Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Job heiðraði nafn Jehóva

Job heiðraði nafn Jehóva

Job heiðraði nafn Jehóva

„Lofað veri nafn Drottins.“ — JOB. 1:21.

1. Hver skrifaði sennilega Jobsbók og hvenær?

MÓSE var um fertugt þegar hann flúði undan faraó í Egyptalandi og settist að í Midían. (Post. 7:23) Meðan hann bjó þar kann hann að hafa frétt af prófraunum Jobs sem bjó í Úslandi þar skammt frá. Móse var staddur á svipuðum slóðum nokkrum áratugum síðar um það leyti sem eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna var að ljúka. Þá kann hann að hafa frétt hvernig Job vegnaði síðustu æviárin. Samkvæmt arfsögnum Gyðinga skrifaði Móse Jobsbók einhvern tíma eftir að Job var dáinn.

2. Hvers vegna er Jobsbók einkar hvetjandi fyrir þjóna Jehóva á okkar tímum?

2 Jobsbók er mjög trústyrkjandi fyrir þjóna Guðs á okkar dögum. Hvers vegna? Hún opnar augu okkar fyrir afar þýðingarmiklum atburðum sem áttu sér stað á himnum og minnir á deiluna miklu um drottinvald Jehóva yfir alheimi. Frásagan skýrir einnig fyrir okkur hvað sé fólgið í því að vera ráðvandur og hvers vegna Jehóva leyfi stundum að þjónar sínir þjáist. Og í Jobsbók kemur fram að Satan djöfullinn er erkióvinur Jehóva og mannkyns. Einnig er ljóst af þessari biblíubók að ófullkomnir menn líkt og Job geta verið Jehóva trúir þrátt fyrir erfiðustu prófraunir. Við skulum nú líta á nokkra af þeim atburðum sem lýst er í Jobsbók.

Satan reynir Job

3. Hvað vitum við um Job og hvers vegna varð hann skotspónn Satans?

3 Job var auðugur maður og áhrifamikill. Hann veitti fjölskyldu sinni góða forstöðu, var virtur ráðgjafi og hjálpaði þeim sem þurfandi voru. Síðast en ekki síst var Job guðhræddur maður. „Hann var ráðvandur og réttlátur, óttaðist Guð og forðaðist illt“, eins og segir í frásögunni. Það var guðrækni Jobs — en ekki auðlegð hans eða áhrif — sem gerði hann að skotspæni Satans. — Job. 1:1; 29:7-16; 31:1.

4. Hvað er ráðvendni?

4 Í byrjun Jobsbókar segir frá því að englar Jehóva ganga fyrir hann á himnum uppi. Satan er einnig viðstaddur og ber ýmsar sakir á Job. (Lestu Jobsbók 1:6-11.) Satan hefur orð á að Job sé auðugur maður en leggur þó mesta áherslu á að véfengja ráðvendni hans. Með ráðvendni er átt við að vera réttlátur, trúfastur og vammlaus. Þegar talað er í Biblíunni um ráðvendni manna er átt við að vera fullkomlega trúr og hollur Jehóva.

5. Hvaða sakir bar Satan á Job?

5 Satan fullyrti að Job tilbæði Guð af eigingjörnum hvötum og væri ekki ráðvandur þegar á reyndi. Hann ýjaði að því að Job væri Guði trúr því aðeins að Guð launaði honum fyrir og verndaði hann. Til að svara þessum ásökunum leyfði Jehóva Satan að ráðast á þennan trúa mann. Og afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Job fékk að vita að búpeningur hans hefði verið drepinn eða honum rænt, þjónar hans myrtir og hann hefði misst börnin sín tíu — allt sama daginn. (Job. 1:13-19) Sneri Job baki við Guði þegar Satan réðst á hann? Í hinni innblásnu frásögu segir frá viðbrögðum Jobs við þessum hörmungum: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ — Job. 1:21.

6. (a) Hvað gerðist þegar englar Guðs gengu fyrir hann öðru sinni? (b) Hverja hefur Satan í huga þegar hann véfengir ráðvendni Jobs gagnvart Guði?

