Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látum orð Jesú hafa áhrif á hugarfar okkar

Látum orð Jesú hafa áhrif á hugarfar okkar

Látum orð Jesú hafa áhrif á hugarfar okkar

„Sá sem Guð sendi talar Guðs orð.“ — JÓH. 3:34.

1, 2. Við hvað má líkja orðum Jesú í fjallræðunni og af hverju má segja að hún sé byggð á orðum Guðs?

AFRÍKUSTJARNAN er einn stærsti skorni demantur sem vitað er um og er 530 karöt. Hann er sannkallaður gimsteinn. Andlegu gimsteinarnir, sem er að finna í fjallræðu Jesú, eru þó mun verðmætari. Það er ekkert óeðlilegt vegna þess að orð Krists eiga uppruna sinn hjá Jehóva. Í Biblíunni segir um Jesú: „Sá sem Guð sendi talar Guðs orð.“ — Jóh. 3:34-36.

2 Ætla má að það hafi ekki tekið nema hálftíma að flytja fjallræðuna. Hún hefur þó að geyma 21 tilvitnun í átta af bókum Hebresku ritninganna. Hún er því tryggilega byggð á ‚Guðs orðum‘. Við skulum nú kanna hvernig við getum nýtt okkur sum af þeim dýrmætu orðum sem er að finna í þessari áhrifamiklu ræðu sonar Guðs.

‚Farðu fyrst og sæstu við bróður þinn‘

3. Hvaða ráð gaf Jesús eftir að hafa varað lærisveinana við langvinnri reiði?

3 Kristnir menn eru glaðir og friðsamir vegna þess að þeir hafa heilagan anda Guðs, og ávöxtur andans er meðal annars gleði og friður. (Gal. 5:22, 23) Jesús vildi ekki að lærisveinar sínir misstu gleðina og friðinn þannig að hann varaði þá við langvinnri reiði því að hún gæti verið banvæn. (Lestu Matteus 5:21, 22.) Síðan sagði hann: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ — Matt. 5:23, 24.

4, 5. (a) Hvaða „gjöf“ átti Jesús við í Matteusi 5:23, 24? (b) Hve mikilvægt er að sættast við bróður sinn?

4 ‚Gjöfin‘, sem Jesús nefndi, gat verið hvaða fórn sem færð var í musterinu í Jerúsalem. Dýrafórnir voru til dæmis mikilvægar vegna þess að þær voru þáttur í tilbeiðslu þjóna Jehóva á þeim tíma. Jesús lagði hins vegar áherslu á annað sem var mikilvægara — að sættast við bróður sinn áður en maður færði Guði fórn.

5 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum orðum Jesú? Hann hlýtur að vera sá að framkoma okkar við aðra hafi bein áhrif á samband okkar við Jehóva. (1. Jóh. 4:20) Fórnirnar, sem menn færðu Guði forðum daga, voru einskis virði ef sá sem færði fórnina kom ekki rétt fram við meðbræður sína. — Lestu Míka 6:6-8.

Við verðum að vera auðmjúk

6, 7. Af hverju er nauðsynlegt að vera auðmjúkur til að sættast við trúsystkini sem við höfum sært eða móðgað?

6 Það getur reynt á auðmýktina að sættast við bróður sinn eða systur. Þeir sem eru auðmjúkir þrasa ekki eða rífast við trúsystkini sín til að reyna að ná fram ímynduðum rétti sínum. Það myndi skapa mjög neikvætt andrúmsloft í söfnuðinum, ekki ósvipað og kom upp meðal kristinna manna í Korintu forðum daga. Athyglisvert er að sjá hvað Páll postuli sagði um ástandið þar: „Það út af fyrir sig að þið standið í málaferlum hvert við annað er í sjálfu sér hnekkir fyrir ykkur. Hví líðið þið ekki heldur órétt? Hví látið þið ekki heldur hafa af ykkur?“ — 1. Kor. 6:7.

7 Jesús sagði ekki að við ættum að fara til bróður okkar til þess eins að sannfæra hann um að við höfum rétt fyrir okkur en hann rangt. Markmiðið ætti að vera að koma aftur á friði. Til að sættast þurfum við að segja hreinskilnislega hvernig okkur er innanbrjósts. Við þurfum líka að viðurkenna að hinum einstaklingnum hafi sárnað. Og ef sökin er okkar viljum við auðvitað biðjast auðmjúklega afsökunar.

„Ef hægra auga þitt tælir þig til falls“

8. Endursegðu það sem stendur í Matteusi 5:29, 30.

8 Í fjallræðunni gaf Jesús góðar leiðbeiningar um siðferðismál. Hann vissi að ófullkomnir limir líkamans geta haft hættuleg áhrif á okkur. Hann sagði því: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti. * Ef hægri hönd þín tælir þig til falls þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en allur líkami þinn fari til helvítis.“ — Matt. 5:29, 30.

