Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað getur hjálpað okkur að vera þrautseig í boðunarstarfinu?

Hvað getur hjálpað okkur að vera þrautseig í boðunarstarfinu?

Hvað getur hjálpað okkur að vera þrautseig í boðunarstarfinu?

HEFURÐU einhvern tíma verið svo uppgefinn að þig hafi hreinlega langað til að hætta að boða fagnaðarerindið? Andstaða, kvíði, slæm heilsa, hópþrýstingur eða áhugaleysi fólks getur reynt á þrautseigju okkar. En veltu aðeins fyrir þér fordæmi Jesú. Hann gafst ekki upp þrátt fyrir miklar prófraunir „af því að hann vissi hvaða gleði beið hans“. (Hebr. 12:2) Hann vissi að hann myndi gleðja hjarta Jehóva með því að sanna að ásakanirnar á hendur honum væru algerlega tilhæfulausar. — Orðskv. 27:11.

Þú getur líka glatt hjarta Jehóva með því að gefast ekki upp í boðunarstarfinu. En hvað ef eitthvað dregur úr þér kraft? Krystyna, sem er roskin kona og heilsutæp, viðurkennir: „Ég er oft lúin og niðurdregin. Vandamál efri áranna eins og heilsuleysi og áhyggjur af daglega lífinu geta dregið mig niður.“ Hvernig getum við haldið ótrauð áfram í boðunarstarfinu þrátt fyrir slíka erfiðleika?

Líkjum eftir spámönnunum

Trúfastir boðberar fagnaðarerindisins ættu að reyna að tileinka sér sama hugarfar og spámenn Guðs til forna. Tökum Jeremía sem dæmi. Þegar hann var útvalinn sem spámaður Guðs var hann hikandi í byrjun. En hann gafst ekki upp þótt verkefnið væri erfitt. Hann þjónaði Guði dyggilega í meira en 40 ár vegna þess að hann setti allt sitt traust á Guð. — Jer. 1:6; 20:7-11.

Fordæmi Jeremía hefur verið mikil hvatning fyrir Henryk. Hann segir: „Í þau rúm 70 ár, sem ég hef tekið þátt í boðunarstarfinu, hefur mér stundum fallist hugur vegna viðbragða fólks, áhugaleysis og andstöðu. Á slíkum stundum hugsa ég til Jeremía. Kærleikur hans til Jehóva og trúartraust veittu honum kraft til að halda áfram spámannsstarfi sínu.“ (Jer. 1:17) Fordæmi Jeremía hefur einnig verið hvatning fyrir Rafał. Hann segir: „Jeremía treysti á Guð í stað þess að einblína á sjálfan sig og sínar eigin tilfinningar. Hann hélt ótrauður áfram þrátt fyrir að andstaðan væri mikil. Ég reyni ávallt að hafa þetta í huga.“

Fordæmi spámannsins Jesaja hefur líka hjálpað mörgum að vera þrautseigir í boðunarstarfinu. Jehóva Guð hafði sagt honum að samlandar hans myndu ekki hlusta á hann. „Sljóvga hjarta þessa fólks, deyf eyru þess,“ sagði Jehóva. Var starf Jesaja dæmt til að misheppnast? Ekki frá sjónarhóli Guðs. Þegar Jesaja var útvalinn sem spámaður sagði hann: „Hér er ég. Send þú mig.“ (Jes. 6:8-10) Jesaja hélt ótrauður áfram starfi sínu. Bregst þú þannig við fyrirmælum Guðs um að boða fagnaðarerindið?

Til að líkja eftir Jesaja og vera þrautseig í boðunarstarfinu þrátt fyrir áhugaleysi fólks, megum við ekki einblína um of á neikvæð viðbrögð þess. „Ég reyni að forðast að hugsa um þær óvinsamlegu athugasemdir sem ég fæ,“ segir Rafał. „Fólkið á svæðinu mínu hefur rétt til að bregðast við eins og það vill.“ Anna bætir við: „Ég leyfi mér ekki að dvelja við neitt sem er óþægilegt eða letjandi. Það sem hjálpar mér er að biðja og hugleiða dagstextann áður en ég fer út í boðunarstarfið. Þá hverfa neikvæðar hugsanir fljótt.“

Spámaðurinn Esekíel þjónaði á meðal hinna þverúðugu Gyðinga í útlegðinni í Babýlon. (Esek. 2:6) Ef spámaðurinn hefði ekki prédikað orð Guðs og einhver óhlýðinn Gyðingur dáið án þess að fá að heyra viðvaranir hans hefði Esekíel verið dreginn persónulega til ábyrgðar. Jehóva sagði við hann: „Blóðs hans mun ég krefjast úr hendi þinni.“ — Esek. 3:17, 18.

Henryk reynir að líta málið sömu augum og Esekíel: „Ég vil ekki að það sé mín sök þótt einhver glatist. Dýrmæt mannslíf eru í húfi.“ (Post. 20:26, 27) Zbigniew tekur í sama streng: „Esekíel varð að halda ótrauður áfram hvað sem öðrum fannst. Þetta hjálpar mér að líta á boðunarstarfið frá sjónarhóli skaparans.“

Við erum ekki ein

Við erum ekki ein og óstudd þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu. Við getum sagt eins og Páll postuli: „Samverkamenn Guðs erum við.“ (1. Kor. 3:9) Krystyna viðurkennir að stundum láti hún hugfallast. Hún segir: „Þess vegna þrábið ég Jehóva um að gefa mér styrk. Hann bregst mér aldrei.“ Já, við þurfum anda Guðs okkur til stuðnings þegar við sinnum starfi okkar. — Sak. 4:6.

Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu hjálpar andi Guðs okkur einnig að sýna þá eiginleika sem mynda ‚ávöxt andans‘. (Gal. 5:22, 23) Og það hjálpar okkur að vera þolgóð þótt á móti blási. Henryk segir: „Boðunarstarfið hjálpar mér að vinna í sjálfum mér. Ég þroska með mér þolinmæði, nærgætni og úthald.“ Þegar við sýnum þolgæði í boðunarstarfinu þrátt fyrir ýmiss konar erfiðleika hjálpar það okkur að rækta með okkur ávöxt andans í enn ríkari mæli.

Jehóva notar engla sína til að stjórna þessu einstaka starfi. (Opinb. 14:6) Í Biblíunni kemur fram að ‚tala þeirra sé tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda‘. (Opinb. 5:11) Englarnir styðja þjóna Guðs á jörðinni undir forystu Jesú. Hefurðu það hugfast í hvert sinn sem þú tekur þátt í boðunarstarfinu?

„Mér finnst mjög uppörvandi að hugleiða að englarnir skuli vera með okkur í boðunarstarfinu,“ segir Anna. „Ég met mikils þann stuðning sem þeir veita undir umsjón Jehóva og Jesú.“ Hvílíkur heiður að fá að vinna með trúföstum englum Guðs!

Hvað með trúsystkini okkar? Við erum þeirrar blessunar aðnjótandi að hafa fengið að kynnast miklum fjölda trúfastra votta. Þú hefur án efa upplifað sannleika orðskviðarins í Biblíunni um að „járn brýnir járn og maður brýnir mann.“ — Orðskv. 27:17.

Þegar við erum í starfinu með trúsystkinum höfum við einstakt tækifæri til að læra hvert af öðru og tileinka okkur nýjar og árangursríkar aðferðir. Elżbieta segir: „Að starfa með hinum ýmsu boðberum gefur mér tækifæri til þess að sýna kærleika minn til trúsystkina og fólksins sem við hittum.“ Reyndu að fara út í boðunarstarfið með ólíkum boðberum. Það gerir starf þitt ánægjulegra.

Hugsaðu vel um heilsuna

Til þess að viðhalda eldmóði okkar í boðunarstarfinu verðum við að skipuleggja okkur vel, vera iðin við sjálfsnám og fá næga hvíld. Með öðrum orðum, við verðum að hugsa vel um heilsu okkar, bæði andlega og líkamlega.

Í Biblíunni segir: „Áform hins iðjusama færa arð.“ (Orðskv. 21:5) Zygmunt, sem er 88 ára gamall, segir: „Mér finnst ég ná meiri árangri þegar ég fer reglulega í boðunarstarfið. Og ég reyni að skipuleggja mig þannig að ég hafi ávallt nægan tíma til þess að prédika.“

Góð biblíuþekking styrkir okkur og gerir okkur kleift að sinna boðunarstarfinu vel. Við verðum að nærast reglulega á andlegri fæðu til þess að geta tekið þátt í boðunarstarfinu á sama hátt og við verðum að borða svo að líkaminn geti starfað. Ef við lesum í orði Guðs daglega og tökum til okkar andlegan „mat á réttum tíma“ fáum við kraft til þess að fara í boðunarstarfið. — Matt. 24:45-47.

Elżbieta gerði umtalsverðar breytingar hjá sér til að bæta sig í boðunarstarfinu. Hún segir: „Ég horfi miklu minna á sjónvarp en áður svo að ég hafi meiri tíma til að undirbúa mig fyrir starfið. Þegar ég les í Biblíunni á hverju kvöldi hugsa ég til þeirra sem ég hitti á svæðinu. Ég reyni að finna ritningarstaði og greinar sem geta verið þeim til hjálpar.“

Ef við gætum þess að fá hæfilega hvíld hjálpar það okkur að hafa næga krafta til að geta tekið sem mestan þátt í boðunarstarfinu. Ef við aftur á móti notum allt of mikinn tíma í afþreyingu getur það komið niður á starfinu. Andrzej, sem er kappsamur boðberi, segir: „Ónóg hvíld leiðir til ofþreytu, og þá er stutt í uppgjöf. Ég geri allt sem ég get til að forðast það“. — Préd. 4:6.

Þrátt fyrir einlæga viðleitni okkar taka tiltölulega fáir af þeim sem við prédikum fyrir við fagnaðarboðskapnum. En Jehóva gleymir aldrei verkum okkar. (Hebr. 6:10) Jafnvel þó að margir vilji ekki tala við okkur, getur verið að þeir tali um okkur eftir að við erum farin. Árangurinn gæti verið sá sami og við lesum um varðandi Esekíel: Fólk mun „játa að spámaður hefur verið á meðal þeirra.“ (Esek. 2:5) Því er ekki að neita að boðunin er ekki auðveld, en hún er engu að síður til góðs fyrir okkur og þá sem hlusta.

„Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu hjálpar það okkur að íklæðast hinum nýja manni og sýna kærleika okkar til Guðs og náungans,“ segir Zygmunt. „Það er heiður að fá að taka þátt í þessu björgunarstarfi. Það verður aldrei endurtekið í jafn víðtækum mæli og nú eða við sömu aðstæður,“ bætir Andrzej við. Þú getur uppskorið ríkulegar blessanir ef þú ert þrautseigur og heldur áfram að boða fagnaðarerindið. — 2. Kor. 4:1, 2.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Ef við hugsum vel um andlega og líkamlega heilsu okkar hjálpar það okkur að vera þolgóð í boðunarstarfinu.