Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sæluboð Jesú hjálpa okkur að vera hamingjusöm

Sæluboð Jesú hjálpa okkur að vera hamingjusöm

Sæluboð Jesú hjálpa okkur að vera hamingjusöm

„Gekk [Jesús] upp á fjallið . . . og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim.“ — MATT. 5:1, 2.

1, 2. (a) Við hvaða aðstæður flutti Jesús fjallræðuna? (b) Hvernig byrjaði Jesús ræðuna?

JESÚS hefur verið á boðunarferð í Galíleu en gerir stutt hlé á henni og fer til Jerúsalem til að halda páska. (Jóh. 5:1) Síðan snýr hann aftur til Galíleu. Hann eyðir þar heilli nótt á bæn til að fá leiðsögn Guðs við að velja 12 postula. Daginn eftir safnast saman mikill mannfjöldi og Jesús læknar þá sem sjúkir eru. Hann sest síðan í fjallshlíð og tekur að kenna lærisveinunum og öðrum viðstöddum. Þetta er árið 31. — Matt. 4:23–5:2; Lúk. 6:12-19.

2 Jesús byrjar fjallræðuna, sem svo er kölluð, með því að benda á að fólk verði sælt eða hamingjusamt ef það á gott samband við Guð. (Lestu Matteus 5:1-12.) Sæla er sama og ‚velsæld, heill og hamingja‘. Sæluboðin níu, sem Jesús ræddi um, draga fram hvers vegna kristnir menn eru hamingjusamir og þau eru ekki síður gagnleg nú á dögum en þau voru fyrir næstum 2000 árum. Við skulum nú skoða sæluboðin nánar hvert fyrir sig.

„Þeir sem skynja andlega þörf sína“

3. Hvað merkir það að skynja andlega þörf sína?

3„Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ (Matt. 5:3, NW) „Þeir sem skynja andlega þörf sína“ gera sér ljóst að þeir eru andlega snauðir og þarfnast miskunnar Guðs.

4, 5. (a) Af hverju eru þeir sælir sem skynja andlega þörf sína? (b) Hvernig getum við fullnægt andlegri þörf okkar?

4 Þeir sem skynja andlega þörf sína eru sælir „því að himnaríkið tilheyrir þeim“. Þegar lærisveinar Jesú á fyrstu öld tóku við honum sem Messíasi bauðst þeim tækifæri til að ríkja með honum á himnum. (Lúk. 22:28-30) Hvort sem við höfum þá von að verða samerfingjar Krists á himnum eða hlökkum til þess að lifa að eilífu í paradís á jörð undir stjórn Guðsríkis getum við verið hamingjusöm ef við skynjum andlega þörf okkar og gerum okkur fulla grein fyrir því að við erum háð Guði.

5 Margir skynja ekki andlega þörf sína. Þeir hafa ekki trú og kunna ekki að meta það sem er heilagt. (2. Þess. 3:1, 2; Hebr. 12:16) Við getum fullnægt andlegri þörf okkar meðal annars með því að vera dugleg við biblíunám, iðin í boðunarstarfinu og sækja safnaðarsamkomur reglulega. — Matt. 28:19, 20; Hebr. 10:23-25.

Syrgjendur sem eru „sælir“

6. Hvers konar „syrgjendur“ er átt við og af hverju eru þeir „sælir“?

6„Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.“ (Matt. 5:4) „Syrgjendur“ eru sams konar fólk og „þeir sem skynja andlega þörf sína“. Þeir eru ekki syrgjendur í þeim skilningi að þeir séu daprir yfir hlutskipti sínu í lífinu. Þeir harma hins vegar að þeir skuli vera syndugir og eru daprir yfir ástandinu sem ófullkomleiki mannanna veldur. Af hverju eru þessir syrgjendur „sælir“? Af því að þeir trúa á Guð og Krist og það er þeim til hughreystingar að eiga gott samband við Guð. — Jóh. 3:36.

7. Hvernig ættum við að hugsa um heim Satans?

7 Hörmum við hið taumlausa ranglæti í heimi Satans? Hvernig hugsum við innst inni um það sem heimurinn hefur upp á að bjóða? Jóhannes postuli skrifaði: „Allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum.“ (1. Jóh. 2:16) En hvað er til ráða ef við finnum að tilbeiðsla okkar á Jehóva hefur orðið fyrir áhrifum af „anda heimsins“, hinu ráðandi afli meðal manna sem eru fjarlægir Guði? Þá skulum við biðja innilega til Jehóva, leggja okkur fram við biblíunám og leita hjálpar öldunganna. Þegar við styrkjum sambandið við Jehóva fáum við ‚huggun‘, óháð því hvað veldur okkur vanlíðan. — 1. Kor. 2:12; Sálm. 119:52; Jak. 5:14, 15.

„Sælir eru hógværir“

8, 9. Hvað er hógværð og af hverju eru hógværir sælir?

8„Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matt. 5:5) Hógværð er ekki veikleiki og hún á ekkert skylt við uppgerðarauðmýkt. (1. Tím. 6:11) Ef við erum hógvær gerum við vilja Jehóva og þiggjum leiðsögn hans. Hógværð sýnir sig líka í samskiptum við trúsystkini og aðra og kemur heim og saman við ráðleggingar Páls postula. — Lestu Rómverjabréfið 12:17-19.

