Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Komið og fylgið mér“

„Komið og fylgið mér“

„Komið og fylgið mér“

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ — LÚK. 9:23.

1, 2. (a) Hvaða boð hefur Jesús látið út ganga? (b) Hefur þú þegið boð Jesú?

UNDIR lok þjónustu sinnar var Jesús að vitna í Pereu, héraði handan Jórdanar, norðaustur af Júdeu. Þá kom til hans ungur maður sem spurði hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf. Eftir að Jesús hafði gengið úr skugga um að ungi maðurinn fylgdi Móselögunum trúfastlega veitti hann honum einstakt boð. Hann sagði: „Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ (Mark. 10:21) Hugsaðu þér — hann fékk boð um að fylgja Jesú, einkasyni hins hæsta Guðs!

2 Þessi ungi maður hafnaði boðinu en aðrir þáðu það. Áður hafði Jesús boðið Filippusi: „Fylg þú mér!“ (Jóh.1:43) Filippus þáði boðið og varð síðar postuli. Jesús bauð síðan Matteusi að fylgja sér og hann þáði það líka. (Matt. 9:9; 10:2-4) Jesús lét sama boð út ganga til allra sem elska réttlætið þegar hann sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ (Lúk. 9:23) Hver sem er getur því fylgt Jesú ef hann langar til þess í raun og veru. Langar þig til þess? Flest okkar hafa nú þegar þegið boð Jesú með þökkum og í prédikunarstarfinu komum við þessu boði áleiðis til annarra.

3. Hvernig getum við komið í veg fyrir að við hættum að fylgja Jesú?

3 Því miður er það svo að sumir sem hafa sýnt áhuga á sannleika Biblíunnar halda ekki áfram að afla sér þekkingar. Þeir hægja á sér og að lokum berast þeir „afleiðis“ og hætta að fylgja Jesú. (Hebr. 2:1) Hvernig getum við forðast að falla í þá gildru? Það er gagnlegt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Af hverju valdi ég að fylgja Jesú? Og hvað er fólgið í því að fylgja honum? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að halda fast við góða veginn sem við höfum valið og hvetja aðra til að fylgja Jesú.

Af hverju fylgjum við Jesú?

4, 5. Af hverju er Jesús hæfur leiðtogi?

4 Jeremía spámaður sagði: „Ég veit, Drottinn, að enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.“ (Jer. 10:23) Mannkynssagan hefur sannað að orð Jeremía eru dagsönn. Það hefur sýnt sig æ betur að ófullkomnir menn geta ekki stjórnað sjálfum sér svo vel fari. Við þáðum boðið um að fylgja Jesú því að við gerðum okkur grein fyrir að hann er hæfur til að vera leiðtogi okkar. Enginn maður hér á jörð jafnast á við hann. Skoðum nokkur atriði sem gera Jesú að hæfum leiðtoga.

5 Í fyrsta lagi var það Jehóva Guð sem ákvað að Jesús ætti að vera leiðtoginn Messías. Hver veit betur en skapari okkar hvers konar leiðtoga við þurfum á að halda? Í öðru lagi hefur Jesús til að bera aðdáunarverða eiginleika sem við getum líkt eftir. (Lestu Jesaja 11:2, 3.) Hann er okkur fullkomin fyrirmynd. (1. Pét. 2:21) Í þriðja lagi er Jesú ákaflega annt um þá sem fylgja honum eins og hann sýndi þegar hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir þá. (Lestu Jóhannes 10:14, 15.) Og hann sannar að hann er umhyggjusamur hirðir með því að leiða okkur til lífs sem veitir hamingju núna og gefur fyrirheit um dásamlega framtíð. (Jóh. 10:10, 11; Opinb. 7:16, 17) Af þessum og fleiri ástæðum var það skynsamlegt af okkur að ákveða að fylgja honum. En hvað er fólgið í þeirri lífsstefnu?

6. Hvað er fólgið í því að fylgja Jesú?

6 Að fylgja Kristi er annað og meira en að kalla sig kristinn. Meira en tveir milljarðar manna segjast vera kristnir en verk þeirra bera vitni um hið gagnstæða. (Lestu Matteus 7:21-23.) Þegar fólk sýnir áhuga á að þiggja boðið um að fylgja Jesú útskýrum við fyrir því að sannkristnir menn lifi í einu og öllu eftir kenningum hans og fyrirmynd, og geri það á hverjum degi. Til að útskýra hvað þetta þýðir skulum við skoða sumt af því sem við vitum um Jesú.

