Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju eigum við að vera ráðvönd?

Af hverju eigum við að vera ráðvönd?

Af hverju eigum við að vera ráðvönd?

„Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum . . . samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.“ — SÁLM. 7:9, Biblían 1981.

1, 2. Nefndu dæmi um algengar aðstæður þar sem reynir á ráðvendni kristins manns.

SJÁÐU fyrir þér þrennar aðstæður: Nokkrir strákar gera grín að skólafélaga sínum. Þeir ætla sér að espa hann upp og fá hann til að blóta eða slást. Missir hann stjórn á skapi sínu eða heldur hann aftur af sér og labbar burt? Eiginmaður er einn heima og er að leita að einhverju á Netinu. Skyndilega sprettur upp gluggi á skjánum þar sem vísað er á klámsíðu. Lætur hann freistast til að kíkja á síðuna eða lokar hann glugganum þegar í stað? Kristin kona er að spjalla við nokkrar systur þegar umræðurnar leiðast út í skaðlegt slúður um systur í söfnuðinum. Tekur hún þátt í slúðrinu eða reynir hún að breyta um umræðuefni?

2 Enda þótt þessar þrennar aðstæður séu ólíkar eiga þær eitt sameiginlegt. Þær snúast allar um baráttuna að vera ráðvandur. Þegar þú setur þér markmið, aflar þér lífsnauðsynja eða tekst á við áhyggjur lífsins hugsarðu þá um hvernig þú getir verið ráðvandur? Flestir hugsa dagsdaglega um útlitið, heilsuna og hvernig þeir geti náð endum saman, um samskipti við vini og jafnvel um ástarsambönd. Öll þessi mál geta verið okkur ofarlega í huga. En hvað er mikilvægast í augum Jehóva þegar hann rannsakar hjarta okkar? (Sálm. 139:23, 24) Það er ráðvendni okkar.

3. Hvað leyfir Jehóva okkur og um hvað verður fjallað í þessari grein?

3 „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ kemur frá Jehóva. (Jak. 1:17) Hann hefur gefið okkur gjafir eins og líkama, huga, þokkalega heilsu og ýmiss konar hæfileika. (1. Kor. 4:7) En Jehóva þvingar engan til að vera ráðvandur. Hann leyfir okkur að ákveða sjálf hvort við séum það. (5. Mós. 30:19) Við þurfum því að kynna okkur hvað ráðvendni er. Og við skoðum einnig þrjár ástæður fyrir því að það er ákaflega mikilvægt að vera ráðvandur.

Hvað er ráðvendni?

4. Hvað er ráðvendni og hvað má læra af lögum Jehóva um dýrafórnir?

4 Margir virðast gera sér óljósa grein fyrir því hvað ráðvendni sé. Í orðabókum er hún gjarnan sett í samband við heiðarleika. Það er mikilvægt að vera heiðarlegur en það er þó aðeins ein hlið á því að vera ráðvandur. Eins og orðið ráðvendni er notað í Biblíunni merkir það að vera siðferðilega heill og traustur. Hebresk orð, sem vísa til ráðvendni, eru mynduð af stofni sem merkir heilbrigður, heill eða gallalaus. Eitt þessara orða er notað um fórnirnar sem átti að færa Jehóva. Sá sem færði fórn hlaut því aðeins velþóknun Jehóva að fórnin væri lýtalaus og heilbrigð. (Lestu 3. Mósebók 22:19, 20.) Jehóva ávítaði harðlega þá sem höfðu fyrirmæli hans að engu og færðu honum haltar, sjúkar eða blindar skepnur að fórn. — Mal. 1:6-8.

5, 6. (a) Lýstu með dæmum hvernig við mennirnir kunnum að meta það sem er heilt og óskemmt. (b) Þurfum við að vera fullkomin til að geta verið ráðvönd? Skýrðu svarið.

5 Sú hugmynd að það sem er heilt og óskemmt sé eftirsóknarvert er ekki óeðlileg. Hugsum okkur bókasafnara sem finnur dýrmæta bók eftir langa leit en uppgötvar svo að það vantar nokkrar mikilvægar blaðsíður í hana. Vonsvikinn setur hann bókina aftur upp í hillu. Eða hugsum okkur konu sem er á gangi á sjávarströnd og safnar skeljum sem öldurnar hafa borið á land. Hún hrífst af fjölbreytni og fegurð þessara sköpunarverka og beygir sig niður til að skoða nánar eina og eina skel. En hvaða skeljar tekur hún með sér heim? Þær sem eru heilar og óskemmdar. Guð leitar sömuleiðis að fólki sem er heilt og óskipt. — 2. Kron. 16:9.

