Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leggðu þig fram um að sýna virðingu

Leggðu þig fram um að sýna virðingu

Leggðu þig fram um að sýna virðingu

„Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ — RÓMV. 12:10.

1. Hvað fyrirfinnst ekki lengur á mörgum stöðum í heiminum?

SUMS staðar í heiminum er hefð fyrir því að börn sýni fullorðnum virðingu með því að leggjast á hnén í viðurvist þeirra. Þá virðast þau ekki hærri en hinir fullorðnu. Í þessum samfélögum telst það einnig óvirðing ef barn snýr bakinu í fullorðinn. Þótt það sé auðvitað mismunandi eftir menningu hvernig virðing er sýnd minnir þetta okkur á Móselögin. Þar segir til dæmis: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og virða öldunga.“ (3. Mós. 19:32) Því miður er slík virðing fyrir öðrum víða horfin. Í staðinn hefur virðingarleysi og ókurteisi tekið við.

2. Hverja eigum við að heiðra samkvæmt Biblíunni?

2 Í Biblíunni er lögð mikil áhersla á að sýna heiður og virðingu. Þar segir að við eigum að heiðra Jehóva og Jesú. (Jóh. 5:23) Við eigum líka að sýna fjölskyldunni og trúsystkinum virðingu og það sama er að segja um ýmsa utan safnaðarins. (Rómv. 12:10; Ef. 6:1, 2; 1. Pét. 2:17) Hvernig getum við sýnt að við virðum Jehóva? Hvernig sýnum við trúsystkinum okkar heiður, eða djúpa virðingu? Lítum nánar á þessar spurningar og aðrar þeim tengdar.

Virðum Jehóva og nafn hans

3. Hvernig getum við meðal annars heiðrað Jehóva?

3 Ein mikilvæg leið til að heiðra Jehóva er að sýna nafni hans viðeigandi virðingu. Við erum ‚lýður sem ber nafn hans‘. (Post. 15:14) Það er sannur heiður að vera kenndur við nafn hins alvalda Jehóva. Míka spámaður sagði: „Aðrar þjóðir munu lifa, hver í nafni síns guðs, en vér munum lifa í nafni Drottins, Guðs vors, um aldir alda.“ (Míka 4:5) Við ‚lifum í nafni Jehóva‘ með því að leggja okkur fram á hverjum degi við að vera Jehóva og nafni hans til sóma. Ef við lifum ekki í samræmi við fagnaðarerindið, sem við flytjum fólki, komum við óorði á nafn Guðs og það verður fyrir ‚lasti‘ eins og Páll benti á í bréfi til kristinna manna í Róm. — Rómv. 2:21-24.

4. Hvernig lítur þú á þann heiður að bera vitni um Jehóva?

4 Við heiðrum líka Jehóva með því að boða fagnaðarerindið. Forðum daga bauð Jehóva Ísraelsmönnum að vera vottar sínir en þeir brugðust honum. (Jes. 43:1-12) Þeir sneru baki við Jehóva mörgum sinnum og „vanvirtu Hinn heilaga í Ísrael“. (Sálm. 78:40, 41) Að lokum missti þjóðin algerlega velþóknun Jehóva. Við erum hins vegar mjög þakklát fyrir þann heiður að mega bera vitni um Jehóva og kynna nafn hans. Við gerum það vegna þess að við elskum hann og þráum að nafn hans verði helgað. Hvernig gætum við hætt að prédika fyrst við þekkjum sannleikann um himneskan föður okkar og fyrirætlun hans? Okkur er innanbrjóst eins og Páli postula þegar hann sagði: „Ég er knúinn til þess. Vei mér ef ég boða það ekki.“ — 1. Kor. 9:16.

