Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónninn sem Jehóva hefur velþóknun á

Þjónninn sem Jehóva hefur velþóknun á

Þjónninn sem Jehóva hefur velþóknun á

„Sjá þjón minn . . . sem ég hef velþóknun á.“ — JES. 42:1.

1. Hvað eru þjónar Jehóva hvattir til að gera, sérstaklega þegar dregur að minningarhátíðinni, og af hverju?

ÞEGAR dregur að minningarhátíðinni um dauða Krists ættu þjónar Guðs að gera eins og Páll postuli hvatti til og ‚beina sjónum sínum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar‘. Páll sagði síðan í framhaldinu: „Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.“ (Hebr. 12:2, 3) Það er gagnlegt bæði fyrir andasmurða kristna menn og félaga þeirra af öðrum sauðum að hugleiða trúfesti Jesú og fórn hans. Það hjálpar þeim að halda áfram að þjóna Jehóva dyggilega og ‚láta ekki hugfallast‘. — Samanber Galatabréfið 6:9.

2. Hvað má læra af spádómum Jesaja um son Guðs?

2 Jesaja spámanni var innblásið að flytja allmarga spádóma sem fjölluðu um son Guðs. Þessir spádómar geta hjálpað okkur að ‚beina sjónum okkar til Jesú Krists, höfundar og fullkomnara trúarinnar‘. * Þeir varpa ljósi á persónuleika hans og þjáningar og það hvernig hann var upphafinn sem konungur okkar og lausnari. Þeir skerpa skilning okkar á minningarhátíðinni sem verður í ár haldin eftir sólsetur fimmtudaginn 9. apríl.

Hver er þjónninn?

3, 4. (a) Um hverja er orðið „þjónn“ notað í Jesajabók? (b) Hvernig kemur fram í Biblíunni hver sé þjónninn í Jesaja kafla 42, 49, 50, 52 og 53?

3 Orðið „þjónn“ kemur víða fyrir í Jesajabók. Það er stöku sinnum notað um spámanninn sjálfan. (Jes. 20:3; 44:26) Stundum er það notað um Ísraelsmenn í heild sem eru einnig nefndir Jakob. (Jes. 41:8, 9; 44:1, 2, 21) En hvað um hina einstöku spádóma um þjóninn sem er að finna í kafla 42, 49, 50, 52 og 53 hjá Jesaja? Í Grísku ritningunum kemur greinilega fram hvaða þjón Jehóva sé átt við í þessum köflum. Eþíópski hirðmaðurinn, sem getið er um í Postulasögunni, var reyndar að lesa einn þessara spádóma þegar andinn sendi Filippus trúboða til hans. Hirðmaðurinn var að enda við að lesa ritningargreinina sem er að finna í Jesaja 53:7 og 8. Hann spurði Filippus: „Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?“ Filippus tók strax til við að útskýra að Jesaja hefði verið að tala um Messías, það er að segja Jesú. — Post. 8:26-35.

4 Jesús var enn þá ungbarn þegar réttlátur maður, sem hét Símeon, sagði undir áhrifum heilags anda að ‚sveinninn Jesús‘ myndi verða „ljós til opinberunar heiðingjum“ eins og spáð var í Jesaja 42:6 og 49:6. (Lúk. 2:25-32) Og í spádóminum í Jesaja 50:6-9 er lýst þeirri niðurlægingu sem Jesús mátti þola nóttina sem hann var leiddur fyrir rétt. (Matt. 26:67; Lúk. 22:63) Eftir hvítasunnu árið 33 benti Pétur postuli á að Jesús væri „þjónn“ Jehóva sem talað er um í Jesajabók. (Jes. 52:13; 53:11; Lestu Postulasöguna 3:13, 26.) Hvað má læra af þessum spádómum um Messías?

