Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Opinberunarbókarinnar — fyrri hluti

Höfuðþættir Opinberunarbókarinnar — fyrri hluti

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Opinberunarbókarinnar — fyrri hluti

JÓHANNES postuli er fangi á eynni Patmos og orðinn aldraður maður þegar hann fær að sjá 16 sýnir. Þar er honum sýnt hvað Jehóva Guð og Jesús Kristur gera á Drottins degi — tímabilinu frá því að ríki Guðs er stofnsett árið 1914 og þangað til Kristur hefur ríkt í þúsund ár. Opinberunarbókin, sem Jóhannes skrifaði um árið 96, hefur að geyma spennandi frásögn af þessum sýnum.

Við skulum nú líta á helstu þætti Opinberunarbókarinnar 1:1–12:17 en þar segir frá fyrstu sjö sýnunum sem Jóhannes fær að sjá. Þær eru áhugaverðar fyrir okkur vegna þess að þær fjalla um það sem er að gerast í heiminum núna og lýsa hvernig Jehóva lætur til sín taka í náinni framtíð. Það er styrkjandi og hvetjandi fyrir hina trúuðu að lesa lýsingu Jóhannesar á þessum sýnum. — Hebr. 4:12.

‚LAMBIБ OPNAR SEX INNSIGLI AF SJÖ

(Opinb. 1:1–7:17)

Fyrst sér Jóhannes Jesú Krist dýrlegan á himnum og er sagt að ‚rita í bók það sem hann sjái og senda söfnuðunum sjö‘. (Opinb. 1:10, 11) Síðan sér hann hásæti á himnum. Í hægri hendi þess sem situr í hásætinu er bókrolla með sjö innsiglum. Sá sem er „þess verður að ljúka upp bókinni“ er enginn annar en „ljónið af Júda ættkvísl“ eða „lamb, sem . . . hafði sjö horn og sjö augu“. — Opinb. 4:2; 5:1, 2, 5, 6.

Í þriðju sýninni kemur fram hvað gerist þegar „lambið“ opnar fyrstu sex innsiglin hvert af öðru. Þegar það sjötta er opnað verður harður jarðskjálfti og reiðidagurinn mikli rennur upp. (Opinb. 6:1, 12, 17) En í sýninni á eftir koma fram ‚fjórir englar sem halda fjórum vindum jarðarinnar‘ uns lokið er við að innsigla hinar 144.000. „Mikill múgur“ fólks, sem er ekki innsiglað, stendur „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu“. — Opinb. 7:1, 9.

Biblíuspurningar og svör:

1:4; 3:1; 4:5; 5:6 — Hvað er átt við með orðunum „sjö andar“? Talan sjö táknar það sem er algert frá sjónarhóli Guðs. Boðskapurinn til safnaðanna sjö á því í rauninni erindi til allra þjóna Guðs sem er skipað niður í meira en 100.000 söfnuði víðs vegar um heim. (Opinb. 1:11, 20) Jehóva gefur heilagan anda í hlutfalli við það hverju hann vill koma til leiðar. „Sjö andar“ tákna því hvernig andinn starfar að fullu að því að veita skilning og blessun þeim sem gefa gaum að spádóminum. Í Opinberunarbókinni er víða fjallað um sjö hluti saman. Talan sjö er notuð hér til að tákna heild eða fullnustu, enda er því lýst í bókinni hvernig Guð lætur hið „leynda ráð“ sitt rætast að fullu og öllu. — Opinb. 10:7.

1:8, 17 — Hver er kallaður „Alfa og Ómega“ og hver er „hinn fyrsti og hinn síðasti“? Það er Jehóva sem er kallaður „Alfa og Ómega“ og hugmyndin er sú að enginn alvaldur Guð hafi verið á undan honum og enginn verði eftir hann. Hann er „upphafið og endirinn“. (Opinb. 21:6; 22:13) Í Opinberunarbókinni 22:13 er Jehóva kallaður „hinn fyrsti og hinn síðasti“ í þeim skilningi að enginn var á undan honum og enginn verður eftir hann. Samhengið í fyrsta kafla bókarinnar sýnir hins vegar að þar er það Jesús Kristur sem er kallaður „hinn fyrsti og hinn síðasti“. Hann var fyrstur manna reistur upp sem ódauðlegur andi og hinn síðasti sem Jehóva reisti upp sjálfur. — Kól. 1:18.

