Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Jakobsbréfsins og Pétursbréfanna

Höfuðþættir Jakobsbréfsins og Pétursbréfanna

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Jakobsbréfsins og Pétursbréfanna

LÆRISVEINNINN Jakob, hálfbróðir Jesú, skrifar „tólf kynkvíslum“ hins andlega Ísraels næstum þrem áratugum eftir úthellingu heilags anda en hún átti sér stað á hvítasunnu árið 33. (Jak. 1:1) Markmið hans er það að hvetja samþjóna sína til að vera sterkir í trúnni og þolgóðir í prófraunum. Jafnframt gefur hann góð ráð til að leiðrétta ýmislegt sem farið hefur miður í söfnuðunum.

Rétt áður en ofsóknir Nerós hefjast árið 64 skrifar Pétur postuli fyrra bréf sitt til kristinna manna þar sem hann hvetur þá til að vera sterkir í trúnni. Í síðara bréfinu, sem er skrifað skömmu síðar, hvetur hann trúsystkini sín til að gefa gaum að orði Guðs og varar þau við að dagur Jehóva komi. Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að gefa gaum að því sem er að finna í bréfum Jakobs og Péturs. — Hebr. 4:12.

GUÐ GEFUR VISKU ÞEIM SEM BIÐJA Í TRÚ

(Jak. 1:1–5:20)

„Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur,“ skrifar Jakob. Ástæðan er sú að „Guð mun veita honum kórónu lífsins“. Guð gefum þeim sem ‚biðja í trú‘ þá visku sem þeir þurfa til að standast prófraunir. — Jak. 1:5-8, 12.

Þeir sem verða „kennarar“ í söfnuðinum þurfa líka á trú og visku að halda. Eftir að hafa bent á að tungan sé „lítill limur“ en geti ‚flekkað allan manninn‘ varar Jakob við veraldlegum tilhneigingum sem geta skaðað samband kristins manns við Guð. Hann bendir á hvað sá sem er „sjúkur“ í andlegum skilningi geti gert til að ná sér aftur. — Jak. 3:1, 5, 6; 5:14, 15.

Biblíuspurningar og svör:

2:13 — Hvað er átt við þegar sagt er: „Í dóminum má miskunnsemin sín mest“? Þegar við þurfum að gera Guði skil á sjálfum okkur tekur hann tillit til þess hvernig við höfum miskunnað öðrum, og fyrirgefur okkur á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Rómv. 14:12) Er það ekki gott tilefni til að temja sér miskunnsemi?

4:5 — Í hvaða ritningarstað er Jakob að vitna? Hann vitnar ekki í neitt sérstakt vers. Hins vegar má vera að þessi innblásnu orð byggist á meginhugmyndinni í 1. Mósebók 6:5 og 8:21, Orðskviðunum 21:10 og Galatabréfinu 5:17.

Lærdómur:

1:14, 15. Syndir eiga upptök sín í óviðeigandi löngunum. Við ættum því ekki að gæla við langanir í það sem er rangt heldur hugfesta það sem er uppbyggilegt og láta það fylla huga okkar og hjarta. — Fil. 4:8.

2:8, 9. „Manngreinarálit“ stangast á við „hið konunglega boðorð“ kærleikans. Sannkristnir menn gæta þess að fara ekki í manngreinarálit.

2:14-26. Við erum „hólpin . . . fyrir trú“ en hjálpræði okkar er „ekki byggt á verkum“ Móselaganna eða kristinnar trúar. Trúin á að vera annað og meira en trúarjátning. (Ef. 2:8, 9; Jóh. 3:16) Hún á að knýja okkur til verka sem samræmast vilja Guðs.

3:13-17. „Sú speki sem að ofan er“ er miklu göfugri en speki sem er „jarðnesk, andlaus [og] djöfulleg“. Við ættum að leita að viskunni frá Guði „eins og fólgnum fjársjóðum“. — Orðskv. 2:1-5.

