Hlutverk Jesú sem hinn meiri Davíð og hinn meiri Salómon
Hlutverk Jesú sem hinn meiri Davíð og hinn meiri Salómon
„Hér er meira en Salómon.“ — MATT. 12:42.
1, 2. Af hverju kom það á óvart að Samúel skyldi fá þau fyrirmæli að smyrja Davíð til konungs?
UNGI maðurinn minnti ekki beinlínis á konung. Að minnsta kosti sá Samúel spámaður ekkert annað en venjulegan fjárhirði. Og Betlehem, þar sem hann bjó, þótti enginn merkisbær. Hún var kölluð „ein minnsta ættborgin í Júda“. (Míka 5:1) En hvað sem því leið var Samúel í þann mund að smyrja til konungs þennan ósköp venjulega unga mann frá smábænum Betlehem.
2 Davíð var ekki fyrsti sonurinn sem Ísaí leiddi fram fyrir Samúel til að hljóta smurningu, 1. Sam. 16:1-10.
og hann var ekki heldur annar né þriðji í röðinni. Davíð, sem var yngstur af átta sonum Ísaí, var ekki einu sinni heima þegar Samúel kom á heimili Ísaí til að smyrja einn af sonum hans til konungs yfir landinu. En Jehóva hafði valið Davíð og það var það sem skipti máli. —3. (a) Hvað telur Jehóva mikilvægast í fari manns? (b) Hvað gerðist þegar Davíð var smurður til konungs?
3 Jehóva sá það sem Samúel gat ekki séð. Hann vissi hvað bjó í hjarta Davíðs og það var honum að skapi. Það er ekki útlitið sem skiptir máli í augum Guðs heldur hinn innri maður. (Lestu 1. Samúelsbók 16:7.) Þegar Samúel komst að raun um að Jehóva hafði ekki valið neinn af eldri sonunum sjö lét hann sækja þann yngsta út í haga. Í frásögunni segir: „Ísaí sendi þá mann eftir Davíð sem var rauðbirkinn, fagureygur og vel vaxinn. Þá sagði Drottinn: ‚Stattu upp og smyrðu hann því að þetta er hann.‘ Samúel tók þá olíuhornið og smurði hann að bræðrum hans viðstöddum. Andi Drottins kom yfir Davíð frá þessum degi.“ — 1. Sam. 16:12, 13.
Davíð fyrirmyndaði Krist
4, 5. (a) Bentu á nokkrar hliðstæður með Davíð og Jesú. (b) Af hverju er hægt að kalla Jesú hinn meiri Davíð?
4 Jesús fæddist í Betlehem eins og Davíð hafði fæðst 11 öldum áður. En mörgum fannst Jesús ekki beinlínis minna á konung. Hann var að minnsta kosti ekki þannig konungur sem margir í Ísrael höfðu vonast eftir. Jehóva hafði engu að síður valið hann sem konung. Jehóva elskaði hann rétt eins og hann elskaði Davíð. * (Lúk. 3:22) Og andi Jehóva kom yfir Jesú eins og gerst hafði hjá Davíð.
5 Margt fleira var líkt með þeim. Davíð varð til dæmis fyrir því að ráðgjafinn Akítófel sveik hann og Jesús var svikinn af Júdasi Ískaríot, postula sínum. (Sálm. 41:10; Jóh. 13:18) Bæði Davíð og Jesús höfðu brennandi áhuga á tilbeiðsluhúsi Jehóva. (Sálm. 27:4; 69:10; Jóh. 2:17) Og Jesús var erfingi Davíðs. Áður en hann fæddist sagði engill við móður hans: „Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans.“ (Lúk. 1:32; Matt. 1:1) En Jesús er miklu meiri en Davíð vegna þess að öll fyrirheitin um konung Messíasarríkisins eiga að rætast á honum, fyrirheitin sem menn hafa þráð svo lengi að sjá rætast. — Jóh. 7:42.
Hirðir og konungur
6. Hvernig fjárhirðir var Davíð?
6 Jesús er líka hirðir. Góður fjárhirðir gætir hjarðarinnar dyggilega, leiðir hana í góða bithaga og verndar hana af hugrekki. (Sálm. 23:2-4) Sem unglingspiltur var Davíð fjárhirðir. Hann gætti sauða föður síns vel. Hann sýndi hugrekki ef hætta steðjaði að hjörðinni og hætti lífinu til að verja sauðina fyrir ljóni og bjarndýri. — 1. Sam. 17:34, 35.