9. Hvernig getur „auga“ eða „hönd“ tælt okkur til falls?

9 Þegar Jesús talar um „auga“ á hann við getu mannsins til að beina athyglinni að einhverju, og með „hönd“ á hann við það sem við gerum með höndunum. Ef við erum ekki varkár geta þessir líkamshlutar ‚tælt okkur til falls‘ svo að við hættum að ‚ganga með Guði‘. (1. Mós. 5:22; 6:9) Ef okkur finnst freistandi að óhlýðnast Jehóva þurfum við að grípa til róttækra aðgerða — í óeiginlegri merkingu að rífa úr okkur auga eða sníða af hönd.

10, 11. Hvað getur hjálpað okkur að forðast siðleysi?

10 Hvernig getum við komið í veg fyrir að augun dvelji við eitthvað siðlaust? „Ég gerði þann sáttmála við augu mín að líta mey ekki girndarauga,“ sagði hinn guðhræddi Job. (Job. 31:1) Job var kvæntur maður og staðráðinn í að brjóta ekki siðferðislög Guðs. Við ættum að tileinka okkur sama hugarfar, hvort sem við erum gift eða einhleyp. Til að forðast siðleysi þurfum við að láta heilagan anda Guðs leiða okkur en sjálfsagi er einn þeirra eiginleika sem andinn glæðir í fari þeirra sem elska Guð. — Gal. 5:22-25.

11 Það getur verið góð hjálp til að forðast siðleysi að spyrja sig: Leyfi ég augunum að vekja með mér löngun í siðlaust efni sem auðvelt er að nálgast í bókum, í sjónvarpi eða á Netinu? Höfum líka í huga það sem lærsveinninn Jakob sagði: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.“ (Jak. 1:14, 15) Ef vígður þjónn Guðs heldur áfram að horfa á einhvern af hinu kyninu af siðlausum hvötum þarf hann að gera róttæka hugarfarsbreytingu sambærilega við að rífa úr sér auga og kasta því frá sér. — Lestu Matteus 5:27, 28.

12. Hvað ráðlagði Páll sem getur hjálpað okkur að berjast gegn siðlausum löngunum?

12 Ef við notum hendurnar á rangan hátt getur það leitt til þess að við brjótum siðferðisreglur Jehóva með grófum hætti. Þess vegna verðum við að vera staðráðin í að halda okkur siðferðilega hreinum. Við ættum að gera eins og Páll ráðleggur: „Deyðið . . . hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ (Kól. 3:5) Sögnin „deyðið“ gefur til kynna að við þurfum að berjast gegn siðlausum löngunum holdsins af miklu afli.

13, 14. Af hverju er afar mikilvægt að forðast siðlausar hugsanir og hegðun?

13 Flestir eru trúlega tilbúnir til að láta fjarlægja útlim ef það er nauðsynlegt til að bjarga lífi sínu. Það er að sama skapi mikilvægt að ‚kasta frá sér‘ í óeiginlegri merkingu auga eða hönd til að forðast siðlausar hugsanir eða verk sem gætu kostað mann lífið í andlegum skilningi. Við verðum að halda okkur hreinum hugarfarslega, siðferðilega og andlega. Það er eina leiðin til að umflýja þann eilífa dauða sem Gehenna táknar.

14 Þar sem við höfum fengið synd og ófullkomleika í arf er ekki áreynslulaust að halda sér siðferðilega hreinum. „Ég aga líkama minn,“ sagði Páll, „og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.“ (1. Kor. 9:27) Verum því ákveðin í að fylgja ráðleggingum Jesú um siðferðismál. Við megum ekki leyfa okkur að gera neitt sem ber vott um að við metum ekki lausnarfórn hans að verðleikum. — Matt. 20:28; Hebr. 6:4-6.

„Gefið“

15, 16. (a) Hvernig sýndi Jesús gjafmildi? (b) Hvað merkir það sem Jesús sagði í Lúkasi 6:38?

15 Jesús hvatti til örlætis, bæði með orðum sínum og afbragðsfordæmi. Hann sýndi af sér einstakt örlæti með því að koma til jarðar í þágu ófullkominna manna. (Lestu 2. Korintubréf 8:9.) Hann afsalaði sér fúslega þeirri dýrð sem hann hafði á himnum, varð maður og gaf síðan líf sitt fyrir synduga menn. Sumir þeirra áttu síðan eftir að eignast mikil auðæfi á himnum sem samerfingjar hans í Guðsríki. (Rómv. 8:16, 17) Jesús hvatti tvímælalaust til örlætis þegar hann sagði:

16„Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúk. 6:38) Hér er vísað til þess að kaupmenn höfðu þann sið að ‚leggja í skaut‘ viðskiptavinar varning sem hann keypti. Kaupandinn myndaði þá eins konar burðarpoka úr víðri fellingu í yfirhöfn sinni og varningurinn var settur í hana. Ef við erum að eðlisfari örlát getur verið að við fáum ‚góðan mæli‘ til baka, kannski þegar við þurfum sérstaklega á því að halda. — Préd. 11:2.

