Ert þú ‚ráðsmaður náðar Guðs‘?
Ert þú ‚ráðsmaður náðar Guðs‘?
„Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ — RÓMV. 12:10.
1. Hvaða loforð er að finna í orði Guðs?
Í BIBLÍUNNI erum við hvað eftir annað fullvissuð um að Jehóva hjálpi okkur þegar við erum niðurdregin eða sorgmædd. Lítum til dæmis á þessi hughreystandi orð: „Drottinn styður alla þá sem hníga og reisir upp alla niðurbeygða.“ „Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra.“ (Sálm. 145:14; 147:3) Og himneskur faðir okkar segir sjálfur: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ — Jes. 41:13.
2. Hvernig styður Jehóva þjóna sína?
2 En hvernig getur Jehóva ‚haldið í hönd okkar‘ fyrst hann býr ósýnilegur á himnum? Hvernig ‚reisir hann okkur upp‘ þegar við erum niðurbeygð? Jehóva hefur ýmsar leiðir til að styðja okkur. Hann veitir þjónum sínum til dæmis ‚kraftinn mikla‘ fyrir tilstuðlan heilags anda. (2. Kor. 4:7; Jóh. 14:16, 17) Innblásið orð Guðs býr líka yfir krafti sem getur uppörvað þjóna hans. (Hebr. 4:12) En notar Jehóva aðrar leiðir til að styrkja okkur? Svarið við því er að finna í 1. Pétursbréfi.
‚Margvísleg náð Guðs‘
3. (a) Hvað segir Pétur postuli um prófraunir? (b) Um hvað er fjallað í síðari hluta 1. Pétursbréfs?
3 Pétur postuli ávarpar andasmurða kristna menn og segir að þeir hafi ástæðu til að fagna því að mikil laun bíði þeirra. Síðan bætir hann við að þeir þurfi þó „um skamma stund . . . að hryggjast í margs konar raunum“. (1. Pét. 1:1-6) Taktu eftir orðunum „margs konar“. Þau gefa til kynna að raunirnar verði af ýmsu tagi. En Pétur lætur ekki staðar numið þar. Bræður hans þurfa ekki að velkjast í vafa um það hvort þeir muni standast hinar ýmsu prófraunir. Pétur fullvissar þá um að Jehóva hjálpi þeim að takast á við hvaða raun sem verður á vegi þeirra, sama hvers eðlis hún er. Þetta loforð er að finna í síðari hluta bréfsins þar sem hann fjallar um ‚endi allra hluta‘ og ýmis skyld mál. — 1. Pét. 4:7.
4. Af hverju eru orðin í 1. Pétursbréfi 4:10 hughreystandi?
4 Pétur segir: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pét. 4:10) Pétur notar hér orðið „margvíslegur“ en það merkir hið sama og orðasambandið „margs konar“ sem hann notaði rétt áður. Hann er í raun að segja: Prófraunirnar eru af ýmsu tagi en náð Guð birtist líka með ýmsu móti. Af hverju eru orð Péturs hughreystandi? Þau gefa til kynna að það sé sama hvaða prófraunum við mætum því að náð Guðs birtist alltaf með þeim hætti að hún hjálpi okkur að standast þær. En tókstu eftir því hvernig Jehóva sýnir okkur náð sína? Það er fyrir milligöngu trúsystkina.
„Þjónið hvert öðru“
5. (a) Hvað ætti hver kristinn maður að gera? (b) Hvaða spurningar vakna?
5 Pétur ávarpar alla í kristna söfnuðinum 1. Pét. 4:8, 10) Allir innan safnaðarins eiga að taka þátt í því að byggja upp trúsystkini sín. Okkur hefur verið falið að gæta verðmæta sem tilheyra Jehóva og við berum ábyrgð á því að útbýta þeim til annarra. Hvaða verðmæti eru þetta? Pétur kallar þau „náðargáfu“. Hver er þessi náðargáfa? Og hvernig notum við hana til að ‚þjóna hvert öðru‘?
og segir: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars.“ Síðan bætir hann við: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru.“ (6. Hvaða gjafir og gáfur hljóta kristnir menn?
6 Í orði Guðs segir: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að.“ (Jak. 1:17) Allar gáfur og gjafir, sem Jehóva veitir þjónum sínum, eru merki um náð hans. Ein framúrskarandi gjöf, sem Jehóva gefur okkur, er heilagur andi. Sú gjöf gerir okkur kleift að tileinka okkur góða eiginleika eins og kærleika, gæsku og hógværð. Þessir eiginleikar eru okkur hvöt til að sýna trúsystkinum innilega umhyggju og veita þeim stuðning. Sönn viska og þekking eru einnig gjafir sem við hljótum með hjálp heilags anda. (1. Kor. 2:10-16; Gal. 5:22, 23) Í rauninni má líta svo á að allir kraftar okkar og hæfileikar séu gjafir sem við eigum að nota til að lofa og heiðra föðurinn á himnum. Guð hefur lagt okkur þá skyldu á herðar að nota hæfni okkar og eiginleika til að birta trúsystkinum okkar náð hans.
