Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfum yndi af því að gera menn að lærisveinum

Höfum yndi af því að gera menn að lærisveinum

Höfum yndi af því að gera menn að lærisveinum

„Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ — MATT. 28:19.

1-3. (a) Hvað finnst mörgum boðberum um það að fá að kenna öðrum sannindi Biblíunnar? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða nánar?

„SÍÐASTLIÐNAR 11 vikur hef ég kennt fjölskyldu frá Pakistan sannindi Biblíunnar,“ skrifar systir í Bandaríkjunum sem starfar með hópi sem talar hindí. „Við erum að sjálfsögðu orðnir góðir vinir,“ segir hún í framhaldinu. „Ég klökkna þegar ég hugsa til þess að fjölskyldan sé bráðum að fara heim til Pakistans. Ég tárast ekki aðeins vegna þess að ég á eftir að sakna þeirra heldur líka vegna þeirra gleði sem ég hef haft af því að fræða þau um Jehóva.“

2 Hefur þú, eins og þessi systir, upplifað þá gleði sem hlýst af því að halda biblíunámskeið? Jesús og lærisveinar hans á fyrstu öld höfðu mikla ánægju af því að gera menn að lærisveinum. Þegar lærisveinarnir 70, sem Jesús sendi í boðunarstarfið, sneru til baka höfðu þeir frá mörgu ánægjulegu að segja og Jesús „fylltist af fagnandi gleði heilags anda“. (Lúk. 10:17-21) Nú á dögum hafa líka margir ánægju af því að gera menn að lærisveinum og leggja sig vel fram í þessu starfi. Árið 2007 voru haldin að meðaltali sex og hálf milljón biblíunámskeiða í hverjum mánuði.

3 En sumir boðberar hafa ekki verið þeirrar ánægju aðnjótandi að kenna öðrum sannindi Biblíunnar. Og sumir hafa kannski ekki haldið biblíunámskeið um nokkurra ára skeið. Hvaða erfiðleikum gætum við mætt í biblíunámsstarfinu? Hvernig getum við sigrast á þessum erfiðleikum? Og hvaða blessun hljótum við þegar við gerum okkar ýtrasta til að hlýða fyrirmælum Jesú: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matt. 28:19.

Erfiðleikar sem gætu rænt okkur gleðinni

4, 5. (a) Hvernig bregst fólk við sums staðar í heiminum? (b) Hvaða erfiðleikum mæta boðberar annars staðar í heiminum?

4 Sums staðar í heiminum þiggur fólk fúslega ritin okkar og vill gjarnan kynna sér Biblíuna með okkar hjálp. Hjón frá Ástralíu, sem þjónuðu um tíma í Sambíu, skrifuðu: „Sögurnar eru sannar. Það er draumur að starfa í Sambíu. Götustarfið er ótrúlegt! Fólk kemur til okkar og sumir biðja jafnvel um ákveðin tölublöð.“ Eitt árið voru haldin meira en 200.000 biblíunámskeið þar í landi — það er að meðaltali meira en 1 biblíunámskeið á boðbera.

5 Annars staðar í heiminum gæti boðberum hins vegar fundist erfitt að dreifa ritum og halda biblíunámskeið á reglulegum grundvelli. Af hverju? Oft er fólk ekki heima þegar boðberar banka upp á og þeir sem eru heima eru kannski áhugalausir hvað varðar trúmál. Ef til vill voru þeir aldir upp á trúlausu heimili eða þeir hafa óbeit á hræsni falstrúarbragðanna. Margir eru hrjáðir og umkomulausir af því að trúarleiðtogar hafa leitt þá í villu. (Matt. 9:36) Það er því skiljanlegt að slíkir einstaklingar vilji síður taka þátt í umræðum um Biblíuna.