6 Nokkru síðar ganga englar Jehóva fyrir hann á nýjan leik. Enn og aftur ber Satan þungar sakir á Job og segir: „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt. En réttu út hönd þína og snertu hold hans og bein. Þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ Við tökum eftir að í þetta sinn ásakar Satan fleiri en Job. Þegar hann segir: „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt,“ véfengir hann ekki aðeins ráðvendni Jobs heldur allra manna sem tilbiðja Jehóva. Í framhaldi af því fær Satan leyfi Guðs til að slá Job kvalafullum sjúkdómi. (Job. 2:1-8) En raunir Jobs voru ekki þar með á enda.

Hvað má læra af afstöðu Jobs?

7. Hvað gerðu eiginkona Jobs og gestir hans til að auka álagið?

7 Eiginkona Jobs mátti í byrjun þola sömu áföll og maðurinn hennar. Hún hlýtur að hafa verið niðurbrotin eftir að hafa misst börnin og allar eignir fjölskyldunnar. Það hlýtur að hafa tekið hana sárt að sjá eiginmann sinn haldinn kvalafullum sjúkdómi. Hún hrópaði til hans: „Ertu enn staðfastur í ráðvendni þinni? Formæltu Guði og farðu að deyja.“ Síðan ber að garði þrjá menn, þá Elífas, Bildad og Sófar. Þeir þykjast ætla að hughreysta Job en reynast „þreytandi huggarar“ því að mál þeirra einkennist af villandi rökum og ásökunum. Bildad gefur til dæmis í skyn að börn Jobs hafi syndgað og hafi verðskuldað dauða. Elífas dylgjar um að Job sé að taka út refsingu fyrir gamlar syndir. Hann dregur jafnvel í efa að það sé nokkurs virði í augum Guðs að vera ráðvandur. (Job. 2:9, 11; 4:8; 8:4; 16:2; 22:2, 3) En Job er ráðvandur þrátt fyrir þessar ásakanir. Vissulega má finna að því að hann skyldi telja sig „hafa á réttu að standa gagnvart Guði“. (Job. 32:2, Biblían 1981) En hvað sem því líður var hann Guði trúr.

8. Hvernig er Elíhú góð fyrirmynd þeim sem þurfa að leiðbeina öðrum?

8 Þessu næst lesum við um Elíhú en hann hafði einnig komið til að heimsækja Job. Elíhú hlustar á orðaskipti Jobs og þremenninganna. Þótt hann sé yngri en hinir fjórir reynist hann vitrari en þeir. Hann er nærgætinn og ávarpar Job með nafni. Hann hrósar Job fyrir ráðvendni hans en bendir á að hann hafi einblínt um of á að reyna að sanna sakleysi sitt. Síðan fullvissar hann Job um að það sé alltaf til farsældar að þjóna Guði dyggilega. (Lestu Jobsbók 36:1, 11.) Elíhú er góð fyrirmynd þeim sem þurfa að leiðbeina öðrum. Hann var þolinmóður, hlustaði vel, hrósaði þegar við átti og gaf uppbyggileg ráð. — Job. 32:6; 33:32.

9. Hvernig hjálpaði Jehóva Job?

9 Að síðustu fékk Job mjög sérstaka heimsókn. Í frásögunni segir: „Þá svaraði Drottinn Job úr storminum.“ Jehóva varpar fram allnokkrum spurningum til að hjálpa Job að leiðrétta hugsunarhátt sinn. Job tekur fúslega hlýlegri áminningu Guðs og segir: „Ég er léttvægur . . . og iðrast í dufti og ösku.“ Eftir að Jehóva hefur talað til Jobs ávítar hann harðlega félagana þrjá af því að þeir ‚sögðu ekki satt‘. Job átti að biðja fyrir þeim. Síðan „sneri [Jehóva] við högum Jobs því að hann hafði beðið fyrir vinum sínum, og . . . gaf Job tvöfalt það sem hann hafði áður átt“. — Job. 38:1; 40:4; 42:6-10.

Hve heitt elskum við Jehóva?