9 Af hverju eru hógværir sælir? Af því að „þeir munu jörðina erfa“, sagði Jesús sem var sjálfur hógvær maður. Hann er aðalerfingi jarðarinnar. (Sálm. 2:8; Matt. 11:29; Hebr. 2:8, 9) Hógværir „samarfar Krists“ erfa jörðina með honum. (Rómv. 8:16, 17) Margir aðrir hógværir menn hljóta eilíft líf í jarðneskum hluta ríkis Jesú. — Sálm. 37:10, 11.

10. Hvaða áhrif hefur það á störf okkar í söfnuðinum og samskipti við aðra ef við erum ekki hógvær?

10 Við ættum að vera hógvær líkt og Jesús. En hvað er til ráða ef við erum þekkt fyrir að vera deilugjörn? Ef við erum þrasgjörn og óvinsamleg í viðmóti gæti fólk haft tilhneigingu til að forðast okkur. Bræður, sem sækjast eftir ábyrgðarstörfum í söfnuðinum, eru óhæfir ef þeir eru deilugjarnir. (1. Tím. 3:1, 3) Páll sagði Títusi að hvetja trúsystkini sín á Krít til að vera „friðsöm, sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd“. (Tít. 3:1, 2) Það er öðrum til blessunar ef við erum hógvær.

Þá hungrar eftir „réttlætinu“

11-13. (a) Hvað merkir það að hungra og þyrsta eftir réttlætinu? (b) Hvernig verða þeir „saddir“ sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu?

11„Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.“ (Matt. 5:6) Réttlætið, sem Jesús talaði um, merkir að breyta rétt með því að hlýða vilja Guðs og halda boðorð hans. Sálmaritarinn sagði að hann ‚tærðist sífellt af þrá‘ eftir réttlátum ákvæðum Guðs. (Sálm. 119:20) Metum við réttlætið svo mikils að okkur hungri og þyrsti eftir því?

12 Jesús sagði að þeir væru sælir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu vegna þess að þeir myndu verða „saddir“. Þetta varð mögulegt eftir hvítasunnu árið 33 því að heilagur andi Jehóva tók þá að „sanna heiminum hvað er . . . réttlæti“. (Jóh. 16:8) Guð beitti heilögum anda til að innblása mönnum að skrifa Grísku ritningarnar sem eru nytsamar til „menntunar í réttlæti“. (2. Tím. 3:16) Andi Guðs hjálpar okkur einnig að „íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd . . . og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. (Ef. 4:24) Það er hægt að vera réttlátur í augum Guðs með því að iðrast og leita fyrirgefningar synda sinna á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Er ekki hughreystandi að vita það? — Lestu Rómverjabréfið 3:23, 24.

13 Ef við höfum jarðneska von fáum við réttlætisþránni svalað að fullu þegar við hljótum eilíft líf við réttlátar aðstæður á jörð. Þangað til skulum við vera staðráðin í að lifa í samræmi við meginreglur Jehóva. „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis,“ sagði Jesús. (Matt. 6:33) Ef við gerum það erum við hamingjusöm og höfum næg verkefni í þjónustu Jehóva. — 1. Kor. 15:58.

Af hverju eru „miskunnsamir“ sælir?

14, 15. Hvernig getum við verið miskunnsöm og af hverju eru „miskunnsamir“ sælir?

14„Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matt. 5:7) „Miskunnsamir“ finna til með öðrum. Jesús kenndi í brjósti um fólk og vann kraftaverk til að lina þjáningar þess. (Matt. 14:14) Í lagalegum skilningi er það miskunn að fyrirgefa þeim sem gera á hlut manns, rétt eins og Jehóva miskunnar og fyrirgefur iðrandi fólki. (2. Mós. 34:6, 7; Sálm. 103:10) Við getum sýnt miskunn með þeim hætti og einnig með því að sýna bágstöddum góðvild í orði og verki. Góð leið til að sýna miskunn er að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. Eitt sinn sá Jesús margt manna saman komna, fann til með þeim og „kenndi þeim margt“. — Mark. 6:34.

15 Við höfum ærna ástæðu til að taka undir orð Jesú: „Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.“ Ef við erum miskunnsöm við aðra bregðast þeir sennilega eins við gagnvart okkur. Þegar Jehóva dæmir okkur er líklegra að dómurinn verði hagstæður ef við höfum verið miskunnsöm við aðra. (Jak. 2:13) Aðeins hinir miskunnsömu hljóta syndafyrirgefningu og eilíft líf. — Matt. 6:15.

Af hverju eru „hjartahreinir“ sælir?

