Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum staðráðin í að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni

Verum staðráðin í að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni

Verum staðráðin í að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni

„Hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna.“ — POST. 10:42.

1. Að hvaða starfi beindi Pétur athyglinni þegar hann talaði við Kornelíus?

ÍTALSKI hershöfðinginn safnaði ættingjum sínum og vinum saman. Þeir myndu verða vitni að merkilegum tímamótum í samskiptum Guðs við menn. Þessi guðhræddi maður hét Kornelíus. Pétur postuli sagði fólkinu að postularnir hefðu fengið fyrirmæli um að „prédika fyrir lýðnum og vitna“ um Jesú. Starf Péturs bar mikinn ávöxt. Óumskornir heiðingjar fengu heilagan anda Guðs, skírðust og öðluðust von um að verða konungar með Jesú á himnum. Rækilegt boðunarstarf Péturs skilaði sannarlega miklum árangri. — Post. 10:22, 34-48.

2. Hvernig vitum við að boðið um að bera fagnaðarerindinu vitni einskorðaðist ekki aðeins við postulana 12?

2 Þetta var árið 36. Um það bil tveim árum áður varð ákafur andstæðingur kristninnar fyrir reynslu sem breytti lífi hans. Sál frá Tarsus var á leiðinni til Damaskus þegar Jesús birtist honum og sagði: „Gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gera.“ Jesús fullvissaði lærisveininn Ananías um að Sál myndi bera fagnaðarerindinu vitni ‚frammi fyrir heiðingjum, konungum og börnum Ísraels“. (Lestu Postulasöguna 9:3-6, 13-20.) Þegar Ananías kom til Sáls sagði hann við hann: „Guð forfeðra vorra hefur útvalið þig . . . Því að þú skalt vera vottur hans og segja öllum mönnum frá því sem þú hefur séð og heyrt.“ (Post. 22:12-16) Hversu alvarlega tók Sál, seinna þekktur sem Páll, þetta verkefni að bera vitni?

Hann bar rækilega vitni

3. (a) Hvað ætlum við að skoða nánar? (b) Hvernig brugðust öldungarnir í Efesus við skilaboðum Páls, og hvaða fordæmi gáfu þeir um leið?

3 Það væri áhugavert að rannsaka í smáatriðum hvað Páll gerði eftir þetta, en núna skulum við einbeita okkur að ræðu sem hann flutti um árið 56 og er að finna í 20. kafla Postulasögunnar. Páll flutti ræðuna í lok þriðju trúboðsferðar sinnar. Hann hafði stigið af skipi í Míletus, sem var hafnarborg í Eyjahafi, og látið senda eftir öldungunum í söfnuðinum í Efesus. Efesus var í um 50 km fjarlægð en ferðin eftir hlykkjóttum vegunum var þó lengri. Við getum ímyndað okkur hve spenntir öldungarnir hljóta að hafa verið þegar þeir fengu skilaboðin frá Páli. (Samanber Orðskviðina 10:28.) Þeir hafa samt þurft að gera ýmsar ráðstafanir til að ferðast til Míletus. Kannski þurftu einhverjir þeirra að fá frí frá vinnu eða loka fyrirtækjum sínum. Hið sama er að segja um marga kristna menn nú á dögum sem vilja ekki missa af neinu af því sem fram fer á árlegu umdæmismótunum.

4. Hvað gerði Páll þegar hann var í Efesus í nokkur ár?

4 Hvað heldurðu að Páll hafi gert í Míletus þá þrjá til fjóra daga sem liðu þangað til öldungarnir komu? Hvað hefðir þú gert? (Samanber Postulasöguna 17:16, 17.) Orð Páls til öldunganna í Efesus veita okkur innsýn í það. Hann sagði frá lífi sínu undanfarin ár, meðal annars frá því þegar hann kom áður til Efesus. (Lestu Postulasöguna 20:18-21.) Hann hafði vitnað rækilega og gat hiklaust sagt við öldungana: „Þið vitið hvernig ég hef hagað mér hjá ykkur allt frá þeim degi er ég kom fyrst til Asíu.“ Já, hann var staðráðinn í að sinna verkefninu sem Jesús hafði falið honum. Hvernig gerði hann það í Efesus? Meðal annars með því að vitna fyrir Gyðingum og fara á þá staði sem þeir sóttu. Lúkas greinir frá því að þegar Páll var í Efesus í kringum 52-55 hafi hann ‚talað djarflega og reynt að sannfæra menn‘ í samkundunni. Þegar Gyðingarnir „brynjuðu sig og vildu ekki trúa“ sneri Páll sér að öðrum, færði sig um set í borginni en hélt áfram að prédika. Honum tókst þannig að vitna fyrir Gyðingum og Grikkjum í þessari stóru borg. — Post. 19:1, 8, 9.

