Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum Guði með ‚einu hjarta og einni sál‘

Þjónum Guði með ‚einu hjarta og einni sál‘

Þjónum Guði með ‚einu hjarta og einni sál‘

GYÐINGAR og trúskiptingar hópast kringum lærisveina Jesú Krists. Hvítasunnuhátíðin stendur yfir og þetta fólk er komið til Jerúsalem allt frá Róm í vestri og Partíu í austri. Í hópnum heyrast töluð ýmis tungumál en í mörgum tilfellum eru það lærisveinar Jesú frá Galíleu sem tala þau. Sumir hinna aðkomnu spyrja undrandi: „Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál?“ — Post. 2:8.

Pétur postuli stígur fram og skýrir fyrir mannfjöldanum þetta kraftaverk sem orðið hefur. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Þúsundir manna láta skírast. (Post. 2:41) En söfnuðurinn er sameinaður þó að hann vaxi ört. „Í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál,“ segir biblíuritarinn Lúkas. — Post. 4:32.

Þúsundir þeirra sem létu skírast á hvítasunnu árið 33 vildu framlengja dvölina í Jerúsalem til að fræðast betur um sína nýju trú. Þeir höfðu hins vegar ekki ætlað sér að dvelja svona lengi í borginni þannig að safnað var í sjóð til að hægt væri að framfleyta þeim um tíma. Sumir hinna kristnu seldu fúslega eigur sínar og afhentu postulunum andvirðið til að miðla til þeirra sem þurftu aðstoð. (Post. 2:42-47) Þetta er gott dæmi um kærleika og örlæti.

Sannkristnir menn hafa alltaf verið örlátir og kærleiksríkir. Kristni söfnuðurinn þjónar Jehóva enn þann dag í dag með ‚einu hjarta og einni sál‘. Einstaklingar gefa fúslega af tíma sínum, kröftum og fjármunum til að boða fagnaðarerindið og styðja starf Guðsríkis. — Sjá rammann „Leiðir til að styðja boðunarstarfið fjárhagslega“.

[Rammagrein á blaðsíðu 6, 7]

LEIÐIR TIL AÐ STYÐJA BOÐUNARSTARFIÐ FJÁRHAGSLEGA

Bein fjárframlög: Margir leggja til hliðar í hverjum mánuði ákveðna fjárhæð og setja hana í baukinn sem er ætlaður fyrir framlög til alþjóðastarfsins. Söfnuðirnir senda síðan þessi framlög til deildarskrifstofu Votta Jehóva.

Einstaklingar geta sent framlög beint til deildarskrifstofu Votta Jehóva, Sogavegi 71, 108 Reykjavík eða lagt þau inn á bankareikning 525-26-24564 hjá Glitni. Kennitala deildarskrifstofunnar er 591072-0219. Þeir sem vilja styðja alþjóðastarfið með reglulegum fjárframlögum og hafa aðgang að netbanka eða heimabanka geta látið bankann millifæra ákveðna upphæð með reglulegu millibili. Ef sent er framlag með ávísun á að stíla hana á deildarskrifstofu Votta Jehóva. Hvernig sem framlagið er sent væri gott að stutt skýring fylgdi með, þess efnis að um frjálst framlag sé að ræða.

Auk þess að gefa bein fjárframlög er hægt að styðja boðunarstarfið með eftirfarandi hætti:

Líftrygging: Hægt er að tilnefna söfnuð Votta Jehóva sem rétthafa bóta. Tryggingartaki þarf að eiga samráð við tryggingafélag sitt um slíka ráðstöfun.

Hlutabréf og önnur verðbréf: Hægt er að afhenda deildarskrifstofu Votta Jehóva hlutabréf og ýmis önnur verðbréf að gjöf. Hið sama er að segja um aðra lausafjármuni.

Fasteignir: Hægt er að afhenda söfnuði Votta Jehóva seljanlegar fasteignir að gjöf. Hafa skal samráð við deildarskrifstofuna áður en fasteign er ráðstafað með þeim hætti.

Erfðaskrá: Hægt er að ánafna söfnuði Votta Jehóva fasteignir eða lausafé í erfðaskrá. Erfðaskráin þarf að fullnægja opinberum formsskilyrðum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Reykjavík. Lesendur í öðrum löndum ættu að senda framlög sín til deildarskrifstofunnar í því landi þar sem þeir búa. Skrá um deildarskrifstofur og aðsetur þeirra má finna í bókum sem Vottar Jehóva gefa út.

Þjónar Jehóva þiggja ekki laun fyrir að boða fagnaðarerindið meðal almennings. Það er þakklæti sem knýr þá til að nota drjúgan tíma til að segja öðrum frá Jehóva Guði og fyrirheitum Biblíunnar. Þeir eru Guði innilega þakklátir fyrir allt sem hann hefur gert fyrir þá. Þeir eru þakklátir fyrir fagnaðarboðskapinn um ríkið sem hefur bætt líf þeirra og gefið þeim von um bjartari framtíð. Þá langar til að gefa öðrum hlutdeild í þeirri blessun sem þeir hafa sjálfir hlotið. Og þeir fylgja meginreglunni sem Jesús setti: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ (Matt. 10:8) Þá langar til að nota fjármuni sína til að hjálpa fólki nær og fjær til að kynnast Jehóva Guði og Jesú Kristi. — Post. 1:8.

Það kostar sitt að boða fagnaðarerindið og standa fyrir öflugri fræðslu út um allan heim. Meðal annars þarf að starfrækja prentsmiðjur, skrifstofur, mótshallir og trúboðsheimili. Allt er þetta kostað með frjálsum framlögum. Söfnuður Votta Jehóva leggur engar fjárhagslegar kvaðir á safnaðarmenn, og ritin, sem söfnuðurinn gefur út, eru látin af hendi endurgjaldslaust. Þeir sem vilja geta hins vegar stutt starfsemina með frjálsum framlögum.

Ritun, prentun og dreifing biblíutengdra rita kostar töluverða vinnu og fjárútlát. En þjónar Guðs bjóða sig fúslega fram til að vinna þessi verk og önnur sem unnin eru á vegum deildarskrifstofa, farandsvæða og einstakra safnaða. (Sálm. 110:3) Þeir telja það mikinn heiður að mega styðja starfsemina með þessum hætti og Jehóva Guð heiðrar þá á móti með því að líta á þá sem „samverkamenn“ sína. — 1. Kor. 3:5-9.

„Mitt er silfrið, mitt er gullið,“ segir Jehóva. (Hag. 2:8) Hann er því ekki háður fjárstuðningi okkar til að hrinda því í framkvæmd sem hann vill. Hann sýnir þjónum sínum engu að síður þann heiður að leyfa þeim að eiga þátt í að helga nafn sitt með því að stuðla að því að fagnaðarerindið sé boðað öllum þjóðum. — Matt. 24:14; 28:19, 20.