5. Hvaða tengsl eru á milli þess að trúa á Jehóva og virða hann?

5 Sálmaritarinn Davíð sagði: „Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita.“ (Sálm. 9:11) Ef við þekkjum Jehóva í raun og virðum það sem nafn hans stendur fyrir treystum við honum alveg eins og trúir þjónar hans til forna. Trú og traust til Jehóva er sem sagt önnur leið til að sýna honum heiður. Tökum eftir hvaða tengsl eru í Biblíunni á milli þess að treysta Jehóva og að virða hann. Þegar Ísraelsþjóðin treysti honum ekki spurði hann Móse: „Hversu lengi á þessari þjóð að leyfast að fyrirlíta mig? Hversu lengi geta þeir neitað að trúa á mig þrátt fyrir öll táknin sem ég hef gert meðal þeirra?“ (4. Mós. 14:11) Ef við hins vegar treystum því að Jehóva verndi okkur og hjálpi til að standast prófraunir sýnum við að við virðum hann.

6. Hvað fær okkur til að bera djúpa virðingu fyrir Jehóva?

6 Jesús gaf til kynna að virðing fyrir Jehóva verði að koma frá hjartanu. Hann vitnaði í orð Jehóva þegar hann sagði við þá sem tilbáðu hann að nafninu til: „Þessir menn heiðra mig með vörunum en hjarta þeirra er langt frá mér.“ (Matt. 15:8) Djúp virðing fyrir Jehóva er sprottin af einlægum kærleika til hans. (1. Jóh. 5:3) Og við skulum líka hafa í huga loforð Jehóva: „Ég heiðra þá eina sem heiðra mig.“ — 1. Sam. 2:30.

Umsjónarmenn sýna öðrum virðingu

7. (a) Af hverju ættu bræður í ábyrgðarstöðum að sýna þeim virðingu sem þeir hafa umsjón með? (b) Hvernig sýndi Páll trúsystkinum sínum virðingu?

7 Páll postuli sagði við trúsystkini sín: „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10) Bræður, sem gegna ábyrgðarstöðum í söfnuðinum, ættu að vera til fyrirmyndar með því að sýna þeim virðingu sem þeir hafa umsjón með. Þeir ættu að fylgja fordæmi Páls. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.) Bræðurnir í söfnuðunum, sem Páll heimsótti, vissu að hann myndi aldrei biðja þá um að gera eitthvað sem hann vildi ekki gera sjálfur. Páll sýndi trúsystkinum sínum virðingu og á móti ávann hann sér virðingu þeirra. Þegar Páll sagði: „Ég bið ykkur: Breytið eftir mér,“ getum við verið viss um að margir hafi brugðist vel við vegna fordæmis hans. — 1. Kor. 4:16.

8. (a) Á hvaða mikilvæga hátt sýndi Jesús lærisveinum sínum virðingu? (b) Hvernig geta umsjónarmenn fylgt fordæmi Jesú?

8 Bróðir, sem fer með umsjón, getur auk þess sýnt trúsystkinum sínum virðingu með öðrum hætti. Þegar hann biður um að eitthvað sé gert eða gefur fyrirmæli getur hann tilgreint ástæðuna. Þá líkir hann eftir Jesú. Þegar Jesús sagði lærisveinunum að biðja um fleiri verkamenn til að sinna uppskerustörfum sagði hann þeim hvers vegna þeir ættu að gera það. Hann sagði: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:37, 38) Þegar hann sagði lærisveinunum að ‚vaka‘ sagði hann þeim líka af hverju. Hann sagði: „Því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Matt. 24:42) Jesús sagði lærisveinunum ekki aðeins hvað þeir ættu að gera heldur sagði hann líka oft hvers vegna þeir ættu að gera það. Með þessum hætti sýndi hann þeim virðingu. Hann er kristnum umsjónarmönnum mjög góð fyrirmynd.