Jehóva kennir þjóni sínum

5. Hvaða kennslu fékk þjónninn?

5 Einn af spádómum Jesaja um ‚þjóninn‘ varpar ljósi á hve náið samband var milli Jehóva og frumgetins sonar hans áður en hann kom til jarðar. (Lestu Jesaja 50:4-9.) Þjónninn kemst þannig að orði að Jehóva hafi kennt sér jafnt og þétt. Hann segir: „Hann [vekur] eyra mitt svo að ég hlusti eins og lærisveinn.“ (Jes. 50:4) Allan þennan tíma hlýddi þjónninn á föður sinn, lærði af honum og varð undirgefinn lærisveinn. Hvílíkur heiður að fá kennslu hjá skapara alheims!

6. Hvernig gaf þjónninn til kynna að hann væri fullkomlega undirgefinn föður sínum?

6 Í þessum spádómi kallar þjónninn föður sinn ‚hinn alvalda Drottin‘. Af þessu má sjá að þjónninn hafði lært þann grundvallarsannleika að Jehóva sé Drottinn alheims. Hann gefur til kynna að hann sé fullkomlega undirgefinn föður sínum og segir: „Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.“ (Jes. 50:5, Biblían 1981) Hann var „með í ráðum við hlið [Jehóva]“ við sköpun efnisheimsins og mannsins. Hann segir: „Ég . . . lék mér fyrir augliti hans alla tíma, ég lék mér í byggðum heimi hans og fagnaði með mannanna börnum.“ — Orðskv. 8:22-31.

7. Hvernig sjáum við að þjónninn treysti á stuðning föður síns í öllum prófraunum?

7 Þegar þjóninn kom til jarðar og mætti harðri andstöðu kom það sér vel fyrir hann að hafa fengið þessa kennslu og þykja vænt um mannkynið. Hann hafði yndi af því að gera vilja föður síns, jafnvel þegar hann var ofsóttur grimmilega. (Sálm. 40:9; Matt. 26:42; Jóh. 6:38) Jesús treysti á velþóknun og stuðning föður síns í öllum þeim prófraunum sem urðu á vegi hans hér á jörð. Hann gat sagt eins og fram kemur í spádómi Jesaja: „Nærri er sá er sýknar mig, hver getur deilt við mig? . . . Drottinn, Guð minn, hjálpar mér.“ (Jes. 50:8, 9) Jehóva hjálpaði sannarlega trúum þjóni sínum meðan hann þjónaði á jörð eins og sjá má af öðrum spádómi Jesaja.

Þjónusta hans á jörð

8. Hvað sannar að Jesús var hinn ‚útvaldi‘ þjónn Jehóva sem spáð er um í Jesaja 42:1?

8 Í Biblíunni segir frá því sem gerðist þegar Jesús var skírður árið 29: „Heilagur andi steig niður yfir hann . . . og rödd kom af himni: ‚Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.‘“ (Lúk. 3:21, 22) Þannig benti Jehóva greinilega á hver væri hinn ‚útvaldi‘ sem nefndur er í spádómi Jesaja. (Lestu Jesaja 42:1-7.) Jesús uppfyllti þennan spádóm á einstakan hátt meðan hann þjónaði á jörð. Matteus vitnar í Jesaja 42:1-4 í guðspjalli sínu og heimfærir spádóminn á Jesú. — Matt. 12:15-21.

9, 10. (a) Hvernig uppfyllti Jesús spádóminn í Jesaja 42:3 meðan hann þjónaði hér á jörð? (b) Hvernig ‚kom Jesús á réttlæti‘ meðan hann var á jörð og hvenær ‚grundvallar hann rétt á jörðu‘?

