Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Engill Drottins setur vörð kringum þá“

„Engill Drottins setur vörð kringum þá“

„Engill Drottins setur vörð kringum þá“

Christabel Connell segir frá

Við vorum svo niðursokknar í að svara spurningum Christophers út frá Biblíunni að hvorug okkar tók eftir hve liðið var á kvöldið. Við tókum ekki heldur eftir því að Christopher var alltaf að líta út um gluggann. Að lokum sneri hann sér að okkur og sagði: „Nú er óhætt að fara.“ Síðan fylgdi hann okkur að reiðhjólunum og kvaddi. Hvaða hættu hafði hann tekið eftir?

ÉG FÆDDIST í Sheffield á Englandi árið 1927 og var nefnd Christabel Earl. Heimili okkar varð fyrir sprengjuárás í síðari heimsstyrjöldinni. Ég var send til ömmu minnar og átti að vera hjá henni þar til ég lyki skólagöngu. Í klausturskóla, sem ég gekk í, var ég sífellt að spyrja nunnurnar af hverju væri svo mikil illska og ofbeldi í heiminum. Hvorki þær né annað trúað fólk, sem ég spurði, gat svarað mér á fullnægjandi hátt.

Eftir síðari heimstyrjöldina lærði ég hjúkrun. Ég fór til Lundúna og starfaði við Paddington General Hospital. Í borginni sá ég enn meira ofbeldi. Stuttu eftir að eldri bróðir minn fór í Kóreustríðið horfði ég á ofsafengin slagsmál rétt fyrir utan sjúkrahúsið. Enginn hjálpaði fórnarlambinu. Barsmíðarnar leiddu til þess að maðurinn missti sjónina. Ég fór á miðilsfundi um þetta leyti ásamt móður minni en varð samt engu nær um hvers vegna mannvonskan væri svona mikil.

Hvött til að kynna mér Biblíuna

Dag einn kom John, elsti bróðir minn, í heimsókn. Hann var orðinn vottur Jehóva. Hann spurði hvort ég vissi hvers vegna ástandið væri svona slæmt. „Nei,“ svaraði ég. Hann opnaði Biblíuna og las í Opinberunarbókinni 12:7-12. Þá rann upp fyrir mér að Satan og illu andarnir bera í raun og veru ábyrgð á illskunni í heiminum. Samkvæmt ráðum Johns þáði ég stuttu síðar biblíunámskeið. En ég lét óttann við menn aftra mér frá því að skírast. — Orðskv. 29:25.

Dorothy systir var einnig orðin vottur. Þegar hún og Bill Roberts, kærastinn hennar, komu af alþjóðamótinu í New York (1953) sagði ég þeim að ég hefði verið að kynna mér Biblíuna með aðstoð vottanna. Bill spurði mig þá hvort ég hefði flett upp öllum ritningarstöðunum og einnig hvort ég hefði strikað undir svörin í námsbókinni. Þegar ég svarði þessu neitandi, sagði hann: „Þá hefur þú ekkert verið að læra! Hafðu samband við vottinn og byrjaðu aftur!“ Um þetta leyti fóru illu andarnir að áreita mig. Ég minnist þess að hafa beðið Jehóva um að vernda mig og losa mig undan áhrifum þeirra.

Brautryðjandi í Skotlandi og á Írlandi

Ég lét skírast 16. janúar 1954, lauk starfssamningi mínum í hjúkrun í maí og varð brautryðjandi í júní. Átta mánuðum síðar var ég send sem sérbrautryðjandi til Grangemouth í Skotlandi. Þar fann ég fyrir því að englar Jehóva ‚settu vörð‘ kringum mig á meðan ég starfaði á þessu dreifbýlissvæði. — Sálm. 34:8.