3:18. Fagnaðarerindinu um ríkið er „sáð í friði þeim til handa, er frið semja“. (Biblían 1981) Það er mikilvægt að vera ekki hrokafullur, deilugjarn eða taumlaus heldur stuðla að friði.

VERUM „STÖÐUG Í TRÚNNI“

(1. Pét. 1:1–5:14)

Pétur minnir trúsystkini sín á að þau eigi sér ‚lifandi von‘ um arfleifð á himnum. „Þið eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð‘“, segir hann. Eftir að hafa gefið leiðbeiningar um undirgefni hvetur hann alla til að ‚vera samhuga, hluttekningarsamir og elska hver annan, vera miskunnsamir og auðmjúkir‘. — 1. Pét. 1:3, 4; 2:9; 3:8.

Pétur bendir á að ‚endir allra hluta sé í nánd‘ og á þar við þjóðskipulag Gyðinga. Þess vegna er nauðsynlegt að vera ‚gætinn og algáður til bæna‘. Síðan segir Pétur: „Verið algáð, vakið . . . Standið gegn [Satan] stöðug í trúnni.“ — 1. Pét. 4:7; 5:8, 9.

Biblíuspurningar og svör:

3:20-22 — Hvernig frelsar skírnin okkur? Það er nauðsynlegt að skírast til að bjargast. En skírnin bjargar okkur ekki ein sér heldur er bjögunin háð „upprisu Jesú Krists“. Sá sem skírist þarf að trúa að hjálpræði fáist aðeins vegna þess að Jesús dó sem fórn, var reistur upp, „situr Guði á hægri hönd“ og hefur vald yfir lifandi og dauðum. Skírn, sem byggist á slíkri trú, á sér samsvörun í ‚sálunum átta sem frelsuðust í vatni‘.

4:6 — Hverjir eru hinir ‚dauðu‘ sem „var boðað fagnaðarerindið“? Það voru þeir sem voru ‚dauðir vegna afbrota sinna og synda‘ og áttu ekkert samband við Jehóva fyrr en þeir heyrðu fagnaðarerindið. (Ef. 2:1) En eftir að hafa tekið trú á fagnaðarerindið ‚lifðu‘ þeir í þeim skilningi að þeir áttu samband við Jehóva.

Lærdómur:

1:7. Til að trú okkar sé ‚dýrmæt‘ þarf að sannprófa að hún sé sterk og ósvikin. Slík trú getur orðið okkur til frelsunar. (Hebr. 10:39) Við megum ekki skjóta okkur undan prófraunum sem reyna á trúna.

1:10-12. Engla langaði til að skyggnast inn í og skilja hin djúpu andlegu sannindi varðandi andasmurðan söfnuð Guðs sem spámenn hans til forna skrásettu. Þau skýrðust hins vegar ekki fyrr en Jehóva tók að eiga samskipti við söfnuðinn. (Ef. 3:10) Ættum við ekki að fylgja fordæmi englanna og leitast við að rannsaka „djúpin í Guði“? — 1. Kor. 2:10.

2:21. Við ættum að líkja eftir fyrirmynd okkar, Jesú Kristi, og vera fús til að þjást og jafnvel deyja til að styðja drottinvald Jehóva.

5:6, 7. Þegar við vörpum áhyggjum okkar á Jehóva hjálpar hann okkur að láta sanna tilbeiðslu ganga fyrir í lífinu og hafa ekki óþarfa áhyggjur af því hvað morgundagurinn ber í skauti sínu. — Matt. 6:33, 34.

„DAGUR DROTTINS MUN KOMA“

(2. Pét. 1:1–3:18)

„Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns,“ skrifar Pétur, „heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ Ef við gefum gaum að spádómsorðinu getur það verndað okkur fyrir ‚falskennendum‘ og öðrum spilltum mönnum. — 2. Pét. 1:21; 2:1-3.

