Ég hef séð vöxtinn í Kóreu
Ég hef séð vöxtinn í Kóreu
Milton Hamilton segir frá
„Okkur þykir leitt að þurfa að segja ykkur að stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa afturkallað vegabréfsáritun allra trúboða og gefið til kynna að þið séuð ekki velkomin inn í landið . . . Af þessum sökum biðjum við ykkur um að starfa í Japan um stundarsakir.“
SÍÐLA árs 1954 fengum við hjónin þessi boð frá Brooklyn í Bandaríkjunum. Fyrr á árinu höfðum við útskrifast úr 23. bekk Gíleaðskólans í New York. Þegar við fengum bréfið sem vitnað er í að ofan störfuðum við um stundarsakir í Indianapolis.
Við Liz konan mín (áður Liz Semock) vorum bekkjarfélagar í framhaldsskóla. Við giftum okkur svo árið 1948. Hún hafði yndi af brautryðjandastarfinu en hikaði við að flytjast úr landi til að starfa annars staðar. Af hverju skipti hún um skoðun?
Liz samþykkti að koma með mér á upplýsingafund fyrir þá sem höfðu áhuga á að sækja Gíleaðskólann. Fundurinn var haldinn á alþjóðamótinu á Yankee Stadium í New York sumarið 1953. Þessi fundur var okkur mikil hvatning svo að við sendum inn umsókn í Gíleaðskólann. Það kom okkur mikið á óvart að vera boðið að sækja næsta námskeið sem átti að hefjast í febrúar 1954.
Við áttum að fara til Kóreu þó að landið væri í sárum eftir þriggja ára stríð sem lauk sumarið 1953. Við byrjuðum á að fara til Japans eins og við höfðum verið beðin um að gera í bréfinu sem vitnað er í hér að ofan. Í janúar 1955 komum við til Japans eftir 20 daga sjóferð, ásamt 6 öðrum trúboðum sem áttu líka að fara til Kóreu. Lloyd Barry, sem hafði þá umsjón með deildarskrifstofunni í Japan, kom niður á höfn til að taka á móti okkur kl. 6 um morguninn. Síðan lá leið okkar á trúboðsheimilið í Yokohama. Seinna sama dag vorum við komin út í boðunarstarfið.
Við komumst loksins til Kóreu
Að lokum fengum við vegabréfsáritun til að komast inn í Suður-Kóreu. Hinn 7. mars 1955 fórum við í loftið frá alþjóðaflugvellinum í Haneda í Tókýó og lentum þrem tímum síðar á Yoido-flugvelli í Seúl. Rúmlega 200 kóreskir bræður og systur tóku á móti okkur og mörgum okkar vöknaði um augun af gleði. Á þessum tíma voru aðeins um þúsund vottar í Kóreu. Eins og fleiri Vesturlandabúar héldum við að allir Asíubúar litu eins út og
hegðuðu sér eins. Við komumst fljótlega að því að svo er ekki. Það er margt sem einkennir Kóreumenn. Þeir hafa ekki aðeins eigið tungumál og stafróf heldur einnig einkennandi andlitsdrætti, matarhefð og eigin þjóðbúning og byggingarstíl.Það fyrsta sem við þurftum að gera var að læra tungumálið og það var ekki auðvelt. Við fundum hvergi kennslubækur í kóresku. Við komumst fljótt að því að það var ekki hægt að bera fram kóresku orðin með því að nota aðeins hljóð úr ensku. Og það er aðeins hægt að læra réttan framburð í kóresku með því að læra kóreska stafrófið.
Okkur varð stundum á í messunni. Liz spurði til dæmis eina húsmóður hvort hún ætti Biblíu. Það kom skrýtinn svipur á konuna og hún fór inn í húsið og sótti eldspýtnastokk. Liz hafði beðið hana um sungnyang (eldspýtur) í staðinn fyrir sungkyung sem merkir biblía.
Eftir fáeina mánuði fengum við það verkefni að koma á fót trúboðsheimili í Pusan sem er hafnarborg í suðurhluta landsins. Okkur tókst að leigja þrjú lítil herbergi fyrir okkur tvö og tvær systur sem sendar höfðu verið með okkur. Þar var hvorki rennandi vatn né vatnssalerni. Aðeins á nóttinni var vatnsþrýstingurinn nægilega mikill til að hægt væri að dæla vatninu upp á aðra hæð. Við skiptumst því á að vakna í dögun til að safna vatninu í ílát. Við þurftum að sjóða það eða blanda með klór til að gera það drykkjarhæft.
Það var fleira sem reyndi á. Rafmagn var af skornum skammti svo að við gátum hvorki þvegið í þvottavél né straujað. Eldhúsið var á ganginum og eina eldunartækið var olíueldavél. Við skiptumst á að elda og fljótlega lærðum við öll að matbúa við þessar aðstæður. Þrem árum eftir komuna til landsins smituðumst við Liz af lifrarbólgu. Á þessum árum fengu flestir trúboðar þennan sjúkdóm. Við vorum marga mánuði að ná okkur af lifrarbólgunni og ýmis önnur veikindi hrjáðu okkur.