9 Trúarleiðtogar Gyðinga fyrirlitu almenning. (Jóh. 7:47-49) Þeir sýndu fólki harðneskju svo að það mátti líkja því við „brákaðan reyr“ og „dapraðan hörkveik“ sem var að því komið að slokkna á. En Jesús sýndi hinum fátæku og hrjáðu samúð og umhyggju. (Matt. 9:35, 36) Hann bauð þeim hlýlega: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28) Jesús ‚kom á rétti‘ með því að kenna meginreglur Jehóva um rétt og rangt. (Jes. 42:3) Hann benti á að það þyrfti að beita lögum Guðs af sanngirni og miskunn. (Matt. 23:23) Og hann ‚kom á rétti‘ með því að prédika fordómalaust fyrir ríkum jafnt sem fátækum. — Matt. 11:5; Lúk. 18:18-23.

10 Í spádómi Jesaja kemur einnig fram að hinn útvaldi þjónn Jehóva muni ‚grundvalla rétt á jörðu‘. (Jes. 42:4) Hann gerir það innan skamms þegar hann kemur sem konungur Messíasarríkisins til að útrýma öllum pólitískum ríkjum jarðar og réttlát stjórn hans tekur við af þeim. Þá rennur upp nýr heimur þar sem „réttlæti býr“. — 2. Pét. 3:13; Dan. 2:44.

‚Ljós og sáttmáli‘

11. Í hvaða skilningi var Jesús ‚ljós fyrir lýðina‘ á fyrstu öld og í hvaða skilningi er hann það enn þann dag í dag?

11 Jesús reyndist vera ‚ljós fyrir lýðina‘ eins og spáð var í Jesaja 42:6. Meðan hann þjónaði á jörð flutti hann fyrst og fremst Gyðingum hið andlega ljós. (Matt. 15:24; Post. 3:26) En hann sagði: „Ég er ljós heimsins.“ (Jóh. 8:12) Hann var ljós bæði Gyðingum og þjóðunum með því að boða fagnaðarerindið og gefa fullkomið líf sitt sem lausnargjald fyrir allt mannkyn. (Matt. 20:28) Eftir að hann var risinn upp frá dauðum fól hann lærisveinum sínum það verkefni að vera vottar sínir „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) Páll og Barnabas vitnuðu í orðin ‚ljós fyrir lýðina‘ og heimfærðu þau á boðun sína meðal heiðinna manna. (Post. 13:46-48; samanber Jesaja 49:6.) Þessi boðun heldur áfram enn þann dag í dag því að andasmurðir bræður Jesú á jörð og félagar þeirra boða fagnaðarerindið til að fólk trúi á Jesú sem er ‚ljós fyrir lýðina‘.

12. Með hvaða hætti hefur Jehóva gert þjón sinn að „sáttmála fyrir lýðinn“?

12 Jehóva sagði við útvalinn þjón sinn í þessum sama spádómi: „Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn.“ (Jes. 42:6, Biblían 1981) Satan reyndi æ ofan í æ að tortíma Jesú og koma í veg fyrir að hann lyki ætlunarverki sínu á jörð en Jehóva verndaði hann uns tíminn rann upp að hann skyldi deyja. (Matt. 2:13; Jóh. 7:30) Síðan reisti Jehóva hann upp frá dauðum og gerði hann að „sáttmála“ fyrir jarðarbúa, það er að segja að hátíðlegu loforði. Þetta loforð var trygging fyrir því að trúr þjónn Guðs yrði áfram ‚ljós fyrir lýðina‘ og frelsaði þá sem voru í andlegu myrkri. — Lestu Jesaja 49:8, 9. *

13. Hvernig frelsaði Jesús ‚þá sem sátu í myrkri‘ meðan hann var á jörð og hvernig gerir hann það núna?

13 Í samræmi við þetta loforð átti útvalinn þjónn Jehóva að „opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja“. (Jes. 42:7) Jesús gerði þetta þegar hann var hér á jörð með því að afhjúpa falskar trúarkenningar og boða fagnaðarerindið um ríkið. (Matt. 15:3; Lúk. 8:1) Þannig frelsaði hann úr andlegum fjötrum Gyðinga sem gerðust lærisveinar hans. (Jóh. 8:31, 32) Jesús hefur á sama hátt frelsað milljónir manna af öðrum þjóðum úr andlegum fjötrum. Hann fól fylgjendum sínum það verkefni að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum‘ og hét að vera með þeim „allt til enda veraldar“. (Matt. 28:19, 20) Af himnum ofan hefur Jesús umsjón með boðun fagnaðarerindisins út um allan heim.