6 En þér er kannski spurn hvort maður þurfi að vera fullkominn til að geta verið ráðvandur. Nú erum við sködduð af völdum syndar og ófullkomleika þannig að okkur finnst við kannski vera eins og skemmd bók eða brotin skel. Líður þér stundum þannig? Þú mátt treysta að Jehóva ætlast ekki til þess að við séum fullkomin í ýtrasta skilningi orðsins. Hann ætlast aldrei til meira af okkur en við getum gert. * (Sálm. 103:14; Jak. 3:2) Hann væntir þess engu að síður að við séum ráðvönd. Er þá munur á fullkomleika og ráðvendni? Já. Skýrum það með dæmi: Ungur maður er ástfanginn af ungri konu og ætlar að giftast henni. Það væri heimskulegt af honum að ætlast til þess að hún væri fullkomin. Hins vegar er skynsamlegt af honum að reikna með að hún elski hann af öllu hjarta, það er að segja að hún elski engan nema hann. Jehóva er á sambærilegan hátt „Guð sem krefst óskiptrar hollustu“. (2. Mós. 20:5, NW) Hann ætlast ekki til þess að við séum fullkomin heldur að við elskum sig af öllu hjarta og tilbiðjum engan annan.

7, 8. (a) Hvernig er Jesús gott dæmi um það að vera ráðvandur? (b) Hvað er ráðvendni í biblíulegum skilningi?

7 Við munum kannski hverju Jesús svaraði þegar hann var spurður hvert væri mest allra boðorða. (Lestu Markús 12:28-30.) Hann svaraði ekki bara spurningunni heldur lifði í samræmi við svarið. Hann er besta dæmið um að elska Jehóva af öllum huga, hjarta, sál og mætti. Hann sýndi fram á að ráðvendni birtist ekki í orðum einum heldur í verkum sem eru sprottin af hreinum hvötum. Til að vera ráðvönd þurfum við að feta í fótspor Jesú. — 1. Pét. 2:21.

8 Að vera ráðvandur í biblíulegum skilningi er í hnotskurn þetta: Það merkir að sýna Jehóva Guði og yfirlýstum vilja hans og fyrirætlun heilshugar hollustu. Að vera ráðvandur merkir að leitast umfram allt við að þóknast Jehóva Guði dagsdaglega. Sjónarmið hans stjórna verðmætamati okkar. Lítum á þrjár ástæður fyrir því að þetta er mjög mikilvægt.

1. Ráðvendni okkar og deilan um drottinvald Guðs

9. Hvernig er ráðvendni okkar tengd deilunni um rétt Jehóva til að stjórna alheimi?

9 Drottinvald Jehóva er ekki háð því að við séum ráðvönd. Stjórn hans er réttlát, eilíf og algild og verður það alltaf, hvað sem einhver af sköpunarverum hans gerir eða segir. Hins vegar hefur verið véfengt með grófum hætti, bæði á himni og jörð, að Jehóva hafi réttinn til að stjórna. Það þarf því að verja stjórn hans frammi fyrir öllum vitibornum sköpunarverum hans. Það þarf að staðfesta að hann sé réttmætur Drottinn alheims og að stjórn hans sé réttlát og kærleiksrík. Við sem erum vottar Jehóva höfum yndi af því að segja öllum sem vilja hlusta að Jehóva sé réttmætur stjórnandi alheims. En hvernig getum við sjálf tekið afstöðu með stjórn Jehóva? Hvernig sýnum við að við kjósum hann sem Drottin okkar? Með því að vera ráðvönd.