5, 6. Af hverju getum við verið viss um að boðunarstarf Páls hús úr húsi hafi náð til vantrúaðra?

5 Sumir sem gerðust kristnir urðu síðar hæfir sem öldungar og það voru þeir sem Páll talaði við í Míletus. Hann minnti þá á aðferðina sem hann hafði notað: „Ég dró ekkert undan sem ykkur mátti að gagni verða heldur boðaði ykkur það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ Sumir halda því fram að hér hafi Páll aðeins verið að tala um hirðisheimsóknir til trúsystkina. En orðin ‚kenna opinberlega og í heimahúsum‘ eiga fyrst og fremst við boðun fagnaðarerindisins meðal vantrúaðra. Það sést greinilega á framhaldinu þegar Páll segir að hann hafi brýnt „fyrir Gyðingum og Grikkjum að snúa sér til Guðs og trúa á Drottin vorn Jesú.“ Páll hafði greinilega verið að vitna fyrir vantrúuðum sem þurftu að iðrast synda sinna og trúa á Jesú. — Post. 20:20, 21.

6 Fræðimaður, sem hefur rannsakað Grísku ritningarnar ítarlega, sagði um Postulasöguna 20:20: „Páll hafði verið þrjú ár í Efesus. Hann hafði farið í hvert einasta hús eða í það minnsta prédikað fyrir öllum þar. (26. vers) Hér er hin biblíulega heimild fyrir kristniboði hús úr húsi og kristniboði á opinberum samkomum.“ Hvort sem hann heimsótti hvert hús bókstaflega, eins og þessi fræðimaður heldur fram, eða ekki, vildi Páll ekki að öldungarnir í Efesus myndu gleyma því sem hann hafði gert og þeim árangri sem það hafði haft. Lúkas segir svo frá: „Allir þeir sem í Asíu bjuggu heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.“ (Post. 19:10) En hvernig gátu „allir“ í Asíu heyrt boðskapinn og hvað getum við lært af því í tengslum við boðunarstarf okkar?

7. Hvernig kann boðunarstarf Páls að hafa haft áhrif á fleiri en þá sem hann vitnaði fyrir beint?

7 Margir heyrðu boðskapinn þegar Páll prédikaði á opinberum vettvangi og hús úr húsi. Heldurðu að þeir sem heyrðu boðskapinn í Efesus hafi allir verið áfram í borginni, að enginn hafi flutt til að stunda viðskipti annars staðar, til að heimsækja ættingja eða flýja ys og þys stórborgarinnar? Það er ólíklegt. Nú á dögum flytja margir af svipuðum ástæðum, kannski hefur þú jafnvel gert það. Og það er alveg víst að á þeim tíma hafa líka margir heimsótt Efesus af viðskiptalegum eða félagslegum ástæðum. Þegar þeir voru þar hafa þeir kannski hitt Pál eða heyrt hann boða trúna. Hvað ætli hafi gerst þegar þeir sneru heim? Þeir sem tóku við sannleikanum hafa eflaust borið vitni. En þeir sem tóku ekki trú hafa samt líklega talað um það sem þeir heyrðu í Efesus. Þannig hafa ættingjar, nágrannar eða viðskiptavinir fengið að heyra um sannleikann og sumir tekið trú. (Samanber Markús 5:14.) Hvað gæti það sagt okkur um áhrifin af boðunarstarfi okkar?