Líkjum eftir visku Jesú

7, 8. (a) Hvað er viska og hvers vegna bjó Jesús yfir svo mikilli visku? (b) Hvernig sýndi Jesús visku og hvernig getum við líkt eftir honum?

7 Jesús hafði til að bera marga frábæra eiginleika en við skulum einbeita okkur að fjórum þeirra: visku hans, auðmýkt, eldmóði og kærleika. Skoðum fyrst visku hans — hæfnina til að beita þekkingu og skilningi á hagnýtan hátt. Páll postuli skrifaði: „Í [Jesú] eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ (Kól. 2:3) Hvar öðlaðist Jesús þessa visku? Hann sagði sjálfur: „Tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóh. 8:28) Viska hans kom frá Jehóva. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart hve góða dómgreind hann sýndi.

8 Jesús sýndi til dæmis góða dómgreind þegar hann valdi sér stefnu í lífinu. Hann kaus að lifa einföldu lífi og einbeita sér að einu markmiði: að gera vilja Guðs. Hann sýndi þá visku að nota tíma sinn og krafta í það að efla hag Guðsríkis. Við líkjum eftir Jesú með því að hafa ‚heilt auga‘ og gæta þess að íþyngja okkur ekki með einhverjum óþarfa sem tæki of mikið af tíma okkar og kröftum. (Matt. 6:22) Margir kristnir menn hafa einfaldað líf sitt til að eiga meiri tíma aflögu til að boða fagnaðarerindið. Sumir hafa gerst brautryðjendur. Ef þú ert einn þeirra áttu mikið hrós skilið. Það veitir mikla hamingju og lífsfyllingu að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘. — Matt. 6:33.

Verum auðmjúk eins og Jesús

9, 10. Hvernig sýndi Jesús auðmýkt?

9 Næsti eiginleiki Jesú, sem við fjöllum um, er auðmýkt hans. Þegar ófullkomnir menn fá eitthvert vald hættir þeim til að verða miklir með sig. Jesús var alls ekki þannig. Þrátt fyrir hið mikilvæga hlutverk hans í fyrirætlun Jehóva var ekki minnsti vottur af drambi í fari hans. Og við erum hvött til að líkja eftir honum á þessu sviði. Páll postuli skrifaði: „Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.“ (Fil. 2:5-7) Hvað fólst í því?

10 Jesús var þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera með föður sínum á himnum en samt sem áður var hann fús til að ‚svipta sig öllu‘. Líf hans var flutt í móðurkvið meyjar af þjóð Gyðinga þar sem hann óx og þroskaðist í níu mánuði uns hann fæddist sem hjálparvana ungbarn á heimili fátæks smiðs. Á heimili Jósefs ólst Jesús upp sem barn og unglingur. Hann var syndlaus. Þrátt fyrir það var hann öll æskuárin undirgefinn mennskum foreldrum sem voru syndugir. (Lúk. 2:51, 52) Hvílík auðmýkt!

11. Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt Jesú?

11 Við líkjum eftir auðmýkt Jesú með því að taka fúslega að okkur verkefni sem gætu virst fremur lítilfjörleg. Tökum sem dæmi það starf að boða fagnaðarerindið. Þetta starf virðist ef til vill ekki merkilegt, einkum þegar fólk er áhugalaust, hæðist að okkur eða sýnir okkur fjandskap. En með því að halda áfram að boða ríki Guðs hjálpum við öðrum að þiggja boð Jesú um að fylgja sér. Þannig eigum við þátt í að bjarga mannslífum. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:1-5.) Annað dæmi er ræsting ríkissalarins. Það getur falið í sér störf sem virðast ekki merkileg eins og að tæma ruslafötur, skúra gólf og þrífa klósett. En við gerum okkur grein fyrir því að ríkissalurinn er miðstöð hreinnar tilbeiðslu og það er þáttur í heilagri þjónustu að halda honum hreinum. Við sýnum auðmýkt og fetum í fótspor Jesú með því að vinna fúslega störf sem virðast fremur lítilfjörleg.