7. (a) Hvað bjó Davíð undir þá ábyrgð að vera konungur? (b) Hvernig reyndist Jesús vera góði hirðirinn?
7 Árin, sem Davíð gætti sauða úti í haga, bjuggu hann undir þá miklu ábyrgð sem fylgdi því að gæta Ísraelsþjóðarinnar. * (Sálm. 78:70, 71) Jesús hefur líka reynst afbragðsgóður hirðir. Hann sækir styrk og leiðsögn til Jehóva til að gæta ‚litlu hjarðarinnar‘ og ‚annarra sauða‘ sinna. (Lúk. 12:32; Jóh. 10:16) Hann er réttilega kallaður góði hirðirinn. Svo vel þekkir hann hjörðina að hann kallar hvern einasta sauð með nafni. Svo heitt elskar hann sauðina að hann gaf fúslega af sjálfum sér í þeirra þágu þegar hann var hér á jörð. (Jóh. 10:3, 11, 14, 15) Sem góði hirðirinn áorkar Jesús mun meiru en Davíð gat gert. Með lausnarfórn sinni bjargar hann mannkyninu úr klóm dauðans. Ekkert getur komið í veg fyrir að hann leiði ‚litlu hjörðina‘ til eilífs lífs á himnum og „aðra sauði“ sína til eilífs lífs í réttlátum nýjum heimi þar sem þeim stafar ekki hætta af grimmum rándýrum. — Lestu Jóhannes 10:27-29.
Sigursæll konungur
8. Hvernig reyndist Davíð sigursæll konungur?
8 Sem konungur var Davíð hugaður hermaður og verndaði landið þar sem þjóð Guðs bjó. Jehóva „studdi . . . Davíð hvert sem hann fór“. Undir forystu Davíðs stækkaði ríkið uns það náði allt frá Egyptalandsá til fljótsins Efrats. (2. Sam. 8:1-14) Þar sem hann fékk kraft frá Jehóva varð hann voldugur konungur. Í Biblíunni segir: „Frægð Davíðs barst um öll lönd og Drottinn lét allar þjóðir óttast hann.“ — 1. Kron. 14:17.
9. Hvernig reyndist Jesús sigursæll áður en hann varð konungur?
9 Jesús var hugrakkur maður ekki síður en Davíð. Sem tilvonandi konungur sýndi hann að hann var voldugri en illu andarnir og leysti marga úr ánauð þeirra. (Mark. 5:2, 6-13; Lúk. 4:36) Óvinurinn mikli, Satan djöfullinn, hafði ekkert vald yfir honum. Með stuðningi Jehóva sigraði Jesús heiminn sem er á valdi Satans. — Jóh. 14:30; 16:33; 1. Jóh. 5:19.
10, 11. Hvað gerir Jesús sem himneskur herkonungur?
10 Um 60 árum eftir að Jesús dó og var reistur upp til himna sá Jóhannes postuli spádómlega sýn um Jesú þar sem hann var orðinn himneskur herkonungur. Jóhannes skrifar: „Ég leit upp og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hélt á boga og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ (Opinb. 6:2) Það er Jesús sem situr á hvíta hestinum. „Honum var fengin kóróna“ árið 1914 en þá var hann krýndur sem konungur himnaríkis. Í framhaldi af því „fór [hann] út sigrandi“. Jesús er sigursæll konungur rétt eins og Davíð var. Skömmu eftir að hann tók við embætti sem konungur Guðsríkis yfirbugaði hann Satan í orustu og kastaði honum og illu öndunum niður til jarðar. (Opinb. 12:7-9) Hann heldur sigurgöngu sinni áfram uns hann hefur sigrað að fullu og gereytt illum heimi Satans. — Lestu Opinberunarbókina 19:11, 19-21.
11 En Jesús er líka umhyggjusamur konungur líkt og Davíð var, og hann mun vernda ‚múginn mikla‘ svo að hann komist lifandi gegnum Harmagedón. (Opinb. 7:9, 14) Og undir stjórn Jesú og hinna 144.000 upprisnu samerfingja hans verða reistir upp „bæði réttlátir og ranglátir“. (Post. 24:15) Þeir sem hljóta upprisu á jörð eiga í vændum eilíft líf og unaðslega framtíð. Verum öll staðráðin í að ‚gera gott‘ svo að við fáum að lifa þegar jörðin verður full af réttlátum og hamingjusömum þegnum hins meiri Davíðs. — Sálm. 37:27-29.