2:7 — Hvar er „Paradís Guðs“? Þar sem verið er að ávarpa andasmurða kristna menn hlýtur að vera átt við himneska paradís í nálægð Guðs sjálfs. Hinir andasmurðu, sem eru Guði trúir, fá að eta af „lífsins tré“. Þeir verða ódauðlegir. — 1. Kor. 15:53.

3:7 — Hvenær fékk Jesús „lykil Davíðs“ og hvernig hefur hann notað hann? Þegar Jesús lét skírast árið 29 varð hann tilvonandi konungur af ætt Davíðs. Hins vegar fékk hann ekki lykil Davíðs fyrr en árið 33 þegar hann var upphafinn til hægri handar Guðs á himnum. Þar tók hann að erfð öll réttindi sem tilheyrðu ríki Davíðs. Þaðan í frá hefur hann notað lykilinn til að veita aðgang að verkefnum og tækifærum sem tengjast ríkinu. Árið 1919 var ‚lykillinn að húsi Davíðs‘ fenginn hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ þegar Jesús setti hann „yfir allar eigur sínar“. — Jes. 22:22; Matt. 24:45, 47.

3:12 — Hvert er hið nýja nafn Jesú? Nafnið er tengt nýju embætti hans og nýjum verkefnum. (Fil. 2:9-11) Jesús ritar þetta nafn á trúa bræður sína á himnum og veitir þeim náið samband við sig. Hann veitir þeim meira að segja hlutdeild í þeim verkefnum sem Jehóva hefur falið honum. Enginn þekkir þó nafnið á sama hátt og hann sjálfur. — Opinb. 19:12.

Lærdómur:

1:3. Þar sem „tíminn er í nánd“ þegar dómi Guðs yfir heimi Satans verður fullnægt er áríðandi að skilja boðskap Opinberunarbókarinnar og fara eftir honum.

3:17, 18. Til að vera andlega auðug þurfum við að kaupa af Jesú „gull, skírt í eldi“. Það merkir að við eigum að leggja okkur fram um að vera rík að góðum verkum. (1. Tím. 6:17-19) Við þurfum einnig að bera „hvít klæði“ til merkis um að við séum fylgjendur Krists. Og til að hafa andlega dómgreind þurfum við að bera „smyrsl á augu [okkar]“, svo sem leiðbeiningar sem birtar eru í tímaritinu Varðturninum. — Opinb. 19:8.

7:13, 14. Öldungarnir 24 tákna hinar 144.000 eftir að þær eru orðnar dýrlegar andaverur á himnum en þar gegna þær bæði hlutverki konunga og presta. Prestarnir í Forn-Ísrael fyrirmynduðu þennan hóp en Davíð konungur skipti prestunum í 24 sveitir. Einn af öldungunum segir Jóhannesi hver múgurinn mikli sé. Þess vegna hlýtur að hafa verið byrjað að reisa hina andasmurðu upp frá dauðum einhvern tíma fyrir 1935. Af hverju drögum við þá ályktun? Af því að það var það ár sem andasmurðir þjónar Guðs á jörðinni fengu að vita hver múgurinn mikli væri. — Lúk. 22:28-30; Opinb. 4:4; 7:9.

SJÖUNDA INNSIGLIÐ OPNAÐ OG BLÁSIÐ Í SJÖ BÁSÚNUR

(Opinb. 8:1–12:17)

Lambið opnar sjöunda innsiglið. Sjö englum eru fengnar sjö básúnur. Sex þeirra blása í básúnur sínar og boða dóm yfir þriðjungi mannkyns, það er að segja kristna heiminum. (Opinb. 8:1, 2, 7-12; 9:15, 18) Jóhannes sér allt þetta í fimmtu sýninni. Hann er síðan þátttakandi í sýninni á eftir með því að borða litla bókrollu og mæla musterið. Eftir að blásið er í sjöundu básúnuna heyrast raddir miklar tilkynna: „Drottinn og Kristur hans hafa fengið valdið yfir heiminum.“ — Opinb. 10:10; 11:1, 15.

Í sjöundu sýninni er útlistað nánar það sem fram kemur í Opinberunarbókinni 11:15, 17. Tákn mikið birtist á himni: Kona fæðir sveinbarn. Djöflinum er úthýst af himnum. Hann reiðist konunni og heyr „stríð við aðra afkomendur hennar“. — Opinb. 12:1, 5, 9, 17.

