Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstakt hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs

Einstakt hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs

Einstakt hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ — JÓH. 14:6.

1, 2. Af hverju ættum við að hafa áhuga á hinu einstaka hlutverki Jesú í fyrirætlun Guðs?

MARGIR hafa í aldanna rás reynt að skera sig úr fjöldanum en fáum tekist. Og enn færri geta sagt með réttu að þeir séu einstakir á einhvern hátt sem máli skiptir. Jesús Kristur, sonur Guðs, er hins vegar einstakur á marga vegu.

2 Af hverju ættum við að hafa áhuga á hinu einstaka hlutverki Jesú? Af því að það snertir mjög samband okkar við Jehóva, föður okkar á himnum. Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh. 14:6; 17:3) Við skulum nú kanna hvernig Jesús er einstakur á ýmsa vegu. Það hjálpar okkur að skilja og meta hlutverk hans í fyrirætlun Guðs.

Einkasonur

3, 4. (a) Að hvaða leyti er Jesús einstakur meðal sona Guðs? (b) Hvaða einstöku hlutverki gegndi Jesús í sköpunarstarfinu?

3 Jesús er ekki bara „sonur Guðs“ eins og Satan kallaði hann þegar hann reyndi að freista hans. (Matt. 4:3, 6) Hann er réttilega kallaður ‚einkasonur‘ Guðs. (Jóh. 3:16, 18) Gríska orðið, sem er þýtt ‚einkasonur‘, hefur verið skilgreint „einn sinnar tegundar“ eða „einstakur“. Nú á Jehóva hundruð milljóna andasona. Í hvaða skilningi er Jesús þá „einn sinnar tegundar“?

4 Jesús er einstakur að því leyti að hann er sá eini sem faðirinn skapaði milliliðalaust. Hann er frumgetinn sonur, meira að segja „frumburður allrar sköpunar“. (Kól. 1:15) Hann er „upphaf sköpunar Guðs“. (Opinb. 3:14) Einkasonur Guðs fór einnig með einstakt hlutverk í sköpunarstarfinu. Hann var ekki skapari eða frumkvöðull sköpunarverksins heldur skapaði Jehóva allt annað fyrir atbeina hans. (Lestu Jóhannes 1:3.) Páll postuli skrifaði: „[Við] höfum . . . ekki nema einn Guð, föðurinn, sem skapað hefur alla hluti og líf okkar stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allt varð til fyrir og við fyrir hann.“ — 1. Kor. 8:6.

5. Hvernig er hið einstaka hlutverk Jesú dregið fram í Biblíunni?

5 Jesús er hins vegar einstakur á marga aðra vegu. Í Biblíunni eru honum gefnir margir titlar eða nafngiftir sem draga fram það einstaka hlutverk sem hann gegnir í fyrirætlun Guðs. Við skulum nú líta á fimm aðrar nafngiftir Jesú sem er að finna í Grísku ritningunum. *

„Orðið“

6. Af hverju er viðeigandi að Jesús skuli vera kallaður „Orðið“?

6Lestu Jóhannes 1:14. Af hverju er Jesús kallaður „Orðið“? Með þessum titli er bent á það hlutverk sem hann hefur gegnt síðan aðrar vitibornar verur urðu til. Jehóva notaði einkason sinn til að flytja öðrum andasonum upplýsingar og fyrirmæli, ekki ósvipað og hann notaði hann til að flytja mönnum boðskap sinn hér á jörð. Jesús sagði við Gyðingana sem hlýddu á mál hans: „Kenning mín er ekki mín heldur hans er sendi mig. Sá sem vill gera vilja hans mun komast að raun um hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“ (Jóh. 7:16, 17) Eins og þessi orð bera með sér er Jesús talsmaður Guðs. Hann ber enn titilinn „Orðið Guðs“ eftir að hann er orðinn dýrlegur á himnum á nýjan leik. — Opinb. 19:11, 13, 16.