10. Af hverju hunsaði Jehóva ekki Satan eða tortímdi honum?

10 Jehóva er skapari alheimsins og Drottinn alls sköpunarverksins. Af hverju lét hann ekki ásakanir Satans sem vind um eyrun þjóta? Jehóva vissi að málið yrði ekki útkljáð með því að láta sem ekkert væri og ekki heldur með því að tortíma Satan. Satan hafði fullyrt að Job, sem var einstaklega dyggur þjónn Jehóva, yrði ekki trúr ef hann yrði sviptur auðæfum sínum. Job stóðst hollustuprófið. Þá fullyrti Satan að allir menn myndu snúa baki við Guði ef þeir þyrftu að kveljast. Job fékk að kveljast en hvikaði samt ekki frá ráðvendni sinni. Þannig sannaðist að Satan hafði logið um þennan trúfasta en ófullkomna mann. Hvað um aðra þjóna Guðs?

11. Hvernig svaraði Jesús ásökunum Satans fyrir fullt og allt?

11 Sérhver þjónn Guðs, sem er ráðvandur í þeim prófraunum sem Satan leggur á hann, sýnir að í hans tilfelli eru ásakanir þessa grimma óvinar rangar. Jesús kom til jarðar og sannaði fyrir fullt og allt að Satan færi með rangt mál. Jesús var fullkominn líkt og Adam, forfaðir mannkyns. Með því að vera trúr allt til dauða sannaði hann endanlega að Satan væri lygari og ásakanir hans rangar. — Opinb. 12:10.

12. Hvaða tækifæri og hvaða ábyrgð hafa allir þjónar Jehóva?

12 Satan heldur engu að síður áfram að reyna þjóna Jehóva. Við höfum öll tækifæri til að sýna og sanna að við þjónum Jehóva ekki af eigingjörnum hvötum heldur af því að við elskum hann. Það er líka skylda okkar að vera Jehóva ráðvönd. Hvernig lítum við á þessa skyldu? Við teljum það vera sérstakan heiður að mega vera Jehóva trú. Það er líka hughreystandi að vita að Jehóva gefur okkur kraft til að standast prófraunirnar og setur því jafnframt takmörk hve mikið má reyna okkur líkt og hann gerði á dögum Jobs. — 1. Kor. 10:13.

Satan — ósvífinn andstæðingur og uppreisnarseggur

13. Hvaða upplýsingar veitir Jobsbók um Satan?

13 Í Hebresku ritningunum er að finna ýmsar upplýsingar um það með hve svívirðilegum hætti Satan ögrar Jehóva og leiðir mannkynið á villigötur. Í Grísku ritningunum er að finna nánari upplýsingar um hvernig hann berst gegn Jehóva. Í Opinberunarbókinni er síðan fjallað um það hvernig Jehóva ver drottinvald sitt og Satan verður tortímt. Læra má ýmislegt af Jobsbók um svívirðilegt háttalag Satans. Þegar englarnir gengu fram fyrir Jehóva kom Satan líka, en ekki í þeim tilgangi að lofa hann. Hann var bæði forhertur og hafði illt í hyggju. Eftir að hafa ásakað Job og fengið leyfi til að reyna hann „fór Satan frá augliti Drottins“. — Job. 1:12; 2:7.

14. Hvaða afstöðu hafði Satan til Jobs?

14 Jobsbók lýsir Satan sem miskunnarlausum óvini mannkyns. Einhver tími leið milli þess að englarnir gengu fram fyrir Jehóva í fyrra og seinna sinnið eins og sagt er frá í Jobsbók 1:6 og 2:1 en á þeim tíma var Job reyndur með grimmilegum hætti. Þar sem Job var trúfastur gat Jehóva sagt við Satan: „Hann er staðfastur í ráðvendni sinni þó að þú hafir að tilefnislausu egnt mig gegn honum til að gera út af við hann.“ En Satan viðurkenndi ekki að hann hefði haft rangt fyrir sér heldur krafðist þess að Job yrði látinn ganga í gegnum enn eina prófraunina. Satan reyndi því Job bæði meðan hann var auðugur og allslaus. Ljóst er að Satan hefur enga samúð með þeim sem eru þurfandi eða þeim sem hafa orðið fyrir ógæfu. Hann hatar alla sem eru ráðvandir. (Job. 2:3-5) En hvað sem því líður sannaði Job með trúfesti sinni að Satan er lygari.