8. Hvernig hefur fólk í Asíu hugsanlega komist í kynni við sannleikann?

8 Þegar Páll skrifaði um fyrri dvöl sína í Efesus talaði hann um að „víðar dyr að miklu verki“ hefðu opnast fyrir honum. (1. Kor. 16:8, 9) Hvaða dyr voru það og hvernig opnuðust þær fyrir honum? Starf Páls í Efesus varð til þess að fagnaðarerindið breiddist út. Borgirnar Kólossa, Laódíkea og Híerapólis voru allar inni í landi austur af Efesus. Páll heimsótti þær aldrei en fagnaðarerindið náði samt þangað. Epafras var frá þessu svæði. (Kól. 2:1; 4:12, 13) Gerðist Epafras kristinn eftir að hafa heyrt Pál boða trúna í Efesus? Biblían tilgreinir það ekki en Epafras hefur ef til vill borið vitni á heimasvæði sínu sem fulltrúi Páls. (Kól. 1:7) Á árunum sem Páll boðaði trúna í Efesus hefur kristnin kannski líka náð til borga eins og Fíladelfíu, Sardes og Þýatíru.

9. (a) Hvað þráði Páll afar heitt? (b) Hver er árstextinn fyrir árið 2009?

9 Öldungarnir í Efesus gátu því samþykkt orð Páls sem sagði: „Mér er líf mitt einskis virði fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“ Árstextinn fyrir árið 2009 er byggður á þessum uppörvandi og hvetjandi orðum. Hann er: Berum fagnaðarerindinu rækilega vitni. — Post. 20:24.

Berum rækilega vitni núna

10. Hvernig vitum við að við eigum líka að bera rækilega vitni?

10 Fyrirmælin um að „prédika fyrir alþjóð og vitna“ náði með tímanum til fleiri en postulanna. Þegar Jesús hafði verið reistur upp og talaði við um 500 lærisveina, sem voru saman komnir í Galíleu, sagði hann þeim: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ Þessi fyrirmæli ná líka til allra sannkristinna manna nú á dögum eins og sést á orðum Jesú: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matt. 28:19, 20.

11. Hvaða mikilvæga starf eru Vottar Jehóva þekktir fyrir?

11 Kappsfullir kristnir menn halda áfram að hlýða þessum fyrirmælum og leggja sig fram um að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni. Ein helsta aðferðin til þess er sú sem Páll nefndi við öldungana í Efesus — að prédika hús úr húsi. Í bók frá árinu 2007 um árangursríkt trúboðsstarf sagði David G. Stewart yngri: „Sú aðferð Votta Jehóva að kenna safnaðarmönnum að segja öðrum frá trú sinni hefur reynst mun árangursríkari en óljós fræðileg [hvatning frá prédikunarstólnum]. Margir vottar hafa mikla ánægju af að boða trú sína.“ Og hver er árangurinn? „Árið 1999 gerði ég könnun í tveim höfuðborgum í Austur-Evrópu. Í ljós kom að aðeins 2 til 4 prósent þeirra sem ég talaði við höfðu hitt trúboða Síðari daga heilagra (Mormóna). Yfir 70 prósent aðspurðra höfðu hins vegar hitt votta Jehóva og sumir mörgum sinnum.“

12. (a) Af hverju heimsækjum við fólk mörgum sinnum? (b) Geturðu sagt frá einhverjum sem breytti viðhorfi sínu til boðskapsins?

12 Fólk á þínu svæði hefur örugglega svipaða sögu að segja. Og þú hefur átt þinn þátt í því. Í boðunarstarfinu hús úr húsi hefurðu talað við karla, konur og ungt fólk. Sumir hafa kannski ekki hlustað þótt þeir hafi oft fengið heimsókn. Aðrir hafa ef til vill hlustað stundarkorn meðan þú last fyrir þá biblíuvers eða sagðir þeim eitthvað frá Biblíunni. Enn aðrir hafa gefið þér tækifæri til að útskýra sannindi Biblíunnar og tekið við boðskapnum. Allir þessir möguleikar eru fyrir hendi þegar við berum fagnaðarerindinu rækilega vitni. Eins og þú veist eru ótal dæmi um fólk sem hefur sýnt lítinn áhuga í fyrstu en hefur síðan breytt um afstöðu. Kannski kom eitthvað fyrir þá eða ástvini þeirra sem opnaði hugi þeirra og hjörtu fyrir sannleikanum. Núna eru þeir bræður okkar og systur. Þú skalt því ekki gefast upp þótt þú hafir ekki hitt marga áhugasama undanfarið. Við ætlumst ekki til að allir taki við sannleikanum. En það sem Guð ætlast til af okkur er að við séum samviskusöm og kostgæfin og höldum áfram að bera rækilega vitni.