10. Hvað hefur Satan fullyrt um ráðvendni manna og hvernig langar þig til að bregðast við því?

10 Lítum nánar á hvernig ráðvendni okkar tengist málinu. Satan fullyrti í reynd að enginn maður myndi styðja eða verja stjórn Jehóva, að enginn myndi þjóna honum af óeigingjörnum kærleika. Hann sagði við Jehóva að viðstöddum miklum fjölda andavera: „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ (Job. 2:4) Við tökum eftir að Satan lét sér ekki nægja að níða hinn réttláta Job heldur sagði þetta um mannkynið almennt. Þess vegna er sagt í Biblíunni að Satan ‚ákæri þau sem trúa‘. (Opinb. 12:10) Hann ögrar Jehóva með því að fullyrða að vottar hans — þar á meðal þú — séu ekki trúfastir til langs tíma litið. Hann fullyrðir að þú munir svíkja Jehóva til að bjarga eigin skinni. Hvernig finnst þér að vera ásakaður um þetta? Langar þig ekki til að fá tækifæri til að sanna að Satan sé lygari? Þú getur einmitt gert það með því að vera ráðvandur.

11, 12. (a) Af hvaða dæmum má sjá hvernig ákvarðanir okkar í daglegum málum tengjast spurningunni um ráðvendni? (b) Af hverju er það mikill heiður að vera ráðvandur?

11 Spurningin um ráðvendni þína gerir því að verkum að það skiptir miklu máli hvernig þú hegðar þér og hvaða ákvarðanir þú tekur dag frá degi. Lítum aftur á dæmin þrjú sem nefnd voru í byrjun greinarinnar. Hvernig geta persónurnar í þessum dæmum sýnt ráðvendni? Það væri freistandi fyrir drenginn sem verður fyrir aðkasti skólafélaganna að bregðast ókvæða við en hann man hvað segir í Biblíunni: „Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Rómv. 12:19) Hann labbar burt. Eiginmaðurinn, sem er að leita á Netinu, gæti farið að skoða kynæsandi efni en hann man eftir meginreglunni sem endurspeglast í orðum Jobs: „Ég gerði þann sáttmála við augu mín að líta mey ekki girndarauga.“ (Job. 31:1) Hann leyfir sér ekki að horfa á sóðalegar myndir heldur forðast slíkt efni eins og pestina. Konan, sem er að spjalla við nokkrar systur og heyrir skaðlegt slúður, tekur ekki þátt í slúðrinu heldur minnist orðanna: „Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar.“ (Rómv. 15:2) Slúðrið, sem hún gæti farið með, er ekki uppbyggilegt. Hún myndi ekki gefa góða mynd af trúsystur sinni með því að endurtaka það og ekki myndi hún heldur þóknast himneskum föður sínum með því. Hún hefur því taumhald á tungu sinni og breytir um umræðuefni.

12 Þjónar Guðs, sem nefndir eru í þessum dæmum, gefa í rauninni eftirfarandi yfirlýsingu með ákvörðunum sínum: „Ég er undirgefinn Jehóva. Ég ætla að reyna að gera það sem hann hefur velþóknun á í þessu máli.“ Hugsarðu þannig þegar þú tekur ákvarðanir? Ef þú gerir það ferðu eftir hinni hlýlegu hvatningu í Orðskviðunum 27:11 en þar segir: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“ Það er mikill heiður að geta glatt hjarta Guðs. Er það ekki vel þess virði að leggja sig fram um að vera ráðvandur?

2. Jehóva dæmir okkur eftir ráðvendni okkar

13. Hvernig má sjá af orðum Jobs og Davíðs að Jehóva dæmir okkur eftir ráðvendni okkar?

13 Eins og við sjáum getum við sýnt að við styðjum drottinvald Jehóva með því að vera ráðvönd. Það er á þeim grunni sem hann getur dæmt okkur. Job skildi þetta mætavel. Hann sagði: „Þá setji Guð mig á rétta vog og hann mun viðurkenna sakleysi mitt [„ráðvendni mína“, NW ].“ (Job. 31:6) Job vissi að Guð vegur alla menn á ‚réttri vog‘ og notar fullkomið réttlæti sitt til að mæla ráðvendni okkar. Davíð tók í sama streng og sagði: „Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni . . . þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!“ (Sálm. 7:9, 10, Biblían 1981) Við vitum að Guð getur séð okkar innri mann, í táknrænum skilningi skoðað „hjörtun og nýrun“. En við megum ekki gleyma að hverju hann leitar. Eins og Davíð sagði dæmir Jehóva okkur eftir ráðvendni okkar.