7. Hvernig getum við líkt eftir hógværð Jesú?

7 Veltum aðeins fyrir okkur hvað er fólgið í þessum titli. Enda þótt Jesús sé vitrastur af öllum sköpunarverum Guðs reiðir hann sig ekki á eigin visku heldur talar það sem faðirinn segir honum. Hann beinir athyglinni alltaf að Jehóva en ekki sjálfum sér. (Jóh. 12:50) Þar er hann okkur góð fyrirmynd til eftirbreytni. Okkur er sömuleiðis trúað fyrir því göfuga verkefni að „boða fagnaðarerindið um hið góða“. (Rómv. 10:15) Ef við höfum í huga hve hógvær Jesús var ætti það að vera okkur hvöt til að blanda ekki eigin hugmyndum inn í boðun okkar. Við viljum ekki ‚fara lengra en ritað er‘ þegar við flytjum fólki hjálpræðisboðskap Biblíunnar. — 1. Kor. 4:6.

„Amen“

8, 9. (a) Hvað merkir orðið „amen“ og af hverju er Jesús kallaður „amen“? (b) Hvernig gerði Jesús skil hlutverki sínu sem „amen“?

8Lestu Opinberunarbókina 3:14. Af hverju er Jesús kallaður „amen“? Orðið „amen“ er umritun á hebresku orði sem merkir „verði svo“ eða „vissulega“. Hebreska stofnorðið, sem það er myndað af, merkir „að vera trúfastur“ eða „áreiðanlegur“. Orðið er meðal annars notað til að lýsa trúfesti Jehóva. (5. Mós. 7:9; Jes. 49:7) Hvaða einstöku hlutverki Jesú er verið að lýsa þegar hann er kallaður „amen“? Tökum eftir svarinu sem við fáum í 2. Korintubréfi 1:19, 20: „Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem við höfum prédikað á meðal ykkar . . . var ekki bæði ‚já‘ og ‚nei‘ heldur er allt í honum ‚já‘. Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru þá lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með ‚jái‘. Þess vegna segjum við með honum amen Guði til dýrðar.“

9 Jesús er eins og „amen“ gagnvart öllum fyrirheitum Guðs. Með lífsstefnu sinni hér á jörð, þar á meðal fórnardauða sínum, staðfesti hann öll fyrirheit Jehóva Guðs og gerði það mögulegt að þau rættust. Með því að vera trúfastur afsannaði hann einnig þá staðhæfingu Satans, sem er að finna í Jobsbók, að þjónar Guðs afneiti honum ef þeir lendi í prófraunum, líði skort eða þjáist. (Job. 1:6-12; 2:2-7) Enginn var betur til þess fallinn en frumgetinn sonur Guðs að gefa óhrekjandi svar við þessari ásökun. Og Jesús studdi betur en nokkur annar málstað Jehóva í deilunni miklu um það hver sé réttmætur Drottinn alheims.

10. Hvernig getum við líkt eftir Jesú í hlutverki hans sem „amen“?

10 Hvernig getum við líkt eftir Jesú í hlutverki hans sem „amen“? Með því að vera Jehóva trú og styðja drottinvald hans yfir alheimi. Þar með svörum við beiðninni í Orðskviðunum 27:11 þar sem segir: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt svo að ég geti svarað þeim orði sem smána mig.“

„Meðalgangari nýs sáttmála“

11, 12. Að hvaða leyti er Jesús einstakur í hlutverki sínu sem meðalgangari?

11Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6. Jesús er eini „meðalgangarinn milli Guðs og manna“. Hann er „meðalgangari nýs sáttmála“. (Hebr. 9:15; 12:24) En nú er líka talað um Móse sem meðalgangara — það er að segja lagasáttmálans. (Gal. 3:19) Að hvaða leyti er Jesús þá einstakur í hlutverki sínu sem meðalgangari?

12 Frummálsorðið, sem er þýtt „meðalgangari“, er lögfræðilegt hugtak. Það er notað um Jesú sem lögskipaðan milligöngumann (eða í vissum skilningi sem lögmann) nýja sáttmálans en hann var forsenda þess að ný þjóð yrði til, það er að segja „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Þessi þjóð er mynduð af andasmurðum kristnum mönnum sem verða „konunglegur prestdómur“ á himnum. (1. Pét. 2:9; 2. Mós. 19:6) Lagasáttmálinn, sem var gefinn fyrir milligöngu Móse, gat ekki myndað slíka þjóð.

13. Hvað er fólgið í því að Jesús skuli vera meðalgangari?

13 Hvað er fólgið í því að Jesús skuli vera meðalgangari? Jehóva lætur andvirði blóðs Jesú ná til þeirra sem hann veitir aðild að nýja sáttmálanum. Þannig lýsir hann þá réttláta í lagalegum skilningi. (Rómv. 3:24; Hebr. 9:15) Þá getur hann veitt þeim aðild að nýja sáttmálanum þannig að þeir eiga í vændum að verða konungar og prestar á himnum. Sem meðalgangari þeirra aðstoðar Jesús þá við að standa hreinir frammi fyrir Guði. — Hebr. 2:16.

14. Af hverju ættu allir kristnir menn, óháð von sinni, að bera djúpa virðingu fyrir Jesú í hlutverki hans sem meðalgangara?

14 Hver er staða þeirra sem eiga ekki aðild að nýja sáttmálanum og eiga von um að lifa að eilífu á jörð en ekki á himnum? Þeir njóta góðs af nýja sáttmálanum þó að þeir eigi ekki aðild að honum. Þeir fá syndir sínar fyrirgefnar og Jehóva lýsir þá réttláta sem vini sína. (Jak. 2:23; 1. Jóh. 2:1, 2) Hvort sem við eigum himneska von eða jarðneska höfum við öll ærna ástæðu til að bera djúpa virðingu fyrir Jesú í hlutverki hans sem meðalgangara nýja sáttmálans.

Æðstiprestur

15. Að hvaða leyti er Jesús ólíkur öllum öðrum sem hafa gegnt embætti æðstaprests?

15 Margir hafa þjónað sem æðstuprestar í fortíðinni en Jesús er einstakur í því hlutverki. Hvernig? Páll varpar ljósi á það og segir: „Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll er hann fórnfærði sjálfum sér. Lögmálið skipar breyska menn æðstu presta en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar æðsta prest sem er sonur, fullkominn að eilífu.“ — Hebr. 7:27, 28. *

16. Af hverju er fórn Jesú einstök?

16 Jesús var fullkominn maður, nákvæmur jafningi Adams áður en Adam syndgaði. (1. Kor. 15:45) Sem slíkur var Jesús eini maðurinn sem var í aðstöðu til að færa fullkomna fórn sem aldrei þurfti að endurtaka. Móselögin kváðu á um að færðar væru daglegar fórnir en allar þessar fórnir og þjónusta prestanna voru aðeins skuggi þess sem Jesús átti að áorka. (Hebr. 8:5; 10:1) Jesús er einstakur í hlutverki sínu sem æðstiprestur vegna þess að hann getur áorkað miklu meiru en hinir æðstuprestarnir og gegnir embættinu til frambúðar.

17. Af hverju ættum við að virða og viðurkenna Jesú sem æðstaprest og hvernig getum við gert það?

17 Við þurfum á þjónustu Jesú sem æðstaprests að halda til að geta átt gott samband við Guð. Og við eigum okkur óviðjafnanlegan æðstaprest. Páll skrifaði: „Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar.“ (Hebr. 4:15) Ef við virðum það og viðurkennum er það okkur hvatning til að lifa ekki framar fyrir sjálf okkur heldur fyrir hann sem dó fyrir okkur. — 2. Kor. 5:14, 15; Lúk. 9:23.

Hinn fyrirheitni ‚niðji‘

18. Hvaða spádómur var borinn fram eftir að Adam syndgaði og hvað var síðar opinberað?

18 Í Eden forðum daga virtist mannkynið hafa glatað öllu — góðu sambandi við Guð, eilífu lífi, hamingjunni og paradís. En þá boðaði Jehóva Guð að frelsari myndi koma. Hann var kallaður ‚niðjinn‘. (1. Mós. 3:15) Margir af spádómum Biblíunnar í aldanna rás fjölluðu um þennan dularfulla niðja. Hann átti að koma af Abraham, Ísak og Jakobi. Og hann átti að fæðast í ættlegg Davíðs konungs. — 1. Mós. 21:12; 22:16-18; 28:14; 2. Sam. 7:12-16.

19, 20. (a) Hver er hinn fyrirheitni niðji? (b) Af hverju er hægt að segja að fleiri en Jesús eigi að verða niðjar Abrahams?

19 Hver var þessi fyrirheitni niðji? Svarið er að finna í Galatabréfinu 3:16. (Lestu.) En síðar í sama spádómi segir Páll við hina andasmurðu: „Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.“ (Gal. 3:29) Hvernig getur Kristur verið hinn fyrirheitni niðji og aðrir sömuleiðis?