Sýnum eldmóð eins og Jesús

12, 13. (a) Hvernig sýndi Jesús eldmóð og af hvaða hvötum? (b) Hvað hvetur okkur til að sýna eldmóð í boðunarstarfinu?

12 Lítum þessu næst á eldmóð Jesú í boðunarstarfinu. Hann áorkaði miklu meðan hann var hér á jörð. Sem ungur maður vann hann líklega við trésmíði með Jósef fósturföður sínum. Á þjónustuferli sínum vann hann ýmis kraftaverk eins og að lækna sjúka og reisa upp dána. En aðalstarf hans var að prédika fagnaðarerindið og kenna þeim sem vildu hlusta. (Matt. 4:23) Við sem erum fylgjendur hans höfum sama verk að vinna. Hvernig getum við líkt eftir fordæmi hans? Við getum til dæmis tileinkað okkur sömu hvatir og hann.

13 Kærleikur til Guðs var sterkasta hvötin fyrir því að Jesús prédikaði og kenndi öðrum. En hann elskaði líka sannleikann sem hann kenndi. Í huga Jesú voru það ómetanleg sannindi sem hann hafði að flytja og honum var mikið í mun að segja frá þeim. Sem kennarar eða ‚fræðimenn‘ erum við sama sinnis. Hugsaðu þér hve dýrmæt sannindi við höfum lært í orði Guðs. Við vitum um deiluna um drottinvaldið yfir alheimi og hvernig hún verður útkljáð. Við skiljum vel hvað Biblían kennir um eðli dauðans og um þá blessun sem Guðsríki á eftir að færa mönnum í nýjum heimi. Hvort sem við lærðum þessi sannindi nýlega eða fyrir mörgum árum eru þau alltaf í fullu gildi. Slík sannindi eru ómetanlegir fjársjóðir hvenær sem við kynntumst þeim. (Lestu Matteus 13:52.) Með því að boða fagnaðarerindið af eldmóði miðlum við til annarra kærleikanum til sannleikans sem Jehóva hefur kennt okkur.

14. Hvernig getum við líkt eftir kennsluaðferðum Jesú?

14 Tökum líka eftir því hvernig Jesús kenndi. Hann beindi athygli áheyrenda sinna stöðugt að Ritningunni. Þegar hann ætlaði að segja eitthvað mikilvægt byrjaði hann oft á orðunum: „Ritað er.“ (Matt. 4:4; 21:13) Í skráðum orðum Jesú vitnar hann beint eða óbeint í meira en helminginn af bókum Hebresku ritninganna. Við byggjum mjög á Biblíunni í boðunarstarfinu, líkt og Jesús gerði, og reynum að benda á Biblíuna þegar færi gefst. Þannig gefum við hjartahreinu fólki tækifæri til að sjá með eigin augum að við erum að kenna hugmyndir Guðs en ekki okkar eigin. Það gleður okkur mjög þegar einhver fellst á að lesa í Biblíunni og ræða við okkur um gildi hennar og merkingu. Og okkur finnst sérstaklega ánægjulegt þegar fólk þiggur boðið um að fylgja Jesú.

Að fylgja Jesú felur í sér að elska aðra

15. Hver er hjartnæmasti eiginleiki Jesú og hvaða áhrif hefur það á okkur að hugleiða þennan eiginleika?

15 Það síðasta í fari Jesú, sem við ætlum að fjalla um, er jafnframt það hjartnæmasta — kærleikur hans til manna. Páll postuli skrifaði: „Kærleiki Krists knýr mig.“ (2. Kor. 5:14) Þegar við hugleiðum hvílíkan kærleika Jesús ber til mannkynsins í heild og til okkar sem einstaklinga snertir það hjörtu okkar og við finnum sterka löngun hjá okkur til að líkja eftir honum.

16, 17. Hvernig sýndi Jesús öðrum kærleika?