Salómon bað um visku og var bænheyrður
12. Um hvað bað Salómon?
12 Salómon, sonur Davíðs, fyrirmyndaði líka Jesú. * Þegar Salómon tók við konungdómi birtist Jehóva honum í draumi og sagðist myndu veita honum hvað sem hann bæði um. Salómon hefði getað beðið um meiri auð og völd eða lengra líf. En hann sýndi þá óeigingirni að biðja Jehóva: „Gef mér . . . visku og þekkingu svo að ég viti hvernig ég á að koma fram við þessa þjóð. Því að hver gæti annars stjórnað þessari voldugu þjóð þinni?“ (2. Kron. 1:) Jehóva bænheyrði Salómon. — Lestu 7-102. Kroníkubók 1:11, 12.
13. Hve vitur var Salómon og hvers vegna?
13 Meðan Salómon var Jehóva trúr bar hann af samtíðarmönnum sínum sökum visku sinnar. Hann „samdi þrjú þúsund spakmæli“. (1. Kon. 4:30, 32, 34) Mörg þeirra voru færð í letur og eru enn þann dag í dag mikils virði í augum þeirra sem kunna að meta sanna visku. Drottningin af Saba ferðaðist heila 2.400 kílómetra til að „reyna [Salómon] með gátum“. Hún hreifst bæði af orðum hans og velmeguninni sem hún sá í ríki hans. (1. Kon. 10:1-9) Í Biblíunni kemur fram af hverju Salómon var svona vitur. Þar segir: „Allur heimurinn leitaði til Salómons til þess að heyra hann tala af þeirri visku sem Guð hafði lagt honum í brjóst.“ — 1. Kon. 10:24.
Fylgjum hinum vitra konungi Jesú
14. Að hvaða leyti var Jesús „meira en Salómon“?
14 Aðeins einn maður skaraði greinilega fram úr Salómon hvað visku varðar. Það var Jesús Kristur sem sagðist vera „meira en Salómon“. (Matt. 12:42) Jesús flutti „orð eilífs lífs“. (Jóh. 6:68) Í sumum af orðskviðum Salómons er að finna meginreglur sem Jesús vann nánar úr í fjallræðunni. Salómon minntist á margt sem veitti þjónum Jehóva hamingju. (Orðskv. 3:13; 8:32, 33; 14:21; 16:20) Jesús lagði áherslu á að sönn hamingja væri nátengd því að tilbiðja Jehóva og sjá fyrirheit hans rætast. „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ sagði hann. (Lúk. 11:28) Þeir sem fylgja meginreglunum, sem Jesús kenndi, laðast að Jehóva sem er „uppspretta lífsins“. (Sálm. 36:10; Orðskv. 22:11; Matt. 5:8) Kristur flutti mönnum „speki Guðs“. (1. Kor. 1:24, 30) Sem konungurinn Messías býr hann yfir ‚anda visku‘. — Jes. 11:2.
15. Hvernig getum við nýtt okkur viskuna frá Guði?
15 Hvernig getum við sem fylgjum hinum meiri Salómon notið góðs af viskunni frá Guði? Jehóva opinberar visku sína í Biblíunni. Við þurfum að leggja það á okkur að leita að viskunni með því að lesa og hugleiða efni Biblíunnar, ekki síst það sem Jesús sagði. (Orðskv. 2:1-5) Við þurfum líka að biðja Jehóva stöðugt að gefa okkur visku. Í Biblíunni fáum við loforð fyrir því að Jehóva bænheyri okkur þegar við biðjum einlæglega um hjálp. (Jak. 1:5) Með hjálp heilags anda finnum við verðmæta visku í Biblíunni sem getur hjálpað okkur að takast á við vandamál og taka viturlegar ákvarðanir. (Lúk. 11:13) Salómon var kallaður „prédikarinn [„sá sem safnar saman“, NW]“ og hann „miðlaði mönnum . . . þekkingu“. (Préd. 12:9, 10) Jesús er höfuð kristna safnaðarins og hann safnar líka þjónum sínum saman. (Jóh. 10:16; Kól. 1:18) Þess vegna ættum við að sækja safnaðarsamkomurnar þar sem þekkingu er miðlað til okkar.