„Á síðustu dögum munu koma spottarar,“ segir Pétur og bætir við: „En dagur Drottins mun koma sem þjófur.“ Hann lýkur bréfinu með því að hvetja lesendur til að „bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi“. — 2. Pét. 3:3, 10-12.

Biblíuspurningar og svör:

1:19 — Hver er „morgunstjarnan“, hvenær rennur hún upp og hvernig getum við vitað að það hefur gerst? „Morgunstjarnan“ er Jesús Kristur eftir að hann tekur við konungdómi. (Opinb. 22:16) Hann rann upp fyrir öllu sköpunarverkinu sem messíasarkonungur árið 1914 og boðaði upphaf nýs dags. Ummyndunarsýnin var forsmekkur þess að Jesús yrði dýrlegur konungur Guðsríkis og undirstrikaði hve áreiðanlegt spádómsorð Guðs væri. Við upplýsum hjörtu okkar með því að gefa gaum að þessu orði og vitum þá að morgunstjarnan er risin.

2:4 — Hvað eru ‚myrkrahellarnir‘ og hvenær var uppreisnarenglunum steypt niður í þá? Myrkrahellarnir eru eins konar fangelsi sem aðeins andaverum (ekki mönnum) er varpað í. Þar ríkir algert myrkur varðandi fyrirætlun Guðs. Þeir sem eru þar eiga enga von um bjarta framtíð. Guð varpaði óhlýðnum englum í myrkrahellana á dögum Nóa og þar fá þeir að dúsa í niðurlægingu uns þeim verður tortímt.

3:17 — Hvað á Pétur við þegar hann talar um að ‚vita þetta fyrir fram‘? Hér er um að ræða vitneskju um ókomna atburði sem hann og aðrir biblíuritarar fengu vegna innblásturs. Þar sem frumkristnir menn fengu ekki ótakmarkaða vitneskju þekktu þeir ekki ókomna atburði í smáatriðum heldur aðeins megindrætti þess sem var í vændum.

Lærdómur:

1:2, 5-7. Við ættum að leggja stund á trú, þolgæði og guðrækni. Það hjálpar okkur bæði að hljóta „þekkingu á Guði og Jesú“ og verða hvorki „dáðlaus“ né „ávaxtalaus“ varðandi þekkingu okkar. — 2. Pét. 1:8.

1:12-15. Til að ‚hvika ekki frá sannleikanum‘ þurfum við á stöðugum áminningum að halda eins og við fáum á samkomum og í sjálfsnámi okkar og biblíulestri.

2:2. Við þurfum að gæta þess að hegðun okkar kasti ekki rýrð á Jehóva og söfnuð hans. — Rómv. 2:24.

2:4-9. Í ljósi þess sem Jehóva hefur gert á liðnum tíma getum við treyst að hann „veit . . . hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags“.

2:10-13. Við megum ekki „lastmæla tignum“, það er að segja öldungum safnaðarins, þó að þeir hafi sína galla og geri stundum mistök. — Hebr. 13:7, 17.

3:2-4, 12. Höfum alltaf í huga „þau orð, sem heilagir spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara“. Það hjálpar okkur að vera vakandi fyrir því hve nálægur dagur Jehóva er.

3:11-14. Þar sem við bíðum eftir degi Jehóva og höfum í huga hve nálægur hann er þurfum við gera eftirfarandi: (1) „Lifa heilögu . . . lífi“ en það felst í því að vera hrein á huga og líkama, vera siðferðilega hrein og stunda hreina tilbeiðslu, (2) lifa „guðrækilegu lífi“, meðal annars með því að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum, (3) vera „flekklaus“ af heiminum hvað varðar hegðun okkar og persónuleika, (4) vera „vammlaus“ og gera alla hluti af hreinu tilefni og (5) „lifa í friði“ við Guð, trúsystkini okkar og aðra menn.