Árangur sem við vitum ekki um

13. Hvernig gæti boðunarstarf okkar borið árangur sem við vitum ekki um?

13 Boðunarstarf Páls hafði ekki aðeins áhrif á þá sem hann prédikaði fyrir. Og það sama á við um okkur. Við leggjum okkur fram um að taka þátt í boðunarstarfinu hús úr húsi á reglulegum grundvelli og vitnum fyrir eins mörgum og við getum. Við tölum um fagnaðarerindið við nágranna, vinnufélaga, skólafélaga og ættingja. Vitum við alltaf hver árangurinn verður? Sumir bregðast strax vel við boðskapnum. Hjá öðrum liggur frækorn sannleikans í dvala um tíma en festir síðan rætur í hjartanu og byrjar að vaxa. Og þótt það gerist ekki talar fólk, sem við hittum, við aðra um það sem við sögðum, hverju við trúum og hvernig við hegðum okkur. Já, þannig geta þeir óaðvitandi komið frækorninu í frjósama mold hjá einhverjum öðrum.

14, 15. Hvaða áhrif hafði það þegar bróðir nokkur bar óformlega vitni?

14 Dæmi um þetta eru hjónin Ryan og Mandi sem búa í Flórída í Bandaríkjunum. Ryan bar óformlega vitni fyrir vinnufélaga sem var hindúi að uppruna. Maðurinn var hrifinn af því hvað Ryan var snyrtilegur til fara og kom vel fyrir. Ryan ræddi við hann um mál eins og upprisuna og ástand hinna dánu. Eitt janúarkvöld spurði maðurinn konu sína, Jodi, hvað hún vissi um votta Jehóva. Hún var kaþólsk og sagði að það eina sem hún tengdi við vottana væri boðunarstarf þeirra hús úr húsi. Jodi skrifaði „Vottar Jehóva“ í leitarforrit á Netinu og komst þannig inn á heimasíðuna okkar www.watchtower.org. Næstu mánuði las hún efni á síðunni, meðal annars úr Biblíunni og greinum sem vöktu áhuga hennar.

15 Þegar fram liðu stundir hitti hún Mandi þar sem þær voru báðar hjúkrunarfræðingar. Mandi svaraði spurningum Jodi með ánægju. Seinna áttu þær langt samtal um helstu kenningar Biblíunnar. Jodi þáði biblíunámskeið og fór fljótlega að sækja samkomur í ríkissalnum. Hún varð óskírður boðberi í október og í febrúar lét hún skírast. Hún segir: „Núna þegar ég þekki sannleikann er ég hamingjusöm og líf mitt er tilgangsríkt.“

16. Hvernig getur reynsla bróðurins í Flórída verið okkur hvatning til að bera rækilega vitni?

16 Þegar Ryan bar óformlega vitni fyrir manninum hafði hann ekki hugmynd um að það yrði til þess að einhver annar kynntist sannleikanum. En seinna komst hann að því hvaða áhrif það hafði að bera rækilega vitni. Kannski vitnar þú hús úr húsi, í vinnunni, í skólanum eða óformlega. Og án þess að þú vitir af verður það til þess að einhver annar heyrir sannleikann. Rétt eins og Páll vissi ekki hver árangurinn yrði af starfi hans í Asíu veist þú ekki hver árangurinn verður af boðunarstarfi þínu. (Lestu Postulasöguna 23:11; 28:23.) Haltu því áfram að sinna þessu mikilvæga starfi.

17. Hvað ertu ákveðinn í að gera á árinu 2009?

17 Við skulum öll sinna verkefni okkar vel á árinu 2009 og boða trúna hús úr húsi og á öðrum vettvangi. Þá getum við tekið undir orð Páls: „Mér er líf mitt einskis virði fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“

Hvert er svarið?

• Hvernig báru postularnir Pétur og Páll og aðrir á fyrstu öldinni rækilega vitni?

• Af hverju getur boðunarstarf okkar haft víðtækari áhrif en við vitum um?

• Hver er árstextinn fyrir árið 2009 og af hverju finnst þér hann við hæfi?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 19]

Árstextinn 2009 verður: Berum fagnaðarerindinu rækilega vitni. — Post. 20:24.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Öldungarnir í Efesus vissu að Páll bar vitni hús úr húsi.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Hversu víðtæk áhrif ætli boðunarstarf þitt hafi?