Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfum biblíulega afstöðu til heilsuverndar

Höfum biblíulega afstöðu til heilsuverndar

Höfum biblíulega afstöðu til heilsuverndar

„Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af . . . öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ — MARK. 12:30.

1. Hver var upphafleg fyrirætlun Guðs með mennina?

ÞAÐ var ekki ætlun Jehóva Guðs að mennirnir myndu veikjast og deyja. Adam og Eva voru sett í „aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans“, ekki aðeins í 70 eða 80 ár heldur að eilífu. (1. Mós. 2:8, 15; Sálm. 90:10) Ef þau hefðu verið trúföst og undirgefin drottinvaldi Jehóva hefðu þau hvorki orðið heilsulítil og hrum af elli né þurft að deyja.

2, 3. (a) Hvernig er ellinni lýst í Prédikaranum? (b) Hver er ábyrgur fyrir Adamsdauðanum og hvernig verður dauðinn gerður að engu?

2 Í 12. kafla Prédikarans er dregin upp lýsandi mynd af ‚vondu dögunum‘ sem fylgja því þegar ófullkomnir menn eldast. (Lestu Prédikarann 12:1-7.) Hvítu hári er líkt við ‚möndlutré í blóma‘. Fótunum er líkt við ‚sterka menn‘ sem verða bognir og skjögra. Prédikarinn gefur viðeigandi lýsingu á því þegar sjónin fer að daprast og segir: „Dimmt er orðið hjá þeim sem líta út um gluggana.“ Og þar sem sumar tennurnar vantar er eins og ‚kvarnarstúlkurnar hafist ekki að því að þær eru orðnar fáar‘.

3 Það var alls ekki ætlun Guðs að mennirnir fengju með aldrinum óstöðuga fætur, dapra sjón og tannlausa góma. Auk þess er dauðinn, sem við erfðum frá Adam, eitt af ‚verkum djöfulsins‘. Fyrir atbeina Messíasarríkisins mun sonur Guðs gera dauðann að engu. Jóhannes postuli skrifaði: „Til þess birtist Guðs sonur að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ — 1. Jóh. 3:8.

Það er eðlilegt að vera umhugað um heilsuna

4. Af hverju láta þjónar Jehóva sér annt um heilsuna að ákveðnu marki en hverju gera þeir sér grein fyrir?

4 Eins og er þurfa sumir þjónar Jehóva að takast á við þau vandamál sem fylgja öldrun og heilsuleysi í ófullkomnum mannheimi. Þar sem við viljum þjóna Jehóva af ‚öllum mætti okkar‘ er bæði eðlilegt og gagnlegt að láta sér annt um heilsuna að ákveðnu marki. (Mark. 12:30) Hins vegar verðum við að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir því að þótt við reynum að halda sem bestri heilsu getum við í rauninni ekki hægt á öldrunarferlinu eða forðast alla sjúkdóma.

5. Hvaða lærdóm getum við dregið af því hvernig trúfastir þjónar Guðs hafa tekist á við heilsuvandamál?

5 Margir trúfastir þjónar Jehóva hafa þurft að sætta sig við heilsuvandamál. Epafrodítus var einn þeirra. (Fil. 2:25-27) Tímóteus, dyggur vinur Páls postula, átti oft við magakveisu að stríða og Páll mælti með að hann neytti „lítils eins af víni“. (1. Tím. 5:23) Páll þurfti sjálfur að glíma við ‚flein í holdinu‘, hugsanlega augnsjúkdóm eða eitthvað annað sem ekki var hægt að lækna á þeim tíma. (2. Kor. 12:7; Gal. 4:15; 6:11) Páll talaði um þennan ‚flein í holdinu‘ í innilegum bænum til Jehóva. (Lestu 2. Korintubréf 12:8-10.) Guð vann ekki það kraftaverk að fjarlægja þennan flein úr holdi Páls. Hins vegar gaf hann Páli styrk til að þola hann. Með þessum hætti birtist máttur Jehóva í veikleika Páls. Er einhver lærdómur fólginn í þessari frásögn?

Forðumst óhóflegar áhyggjur af heilsunni

6, 7. Af hverju ættum við ekki að hafa óhóflegar áhyggjur af heilsunni?

