Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Söngurinn við hafið“ – handrit sem brúar bilið

„Söngurinn við hafið“ – handrit sem brúar bilið

„Söngurinn við hafið“ – handrit sem brúar bilið

HINN 22. maí 2007 var opnuð sýning á merku handriti í Ísraelska safninu í Jerúsalem. Um er að ræða hebreskt handritabrot frá sjöundu eða áttundu öld okkar tímatals og hefur það að geyma 2. Mósebók 13:19–16:1. Í þessum texta er meðal annars að finna „Sönginn við hafið“ sem svo er nefndur en það er sigursöngurinn sem Ísraelsmenn sungu eftir hina undraverðu björgun við Rauðahaf. Hvaða gildi hefur þetta handritabrot?

Handritið er einkum merkilegt sökum aldurs. Dauðahafshandritin voru skrifuð frá þriðju öld f.Kr. fram á fyrstu öld e.Kr. Áður en þau fundust fyrir um það bil 60 árum var Aleppo Codex elsta hebreska handritið sem vitað var um. Það er frá árinu 930 e.Kr. Ef frá eru talin örfá brot hafa engin önnur hebresk handrit fundist frá öldunum þar í milli.

„Handritið Söngurinn við hafið brúar bilið milli Dauðahafshandritanna . . . og Aleppo Codex,“ segir James S. Snyder, forstöðumaður Ísraelska safnsins. Að sögn hans er þetta handrit einstakt af því að það sýnir, ásamt öðrum fornum biblíuhandritum, að textinn hefur varðveist óbreyttur.

Handritabrotið er talið vera eitt af mörgum handritum sem fundust síðla á 19. öld í samkunduhúsi í Kaíró í Egyptalandi. Það var í einkaeigu manns sem safnaði hebreskum handritum en hann gerði sér ekki grein fyrir þýðingu þess fyrr en hann fékk fræðimann til að rannsaka það seint á áttunda áratug síðustu aldar. Handritið var þá aldursgreint með geislakolsmælingu og síðan varðveitt vel uns það var sett á sýningu í Ísraelska safninu.

Adolfo Roitman er forstöðumaður Bókarhofsins við Ísraelska safnið og gæslumaður Dauðahafshandritanna. Hann segir um gildi þessa bókrollubrots: „Handritið Söngurinn við hafið sýnir fram á hve tryggilega og nákvæmlega Masoretatexti Biblíunnar var varðveittur í aldanna rás. Það er ótrúlegt að sjá að hin einkennandi bragfræði Söngsins við hafið skuli hafa haldist óbreytt frá sjöundu og áttundu öld fram á okkar dag.“

Biblían er innblásið orð Jehóva Guðs og hann hefur öðrum fremur séð til þess að hún varðveittist. Skrifarar sýndu auk þess ýtrustu nákvæmni þegar þeir afrituðu Biblíuna. Þess vegna leikur enginn vafi á áreiðanleika biblíutextans sem við höfum núna.

[Mynd credit line á blaðsíðu 32]

Með góðfúslegu leyfi Israel Museum, Jerúsalem.