6. Hvað gæti sett sumum skorður?

6 Sumir trúfastir boðberar glíma við önnur vandamál sem geta rænt þá gleðinni. Þótt þeir hafi áður verið virkir í boðunarstarfinu setur heilsan eða hár aldur þeim takmörk. Við gætum líka sjálf gert okkur erfitt fyrir. Finnst þér þú til dæmis óhæfur til að stýra biblíunámskeiði? Ef til vill líður þér eins og Móse þegar Jehóva sagði honum að tala við Faraó. „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, hvorki áður fyrr né nú,“ sagði hann. (2. Mós. 4:10) Annað þessu tengt er óttinn við að mistakast. Við gætum haft áhyggjur af því að biblíunemandinn verði ekki lærisveinn af því að við erum ekki fullkomnir kennarar. Í stað þess að taka þá áhættu reynum við að komast hjá því að halda biblíunámskeið. Hvernig getum við tekist á við þessa erfiðleika?

Undirbúðu hjartað

7. Hvað hvatti Jesú áfram í boðunarstarfinu?

7 Fyrsta skrefið er að undirbúa hjarta okkar. Jesús sagði: „Af gnægð hjartans mælir [munnurinn].“ (Lúk. 6:45) Innileg umhyggja fyrir öðrum hvatti Jesú áfram í boðunarstarfinu. Þegar hann sá hve Gyðingar voru illa nærðir andlega „kenndi hann í brjósti um [þá]“. Hann sagði við lærisveinana: „Uppskeran er mikil . . . Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — Matt. 9:36-38.

8. (a) Hvað er gott fyrir okkur að hugleiða? (b) Hvað getum við lært af ummælum biblíunemanda nokkurs?

8 Þegar við tökum þátt í að gera menn að lærisveinum er gott að hugleiða hve mikið gagn við höfðum sjálf af því að einhver gaf sér tíma til að kenna okkur. Hugsaðu líka um fólkið sem við hittum í boðunarstarfinu og hvaða gagn það muni hafa af því að heyra boðskapinn sem við flytjum. Kona nokkur skrifaði deildarskrifstofunni í heimalandi sínu: „Mig langar að segja ykkur hve mikils ég met vottana sem kenna mér á heimili mínu. Ég veit að þeir hljóta stundum að vera þreyttir á mér því að ég spyr svo margra spurninga og ég held þeim alltaf lengur en þeir ætla sér. En þeir eru þolinmóðir og ákafir að kenna mér það sem þeir hafa lært. Ég þakka Jehóva og Jesú fyrir að hafa kynnst þessu fólki.“

9. Að hverju einbeitti Jesús sér og hvernig getum við líkt eftir honum?

9 Að sjálfsögðu brugðust ekki allir jákvætt við þegar Jesús reyndi að hjálpa þeim. (Matt. 23:37) Sumir fylgdu honum um tíma en höfnuðu síðan kennslu hans og „voru ekki framar með honum“. (Jóh. 6:66) En Jesús lét neikvæð viðbrögð sumra ekki telja sér trú um að boðskapur hans væri einskis virði. Þótt mikið af því sem Jesús sáði hafi ekki borið ávöxt einbeitti hann sér að því góða sem hann gerði. Hann sá að akrarnir voru hvítir til uppskeru og hafði mikla ánægju af því að taka þátt í uppskerunni. (Lestu Jóhannes 4:35, 36.) Í stað þess að horfa aðeins á bera jörðina milli hveitistráanna skulum við einbeita okkur að mögulegri uppskeru á starfssvæði okkar. Athugum hvernig við getum viðhaldið svona jákvæðu hugarfari.

Sáum með uppskeru fyrir augum

10, 11. Hvað geturðu gert til að viðhalda gleðinni?

10 Bóndi sáir í jörð með það fyrir augum að fá uppskeru. Við þurfum sömuleiðis að prédika með það fyrir augum að hefja biblíunámskeið. En hvað ef þú tekur þátt í boðunarstarfinu að staðaldri en hittir fáa heima eða átt erfitt með að ná aftur tali af þeim sem þú hefur hitt áður? Þetta getur verið svekkjandi. Ættirðu að gefast upp á boðunarstarfinu hús úr húsi? Alls ekki! Margir komast fyrst í samband við votta Jehóva þegar þessi þrautreynda aðferð er notuð.