6 Eins og við vitum þiggja vottar Jehóva læknishjálp og ýmiss konar læknismeðferð. Í tímaritinu okkar Vaknið! er oft að finna greinar um heilsufarsmál. Og þótt við séum ekki talsmenn ákveðinnar læknismeðferðar kunnum við að meta samvinnu og hjálp heilbrigðisstarfsmanna. Við vitum að sjálfsögðu að það er ekki hægt að búa við fullkomna heilsu enn sem komið er. Þess vegna er viturlegt af okkur að vera ekki stöðugt að hugsa um heilsuvandamál. Við ættum ekki að hugsa eins og þeir sem hafa enga von og halda að þetta líf sé allt og sumt því að þeir eru tilbúnir til að grípa til hvaða úrræða sem er í von um að lækna krankleika sína. (Ef. 2:2, 12) Við viljum ekki leggja svo mikla áherslu á að reyna að bjarga lífinu núna að við glötum velþóknun Jehóva. Við erum sannfærð um að ef við erum Guði trúföst getum við „höndlað hið sanna líf“, eilífa lífið í nýjum heimi sem hann hefur lofað. — 1. Tím. 6:12, 19; 2. Pét. 3:13.

7 Það er önnur ástæða fyrir því að við ættum ekki að hafa óhóflegar áhyggjur af heilsunni — það gæti gert okkur sjálfhverf. Páll varaði við þessari hættu og sagði við Filippímenn: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ (Fil. 2:4) Það er eðlilegt að hugsa þokkalega vel um sjálfan sig. En við getum komið í veg fyrir að við verðum of upptekin af heilsunni með því að láta okkur innilega annt um trúsystkini okkar og hugsa um þarfir þeirra sem við boðum ‚fagnaðarerindið um ríkið‘. — Matt. 24:14.

8. Hvað gæti gerst ef við hefðum of miklar áhyggjur af heilsunni?

8 Hættan er sú að kristinn maður hafi slíkar áhyggjur af heilsunni að þjónustan við Jehóva hverfi í skuggann. Ef við værum gagntekin af heilsumálum gætum við líka leiðst út í það að reyna að þröngva upp á aðra skoðunum okkar á ákveðnu mataræði, meðferðarúrræðum eða fæðubótarefnum. Í þessu sambandi er gott að hafa í huga meginregluna í orðum Páls: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists.“ — Fil. 1:10.

Hvað skiptir mestu máli?

9. Hvað er eitt af því sem skiptir miklu máli og hvers vegna ættum við ekki að vanrækja það?

9 Ef við metum þá hluti rétt sem máli skipta tökum við heilshugar þátt í því að hjálpa öðrum að eignast gott samband við Jehóva. Við gerum það með því að prédika og kenna með hjálp Biblíunnar. Þetta ánægjulega starf gerir bæði okkur gagn og þeim sem við kennum. (Orðskv. 17:22; 1. Tím. 4:15, 16) Í Varðturninum og Vaknið! birtast af og til frásagnir bræðra og systra sem eiga við alvarlega sjúkdóma að stríða. Þar er stundum sagt frá því hvernig þau reyna eftir föngum að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva og fögrum loforðum hans. Það auðveldar þeim að þola eigin vandamál eða jafnvel gleyma þeim um stund. *

10. Af hverju skiptir máli hvaða læknismeðferð við veljum okkur?

10 Þegar fullorðnir einstaklingar eiga við heilsubrest að glíma verður hver og einn þeirra að „bera sína byrði“ og axla þá ábyrgð að velja læknismeðferð. (Gal. 6:5) Við verðum samt að hafa hugfast að það skiptir Jehóva máli hvaða úrræði við veljum. Við virðum frumreglur Biblíunnar og þess vegna höldum við okkur frá blóði. Djúp virðing fyrir orði Guðs ætti sömuleiðis að fá okkur til að forðast meðferðarúrræði sem gætu haft áhrif á samband okkar við Jehóva. (Post. 15:20) Sumar greiningaraðferðir og meðferðarúrræði virðast jaðra við að vera yfirnáttúrlegar. Jehóva hafði vanþóknun á fráhverfum Ísraelsmönnum sem notuðu yfirnáttúrulegan mátt og lögðu stund á spíritisma. Hann sagði: „Færið mér ekki framar fánýtar kornfórnir, reykelsi er mér viðurstyggð. Tunglkomudagar, hvíldardagar og hátíðarsamkomur, ég þoli ekki að saman fari ranglæti [„yfirnáttúrulegur máttur“, NW ] og hátíðarglaumur.“ (Jes. 1:13) Þegar við eigum við veikindi að stríða viljum við auðvitað ekki gera neitt sem gæti hindrað bænir okkar og skaðað samband okkar við Guð. — Harmlj. 3:44.