17. Hvernig sýndi Jehóva að hann er örlátastur allra og hvers konar gjafmildi getur veitt okkur gleði?

17 Jehóva elskar glaðan gjafara og umbunar honum. Sjálfur er hann örlátastur allra og sýndi það þegar hann gaf einkason sinn „til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. (Jóh. 3:16) Páll skrifaði: „Sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Kor. 9:6, 7) Við uppskerum gleði og ríkulega umbun ef við gefum af tíma okkar, kröftum og fjármunum til að efla sanna tilbeiðslu. — Lestu Orðskviðina 19:17; Lúkas 16:9.

Láttu ekki „þeyta lúður fyrir þér“

18. Hvað gæti orðið til þess að við hlytum „engin laun“ frá föðurnum á himnum?

18„Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.“ (Matt. 6:1) Með „réttlæti“ átti Jesús við hegðun sem samræmist vilja Guðs. Hugsunin er ekki sú að menn megi ekki vinna góð verk fyrir opnum tjöldum því að Jesús hafði sagt lærisveinunum að láta ‚ljós sitt lýsa meðal mannanna‘. (Matt. 5:14-16) Við hljótum hins vegar „engin laun“ frá föðurnum á himnum ef við vinnum verk okkar til að sýnast fyrir mönnum og hljóta aðdáun þeirra eins og við værum leikarar á sviði. Ef okkur gengur eitthvað slíkt til getum við hvorki átt náið samband við Guð né hlotið eilífa blessun í Guðsríki.

19, 20. (a) Hvað átti Jesús við með því að láta ekki „þeyta lúður“ fyrir sér þegar maður gæfi „ölmusu“? (b) Hvað merkir það að láta ekki vinstri höndina vita hvað sú hægri gerir?

19 Ef við höfum rétt hugarfar gerum við eins og Jesús hvatti til: „Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ (Matt. 6:2) ‚Ölmusur‘ voru framlög til styrktar bágstöddum. (Lestu Jesaja 58:6, 7.) Jesús og postularnir höfðu sameiginlegan sjóð sem þeir notuðu til að hjálpa fátækum. (Jóh. 12:5-8; 13:29) Nú var það ekki venja manna að láta bókstaflega þeyta lúður fyrir sér áður en þeir gáfu framlög. Ljóst er því að Jesús notaði ofhvörf þegar hann sagði að við ættum ekki að „láta þeyta lúður“ fyrir okkur þegar við gæfum „ölmusu“. Við eigum ekki að auglýsa ölmusugjafir okkar eins og farísear gerðu. Jesús kallaði þá hræsnara vegna þess að þeir auglýstu framlög sín til góðgerðarmála „í samkunduhúsum og á strætum“. Þeir höfðu „tekið út laun sín“. Einu launin, sem þeir hlutu, voru lof manna og hugsanlega sæti á fremsta bekk í samkundunni við hlið virtra rabbína. (Matt. 23:6) Jehóva myndi ekki launa þeim á neinn hátt. En hvernig áttu lærisveinar Krists að bera sig að? Jesús sagði þeim — og okkur:

20„En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir svo að ölmusa þín sé í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ (Matt. 6:3, 4) Hendurnar vinna yfirleitt saman. Að láta vinstri höndina ekki vita hvað sú hægri gerir merkir að við auglýsum ekki góðverk okkar, ekki einu sinni fyrir þeim sem eru okkur eins nákomnir og vinstri höndin er þeirri hægri.

21. Hvaða laun hljótum við frá Guði „sem sér í leynum“?

21 Við gefum ‚ölmusur‘ okkar í leynum ef við stærum okkur ekki af þeim. Faðirinn, sem „sér í leynum“, mun þá umbuna okkur. Jehóva býr á himnum og er ósýnilegur mönnum þannig að hann er „í leynum“ gagnvart mannkyni. (Jóh. 1:18) Jehóva umbunar okkur meðal annars með því að veita okkur náið samband við sig, fyrirgefa syndir okkar og veita okkur eilíft líf. (Orðskv. 3:32; Jóh. 17:3; Ef. 1:7) Er það ekki miklu betra en að hljóta lof manna?

Dýrmæt orð sem ber að varðveita

22, 23. Af hverju ættum við að geyma með okkur orð Jesú?

22 Fjallræðan er sannarlega full af andlegum gimsteinum sem hafa ótal fallega fleti. Hún hefur að geyma dýrmæt orð sem geta veitt okkur gæfu og gleði í þessum illa heimi. Við verðum hamingjusöm ef við geymum með okkur orð Jesú og leyfum þeim að hafa áhrif á hugarfar okkar og líferni.

23 Allir sem ‚heyra‘ orð Jesú og ‚breyta eftir‘ því sem hann kenndi hljóta blessun fyrir. (Lestu Matteus 7:24, 25.) Verum því ákveðin í að fylgja ráðleggingum Jesú. Rætt verður um fleiri þætti fjallræðunnar í síðustu greininni í þessari syrpu.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 „Gehenna“, samkvæmt Biblíunni 1912, neðanmáls.

Hvert er svarið?

• Af hverju er mikilvægt að sættast við trúsystkini?

• Hvernig getum við komið í veg fyrir að ‚hægra augað‘ tæli okkur til falls?

• Með hvaða hugarfari ættum við að gefa?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 11]

Við stuðlum að friði með því að sættast við trúsystkini.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Jehóva blessar glaðan gjafara.