Jehóva upphóf ‚þjóninn‘

14, 15. Hvers vegna og hvernig upphóf Jehóva þjón sinn?

14 Í enn einum spádómi um þjón sinn Messías segir Jehóva: „Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.“ (Jes. 52:13) Jehóva veitti syni sínum mikla vegsemd af því að hann var undirgefinn drottinvaldi hans og trúfastur í erfiðustu prófraun sem hugsast getur.

15 Pétur postuli skrifaði um Jesú: „[Hann] steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.“ (1. Pét. 3:22) Páll postuli tók í sama streng og skrifaði: „[Hann] lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ — Fil. 2:8-11.

16. Hvernig var Jesús „hátt upp hafinn“ árið 1914 og hvað hefur hann gert síðan þá?

16 Jehóva veitti Jesú enn meiri upphefð árið 1914. Hann var „hátt upp hafinn“ þegar Jehóva krýndi hann konung Messíasarríkisins. (Sálm. 2:6; Dan. 7:13, 14) Síðan þá hefur Kristur ‚drottnað meðal óvina sinna‘. (Sálm. 110:2) Hann byrjaði á því að yfirbuga Satan og illu andana og varpa þeim niður til næsta nágrennis jarðar. (Opinb. 12:7-12) Síðan kom Kristur fram sem hinn meiri Kýrus og leysti andasmurða bræður sína á jörð úr fjötrum ‚Babýlonar hinnar miklu‘. (Opinb. 18:2; Jes. 44:28) Hann hefur látið prédika um allan heim til að ljúka við að safna andlegum bræðrum sínum, og í framhaldi af því hefur verið safnað saman milljónum ‚annarra sauða‘ sem eru dyggir félagar ‚litlu hjarðarinnar‘. — Opinb. 12:17; Jóh. 10:16; Lúk. 12:32.

17. Hvað höfum við lært hingað til af spádómum Jesaja um ‚þjóninn‘?

17 Með því að skoða þessa merkilegu spádóma Jesajabókar höfum við fengið enn betri skilning á því sem konungur okkar og frelsari, Jesús Kristur, gerði. Hann var föður sínum hlýðinn meðan hann þjónaði á jörð og endurspeglaði þannig þá kennslu sem hann hafði fengið hjá honum áður en hann kom til jarðar. Hann var ‚ljós fyrir lýðina‘ með þjónustu sinni á jörð og hefur verið það áfram með boðunarstarfinu sem hann hefur umsjón með allt fram á þennan dag. Í næstu grein lítum við á enn einn spádóm um þjón Guðs Messías, og þar kemur fram að hann myndi þjást og gefa líf sitt fyrir okkur. Þetta er mál sem við ættum að skoða gaumgæfilega þegar dregur að minningarhátíðinni um dauða hans. — Hebr. 12:2, 3.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Þessa spádóma er að finna í Jesaja 42:1-7; 49:1-12; 50:4-9 og 52:13–53:12.

Til upprifjunar

• Hver er ‚þjónninn‘ sem nefndur er í spádómum Jesaja og hvernig vitum við það?

• Hvaða kennslu fékk þjónninn hjá Jehóva?

• Hvernig er Jesús ‚ljós fyrir lýðina‘?

• Hvernig var þjónninn upphafinn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Filippus útskýrði að ‚þjónninn‘, sem Jesaja segir frá, væri Jesús Kristur.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Jesús, útvalinn þjónn Jehóva, sýndi fátækum og hrjáðum samúð og umhyggju.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Jehóva upphóf Jesú og krýndi hann konung Messíasarríkisins.