16 Hvernig sýndi Jesús öðrum kærleika? Mesta kærleiksverk hans var að leggja líf sitt í sölurnar fyrir mannkynið. (Jóh. 15:13) En Jesús sýndi kærleika með ýmsum öðrum hætti í starfi sínu. Sem dæmi má nefna að hann fann til með þjáðum. Þegar hann sá Maríu og þá sem voru með henni gráta vegna dauða Lasarusar var hann djúpt snortinn af sorg þeirra. Þótt hann væri í þann mund að reisa Lasarus upp frá dauðum varð hann svo hrærður að hann grét. — Jóh. 11:32-35.

17 Snemma á þjónustuferli Jesú kom til hans líkþrár maður og sagði: „Ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Hvernig brást Jesús við? Í frásögunni segir: „Jesús kenndi í brjósti um manninn.“ Síðan gerði hann nokkuð sem var mjög óvenjulegt. Hann „rétti út höndina, snart hann og mælti: ‚Ég vil, verð þú hreinn!‘ Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin og hann varð hreinn.“ Samkvæmt Móselögunum voru líkþráir menn óhreinir og Jesús var fullkomlega fær um að lækna manninn án þess að snerta hann. En þegar Jesús læknaði hann með þessum hætti fékk maðurinn að finna fyrir snertingu, og það kannski í fyrsta sinn í mörg ár. Jesús var sannarlega samúðarfullur maður. — Mark. 1:40-42.

18. Hvernig getum við sýnt samúð?

18 Við sem fylgjum Kristi erum hvött til að sýna kærleika okkar með því að vera „hluttekningarsöm“. (1. Pét. 3:8) Það er ef til vill ekki auðvelt að setja sig í spor trúbróður eða -systur sem þjáist af langvinnum sjúkdómi eða þunglyndi — einkum ef við höfum ekki kynnst slíku af eigin raun. En Jesús hafði samúð með sjúkum þó að hann hefði aldrei verið veikur sjálfur. Hvernig getum við þá lært að sýna samúð? Með því að hlusta þolinmóð á þá sem opna hjarta sitt fyrir okkur. Við gætum líka spurt okkur hvernig okkur myndi líða ef við værum í þeirra sporum. Ef við verðum næmari á tilfinningar annarra erum við betur í stakk búin til að hughreysta niðurdregna. (1. Þess. 5:14) Og þá fetum við í fótspor Jesú.

19. Hvaða áhrif hefur fordæmi Jesú á okkur?

19 Það er ákaflega heillandi að skoða nánar orð og verk Jesú Krists! Því betur sem við kynnumst honum, þeim mun sterkari verður löngun okkar að líkjast honum. Og því meir langar okkur til að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama. Við skulum því hafa yndi af því að fylgja konungi Messíasarríkisins — núna og um alla eilífð!

Geturðu útskýrt?

• Hvernig getum við sýnt visku eins og Jesús gerði?

• Á hvaða hátt getum við sýnt auðmýkt?

• Hvernig getum við lært að sýna eldmóð í boðunarstarfinu?

• Hvernig getum við líkt eftir Jesú og sýnt öðrum kærleika?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 5]

Bók sem hjálpar okkur að líkja eftir Kristi

Á umdæmismótinu árið 2007 var gefin út 192 blaðsíðna bók sem heitir „Komið og fylgið mér“. Þessi bók er samin með það fyrir augum að beina athygli okkar að Jesú, sérstaklega að eiginleikum hans og verkum. Eftir tvo inngangskafla kemur fyrsti bókarhlutinn þar sem gefið er gott yfirlit yfir einstaka eiginleika Jesú — lítillæti hans, hugrekki, visku, hlýðni og þolgæði.

Í bókarhlutunum, sem koma á eftir, er rætt um boðunar- og kennsluaðferðir Jesú og hvernig kærleikur hans birtist. Út í gegnum alla bókina er okkur bent á hvernig við getum líkt eftir Jesú.

Við erum sannfærð um að þessi bók verði okkur öllum hvatning til líta í eigin barm og spyrja: Fylgi ég Jesú í raun og veru? Hvernig get ég fetað enn betur í fótspor hans? Hún mun líka hjálpa öllum þeim ‚sem hneigjast til eilífs lífs‘ að fylgja Kristi. — Post. 13:48, NW.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Jesús samþykkti að koma til jarðar og fæðast sem mannsbarn. Hvaða eiginleika krafðist það af honum?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hvað er okkur hvöt til að sýna eldmóð í boðunarstarfinu?