Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þetta er vegurinn, farið hann“

„Þetta er vegurinn, farið hann“

„Þetta er vegurinn, farið hann“

Saga Emiliu Pederson

Ruth E. Pappas segir frá

MÓÐIR mín, Emilia Pederson, fæddist árið 1878. Hún gerðist kennari þótt hana hefði í raun og veru alltaf langað að nota líf sitt til að hjálpa fólki að kynnast Guði. Stórt ferðakoffort á heimili okkar bar vitni um þessa löngun hennar. Hún hafði fengið koffortið til að flytja með sér eigur sínar til Kína þar sem hún ætlaði að starfa sem trúboði. En þegar móðir hennar lést varð hún að hætta við áformin til að sinna yngri systkinum sínum heima í Jasper, litlu þorpi í Minnesota. Árið 1907 giftist hún Theodore Holien. Ég fæddist 2. desember 1925 — yngst af sjö börnum.

Mömmu lágu á hjarta margar biblíuspurningar sem hún leitaði stöðugt svara við. Ein spurningin snerist um þá kenningu að vondir menn færu í logandi helvíti. Hún spurði umsjónarmann í lútersku kirkjunni hvar hún gæti fundið rök fyrir þessari kenningu í Biblíunni. Hann sagði henni nánast að það skipti engu máli hvað stæði í Biblíunni — það þyrfti að kenna fólki að til væri kvalastaður í vítislogum.

Þráin að kynnast sannleikanum uppfyllist

Emma, móðursystir mín, fór í tónlistarnám til Northfield í Minnesota upp úr 1900. Hún dvaldi á heimili kennara síns, Miliusar Christianson, en eiginkona hans var biblíunemandi eins og vottar Jehóva voru kallaðir í þá daga. Emma minntist á að hún ætti systur sem læsi mikið í Biblíunni. Stuttu síðar skrifaði eiginkona Miliusar móður minni bréf þar sem biblíuspurningum hennar var svarað.

Dag einn kom biblíunemandi, Lora Oathout að nafni, með lest frá Sioux Falls í Suður-Dakota til að boða fagnaðarerindið í Jasper. Mamma las biblíuskýringarritin sem hún fékk og árið 1915 fór hún að segja öðrum frá sannleikanum í Biblíunni og dreifði ritum og blöðum sem Lora færði henni.

Árið 1916 frétti mamma að Charles Taze Russell yrði á móti í Sioux City í Iowa. Hana langaði til að vera viðstödd. Þegar hér var komið sögu átti hún fimm börn og það yngsta, Marvin, var aðeins fimm mánaða. Hún fór samt með öll börnin í eftirdragi í 160 kílómetra lestarferð til Sioux City til þess að vera á mótinu. Hún hlustaði á ræður bróður Russells, sá „Sköpunarsöguna í myndum“ og lét skírast. Þegar hún var komin heim skrifaði hún grein um mótið og fékk hana birta í Jasper Journal.

Árið 1922 var mamma ein af 18.000 sem sóttu mótið í Cedar Point í Ohio. Eftir þetta mót lét hún aldrei af að kunngera ríki Guðs. Það má segja að fordæmi hennar hafi hvatt okkur til að fara eftir ábendingunni: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ — Jes. 30:21.

Boðun fagnaðarerindisins ber ávöxt

Snemma á þriðja áratugnum fluttust foreldrar mínir í hús í útjaðri Jasper. Pabba gekk vel í viðskiptum og hafði fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Hann var ekki eins duglegur og mamma að kynna sér Biblíuna en studdi boðunarstarfið heilshugar. Heimilið stóð alltaf opið fyrir farandhirða sem þá voru kallaðir pílagrímar. Þegar farandhirðar héldu ræður á heimili okkar kom það oft fyrir að um hundrað manns voru viðstaddir — þá var þéttskipað í setustofuna, borðstofuna og svefnherbergið.

Ég var um það bil sjö ára þegar Lettie frænka hringdi og sagði að nágrannar hennar hefðu áhuga á að kynna sér Biblíuna. Það voru Ed Larson og eiginkona hans. Þau tóku fagnandi við sannleika Biblíunnar og buðu seinna öðrum nágranna að vera með sér í náminu. Þetta var Martha Van Daalen, átta barna móðir. Hún og öll fjölskylda hennar urðu einnig biblíunemendur. *

Um þetta leyti byrjaði ungur maður að nafni Gordon Kammerud að vinna hjá pabba en hann átti heima nokkra kílómetra frá okkur. Gordon hafði verið varaður við dætrum vinnuveitanda síns. „Þær aðhyllast einhverja skrítna trú.“ En Gordon fór að kynna sér Biblíuna og sannfærðist fljótlega um að hann hefði fundið sannleikann. Þrem mánuðum síðar lét hann skírast. Foreldrar hans tóku einnig trú og góð vinátta tókst með fjölskyldu okkar, Kammerudfjölskyldunni og Daalenfjölskyldunni.