„Notið þær og þjónið hvert öðru“
7. (a) Hvað er gefið til kynna í 1. Pétursbréfi 4:10? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna?
7 Orðin í 1. Pétursbréfi 4:10 gefa til kynna að sérhvert okkar hafi fengið „náðargáfu“, það er að segja hæfni og eiginleika. Þessar gáfur eru ekki aðeins ólíkar í eðli sínu heldur höfum við einnig fengið þær í mismiklum mæli. En hvað sem því líður erum við öll hvött til að ‚nota þær [það er að segja hverjar þær gáfur sem við höfum fengið] og þjóna hvert öðru‘. Þegar sagt er „notið þær . . . eins og góðir ráðsmenn“ er auk þess verið að gefa fyrirmæli. Við ættum því að spyrja okkur: Nota ég þær gjafir sem ég hef fengið til að styrkja trúsystkini mín? (Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10.) Eða nota ég þá hæfileika, sem Jehóva hefur gefið mér, aðallega í eiginhagsmunaskyni — kannski til að afla mér fjár eða skapa mér sess í þjóðfélaginu? (1. Kor. 4:7) Við gleðjum Jehóva ef við notum „náðargáfu“ okkar til að ‚þjóna hvert öðru‘. — Orðskv. 19:17; lestu Hebreabréfið 13:16.
8, 9. (a) Nefndu nokkur dæmi um það hvernig bræður og systur um allan heim þjóna hvert öðru. (b) Hvernig aðstoða bræður og systur í þínum söfnuði hvert annað?
8 Í orði Guðs kemur fram hvernig kristnir menn á fyrstu öld þjónuðu hver öðrum með ýmsum hætti. (Lestu Rómverjabréfið 15:25, 26; 2. Tímóteusarbréf 1:16-18.) Hið sama er að segja um sannkristna menn nú á dögum. Þeir nota „náðargáfu“ sína fúslega í þágu trúsystkina sinna. Lítum á nokkur dæmi um hvernig það er gert.
9 Margir bræður nota ótal klukkustundir í hverjum mánuði til að undirbúa verkefni fyrir samkomur. Í söfnuðinum miðla þeir síðan verðmætum upplýsingum sem þeir hafa fundið í sjálfsnámi sínu. Orð þeirra eru öllum hvatning til að vera þolgóðir. (1. Tím. 5:17) Fjölmargir vottar eru þekktir fyrir hlýju sína og umhyggju í garð trúsystkina. (Rómv. 12:15) Sumir eru duglegir að heimsækja niðurdregna og biðja með þeim. (1. Þess. 5:14) Aðrir sýna þá hugulsemi að skrifa til annarra votta sem eru að ganga í gegnum erfiðleika og uppörva þá með hlýlegum orðum. Sumir aðstoða þá sem þurfa hjálp til að sækja safnaðarsamkomur. Þúsundir votta vinna sem sjálfboðaliðar við að endurbyggja heimili bræðra og systra eftir náttúruhamfarir. Umhyggja og hjálpsemi þessara votta endurspeglar ‚margvíslega náð Guðs‘. — Lestu 1. Pétursbréf 4:11.
Hvort er mikilvægara?
10. (a) Hvaða tveim þáttum þjónustunnar sinnti Páll? (b) Hvernig getum við líkt eftir Páli?
10 Þjónum Guðs er ekki aðeins veitt náðargáfa sem þeir eiga að nota í þágu trúsystkina sinna heldur hefur þeim einnig verið falið að flytja náunganum fagnaðarboðskap. Páll postuli gerði sér grein fyrir að hann þyrfti að sinna þessum tveim þáttum þjónustunnar við Jehóva. Hann skrifaði trúsystkinum sínum í Efesus um ‚þá náð sem Guð hafði sýnt honum og um það hlutverk sem hann hafði falið honum‘ í þeirra þágu. (Ef. 3:2) En hann sagði líka: „Guð hefur talið mig maklegan þess að trúa mér fyrir fagnaðarerindinu.“ (1. Þess. 2:4) Við gerum okkur sömuleiðis grein fyrir að okkur hefur verið falið það verkefni að prédika Guðsríki. Með því að taka ötulan þátt í boðunarstarfinu líkjum við eftir Páli sem var óþreytandi boðberi fagnaðarerindisins. (Post. 20:20, 21; 1. Kor. 11:1) Við vitum að boðunarstarfið getur bjargað mannslífum. En við líkjum líka eftir Páli með því að leita tækifæra til að miðla bræðrum og systrum „af gjöfum andans“. — Lestu Rómverjabréfið 1:11, 12; 10:13-15.
11. Hvernig ættum við að líta á það að prédika fagnaðarerindið og byggja upp trúsystkini?
11 Hvort þessara verkefna er mikilvægara? Að spyrja þessarar spurningar er eins og að spyrja hvor vængurinn á fugli sé mikilvægari. Svarið er augljóst. Fugl verður að nota báða vængina til að geta flogið. Við verðum líka að sinna báðum þáttum þjónustunnar við Guð til að gera verkefni okkar full skil. Í stað þess að hugsa sem svo að það séu óskyld verkefni að prédika fagnaðarerindið og byggja upp trúsystkini lítum við svo á að þetta haldist í hendur rétt eins og postularnir Pétur og Páll gerðu. Hvernig þá?