Árið 1956 var mér boðið að starfa á Írlandi. Mér var ætlað, ásamt tveim öðrum systrum, að fara til borgarinnar Galway. Fyrsta daginn í starfinu hitti ég prest. Skyndilega var lögregluþjónn mættur á staðinn og fór með okkur starfssysturnar á lögreglustöðina. Hann fékk nöfn okkar og heimilisföng og fór síðan strax í símann. Við heyrðum hann segja: „Já, faðir, ég veit alveg hvar þær eiga heima.“ Presturinn hafði sent eftir honum! Húseigandinn var þvingaður til að segja okkur upp. Við höfðum samband við deildarskrifstofuna og okkur var þá ráðlagt að yfirgefa svæðið. Við komum á lestarstöðina tíu mínútum of seint. Lestin var samt ófarin og maður beið eftir okkur til að vera viss um að við færum um borð. Og við höfðum aðeins verið þrjár vikur í Galway!

Við vorum sendar til borgarinnar Limerick. Þar átti kaþólska kirkjan einnig gríðarleg ítök og við urðum fyrir stöðugu aðkasti. Margir voru hræddir við að opna dyrnar þegar við vorum á ferðinni. Árinu áður hafði bróðir verið barinn sundur og saman í Cloonlara, litlum bæ þar skammt frá. Við vorum því ánægðar með að hitta Christopher sem minnst var á í upphafi. Hann bað okkur um að koma aftur til að svara spurningum sem hann hafði um Biblíuna. Meðan á heimsókn okkar stóð gekk inn prestur og krafðist þess að Christopher vísaði okkur á dyr. Hann var ósammála prestinum og sagði: „Ég bauð þessum konum inn á heimili mitt og þær bönkuðu áður en þær gengu inn. Þér var hvorki boðið inn né bankaðir þú.“ Presturinn reiddist og fór.

Án þess að við vissum hafði presturinn safnað saman stórum hópi manna sem beið okkar fyrir utan húsið. Christopher vissi að þeir voru okkur fjandsamlegir. Þess vegna brást hann við eins og lýst er í byrjun greinarinnar. Hann lét okkur halda kyrru fyrir uns hópurinn var farinn. Við komumst að því síðar að hann og fjölskylda hans neyddust til að flytja burt af svæðinu skömmu eftir þetta. Þau fóru til Englands.

Gíleðskólinn

Ég var búin að ákveða að vera á alþjóðamótinu „Vilji Guðs“ í New York árið 1958 þegar mér var boðið að vera í 33. hópi Gíleaðskólans. Í stað þess að snúa heim eftir mótið starfaði ég í borginni Collingwood í Ontario í Kanada þar til skólinn hæfist árið 1959. Á mótinu hitti ég Eric Connell. Hann kynntist sannleikanum 1957 og byrjaði sem brautryðjandi 1958. Eftir mótið skrifaði hann mér á hverjum einasta degi meðan ég dvaldi í Kanada og allan tímann sem ég var í Gíleaðskólanum. Ég velti fyrir mér hvað yrði um okkur eftir að ég útskrifaðist.

Vera mín í Gíleaðskólanum var hápunktur lífs míns. Við Dorothy og eiginmaður hennar vorum saman í skólanum. Þau voru send sem trúboðar til Portúgal. Mér til undrunar var ég send til Írlands. Ég varð fyrir sárum vonbrigðum að fara ekki með systur minni! Ég spurði einn af leiðbeinendunum hvort ég hefði gert eitthvað rangt. Hann svaraði: „Nei, þú og Eileen Mahoney, starfssystir þín, samþykktuð að fara hvert sem væri í heiminum.“ Írland var svo sannarlega þar á meðal.

Aftur til Írlands

Ég kom aftur til Írlands í ágúst 1959 og var send til safnaðarins í Dun Laoghaire. Eric var þá kominn til Englands og var mjög ánægður yfir því að ég skyldi vera svona nálægt honum. Hann langaði einnig til að gerast trúboði. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þar sem nú væri þörf á að senda trúboða til Írlands þá ætlaði hann að verða brautryðjandi þar. Hann fluttist til Dun Laoghaire og við giftumst 1961.

Sex mánuðum síðar lenti Eric í alvarlegu mótorhjólaslysi. Hann reyndist vera höfuðkúpubrotinn. Læknar voru uggandi um líf hans. Eftir þriggja vikna sjúkrahúslegu annaðist ég hann heima í fimm mánuði þar til hann hafi náð sér. Ég hélt áfram í boðunarstarfinu eftir bestu getu.