Virðum söfnuð Jehóva og forystu hans

9. Hvern heiðrum við með því að virða söfnuð Jehóva og fulltrúa hans? Skýrðu svarið.

9 Ef við ætlum að heiðra Jehóva verðum við líka að virða söfnuð hans og fulltrúa safnaðarins. Þegar við fylgjum biblíulegum leiðbeiningum frá trúa þjónshópnum sýnum við að við virðum fyrirkomulag Jehóva. Jóhannes postuli þurfti að áminna einstaklinga sem veittu umsjónarmönnum ekki viðeigandi virðingu í söfnuðinum á fyrstu öld. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 9-11.) Það er augljóst af orðum Jóhannesar að þeir báru hvorki virðingu fyrir umsjónarmönnunum sjálfum né fyrir kennslu þeirra og leiðsögn. En sem betur fer var þetta undantekning. Á meðan postularnir voru á lífi bar bræðralagið sem heild mikla virðingu fyrir þeim sem fóru með forystu. — Fil. 2:12.

10, 11. Skýrðu með hjálp Biblíunnar af hverju það er viðeigandi að sumir fari með ákveðið vald í kristna söfnuðinum.

10 Sumir hafa haldið því fram að þar sem Jesús sagði við lærisveina sína að þeir væru allir bræður eigi enginn að fara með yfirráð yfir öðrum í kristna söfnuðinum. (Matt. 23:8) En bæði í Hebresku og Grísku ritningunum eru fjölmörg dæmi um menn sem Guð veitti ákveðið vald. Saga ættfeðra, dómara og konunga meðal Forn-Hebrea sýnir svo ekki verður um villst að Jehóva fer með forystu fyrir milligöngu manna sem hann skipar fulltrúa sína. Þegar fólkið sýndi skipuðum fulltrúum Jehóva ekki viðeigandi virðingu agaði hann það. — 2. Kon. 1:2-17; 2:19, 23, 24.

11 Kristnir menn á fyrstu öldinni viðurkenndu forystu postulanna. (Post. 2:42) Til dæmis gaf Páll trúbræðrum sínum fyrirmæli. (1. Kor. 16:1; 1. Þess. 4:2) En hann var líka fús til að lúta þeim sem voru yfir hann settir. (Post. 15:22; Gal. 2:9, 10) Páll hafði rétt viðhorf til forystu í kristna söfnuðinum.

12. Hvað tvennt getum við lært af Biblíunni um forystu og umsjón?

12 Það er tvennt sem við getum lært af þessu. Í fyrsta lagi er það í samræmi við Biblíuna að hinn „trúi og hyggni þjónn“ útnefni menn í ábyrgðarstöður fyrir milligöngu hins stjórnandi ráðs. Sumir eru síðan útnefndir til að hafa umsjón með öðrum umsjónarmönnum. (Matt. 24:45-47; 1. Pét. 5:1-3) Í öðru lagi eigum við öll, líka umsjónarmenn, að virða þá sem eru yfir okkur settir. Hvernig getum við sýnt þeim virðingu sem sinna umsjónarstörfum í kristna söfnuðinum út um allan heim?

Sýnum farand- umsjónarmönnum virðingu

13. Hvernig getum við sýnt fulltrúum kristna safnaðarins virðingu?

13 Páll sagði: „Ég bið ykkur, systkin, að meta þá að verðleikum sem erfiða á meðal ykkar, veita ykkur forstöðu og kenna ykkur að lifa í samfélagi Drottins. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir starf þeirra. Lifið í friði ykkar á milli.“ (1. Þess. 5:12, 13) Farandumsjónarmenn eru vissulega í hópi þeirra sem „erfiða“ okkar á meðal. Við skulum því sýna þeim „sérstaka virðingu“. Það gerum við meðal annars með því að fylgja leiðbeiningum þeirra af heilum hug. Þegar farandumsjónarmaður flytur okkur leiðbeiningar frá trúa þjónshópnum ætti ‚spekin sem að ofan er‘ að gera okkur „sáttgjörn“ og hlýðin. — Jak. 3:17.