12. Hvernig erum við eins og verkfæri í höndum Jehóva?
12 Sem boðberar notum við hverja þá kennsluhæfileika sem við búum yfir til að reyna að láta fagnaðarerindið um ríkið ná Orðskv. 3:27; 12:25) Þannig reynum við að hjálpa þeim að vera lærisveinar Krists áfram. Í báðum tilfellum — þegar við prédikum fyrir almenningi og ‚þjónum hvert öðru‘ — erum við verkfæri í höndum Jehóva. Það er mikill heiður. — Gal. 6:10.
til hjartna annarra. Þannig reynum við að hjálpa þeim að verða lærisveinar Krists. En við notum líka hæfileika okkar og aðrar náðargáfur til að hvetja trúsystkini okkar með góðverkum og uppörvandi orðum, og endurspeglum þar með náð Guðs. („Verið ástúðleg hvert við annað“
13. Hvað myndi gerast ef við þjónuðum ekki hvert öðru?
13 Páll hvatti trúsystkini sín: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10) Ef við erum ástúðleg hvert við annað er það okkur hvöt til að þjóna heilshugar sem ráðsmenn náðar Guðs. Við vitum að Satan myndi grafa undan einingu okkar ef honum tækist að fá okkur til að hætta að ‚þjóna hvert öðru‘. (Kól. 3:14) Ef einingin dvínaði drægi það úr kostgæfni okkar í boðunarstarfinu. Satan veit vel að hann þarf aðeins að skaða annan vænginn til að gera okkur ófleyg, ef svo mætti að orði komast.
14. Hverjir njóta góðs af því að við ‚þjónum hvert öðru‘? Nefndu dæmi.
14 Þegar við miðlum náð Guðs með því að ‚þjóna hvert öðru‘ er það ekki aðeins til góðs fyrir þá sem við þjónum heldur líka fyrir okkur sjálf. (Orðskv. 11:25) Tökum hjónin Ryan og Roni sem dæmi en þau búa í Illinois í Bandaríkjunum. Þau sýndu bróðurkærleika í verki þegar þau fréttu að fellibylurinn Katrina hefði eyðilagt heimili hundruða votta. Þau sögðu upp vinnunni og íbúðinni, keyptu notað hjólhýsi og gerðu það upp, og ferðuðust síðan 1400 kílómetra til Louisiana. Þar bjuggu þau í meira en ár og gáfu af tíma sínum, kröftum og fjármunum til að hjálpa trúsystkinum. Ryan, sem er 29 ára, segir: „Hjálparstarfið styrkti samband mitt við Guð. Ég sá hvernig Jehóva annast þjóna sína.“ Hann bætir við: „Þegar ég vann með eldri bræðrum lærði ég heilmikið um það hvernig maður á að annast trúsystkini sín. Ég uppgötvaði líka hve margt við unga fólkið getum gert í söfnuði Jehóva.“ Roni, sem er 25 ára, segir: „Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í því að hjálpa öðrum. Ég er hamingjusamari en ég hef nokkurn tíma verið. Ég veit að á komandi árum mun ég njóta góðs af þessari frábæru reynslu.“
15. Hvaða ástæður höfum við til að halda áfram að þjóna sem ráðsmenn náðar Guðs?
15 Þegar við hlýðum fyrirmælum Guðs um að boða fagnaðarerindið og byggja upp trúsystkini færir það öllum blessun. Þeir sem við hjálpum styrkjast og við njótum þeirrar innri gleði sem hlýst af því að gefa. (Post. 20:35) Kærleiksböndin innan safnaðarins verða sterkari þegar allir sýna hver öðrum umhyggju. Kærleikurinn og hlýjan, sem við sýnum hvert öðru, auðkennir okkur einnig sem sannkristna menn. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Síðast en ekki síst er það Jehóva, umhyggjusömum föður okkar, til heiðurs þegar jarðneskir þjónar hans endurspegla löngun hans til að styrkja þá sem eru hjálparþurfi. Við höfum því mjög góðar ástæður til að nota náðargáfu okkar til að þjóna hvert öðru „eins og góðir ráðsmenn . . . náðar Guðs“. Ætlar þú að halda áfram að gera það? — Lestu Hebreabréfið 6:10.
Manstu?
• Hvernig styrkir Jehóva þjóna sína?
• Hvers hefur okkur verið falið að gæta?
• Hvernig getum við þjónað trúsystkinum okkar?
• Hvað er okkur hvöt til að nota náðargáfu okkar til að ‚þjóna hvert öðru‘?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 13]
Notarðu „náðargáfu“ þína til að þjóna öðrum eða þóknast sjálfum þér?
[Myndir á blaðsíðu 15]
Við boðum fagnaðarerindið og styðjum trúsystkini.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Sjálfboðaliðar við hjálparstörf eiga hrós skilið fyrir fórnfýsi sína.