Árið 1965 vorum við send til Sligo sem er hafnarbær á norðvesturströndinni. Í söfnuðinum voru átta boðberar. Þremur árum síðar fórum við til annars lítils safnaðar í Londonderry, norðar í landinu. Einn daginn vorum við á heimleið úr starfinu. Þá var búið að setja upp gaddavírsgirðingu þvert yfir götuna að heimili okkar. Átökin á Norður-Írlandi voru hafin. Óaldarflokkar unglinga kveiktu í bílum. Borgin hafði þá þegar skipst í hverfi mótmælenda og hverfi kaþólskra. Það var hættulegt að fara frá einum borgarhluta til annars.

Boðunarstarf á átakatímum

Við störfuðum samt út um allt. Okkur fannst aftur eins og englarnir stæðu vörð allt í kringum okkur. Þegar við vorum á svæðum þar sem óeirðir brutust út hurfum við sem skjótast af vettvangi. Við komum svo aftur þegar ró hafði færst yfir. Einu sinni brutust óeirðir út nálægt íbúðinni okkar. Logandi brak frá nærliggjandi málningarvöruverslun lenti þá á gluggakistunni hjá okkur. Við gátum ekki farið að sofa ef svo færi að eldur læsti sig um íbúðina. Þegar við vorum komin til Belfast 1970 fréttum við reyndar að kveikt hefði verið í málningarvöruversluninni með bensínsprengju og íbúðablokkin, þar sem við bjuggum, hafi þá brunnið til grunna.

Í annað skipti vorum við tvær systur að starfa saman og tókum eftir skrítnum rörbút sem lá á gluggasyllu. Við héldum áfram. Nokkrum mínútum síðar sprakk rörið. Fólk í hverfinu kom út og hélt að við hefðum verið að verki! En trúsystir, sem átti heima í hverfinu, hafði þá einmitt boðið okkur inn til sín. Nágrannar hennar tóku það sem sönnun fyrir sakleysi okkar.

Árið 1971 fórum við aftur til Londonderry í heimsókn til systur. Þegar við lýstum leiðinni og vegatálmanum, sem við fórum gegnum, spurði hún: „Var enginn við vegatálmann?“ „Jú,“ svöruðum við, „en þeir létu sem þeir sæju okkur ekki.“ Það fannst henni furðulegt því að undanfarna daga höfðu bifreiðar verið teknar með valdi af lækni og lögregluþjóni og þær brenndar.

Við fluttum til Cork árið 1972. Seinna störfuðum við í Naas og síðar í Arklow. Að lokum vorum við send til Castlebar 1987 og þar erum við núna. Okkur fannst frábært að fá tækifæri til að aðstoða við að reisa þar ríkissal. Eric veiktist alvarlega 1999. Með hjálp Guðs og gæskuríkri aðstoð safnaðarins auðnaðist mér aftur að annast hann þar til hann náði heilsu á ný.

Við Eric höfum tvívegis sótt Brautryðjendaskólann. Eric starfar enn þá sem öldungur. Ég þjáist af alvarlegri liðagigt og hef farið í liðskiptaaðgerðir á báðum mjöðmum og hnjám. Ég hef mátt þola hatramma trúarlega andstöðu og hef lifað alvarlega pólitíska og þjóðfélagslega átakatíma. En erfiðast hefur mér þótt að geta ekki lengur ekið bíl. Það var prófraun af því að þá gat ég ekki lengur farið allra minna ferða. Söfnuðurinn hefur hjálpað mér mjög mikið og stutt vel við bakið á mér. Ég geng nú við staf. En þegar ég þarf að fara lengri vegalengdir fer ég á rafknúnu þríhjóli.

Samanlagt höfum við Eric starfað sem sérbrautryðjendur í 100 ár, þar af 98 á Írlandi. Við erum ekkert að hugsa um að draga okkur í hlé. Við treystum ekki á kraftaverk. Við trúum því hins vegar að hinir voldugu englar Jehóva ‚setji vörð‘ allt í kringum þá sem óttast hann og þjóna honum trúfastlega.