Uppörvun á erfiðum tímum
Undanfarin 55 ár hefur ástandið á Kóreuskaganum verið mjög óstöðugt. Hlutlaust belti skiptir skaganum í tvennt. Það er 55 kílómetra norður af Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. Árið 1971 kom Frederick Franz í heimsókn frá höfuðstöðvunum í Brooklyn. Ég fór með hann að hlutlausa beltinu en hvergi í heiminum finnast betur víggirt landamæri.
Þar hafa embættismenn Sameinuðu þjóðanna oft hitt fulltrúa Norður- og Suður-Kóreu.Við erum að sjálfsögðu hlutlaus hvað varðar stjórnmál heimsins, þar með talin stjórnmálin á Kóreuskaganum. (Jóh. 17:14) Meira en 13.000 kóreskir vottar hafa setið samanlagt 26.000 ár í fangelsi vegna þess að þeir vilja ekki gegna herþjónustu. (2. Kor. 10:3, 4) Allir ungir bræður þar í landi gera sér ljóst að þeir eiga þetta yfir höfði sér en þeir láta það ekki hræða sig. Það er sorglegt að stjórnvöld í landinu skuli dæma þjóna Guðs sem „glæpamenn“ fyrir þann „glæp“ einan að vilja ekki hvika frá hlutleysi sínu.
Ég neitaði líka að gegna herþjónustu árið 1944, meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði, og þurfti því að sitja í tvö og hálft ár í fangelsi í Lewisburg í Pennsylvaniu. Enda þótt kóresku bræðurnir hafi sætt erfiðari fangavist en ég get ég sett mig í spor þessara ungu bræðra. Mörgum fannst styrkur í því að vita að við trúboðarnir höfðum sumir hverjir svipaða reynslu. — Jes. 2:4.
Skorður settar
Árið 1977 kom upp mál sem snerti hlutleysi okkar. Embættismenn ímynduðu sér að við hefðum fengið unga Kóreumenn til að neita að gegna herþjónustu og taka upp vopn. Stjórnvöld ákváðu því að neita trúboðum, sem yfirgáfu landið einhverra hluta vegna, um leyfi til að snúa aftur. Þessi ákvörðun stóð frá 1977 til 1987. Ef við hefðum farið frá Kóreu á þessu tímabili hefðum við ekki mátt koma aftur. Við fórum því aldrei heim til Bandaríkjanna á þessum árum.
Við funduðum margsinnis með embættismönnum og útskýrðum fyrir þeim að við fylgdum Kristi og værum því hlutlaus í stjórnmálum. Loksins, eftir tíu ára farbann, skildu menn að það þýddi ekkert að hóta okkur og banninu var aflétt. Fáeinir trúboðar þurftu að yfirgefa landið á þessum árum, meðal annars vegna heilsunnar. En flest okkar voru áfram í landinu og við sjáum ekki eftir því.
Um miðjan níunda áratug síðustu aldar héldu andstæðingar okkar því ranglega fram að forystumenn hins lögskráða félags okkar kenndu ungum mönnum að gegna ekki herþjónustu. Stjórnvöld kölluðu þá fyrir og yfirheyrðu þá. Hinn 22. janúar 1987 komst embætti saksóknara að þeirri niðurstöðu að ásakanirnar væru tilhæfulausar. Þar með var sá misskilningur leiðréttur.
Guð blessar starf okkar
Í Kóreu hafði andstaðan gegn boðunarstarfi okkar aukist með árunum vegna þess að við vorum hlutlaus. Þess vegna varð sífellt erfiðara fyrir okkur að finna hentuga aðstöðu til að halda fjölmenn mót. Við leystum vandann með því að reisa mótshöll í Pusan, þá fyrstu í Austurlöndum. Mér veittist sá heiður að flytja vígsluræðuna 5. apríl 1976. Gestir voru 1.300.
Frá 1950 hafa tugþúsundir hermanna frá Bandaríkjunum verið í Kóreu um tíma. Margir hafa orðið vottar eftir að þeir sneru heim til Bandaríkjanna. Við fáum oft bréf frá þeim og lítum á það sem blessun að hafa mátt hjálpa þeim að kynnast Jehóva.
Því miður missti ég ástkæra eiginkonu mína 26. september 2006. Ég sakna hennar sárt. Þau 51 ár, sem hún var hér, tók hún fúslega að sér hvaða verkefni sem var og kvartaði aldrei. Hún ýjaði aldrei að því að snúa aftur til Bandaríkjanna, landsins sem hún sagði einu sinni að hún vildi aldrei yfirgefa.
Ég starfa nú á Betel í Kóreu. Betelfjölskyldan var fámenn í byrjun en er nú orðin 250 manns. Ég hef þann heiður að sitja ásamt sex öðrum í deildarnefndinni sem hefur umsjón með starfinu í landinu.
Kórea var fátækt land þegar við komum hingað en er nú eitt af háþróuðustu ríkjum heims. Hér eru rúmlega 95.000 vottar og næstum 40 prósent þeirra eru annaðhvort brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fá að þjóna Guði hér og sjá hjörð Guðs vaxa.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Við komuna til Kóreu ásamt fleiri trúboðum.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Starfað í Pusan.
[Mynd á blaðsíðu 24, 25]
Með bróður Franz við hlutlausa beltið árið 1971.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Með Liz skömmu áður en hún dó.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Kóreska deildarskrifstofan þar sem ég starfa ásamt Betelfjölskyldunni.