16. Hvað merkir það að vera ‚hjartahreinn‘ og hvernig geta hjartahreinir ‚séð‘ Guð?

16„Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.“ (Matt. 5:8) Ef við erum ‚hjartahrein‘ höfum við hreinar langanir, hvatir og tilfinningar. Við sýnum „kærleika af hreinu hjarta“. (1. Tím. 1:5) Þar sem við erum hrein hið innra fáum við að „sjá“ Guð. Þetta þarf ekki að merkja að við sjáum Jehóva bókstaflega því að „enginn maður fær séð [hann] og haldið lífi“. (2. Mós. 33:20) Jesús endurspeglaði persónuleika Jehóva fullkomlega og gat þar af leiðandi sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Jóh. 14:7-9) Við sem tilbiðjum Jehóva hér á jörð getum ‚séð‘ hann þegar hann lætur til sín taka í okkar þágu. (Job. 42:5) Hinir andasmurðu sjá Guð í fyllsta skilningi þegar þeir eru reistir upp sem andaverur og sjá hann í eigin persónu. — 1. Jóh. 3:2.

17. Hvaða áhrif hefur það á okkur ef við erum hjartahrein?

17 Sá sem er hjartahreinn er bæði siðferðilega og andlega hreinn og lætur því hugann ekki dvelja við það sem er óhreint í augum Jehóva. (1. Kron. 28:9; Jes. 52:11) Ef við erum hjartahrein mun það sem við segjum og gerum bera þess merki og þjónusta okkar við Jehóva vera hræsnislaus.

„Friðflytjendur“ verða börn Guðs

18, 19. Hvernig hegðun einkennir „friðflytjendur“?

18„Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matt. 5:9) „Friðflytjendur“ þekkjast á því sem þeir gera og því sem þeir gera ekki. Ef við erum þess konar fólk sem Jesús var að tala um erum við friðsöm og ‚gjöldum engum illt með illu heldur keppum ávallt eftir hinu góða við aðra‘. — 1. Þess. 5:15.

19 Gríska orðið, sem er þýtt „friðflytjendur“ í Matteusi 5:9, merkir bókstaflega „friðsemjendur“. Til að teljast friðflytjendur þurfum við að reyna að stuðla að friði. Friðsemjendur gera ekkert sem „veldur vinaskilnaði“. (Orðskv. 16:28) Þeir reyna sitt ýtrasta til að ‚stunda frið við alla menn‘. — Hebr. 12:14.

20. Hverjir eru „Guðs börn“ núna og hverjir verða líka börn hans síðar?

20 Friðflytjendur eru sælir vegna þess að „þeir munu Guðs börn kallaðir verða“. Jehóva hefur ættleitt andasmurða kristna menn og þeir eru þess vegna „Guðs börn“. Sem börn hans eiga þeir nú þegar mjög náið samband við hann af því að þeir trúa á Krist og tilbiðja „Guð kærleikans og friðarins“ af heilum hug. (2. Kor. 13:11; Jóh. 1:12) Hvað um friðsama „aðra sauði“ Jesú? Í þúsundáraríkinu verður Jesús „Eilífðarfaðir“ þeirra en að því loknu mun hann skipa sig undir Jehóva Guð og þá verða þeir börn Guðs í fyllsta skilningi. — Jóh. 10:16; Jes. 9:5; Rómv. 8:21; 1. Kor. 15:27, 28.

21. Hvernig hegðum við okkur ef við ‚lifum í andanum‘?

21 Ef við ‚lifum í andanum‘ er það öðrum augljóst að við erum friðsöm. Við „áreitum [ekki] hvert annað“ heldur kappkostum að hafa „frið við alla menn“. — Gal. 5:22-26; Rómv. 12:18.

Sælir þrátt fyrir ofsóknir

22-24. (a) Af hverju eru þeir sælir sem eru ofsóttir fyrir réttlætis sakir? (b) Um hvað er fjallað í næstu tveim námsgreinum?

22„Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.“ (Matt. 5:10) Jesús útlistaði þetta nánar og sagði: „Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ — Matt. 5:11, 12.

23 Kristnir menn búast við því að aðrir smáni þá, ofsæki eða ljúgi ýmsu á þá „fyrir réttlætis sakir“. Spámenn Guðs fyrr á tímum máttu þola svipaða meðferð. Það veitir gleði að heiðra Jehóva og þóknast honum með því að vera trúfastur í slíkum prófraunum. (1. Pét. 2:19-21) Þjáningar draga ekki úr þeirri ánægju sem við höfum af því að þjóna Jehóva núna eða í framtíðinni. Þær spilla ekki hamingjunni sem fylgir því að ríkja með Kristi á himnum eða gleðinni samfara því að hljóta eilíft líf sem þegnar Guðsríkis á jörð. Slík blessun er merki um velþóknun Guðs, góðvild hans og örlæti.

24 Það má læra margt fleira af fjallræðunni. Við lítum á sumt af því í næstu tveim námsgreinum. Hvaða aðrar leiðbeiningar gaf Jesús í þessari ræðu?

Hvert er svarið?

• Af hverju eru þeir sælir sem „skynja andlega þörf sína“?

• Af hverju eru „hógværir“ sælir?

• Af hverju eru sannkristnir menn sælir þrátt fyrir ofsóknir?

• Hvaða sæluboð Jesú höfðar sérstaklega til þín?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sæluboðin níu eru ekki síður gagnleg nú á dögum en þegar Jesús flutti þau.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar er góð leið til að sýna miskunn.