Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fornar fleygrúnaáletranir og Biblían

Fornar fleygrúnaáletranir og Biblían

Fornar fleygrúnaáletranir og Biblían

EFTIR að tungumál mannkyns var ruglað í Babel þróuðu menn skrifletur af ýmsu tagi. Súmerar og Babýloníumenn í Mesópótamíu notuðu til dæmis fleygrúnir. Nafnið er dregið af því að leturtáknin voru þrykkt á rakar leirtöflur með fleygmynduðum staut.

Fornleifafræðingar hafa fundið fleygrúnatöflur þar sem fjallað er um fólk og atburði sem sagt er frá í Biblíunni. Hvað vitum við um þessa fornu ritlist og hvað má álykta um áreiðanleika Biblíunnar af fleygrúnaáletrunum?

Heimildir sem stóðust tímans tönn

Fræðimenn telja að fleygrúnirnar, sem notaðar voru í Mesópótamíu, hafi upphaflega verið myndletur þar sem tákn eða mynd stóð fyrir hugmynd eða orð. Táknið fyrir uxa leit upphaflega út eins og höfuð á uxa, svo dæmi sé tekið. Fleygrúnaskriftin þróaðist eftir því sem meiri þörf var á að skrásetja upplýsingar. „Nú var hægt að láta tákn standa bæði fyrir orð og atkvæði, og var þá hægt að raða nokkrum táknum saman til að stafa atkvæði orðs,“ segir í NIV Archaeological Study Bible. Að síðustu urðu til um 200 tákn sem gátu „staðið fyllilega fyrir talað mál með öllum margbreytileik orðaforðans og málfræðinnar“.

Fleygrúnaskriftin var orðin vel þróuð á dögum Abrahams, um 2000 f.Kr. Á næstu 20 öldum tóku um 15 tungumál upp þessa skrift. Meira en 99 prósent allra fleygrúnatexta, sem fundist hafa, eru ritaðir á leirtöflur. Síðastliðna eina og hálfa öld hefur fundist gríðarlega mikið af slíkum töflum í Úr, Úrúk, Babýlon, Nimrúd, Nippúr, Assúr, Níníve, Mari, Eblu, Úgarít og Amarna. „Sérfræðingar áætla að á bilinu ein til tvær milljónir fleygrúnataflna hafi verið grafnar úr jörð og árlega finnast um 25.000 til viðbótar,“ segir í tímaritinu Archaeology Odyssey.

Sérfræðingar í fleygrúnaskrift eiga ógurlegt verk fyrir höndum að þýða þessa texta. Sumir áætla að „ekki sé búið að lesa yfir nema um tíunda hluta þeirra fleygrúnatexta sem til eru“.

Þegar uppgötvuðust fleygrúnatextar á tveim og þrem tungumálum var fundin leið til að ráða fram út letrinu. Fræðimenn áttuðu sig á því að þessar áletranir höfðu að geyma sama textann ritaðan með fleygrúnum á ólíkum tungumálum. Í ljós kom að nöfn, titlar, ættartöl valdhafa og jafnvel sjálfshól var margendurtekið og það auðveldaði mönnum að ráða fram úr skriftinni.

Á sjötta áratug nítjándu aldar tókst fræðimönnum að lesa samskiptamálið sem Mið-Austurlandabúar, Akkadíumenn eða Assýríu-Babýloníumenn notuðu í fornöld og rituðu með fleygrúnum. Í alfræðiorðabókinni Encyclopædia Britannica segir: „Eftir að búið var að ráða akkadískuna lá uppistaða kerfisins ljós fyrir og komin var fyrirmynd sem hægt var að nota til að túlka önnur tungumál sem rituð voru með fleygrúnum.“ Hvaða tengsl eiga þessi rit við Biblíuna?

Upplýsingar sem koma heim og saman við Biblíuna

Í Biblíunni kemur fram að kanverskir konungar hafi ráðið Jerúsalem uns Davíð vann borgina um 1070 f.Kr. (Jós. 10:1; 2. Sam. 5:4-9) Sumir fræðimenn drógu í efa að það væri rétt. Árið 1887 fann bóndakona leirtöflu í Amarna í Egyptalandi. Þegar fram liðu stundir fundust þar um það bil 380 textar og í ljós kom að um var að ræða opinber bréfaskipti milli kanverskra konungsríkja og valdhafa Egyptalands (Amenhóteps þriðja og Akhenatons). Sex af bréfunum voru frá ‘Abdi-Heba sem ríkti í Jerúsalem.