20 Milljónir manna segjast vera afkomendur Abrahams og sumir hafa jafnvel talið sig spámenn. Sum trúarbrögð leggja mikla áherslu á að spámenn sínir séu komnir af Abraham. En eru þeir allir fyrirheitnir niðjar? Nei, eins og Páll postuli bendir á vegna innblástur geta ekki allir afkomendur Abrahams talið sig fyrirheitna niðja. Niðjinn, sem átti að vera mannkyni til blessunar, átti að koma af Ísak einum, ekki af hinum sonum Abrahams. (Hebr. 11:18) Þegar allt kemur til alls er aðeins einn maður, Jesús Kristur, aðalniðji Abrahams, og ætt hans er rakin í Biblíunni. * Þeir sem verða niðjar Abrahams síðar auk hans verða það af því að þeir eru „í samfélagi við Krist“. Jesús fer með einstakt hlutverk í uppfyllingu þessa spádóms.

21. Hvernig hefur Jesús gegnt einstöku hlutverki sínu í fyrirætlun Jehóva?

21 Hvað höfum við lært af þessu stutta yfirliti yfir hið einstaka hlutverk Jesú í fyrirætlun Jehóva? Frá því að einkasonur Guðs var skapaður hefur hann verið einstakur, einn sinnar tegundar. En þessi sonur Guðs, sem varð maðurinn Jesús, hefur alltaf verið hógvær og starfað í samræmi við vilja föðurins. Aldrei hefur hann sóst eftir upphefð. (Jóh. 5:41; 8:50) Hann er frábært fordæmi fyrir okkur. Líkjum eftir Jesú og setjum okkur það markmið að ‚gera allt Guði til dýrðar‘. — 1. Kor. 10:31.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sumar þessar nafngiftir standa með ákveðnum greini í gríska textanum sem gefur til kynna að þær séu „að vissu leyti í sérflokki“, svo vitnað sé í orð fræðimanns.

^ gr. 15 Að sögn fræðimanns lýsir orðið, sem er þýtt „í eitt skipti fyrir öll“, mikilvægu biblíuhugtaki sem „gefur til kynna að dauði Krists sé einstæður eða sérstakur“.

^ gr. 20 Enda þótt Gyðingar á fyrstu öld hafi talið sig njóta forréttinda af því að þeir voru beinlínis niðjar Abrahams væntu þeir þess að einn maður kæmi sem Messías eða Kristur. — Jóh. 1:25; 7:41, 42; 8:39-41.

Manstu?

• Hvað hefurðu lært af nafngiftum Jesú um einstakt hlutverk hans? (Sjá ramma.)

• Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Jesú, hins einstaka sonar Jehóva?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 15]

Nokkrar nafngiftir sem lýsa einstöku hlutverki Jesú í fyrirætlun Guðs

Einkasonur. (Jóh. 1:3) Jesús er sá eini sem Jehóva skapaði milliliðalaust.

Orðið. (Jóh. 1:14) Jehóva notar son sinn sem talsmann til að miðla upplýsingum og fyrirmælum til annarra sköpunarvera sinna.

Amen. (Opinb. 3:14) Lífsstefna Jesú á jörðinni, þar á meðal fórnardauði hans, staðfesti og gerði mögulegt að fyrirheit Jehóva Guðs næðu fram að ganga.

Meðalgangari nýja sáttmálans. (1. Tím. 2:5, 6) Jesús var eins og lögskipaður milligöngumaður og var forsenda þess að ný þjóð yrði til, það er að segja „Ísrael Guðs“. Þessi þjóð er mynduð af andasmurðum kristnum mönnum sem verða „konunglegur prestdómur“ á himnum. — Gal. 6:16; 1. Pét. 2:9.

Æðstiprestur. (Hebr. 7:27, 28) Jesús var eini maðurinn sem var í aðstöðu til að færa fullkomna fórn sem þurfti ekki að endurtaka. Hann getur hreinsað okkur af synd og losað okkur við dauðann sem hún hefur í för með sér.

Hinn fyrirheitni niðji. (1. Mós. 3:15) Aðeins einn maður, Jesús Kristur, er aðalniðji Abrahams. Þeir sem verða niðjar Abrahams síðar auk hans verða það af því að þeir eru „í samfélagi við Krist“. — Gal. 3:29.