15. Hvað er sameiginlegt með fráhvarfsmönnum okkar tíma og Satan?

15 Satan var sá fyrsti sem gerði uppreisn gegn Guði. Fráhvarfsmenn okkar tíma sýna af sér svipuð einkenni og Satan. Hugur þeirra er kannski eitraður af gagnrýni í garð einstaklinga í söfnuðunum, safnaðaröldunga eða hins stjórnandi ráðs. Sumir fráhvarfsmenn eru á móti því að nafnið Jehóva sé notað. Þeir hafa engan áhuga á að fræðast um hann eða þjóna honum. Fráhvarfsmenn líkja eftir Satan, föður sínum, með því að reyna að spilla trú ráðvandra þjóna Guðs. (Jóh. 8:44) Það er þess vegna sem þjónar Jehóva vilja ekki eiga nokkur samskipti við þá. — 2. Jóh. 10, 11.

Job heiðraði nafn Jehóva

16. Hvernig hugsaði Job um Jehóva?

16 Job notaði nafn Jehóva og lofaði það. Jafnvel þegar hann var niðurbrotinn yfir því að hafa misst börnin sín álasaði hann ekki Guði. Þó svo að hann hafi ranglega talið að Guð væri valdur að missi hans heiðraði hann nafn hans eftir sem áður. Hann sagði síðar í einu af spakmælum sínum: „Það er speki að óttast Drottin, viska að forðast illt.“ — Job. 28:28.

17. Hvað hjálpaði Job að vera ráðvandur?

17 Hvað hjálpaði Job að vera ráðvandur? Ljóst er að hann var búinn að mynda sterkt samband við Jehóva áður en ógæfan dundi yfir. Ekkert bendir til þess að hann hafi vitað um ásakanir Satans á hendur Jehóva, en hann var engu að síður staðráðinn í að vera trúfastur. Hann sagði: „Þangað til ég gef upp andann læt ég ekki af ráðvendni minni.“ (Job. 27:5, NW) Hvernig eignaðist Job svona náið samband við Guð? Hann hefur eflaust hugleitt það sem hann vissi um samskipti Jehóva við Abraham, Ísak og Jakob en þeir voru fjarskyldir ættingjar hans. Og sköpunarverkið sagði honum margt og mikið um eiginleika Guðs. — Lestu Jobsbók 12:7-9, 13, 16.

18. (a)Hvernig sýndi Job hollustu sína við Jehóva? (b) Hvernig getum við líkt eftir Job?

18 Það sem Job vissi um Jehóva vakti með honum löngun til að þóknast honum. Hann færði Jehóva fórnir að staðaldri ef ske kynni að einhverjir í fjölskyldunni hefðu „formælt Guði í hjarta sér“ eða misþóknast honum með öðrum hætti. (Job. 1:5) Jafnvel þegar prófraunirnar voru hvað erfiðastar talaði hann jákvætt um Jehóva. (Job. 10:12) Hann er okkur góð fyrirmynd. Við þurfum líka að byggja upp nákvæma þekkingu á Jehóva og vilja hans. Við viðhöldum sterku sambandi við Jehóva með reglulegu biblíunámi, samkomusókn, bænum og boðunarstarfi. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að kunngera nafn Jehóva. Og þjónar Jehóva nú á dögum gleðja hann með því að vera ráðvandir rétt eins og Job gladdi hann með ráðvendni sinni. Fjallað er um það í greininni á eftir.

Manstu?

• Af hverju vakti Job athygli Satans?

• Fyrir hvaða prófraunum varð Job og hvernig brást hann við þeim?

• Hvað hjálpar okkur að vera ráðvönd eins og Job?

• Hvað lærum við um Satan af Jobsbók?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Frásagan af Job vekur athygli okkar á deilunni miklu um drottinvald Jehóva yfir alheimi.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hvernig gæti reynt á ráðvendni þína?