16. Hvað er líkt með Salómon og Jesú?
16 Salómon var mikill framkvæmdamaður. Hann stóð fyrir byggingaframkvæmdum út um allt landið, lét reisa hallir, birgðaborgir, borgir fyrir hervagna og stríðshesta, auk þess að leggja vegi og vatnsveitur. (1. Kon. 9:17-19) Allt ríkið naut góðs af. Jesús stendur líka fyrir byggingarstarfi. Hann byggði söfnuð sinn á „kletti“. (Matt. 16:18) Hann hefur líka umsjón með uppbyggingunni sem á eftir að fara fram í nýja heiminum. — Jes. 65:21, 22.
Fylgjum friðarkonunginum
17. (a) Hvað einkenndi stjórnartíð Salómons öðru fremur? (b) Hvað gat Salómon ekki gert?
17 Nafnið Salómon er dregið af stofnorði sem merkir „friður“. Salómon konungur sat í Jerúsalem en nafnið merkir „að eiga tvöfaldan frið“. Hann var við völd í 40 ár og þá ríkti friður sem aldrei fyrr í Ísrael. Í Biblíunni segir um þetta tímabil: „Íbúar Júda og Ísraels bjuggu við öryggi. Frá Dan til Beerseba sat hver maður undir vínviði sínum og fíkjutré á meðan Salómon lifði.“ (1. Kon. 4:25) En þrátt fyrir viskuna var Salómon ekki fær um að leysa þegna sína úr fjötrum sjúkdóma, syndar og dauða. Hinn meiri Salómon mun hins vegar frelsa þegna sína frá öllu slíku. — Lestu Rómverjabréfið 8:19-21.
18. Við hvaða ástand búum við í kristna söfnuðinum?
18 Við búum við frið í kristna söfnuðinum. Það má með sanni segja að við séum í andlegri paradís. Við eigum frið við Guð og náungann. Jesaja lýsti ástandinu sem ríkir meðal okkar nú á dögum þegar hann talaði um að menn myndu „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“. Hann bætti við: „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jes. 2:3, 4) Við fegrum andlegu paradísina þegar við látum anda Guðs leiða okkur.
19, 20. Hvaða ástæður höfum við til að gleðjast og fagna?
19 En framtíðin verður enn betri. Undir stjórn Jesú munu hlýðnir menn búa við frið sem á sér enga hliðstæðu. Þá verða þeir smám saman leystir „úr ánauð sinni undir hverfulleikanum“ uns þeir verða fullkomnir. (Rómv. 8:21) Eftir að hafa staðist lokaprófið í lok þúsundáraríkisins munu „hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi“ og ríkulegum friði. (Sálm. 37:11; Opinb. 20:7-10) Stjórn Jesú Krists mun skara fram úr stjórn Salómons á ótal vegu sem við getum ekki gert okkur í hugarlund.
20 Ísraelsmenn bjuggu glaðir undir umsjón Móse, Davíðs og Salómons. Við munum gleðjast enn meir undir stjórn Jesú. (1. Kon. 8:66) Við þökkum Jehóva af öllu hjarta fyrir að hafa gefið okkur einkason sinn — hinn meiri Móse, hinn meiri Davíð og hinn meiri Salómon.
[Neðanáls]
^ gr. 4 Nafnið Davíð merkir sennilega „elskaður“. Þegar Jesús skírðist talaði Jehóva af himni og kallaði hann ‚elskaðan son sinn‘. Hið sama gerðist við ummyndunina. — Matt. 3:17; 17:5.
^ gr. 7 En Davíð var líka eins og lamb sem treystir hirði sínum. Hann reiddi sig á vernd og handleiðslu Jehóva, hirðisins mikla á himnum. „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta,“ sagði hann og sýndi þar með hvernig hann treysti Guði. (Sálm. 23:1) Jóhannes skírari kallaði Jesú „Guðs lamb“. — Jóh. 1:29.
^ gr. 12 Athygli vekur að Salómon var einnig nefndur Jedídjah sem merkir „elskaður af Jah“. — 2. Sam. 12:24, 25.
Geturðu svarað?
• Að hvaða leyti er Jesús meiri en Davíð?
• Að hvaða leyti er Jesús meiri en Salómon?
• Hvað kanntu að meta við Jesú, hinn meiri Davíð og hinn meiri Salómon?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 31]
Viskan, sem Guð gaf Salómon, fyrirmyndar visku Jesú.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Stjórn Jesú mun skara fram úr stjórn Salómons og Davíðs á ótal vegu sem við getum ekki gert okkur í hugarlund.