að gerast í hverjum söfnuði og hve umhugað honum var um fylgjendur sína. Hið sama á við nú á dögum, bara í enn ríkari mæli, þar sem sýnin í Opinberunarbókinni uppfyllist „á Drottins degi“. * (Opinb. 1:10) Kærleikur Krists birtist oft fyrir milligöngu öldunganna en þeir þjóna sem andlegir hirðar safnaðarins. Hann getur knúið þessa menn, sem hann hefur gefið söfnuðinum, til að veita huggun, uppörvun eða leiðbeiningar þegar þess er þörf. (Ef. 4:8; Post. 20:28; lestu Jesja 32:1, 2.) Lítur þú svo á að viðleitni þeirra sé merki um persónulegan áhuga Jesú Krists á þér?

Hjálp á réttum tíma

13-15. Hvernig getur Guð bænheyrt okkur? Nefndu dæmi.

13 Hefurðu einhvern tíma fengið uppörvandi heimsókn frá andlega þroskuðu trúsystkini eftir að hafa beðið ákaft til Guðs um hjálp? (Jak. 5:14-16) Eða kannski heyrðirðu ræðu á safnaðarsamkomu eða last efni í ritunum okkar sem var þér til hjálpar. Jehóva svarar bænum oft með þessum hætti. Systir nokkur kom til dæmis að máli við öldung eftir að hann hafði flutt ræðu. Á vikunum áður hafði hún orðið fyrir hræðilegu óréttlæti. Í stað þess að kvarta yfir vandamáli sínu þakkaði hún honum innilega fyrir að hafa bent á viss biblíuleg atriði í ræðunni. Þetta efni tengdist aðstæðum hennar og var henni til mikillar huggunar. Hún var mjög ánægð að hafa sótt þessa samkomu.

14 Tökum annað dæmi um bænheyrslu. Þrír menn kynntust sannleika Biblíunnar í fangelsi og gerðust óskírðir boðberar. Í kjölfar ofbeldis, sem átti sér stað í fangelsinu, voru ýmis réttindi tekin af öllum föngunum. Það varð kveikja mótmæla. Fangarnir ákváðu að gera uppreisn með því að neita að skila diskunum sínum eftir morgunmat daginn eftir. Óskírðu boðberarnir þrír voru nú í vanda staddir. Ef þeir tækju þátt í uppreisninni væru þeir að brjóta gegn boði Jehóva í Rómverjabréfinu 13:1. Ef þeir tækju ekki þátt í henni mættu þeir búast við hefndaraðgerðum af hálfu samfanga sinna.

15 Mennirnir þrír báðu Guð um visku en gátu ekki ráðfært sig hver við annan. Morguninn eftir komust þeir að því að þeir höfðu allir tekið nákvæmlega sömu ákvörðun — að afþakka morgunmat. Þegar fangaverðirnir komu til að sækja diskana höfðu mennirnir þrír enga diska til að skila. Þeir voru innilega þakkátir fyrir að sá „sem heyrir bænir“ skuli hafa verið nálægur. — Sálm. 65:3.

Horfum örugg til framtíðar

16. Hvernig er prédikunarstarfið merki um umhyggju Jehóva fyrir hjartahreinum mönnum?

16 Alþjóðlega prédikunarstarfið er enn eitt merki um umhyggju Jehóva fyrir hjartahreinum mönnum, hvar sem þá er að finna. (1. Mós. 18:25) Jehóva hefur, oft með hjálp engla, leitt þjóna sína til auðmjúkra manna — jafnvel þótt þeir búi á svæðum þar sem ekki er búið að flytja fagnaðarerindið. (Opinb. 14:6, 7) Á fyrstu öld notaði Guð til dæmis engil til að leiða trúboðann Filippus til hirðmanns frá Eþíópíu og útskýra Ritninguna fyrir honum. Hver var árangurinn? Maðurinn tók við fagnaðarerindinu og gerðist skírður fylgjandi Jesú. * — Jóh. 10:14; Post. 8:26-39.

17. Af hverju ættum við ekki að hafa of miklar áhyggjur af framtíðinni?

17 Núna þegar þessi heimur nálgast endalok sín halda ‚fæðingarhríðarnar‘ áfram sem búið var að spá um. (Matt. 24:8) Matvælaverð gæti til dæmis hækkað töluvert vegna aukinnar eftirspurnar, öfga í veðurfari eða óstöðugleika í efnahagsmálum. Erfiðara gæti orðið að fá vinnu og starfsfólk fundið fyrir meiri þrýstingi til að vinna lengri vinnudag. Hvað sem gerist þurfum við ekki að hafa of miklar áhyggjur ef við setjum Guðsríki í fyrsta sæti og höfum ‚heilt auga‘. Við vitum að Guð elskar okkur og annast. (Matt. 6:22-34) Skoðum hvernig Jehóva sá fyrir Jeremía á þeim erfiðu dögum sem voru undanfari eyðingar Jerúsalem árið 607 f.Kr.

18. Hvernig sannaði Jehóva kærleika sinn til Jeremía þegar setið var um Jerúsalem?

18 Í seinna umsátri Babýloníumanna um Jerúsalem var Jeremía í haldi „í forgarði varðliðsins“. Hvernig myndi hann fá mat? Ef hann hefði verið frjáls hefði hann sjálfur getað leitað að mat. En nú var hann algerlega háður þeim sem voru umhverfis hann og flestir þeirra hötuðu hann. En Jeremía treysti ekki á menn heldur á Guð sem lofaði að annast hann. Stóð Jehóva við orð sín? Já, svo sannarlega. Hann sá til þess að Jeremía fengi „daglega brauð . . . þar til ekkert brauð var lengur til í borginni“. (Jer. 37:21) Jeremía, auk Barúks, Ebed Meleks og annarra, lifði af þennan tíma hungurs, sjúkdóma og dauða. — Jer. 38:2; 39:15-18.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera núna þegar við horfum til framtíðar?

19 Já, „augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans hneigjast að bænum þeirra“. (1. Pét. 3:12) Gleðst þú yfir því að augu föður þíns á himnum hvíla yfir þér? Finnur þú til öryggis þegar þú hugsar til þess að hann fylgist með þér til að veita þér hjálp? Vertu þá staðráðinn í því að halda áfram að ganga með Guði — hvað sem framtíðin ber í skauti sér. Við getum verið viss um að Jehóva er eins og umhyggjusamur faðir og fylgist vandlega með öllum þjónum sínum. — Sálm. 32:8; lestu Jesaja 41:13.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Þótt bréfin séu aðallega skrifuð til andasmurðra fylgjenda Krists eiga þau í meginatriðum erindi til allra þjóna Guðs.

^ gr. 16 Annað dæmi um að Guð stýri prédikunarstarfinu er að finna í Postulasögunni 16:6-10. Þar segir frá því að heilagur andi hafi varnað Páli og félögum hans að boða orðið í Asíu og Biþýníu. Í staðinn voru þeir kallaðir til að starfa í Makedóníu þar sem fjöldi auðmjúkra manna tók við fagnaðarerindinu.

Geturðu útskýrt?

• Hvernig sýnum við að við göngum með Guði?

• Hvernig sýndi Jehóva kærleika sinn til Barúks?

• Hvernig endurspeglar Jesús, höfuð kristna safnaðarins, eiginleika föður síns?

• Hvernig getum við sýnt að við leggjum traust okkar á Guð á þessum erfiðu tímum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Safnaðaröldungar endurspegla umhyggju Jehóva líkt og Jeremía gerði þegar hann gaf Barúk leiðbeiningar.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvernig gæti Jehóva veitt hjálp á réttum tíma?