Mótin voru trústyrkjandi

Mömmu hafði þótt svo uppörvandi að sækja mótið í Cedar Point að hún vildi alls ekki missa af einu einasta móti eftir það. Og einna fyrstu minningar mínar eru langar ferðir á þessar fjöldasamkomur. Minnisstætt er mótið í Columbus í Ohio árið 1931. Það var þá sem nafnið Vottar Jehóva var tekið upp. (Jes. 43:10-12) Ég man einnig glöggt eftir mótinu í Washington, D.C., árið 1935 en þar kom fram í sögufrægri ræðu hver hinn ‚mikli múgur‘ væri sem sagt er frá í Opinberunarbókinni. (Opinb. 7:9) Rúmlega 800 létu skírast á mótinu, þeirra á meðal Lilian og Eunice, systur mínar.

Við fjölskyldan fórum á mót í Columbus í Ohio 1937, Seattle í Washington 1938 og New Yorkborg 1939. Van Daalen- og Kammerudfjölskyldurnar urðu okkur samferða ásamt fleirum og við tjölduðum á leiðinni. Eunice giftist Leo Van Daalen árið 1940 og þau gerðust brautryðjendur. Sama ár voru Lilian og Gordon Kammerud gefin saman og þau gerðust einnig brautryðjendur.

Mótið, sem haldið var í St. Louis í Missouri árið 1941, var einstakt. Þar fengu þúsundir ungmenna bókina Börn. Mótið markaði tímamót fyrir mig. Stuttu síðar, 1.september 1941, varð ég brautryðjandi ásamt Marvin bróður og Joyce, eiginkonu hans. Ég var þá 15 ára.

Í landbúnaðarsamfélagi okkar áttu sumir bræðurnir erfitt með að fara á mótin því að þau voru oft haldin á uppskerutímanum. Eftir mótin var því mótsefnið rifjað upp í bakgarðinum hjá okkur til gagns fyrir þá sem höfðu ekki getað verið með á mótinu. Þetta voru ánægjulegar stundir.

Gíleaðskólinn og verkefni erlendis

Gíleaðskólinn var stofnaður í febrúar 1943 í þeim tilgangi að þjálfa brautryðjendur til trúboðsstarfa. Í fyrsta bekk voru sex nemendur úr Van Daalenfjölskyldunni — bræðurnir Emil, Arthur, Homer og Leo, Donald frændi þeirra og Eunice systir, eiginkona Leos. Tilfinningar okkar voru blendnar þegar við kvöddumst því að við vissum ekki hvenær við sæjum þau aftur. Eftir brautskráninguna voru þau öll send til Púertó Ríkó en þar voru innan við tíu vottar á þeim tíma.

Ári seinna fóru Lilian og Gordon ásamt Marvin og Joyce í þriðja bekk Gíleaðskólans. Þau voru einnig send til Púertó Ríkó. Ég fór í fjórða bekk Gíleaðskólans í september 1944, en þá var ég 18 ára. Þegar ég brautskráðist í febrúar 1945 sameinaðist ég systkinum mínum á Púertó Ríkó. Þar opnaðist fyrir mér alveg ný veröld! Þótt erfitt væri að læra spænskuna voru sum okkar fljótlega farin að halda fleiri en 20 biblíunámskeið. Jehóva blessaði starfið. Núna eru um 25.000 vottar á Púertó Ríkó.

Sorglegir atburðir í fjölskyldunni

Leo og Eunice dvöldust áfram á Púertó Ríkó eftir að sonur þeirra Mark fæddist 1950. Árið 1952 ákváðu þau að fara í frí og heimsækja ættingja í Bandaríkjunum. Þau lögðu af stað með flugvél 11. apríl. Stuttu eftir flugtak vildi svo hörmulega til að flugvélin hrapaði í sjóinn. Leo og Eunice létu lífið. Mark, sem var tveggja ára, fannst á floti í sjónum. Maður, sem komst lífs af, dró hann upp í björgunarbát og þar var blásið lífi í hann — og hann lifnaði við. *

Fimm árum síðar, 7. mars 1957, voru mamma og pabbi á leið í ríkissalinn þegar sprakk á bílnum. Meðan pabbi var að skipta um dekk við vegarbrúnina rakst á hann bíll sem ók fram hjá. Pabbi lést samstundis. Hann hafði verið vel metinn í samfélaginu og um 600 manns voru viðstaddir útförina. Þar var vel vitnað um trú okkar.