Nauðsynlegt að sýna heilbrigða skynsemi

11, 12. Hvers vegna þurfum við að sýna heilbrigða skynsemi þegar við veljum læknismeðferð?

11 Við getum ekki ætlast til þess að Jehóva vinni kraftaverk og lækni okkur en við getum beðið hann að veita okkur visku til að velja réttu meðferðina. Við ættum að hafa meginreglur Biblíunnar og heilbrigða skynsemi að leiðarljósi. Ef veikindin eru alvarlegs eðlis getur verið ástæða til að leita álits fleiri en eins sérfræðings, ef það er mögulegt. Þetta er í samræmi við hugmyndina í Orðskviðunum 15:22 en þar segir: „Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.“ Páll postuli hvatti trúbræður sína til að „vera heilbrigðir í hugsun“ (NW) og lifa „réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. — Tít. 2:12.

12 Margir eru í sambærilegri aðstöðu og veik kona á dögum Jesú. Við lesum í Markúsi 5:25, 26: „Þar var kona sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni en engan bata fengið, öllu heldur versnað.“ Jesús læknaði konuna og sýndi henni umhyggju. (Mark. 5:27-34) Í örvæntingu hafa sumir kristnir menn freistast til að velja greiningaraðferð eða meðferð sem stangast á við meginreglur hreinnar tilbeiðslu.

13, 14. (a) Hvernig gæti Satan notað meðferðarúrræði til að koma okkur út af braut ráðvendninnar? (b) Af hverju verðum við að forðast allt sem jaðrar við dulspeki?

13 Satan reynir allt hvað hann getur til að draga okkur frá hreinni tilbeiðslu. Hann beitir kynferðislegu siðleysi og efnishyggju til að reyna að klófesta suma. Öðrum reynir hann að koma út af braut ráðvendninnar með því að fá þá til að grípa til vafasamra meðferðarúrræða sem jaðra við dulspeki og spíritisma. Við biðjum Jehóva að „frelsa oss frá hinum vonda“ og „frá öllu ranglæti“. Við ættum því ekki að ganga beint í greipar Satans með því að gera okkur berskjalda fyrir einhverju sem jaðrar við spíritisma og dulspeki. — Matt. 6:13, neðanmáls; Tít. 2:14.

14 Jehóva bannaði Ísraelsmönnum að fara með spár og galdra. (5. Mós. 18:10-12) Páll sagði að „fjölkynngi“, eða dulspeki, væri eitt af ‚verkum holdsins‘. (Gal. 5:19, 20) Auk þess munu „töframenn“ ekki búa í nýjum heimi Jehóva. (Opinb. 21:8) Það er því ljóst að allt sem ber keim af spíritisma og dulspeki er andstyggilegt í augum Jehóva.

Tökum skynsamlegar ákvarðanir

15, 16. Af hverju þurfum við að sýna visku þegar við veljum læknismeðferð og hvaða viturlegu leiðbeiningar gaf hið stjórnandi ráð á fyrstu öldinni?

15 Ef vafi leikur á að einhver greiningaraðferð eða sjúkdómsmeðferð sé í lagi er því skynsamlegt að hafna henni. En þótt við séum ekki fær um að útskýra hvernig ákveðin meðferð virkar er ekki þar með sagt að um sé að ræða spíritisma eða dulspeki í einhverri mynd. Ef við viljum hafa biblíulega afstöðu til heilsuverndar þurfum við að sýna góða dómgreind og þiggja viskuna frá Guði. Við finnum eftirfarandi hvatningu í 3. kafla Orðskviðanna: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar . . . Varðveittu visku og gætni . . . þá verða þær sálu þinni til lífs.“ — Orðskv. 3:5, 6, 21, 22.