14. Hvernig sýnir söfnuðurinn farandumsjónarmönnum einlæga virðingu og hvaða áhrif hefur það?

14 En hvað ef við erum beðin um að fara öðruvísi að en við höfum vanist? Til að sýna virðingu gætum við stundum þurft að berjast gegn tilhneigingunni til að mótmæla og segja: „Við erum ekki vön að fara svona að hérna,“ eða „þetta gengur kannski annars staðar en ekki í söfnuðinum okkar“. Við reynum öllu heldur að fylgja leiðbeiningunum sem við fáum. Það er gott að minna sig á að söfnuðurinn tilheyrir Jehóva og að Jesús er höfuð safnaðarins. Ef við tökum fúslega við leiðbeiningum farandumsjónarmannsins og fylgjum þeim er það merki um einlæga virðingu. Páll postuli hrósaði bræðrunum í Korintu fyrir að virða og hlýða fyrirmælum sem þeir fengu þegar öldungurinn Títus heimsótti söfnuðinn. (2. Kor. 7:13-16) Við getum líka verið viss um að ef við fylgjum fúslega leiðbeiningum sem við fáum frá farandumsjónarmönnum finnum við fyrir enn meiri gleði í boðunarstarfinu. — Lestu 2. Korintubréf 13:11.

„Virðið alla menn“

15. Nefndu dæmi um hvernig við getum sýnt trúsystkinum okkar virðingu.

15 Páll skrifaði: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega heldur uppörva hann sem föður, yngri menn sem bræður, aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur með allri siðsemi. Heiðra ekkjur sem í raun og veru eru ekkjur.“ (1. Tím. 5:1-3) Í Biblíunni erum við hvött til að virða alla í kristna söfnuðinum. En hvað ef upp kemur ágreiningur milli þín og trúsystkinis? Læturðu það koma í veg fyrir að þú virðir bróður þinn eða systur? Eða gætirðu breytt viðhorfi þínu með því að gefa gaum að kristnum eiginleikum hans eða hennar? Þeir sem fara með umsjón ættu að leggja sig sérstaklega fram um að virða trúsystkini sín — en varast að drottna yfir hjörðinni. (1. Pét. 5:3) Kristni söfnuðurinn einkennist af innri kærleika og þar gefast ótal tækifæri til að sýna hvert öðru virðingu. — Lestu Jóhannes 13:34, 35.

16, 17. (a) Af hverju verðum við að virða þá sem við boðum fagnaðarerindið en líka þá sem veita okkur mótstöðu? (b) Hvernig virðum við „alla menn“?

16 Safnaðarmenn eru auðvitað ekki þeir einu sem við sýnum virðingu. Páll skrifaði kristnum mönnum á fyrstu öldinni: „Þess vegna skulum við, meðan tími er til, gera öllum gott.“ (Gal. 6:10) Það getur stundum verið þrautin þyngri að fylgja þessari meginreglu ef vinnufélagi eða skólafélagi kemur illa fram við okkur. Þá er gott að muna það sem segir í Sálmi 37:1: „Ver eigi bráður þeim sem illt vinna.“ Þetta ráð getur jafnvel hjálpað okkur að sýna þeim virðingu sem veita okkur mótstöðu. Þegar við erum í boðunarstarfinu eigum við auk þess auðveldara með að svara fólki „með hógværð og virðingu“ ef við erum lítillát. (1. Pét. 3:15, 16) Við getum meira að segja sýnt með útliti okkar og klæðaburði að við virðum þá sem við boðum fagnaðarerindið.

17 Hvort sem um er að ræða samskipti við trúsystkini eða fólk utan safnaðarins viljum við reyna að fylgja hvatningu Péturs: „Virðið alla menn, elskið samfélag þeirra sem trúa, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ — 1. Pét. 2:17.

Hvert er svarið?

Hvernig geturðu sýnt viðeigandi virðingu fyrir:

• Jehóva?

• safnaðaröldungum og farandumsjónarmönnum?

• öllum í söfnuðinum?

• þeim sem þú boðar fagnaðarerindið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Kristnir menn á fyrstu öld virtu forystu hins stjórnandi ráðs.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Öldungar um allan heim sýna farandumsjónarmönnum virðingu en þeir eru útnefndir af hinu stjórnandi ráði.