14. Af hverju ættum við ekki að ímynda okkur að við séum of ófullkomin til að geta verið ráðvönd?

14 Hugsaðu þér Jehóva Guð skoða hjörtu þeirra milljarða manna sem byggja jörðina. (1. Kron. 28:9) Hve marga ætli hann finni sem eru kristnir og sýna honum ráðvendni? Þeir eru fremur fágætir. Við megum hins vegar ekki ímynda okkur að við séum svo gölluð að við getum ekki verið ráðvönd. Þvert á móti höfum við ærna ástæðu til að treysta, líkt og þeir Davíð og Job gerðu, að Jehóva komist að þeirri niðurstöðu að við séum ráðvönd þrátt fyrir ófullkomleika okkar. Höfum hugfast að það er ekki tryggt að ráðvendni og fullkomleiki haldist í hendur. Aðeins þrjár fullkomnar manneskjur hafa verið hér á jörð og tvær þeirra, þau Adam og Eva, reyndust ekki ráðvandar. Mörgum milljónum ófullkominna manna hefur hins vegar tekist það. Þú getur það líka.

3. Ráðvendni er forsenda þess að við höfum von

15. Hvernig sýndi Davíð fram á að það sé nauðsynlegt að vera ráðvandur til að eiga sér framtíðarvon?

15 Þar sem Jehóva dæmir okkur eftir ráðvendni okkar er hún forsenda þess að við höfum framtíðarvon. Davíð vissi þetta. Hann sagði: „Þú studdir mig af því að ég er saklaus [„ráðvandur“, NW] og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu.“ (Sálm. 41:13) Vonin um að njóta umhyggju Guðs að eilífu var honum dýrmæt. Líkt og sannkristnir menn nú á dögum vonaðist hann til að lifa að eilífu, þjóna Jehóva og styrkja sambandið við hann. Davíð vissi að hann yrði að vera ráðvandur til að sjá vonina rætast. Ef við sýnum Jehóva ráðvendni styður hann okkur, kennir, leiðbeinir og blessar.

16, 17. (a) Af hverju ertu staðráðinn í að vera alltaf ráðvandur? (b) Um hvaða spurningar er fjallað í næstu grein?

16 Til að vera hamingjusöm þurfum við að hafa von. Hún getur veitt okkur þá gleði sem við þurfum á að halda til að þrauka erfiða tíma. Hún getur líka verndað huga okkar. Eins og við munum líkir Biblían voninni við hjálm. (1. Þess. 5:8) Líkt og hjálmur verndar höfuð hermanns í orustu verndar von huga okkar gegn neikvæðni og svartsýni sem Satan ýtir undir í þessum deyjandi gamla heimi. Lífið væri ósköp innihaldslítið ef við hefðum enga von. Við þurfum að gera heiðarlega sjálfsrannsókn og kanna vandlega hvort við séum ráðvönd og eigum þar af leiðandi von. Gleymdu ekki að með því að sýna ráðvendni styður þú drottinvald Jehóva og varðveitir hina dýrmætu framtíðarvon sem þú átt. Gerðu þitt ýtrasta til að sýna ráðvendni öllum stundum.

17 Þar sem ráðvendni er afar mikilvæg þurfum við að leita svara við fleiri spurningum. Hvernig verðum við ráðvönd? Hvernig getum við viðhaldið ráðvendni okkar? Og hvað er til ráða hjá þeim sem tekst ekki að vera ráðvandir um tíma? Fjallað er um þessar spurningar í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Jesús sagði reyndar: „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ (Matt. 5:48) Hann vissi greinilega að ófullkomnir menn geta verið heilir eða fullkomnir að vissu marki. Við getum þóknast Guði með því að hlýða boðorðinu að elska aðra innilega. Jehóva er hins vegar fullkominn í ýtrasta skilningi. Þegar orðið ráðvandur er notað um hann merkir það einnig að hann sé fullkominn. — Sálm. 18:31.

Hvert er svarið?

• Hvað er ráðvendni?

• Hvernig tengist ráðvendni deilunni um rétt Jehóva til að fara með æðsta vald?

• Af hverju er ráðvendni forsenda þess að við höfum von?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 5]

Það reynir oft á ráðvendni okkar í daglegu lífi.