11 En hvað geturðu gert til að viðhalda gleðinni? Gætirðu reynt að ná til fleira fólks með því að prófa aðra þætti boðunarstarfsins? Hefurðu til dæmis prófað götu- eða fyrirtækjastarf? Gætirðu hringt í fólk eða fengið símanúmer þeirra sem þú hefur þegar prédikað fyrir svo að þú getir haldið sambandi við þá? Ef þú sýnir þrautseigju og sveigjanleika geturðu upplifað þá gleði að finna einstaklinga sem bregðast vel við boðskapnum.

Að takast á við áhugaleysi

12. Hvað getum við gert ef margir á starfssvæðinu virðast áhugalausir?

12 Hvað geturðu gert ef margir á starfssvæðinu eru áhugalausir gagnvart trúmálum? Geturðu aðlagað kynningarorðin til að höfða betur til þeirra? Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum í Korintu: „Ég hef verið Gyðingum sem Gyðingur . . . Til þess að ávinna þá sem þekkja ekki lögmál Móse breyti ég ekki eftir því enda þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs.“ Hvert var markmið Páls? Hann sagði: „Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ (1. Kor. 9:20-22) Getum við fundið sameiginlegan umræðugrundvöll þegar við ræðum við fólk á starfssvæðum okkar? Margir hafa áhuga á því að bæta samskiptin innan fjölskyldunnar þótt þeir séu ekki trúaðir. Þeir gætu líka verið að leita að tilgangi í lífinu. Getum við sett boðskapinn þannig fram að hann höfði til þessa fólks?

13, 14. Hvernig getum við haft aukna gleði af boðunarstarfinu?

13 Sífellt fleiri boðberar hafa nú meiri ánægju af boðunarstarfinu en áður, jafnvel þótt þeir búi á svæði þar sem flestir virðast áhugalausir. Hvernig má það vera? Þeir hafa lært erlent tungumál. Hjón á sjötugsaldri komust að því að þúsundir kínverskra námsmanna og fjölskyldur þeirra bjuggu á starfssvæði safnaðarins. „Af þessari ástæðu vorum við hvött til að læra kínversku,“ segir eiginmaðurinn. „Þótt þetta hafi þýtt að við yrðum að æfa okkur á hverjum degi stýrum við nú mörgum biblíunámskeiðum með kínversku fólki á okkar svæði.“

14 Jafnvel þótt þú getir ekki lært annað tungumál geturðu notað bæklinginn Good News for People of All Nations (Fagnaðarerindi fyrir fólk af öllum þjóðum) þegar þú hittir fólk sem talar annað tungumál. Yfirleitt er líka hægt að útvega rit á tungumáli þeirra sem við hittum. Að sjálfsögðu kostar það meiri tíma og orku að eiga samskipti við þá sem tala annað tungumál og hafa aðra menningu. En gleymum ekki meginreglunni í orði Guðs: „Sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ — 2. Kor. 9:6.

Samvinnuverkefni alls safnaðarins

15, 16. (a) Hvernig er það samvinnuverkefni alls safnaðarins að gera menn að lærisveinum? (b) Hvaða hlutverki gegna aldraðir boðberar?

15 En það er ekki eins manns verkefni að gera einhvern að lærisveini. Allur söfnuðurinn tekur þátt í því. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Þegar biblíunemendur sækja samkomur eru þeir oft hrifnir af kærleiksríka andrúmsloftinu innan safnaðarins. Biblíunemandi nokkur skrifaði: „Það veitir mér mikla gleði að sækja samkomur. Fólkið er svo vingjarnlegt.“ Jesús sagði að þeir sem gerðust fylgjendur hans gætu mætt andstöðu fjölskyldunnar. (Lestu Matteus 10:35-37.) En hann lofaði að innan safnaðarins myndu þeir eignast marga andlega „bræður og systur, mæður [og] börn“. — Mark. 10:30.

16 Aldraðir bræður og systur eiga sérstaklega mikinn þátt í því að hjálpa biblíunemendum að taka framförum. Hvernig þá? Jafnvel þótt þeir getir ekki haldið biblíunámskeið sjálfir styrkja þeir trú annarra með uppbyggilegum svörum á samkomum. Þeir hafa gengið „á vegi réttlætis“ í mörg ár og trúfesti þeirra fegrar söfnuð Guðs og laðar að hjartahreint fólk. — Orðskv. 16:31.