Biblíuspurningar og svör:

8:1-5 — Af hverju varð þögn á himni og hverju var síðan varpað til jarðar? Táknræn þögn varð á himni til að ‚bænir hinna heilögu‘ á jörð heyrðust. Þetta gerðist í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Andasmurðir kristnir menn stigu ekki upp til himna við lok heiðingjatímanna eins og margir höfðu búist við. Heimsstyrjöldin var þeim erfið svo að þeir báðu ákaft um leiðsögn. Sem svar við bæninni varpaði engill til jarðar táknrænum eldi sem örvaði andasmurða kristna menn til verka. Þótt fáir væru tóku þeir til óspilltra málanna að prédika um allan heim svo að Guðsríki varð mál málanna og kveikti eld í kristna heiminum. Viðvaranir Biblíunnar hljómuðu sem þrumugnýr og sannindi hennar leiftruðu sem eldingar, þannig að undirstöður falstrúarbragðanna nötruðu eins og hús í jarðskjálfta.

8:6-12; 9:1, 13; 11:15 — Hvenær og hvernig bjuggu englarnir sig undir að blása í básúnurnar og hvenær og hvernig var blásið í þær? Undirbúningurinn fólst meðal annars í því að leiðbeina hinum endurvakta Jóhannesarhópi á jörð frá 1919 til 1922. Hinir andasmurðu voru þá önnum kafnir við að endurskipuleggja boðunarstarfið meðal almennings og byggja upp aðstöðu til útgáfustarfs. (Opinb. 12:13, 14) Básúnuhljómurinn táknar að þjónar Jehóva boðuðu óragir dóma hans yfir heimi Satans, í samstarfi við englana. Mótið, sem haldið var í Cedar Point í Ohio árið 1922, markaði upphaf þessarar boðunar og hún stendur allt fram að þrengingunni miklu.

8:13; 9:12; 11:14 — Að hvaða leyti er það eins og „vei“ eða ‚plága‘ þegar síðustu þrír englarnir básúna? Fyrstu fjórir básúnuhljómarnir fólust í því að afhjúpa kristna heiminn sem andlega dauðan en síðustu þrír eru plágur í þeim skilningi að þeir eiga við vissa atburði. Að fimmti engillinn blés í básúnu tengdist því að þjónar Guðs voru leystir úr ‚undirdjúpi‘ aðgerðaleysis árið 1919 og tóku til óspilltra málanna að prédika. Þetta var eins og kvalafull plága fyrir kristna heiminn. (Opinb. 9:1) Sjötti básúnuhljómurinn snýst um öflugustu riddaraliðsárás sögunnar og boðunarátakið sem hófst um allan heim árið 1922. Síðasti básúnuhljómurinn er tengdur tilurð Messíasarríkisins.

Lærdómur:

9:10, 19. Í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ er að finna áreiðanlegt og biblíutengt efni — boðskap sem stingur. (Matt. 24:45) Þessi boðskapur samsvarar hala engisprettnanna sem eru með „brodda eins og sporðdrekar“ og hestunum sem eru með „tögl . . . lík höggormum“. Af hverju? Af því að í ritunum er varað við ‚hefndardegi Guðs‘. (Jes. 61:2) Verum ötul og ófeimin að dreifa þessum ritum.

9:20, 21. Margt auðmjúkt fólk meðal þjóða, sem kallast ekki kristnar, hefur tekið vel á móti boðskapnum sem við boðum. En við búumst ekki við að allur fjöldinn utan kristna heimsins snúist til trúar, en þeir eru kallaðir „hinir mennirnir“. (Biblían 1981) Við höldum engu að síður áfram að boða fagnaðarerindið.

12:15, 16. „Jörðin“ táknar öfl í heimi Satans, það er stjórnvöld ýmissa landa sem studdu trúfrelsi. Á fimmta áratug síðustu aldar tóku þessi öfl að svelgja „vatnsflóðið sem drekinn spjó úr munni sér“, það er að segja ofsóknirnar. Þegar Jehóva kýs svo getur hann haft áhrif á stjórnvöld með þeim afleiðingum að þau gera það sem hann vill. Þetta er vel orðað í Orðskviðunum 21:1 þar sem segir: „Hjarta konungsins er sem lækir í hendi Drottins, hann sveigir þá hvert sem honum þóknast.“ Það ætti að styrkja trú okkar á Guð.