16 Þó að við reynum að halda okkur eins heilbrigðum og við getum verðum við að gæta þess að nota ekki þannig aðferðir í baráttunni við veikindi og öldrun að við glötum velþóknun Guðs. Á þessu sviði eins og öllum öðrum þurfum við að leggja okkur fram um að lifa eftir meginreglum Biblíunnar því að þær hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. Í mikilvægu bréfi til frumkristinna manna á fyrstu öld sagði hið stjórnandi ráð þeim að halda sig frá skurðgoðadýrkun, blóði og saurlifnaði. Í bréfinu var einnig að finna þetta loforð: „Ef þér varist þetta gerið þér vel [„munuð þið dafna“, NW ]“. (Post. 15:29) Með hvaða hætti?

Hugum að heilsunni með framtíðarvonina fyrir augum

17. Hvernig geta meginreglur Biblíunnar stuðlað að góðri heilsu?

17 Við ættum öll að spyrja okkur: Er mér ljóst hvernig það hefur verið mér til góðs að fylgja dyggilega meginreglum Biblíunnar um blóð og saurlifnað? Og hugleiðum einnig hvernig það hefur gert okkur gott að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og sál‘. (2. Kor. 7:1) Við forðumst margs konar líkamlega kvilla með því að fylgja meginreglum Biblíunnar um hreinlæti. Við döfnum vegna þess að við notum hvorki tóbak né önnur fíkniefni sem er hvort tveggja skaðlegt líkama og sál. Og við vitum að það er heilsusamlegt að sýna hóf í mat og drykk. (Lestu Orðskviðina 23:20; Títusarbréfið 2:2, 3.)sjálfsögðu stuðlar nægileg hvíld og hæfileg hreyfing einnig að líkamlegri velferð okkar. En við höfum ekki síst dafnað líkamlega og andlega vegna þess að við fylgjum leiðbeiningum Biblíunnar.

18. Hvað ættum við helst að láta okkur umhugað um og hvaða spádóm hlökkum við til að sjá uppfyllast?

18 Umfram allt ættum við að hugsa vel um andlegu heilsuna og styrkja hið dýrmæta samband sem við eigum við Jehóva, himneskan föður okkar, en hann er uppspretta ‚þessa lífs og hins komanda‘ í nýja heiminum. (1. Tím. 4:8; Sálm. 36:10) Í nýjum heimi Guðs fær fólk fulla lækningu bæði á sál og líkama vegna syndafyrirgefningar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Guðslambið Jesús Kristur leiðir okkur þá til „vatnslinda lífsins“ og Guð mun þerra hvert tár af augum okkar. (Opinb. 7:14-17; 22:1, 2) Þá rætist með dýrlegum hætti þessi spádómur: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er veikur.‘“ — Jes. 33:24.

19. Hverju getum við treyst?

19 Við erum sannfærð um að lausn okkar sé í nánd og bíðum óþreyjufull þess dags þegar Jehóva bindur enda á sjúkdóma og dauða. Þangað til getum við treyst að ástríkur faðir okkar á himnum hjálpi okkur að þola kvilla og krankleika vegna þess að ‚hann ber umhyggju fyrir okkur‘. (1. Pét. 5:7) Við skulum því hugsa vel um heilsuna en gera það alltaf í samræmi við hinar skýru leiðbeiningar sem er að finna í innblásnu orði Guðs.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Í Varðturninum 1. október 2003 á bls. 31 er að finna lista yfir greinar af þessu tagi.

Til upprifjunar

• Hver er ábyrgur fyrir því að mennirnir veikjast og hver mun losa okkur undan áhrifum syndarinnar?

• Hvað verðum við að forðast þótt það sé eðlilegt að vera umhugað um heilsuna?

• Af hverju skiptir það Jehóva máli hvaða meðferðarúrræði við veljum okkur?

• Hvernig getum við stuðlað að góðri heilsu með því að fylgja meginreglum Biblíunnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Það var ekki ætlun skaparans að mennirnir myndu veikjast og hrörna.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Þjónar Jehóva hafa ánægju af boðunarstarfinu þrátt fyrir heilsubrest.