Að sigrast á ótta

17. Hvað getum við gert til að sigrast á vanmáttarkennd?

17 Hvað geturðu gert ef þú finnur til vanmáttarkenndar? Mundu að Jehóva hjálpaði Móse með því að gefa honum heilagan anda og sjá honum fyrir starfsfélaga, Aroni bróður hans. (2. Mós. 4:10-17) Jesús lofaði að andi Guðs myndi styðja boðunarstarfið. (Post. 1:8) Auk þess sendi Jesús lærisveinana tvo og tvo saman í boðunarstarfið. (Lúk. 10:1) Ef þér finnst það áskorun að halda biblíunámskeið skaltu biðja um anda Guðs svo að þú fáir visku. Vertu síðan með starfsfélaga sem veitir þér aukið sjálfsöryggi og þú getur lært af. Það er trústyrkjandi að minnast þess að Jehóva valdi að nota venjulegt fólk — „hið veika í heiminum“ — til að sinna þessu einstaka starfi. — 1. Kor. 1:26-29.

18. Hvernig getum við sigrast á óttanum við að mistakast?

18 Hvernig getum við sigrast á óttanum við að mistakast? Það er gott að muna að þegar við gerum menn að lærisveinum er það ekki eins og að elda mat. Við matargerð er árangurinn aðallega háður einum manni — kokkinum. En svo er ekki í biblíunámsstarfinu. Jehóva sinnir mikilvægasta verkinu með því að laða fólk að sér. (Jóh. 6:44) Við og aðrir í söfnuðinum reynum eftir fremsta megni að nota góða kennslutækni til að hjálpa nemandanum að taka framförum. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:15.) Og nemandinn verður sjálfur að breyta í samræmi við það sem hann lærir. (Matt. 7:24-27) Ef einhver hættir biblíunáminu getur það valdið okkur vonbrigðum. Við vonum að biblíunemendur taki rétta ákvörðun en hvert og eitt okkar verður að „gera Guði skil á sjálfu sér“. — Rómv. 14:12.

Hvaða blessun hljótum við?

19-21. (a) Hvernig njótum við góðs af því að kenna biblíunemendum? (b) Hvernig lítur Jehóva á alla sem taka þátt í boðunarstarfinu?

19 Biblíunámsstarfið hjálpar okkur að láta Guðsríki hafa forgang í lífinu. Það festir sannindin í orði Guðs líka betur í huga okkar og hjarta. Hvernig? Brautryðjandi, sem heitir Barak, segir: „Þegar maður heldur biblíunámskeið neyðir það mann til að vera duglegri biblíunemandi. Mér finnst ég verða að styrkja mína eigin sannfæringu áður en ég get með góðu móti kennt öðrum.“

20 Er þjónusta okkar einskis virði í augum Guðs ef við stýrum ekki biblíunámskeiði? Að sjálfsögðu ekki! Jehóva kann innilega að meta það sem við gerum til að lofa hann. Allir sem taka þátt í boðunarstarfinu eru „samverkamenn Guðs“. En þegar við kennum biblíunemanda veitir það aukna gleði því að þá sjáum við hvernig Guð gefur því vöxt sem við gróðursetjum. (1. Kor. 3:6, 9) Brautryðjandi að nafni Amy segir: „Þegar maður sér biblíunemanda taka framförum vekur það innilegt þakklæti til Jehóva fyrir að nota mann til að veita nemandanum yndislega gjöf — tækifæri til að kynnast Jehóva og hljóta eilíft líf.“

21 Ef við gerum okkar besta til að hefja og halda biblíunámskeið hjálpar það okkur að vera einbeitt í þjónustunni við Guð og styrkir von okkar um líf í nýja heiminum. Með stuðningi Jehóva getum við líka átt þátt í að bjarga þeim sem á okkur hlýða. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:16.) Og það er sannarlega mikið gleðiefni!

Manstu?

• Hvað gæti hindrað suma í að halda biblíunámskeið?

• Hvað gætum við gert ef margir á starfssvæði okkar virðast áhugalausir?

• Hvaða blessun hljótum við þegar við kennum biblíunemanda?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Hefurðu prófað mismunandi þætti boðunarstarfsins til að reyna að finna hjartahreint fólk?