Ný verkefni

Rétt áður en pabbi dó hafði mér verið úthlutað að starfa í Argentínu. Í ágúst 1957 kom ég til borgarinnar Mendoza við rætur Andesfjalla. Árið 1958 var George Pappas, sem útskrifaðist úr 30. bekk Gíleaðskólans, sendur til starfa í Argentínu. Við George urðum góðir vinir og giftumst í apríl 1960. Mamma lést árið 1961, 83 ára að aldri. Hún hafði gengið trúfastlega á vegi sannleikans og hafði sjálf hjálpað fjölmörgum til að gera það sama.

Í tíu ár störfuðum við George ásamt öðrum trúboðum á ýmsum trúboðsheimilum. Síðan þjónuðum við í sjö ár í farandhirðisstarfi. Árið 1975 snerum við aftur til Bandaríkjanna til að aðstoða ættingja sem áttu við veikindi að stríða. Árið 1980 var eiginmanni mínum boðið farandhirðisstarf á svæði spænskumælandi fólks. Á þeim tíma voru um 600 spænskumælandi söfnuðir í Bandaríkjunum. Í 26 ár heimsóttum við marga þeirra og söfnuðunum fjölgaði á því tímabili í meira en 3000.

Þau hafa farið ‚veginn‘

Mamma naut einnig þeirrar gleði að sjá yngra fólkið í fjölskyldunni starfa sem boðberar í fullu starfi. Til dæmis byrjaði Carol, dóttir Esterar, elstu systur minnar, sem brautryðjandi 1953. Hún giftist Dennis Trumbore og þau hafa þjónað upp frá því í fullu starfi. Lois, önnur dóttir Esterar, giftist Wendell Jensen. Þau sóttu 41. bekk Gíleaðskólans og þjónuðu í 15 ár sem trúboðar í Nígeríu. Mark, sem missti foreldra sína í flugslysinu, var ættleiddur og alinn upp hjá Ruth La Londe, systur Leos, og Curtiss, eiginmanni hennar. Mark og Lavonne, eiginkona hans, voru brautryðjendur í mörg ár og kenndu börnunum sínum fjórum að fara ‚veginn‘. — Jes. 30:21.

Orlen, eina systkinið mitt sem er enn á lífi, er hálftíræður. Hann er enn þá trúfastur þjónn Jehóva. Við George höldum glöð áfram að þjóna í fullu starfi.

Það sem mamma lét eftir sig

Núna hef ég í fórum mínum einn af þeim hlutum sem mamma hafði hvað mestar mætur á — skrifborðið hennar. Það var brúðkaupsgjöf frá pabba. Í einni skúffunni er gömul úrklippubók með bréfum og blaðagreinum sem hún skrifaði til að vitna um ríki Guðs. Sumt á sögu sína að rekja allt til fyrstu ára 20. aldar. Í skrifborðinu er einnig að finna dýrmæt bréf frá okkur systkinunum sem gerðust trúboðar. Ég nýt þess að lesa þau aftur og aftur. Og bréfin, sem hún skrifaði til okkar voru alltaf svo uppörvandi, full af jákvæðum hugsunum. Ósk mömmu um að verða trúboði uppfylltist aldrei. En hún hafði brennandi áhuga á trúboði og það snerti hjörtu annarra í marga ættliði. Ég hlakka mikið til þegar við fjölskyldan getum öll sameinast mömmu og pabba í paradís á jörð. — Opinb. 21:3, 4.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Ævisögu Emils H. Van Daalens má lesa í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júní 1983, bls. 27-30.

^ gr. 24 Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. júní 1952, bls. 3-4.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Emilia Pederson.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Árið 1916: Mamma og pabbi (heldur á Marvin). Neðri röð (frá vinstri til hægri): Orlen, Ester, Lilian og Mildred.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Leo og Eunice, skömmu fyrir dauða þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Árið 1950: Efri röð (frá vinstri til hægri): Ester, Mildred, Lilian, Eunice og Ruth. Neðri röð: Orlen, mamma, pabbi og Marvin.

[Mynd á blaðsíðu 20]

George og Ruth Pappas í farandshirðisstarfi 2001.