Í tímaritinu Biblical Archaeology Review segir: „Á töflunum frá Amarna er greinilega talað um Jerúsalem sem borg en ekki landareign, ‘Abdi-Heba eru sagður . . . landstjóri sem átti aðsetur í Jerúsalem og þar var 50 manna egypskt setulið. Það bendir til þess að Jerúsalem hafi verið lítið konungsríki.“ Í sama tímariti segir síðar: „Miðað við bréfin í Amarna má slá því föstu að þarna hafi staðið allstór borg á þeirra tíma mælikvarða.“

Nöfn í heimildum Assýringa og Babýloníumanna

Assýringar og síðar Babýloníumenn skráðu sögu sína á leirtöflur, kefli, strendinga og minnismerki. Þegar fræðimönnum tókst að ráða fleygrúnir Akkadíumanna kom í ljós að þar er minnst á persónur sem einnig er getið um í Biblíunni.

Í bókinni The Bible in the British Museum segir: „Þegar dr. Samuel Birch ávarpaði hið nýstofnaða Félag um fornleifafræði Biblíunnar árið 1870 gat hann bent á [í fleygrúnatextum] hebresku konungana Omrí, Akab, Jehú, Asarja . . . Menahem, Peka, Hósea, Hiskía og Manasse, Assýríukonungana Tíglat Píleser . . . [þriðja], Sargon, Sanheríb, Asarhaddon og Assúrbanípal, . . . og Sýrlandskonungana Benhadad, Hasael og Resín.“

Í bókinni The Bible and Radiocarbon Dating er saga Biblíunnar af Ísrael og Júda borin saman við forna fleygrúnatexta. Í ljós kemur að „alls er minnst á 15 eða 16 konunga Júda og Ísraels í erlendum heimildum, og í fullu samræmi við nöfn þeirra og tímasetningu í Konungabókunum [í Biblíunni]. Allir konungarnir eru rétt staðsettir og erlendu heimildirnar nefna engan sem við þekkjum ekki fyrir af Konungbókunum.“

Kefli Kýrusar er víðkunnugt dæmi um fleygrúnatexta en það fannst árið 1879. Þar segir frá því að eftir að Kýrus tók Babýlon árið 539 f.Kr. hafi hann fylgt þeirri stefnu sinni að senda herteknar þjóðir heim. Gyðingar voru ein þeirra þjóða sem naut góðs af því. (Esra. 1:1-4) Á 19. öld véfengdu margir fræðimenn frásögn Biblíunnar af þessari tilskipun. Fleygrúnaskjöl frá þeim tíma þegar veldi Persa stóð sem hæst, þar á meðal kefli Kýrusar, eru hins vegar sannfærandi vitnisburður um að frásögn Biblíunnar sé sönn og rétt.

Árið 1883 fannst safn meira en 700 fleygrúnatexta í Nippúr í grennd við Babýlon. Af 2500 nöfnum, sem þar koma fyrir, eru um 70 Gyðinganöfn. Sagnfræðingurinn Edwin Yamauchi segir að þeir séu nefndir „sem samningsaðilar, sendimenn, vitni, skattheimtumenn og konunglegir embættismenn“. Traustar heimildir eru fyrir því að Gyðingar hafi haldið áfram að stunda slík störf í grennd við Babýlon á þessu tímabili. Þær koma heim og saman við þá spá Biblíunnar að „leifar“ Ísraelsmanna myndu snúa heim til Júdeu eftir útlegð í Assýríu og Babýlon en að sama skapi yrðu margir eftir. — Jes. 10:21, 22.

Síðustu þúsund árin fyrir okkar tímatal voru fleygrúnir notaðar jafnhliða stafrófsletri. Þegar fram liðu stundir hættu Assýringar og Babýloníumenn hins vegar að nota fleygrúnir og tóku upp stafrófsletur.

Hundruð þúsunda taflna eru geymdar í söfnum og bíða rannsóknar. Þær sem sérfræðingar hafa lesið úr hingað til bera ríkulega vitni um áreiðanleika Biblíunnar. Hver veit hvað liggur hulið í þeim textum sem enn eru órannsakaðir?

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum.