„Að þegja hefur sinn tíma“
„Að þegja hefur sinn tíma“
„RÆÐAN er silfur en þögnin gull.“ Þessi gamli málsháttur er talinn vera af austurlenskum uppruna. Samkvæmt uppsláttarritinu Brewer’s Dictionary of Phrase and Fable er til samsvarandi málsháttur í hebresku: „Ef orð er eins sikils virði er þögnin virði tveggja.“ Og hinn vitri konungur Salómon skrifaði: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma . . . að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ — Préd. 3:1, 7.
En hvenær er betra að þegja en tala? Í Biblíunni er oft minnst á gildi þess að þegja og vera hljóður. Samhengið sýnir að það er að minnsta kosti á þremur sviðum lífsins sem er viðeigandi að vera hljóður. Lítum aðeins nánar á það hvernig við getum tjáð virðingu og sýnt af okkur hyggni og visku með því að vera hljóð. Við skoðum einnig hvernig kyrrð og ró getur hjálpað okkur að hugleiða.
Í virðingarskyni
Við getum sýnt öðrum virðingu með því að vera hljóð. Habakkuk spámaður sagði: „Drottinn er í sínu heilaga musteri. Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum.“ (Hab. 2:20) Sannur tilbiðjandi Jehóva á að „bíða hljóður eftir hjálp Drottins“. (Harmlj. 3:26) Og sálmaskáldið söng: „Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann, ver eigi of bráður vegna þess manns sem vel gengur.“ — Sálm. 37:7.
Getum við lofað Jehóva orðalaust? Erum við ekki stundum orðlaus af lotningu fyrir honum þegar við skoðum mikilfengleik sköpunarverksins? Erum við þá ekki innst inni að lofa skaparann? Sálmaskáldið sagði um sköpunarverkið: „Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur, lofið hann, himnanna himnar, og vötnin himni ofar. Lofi þau nafn Drottins því að þau voru sköpuð að boði hans.“ — Sálm. 148:3-5.
Jehóva verðskuldar virðingu okkar og sama má segja um það sem hann talar til okkar. Spámaðurinn Móse og prestarnir áminntu til dæmis Ísraelsþjóðina á þessa leið þegar Móse flutti henni kveðjuræðu sína: „Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! . . . Þú átt að hlýða rödd Drottins, Guðs þíns.“ Þegar Ísraelsþjóðin kom saman til að heyra lög Guðs lesin áttu allir að hlýða á af athygli — börnin líka. Móse sagði: „Stefndu fólkinu saman, bæði körlum, konum og börnum . . . til þess að þeir hlusti á þau og læri.“ —Það er fyllilega við hæfi að þjónar Jehóva nú á tímum hlusti með virðingu á leiðbeiningar sem þeir fá á samkomum og mótum. Myndi það bera vott um virðingu fyrir orði Guðs og söfnuði hans ef við værum að spjalla saman meðan ræðumenn flytja okkur mikilvæg biblíusannindi? Á meðan dagskráin er flutt er rétti tíminn til að sitja hljóð og hlusta.
Það ber líka vott um virðingu að hlusta vel þegar við eigum samtal við einhvern. Ættfaðirinn Job sagði til að mynda við þá sem voru að ásaka hann: „Fræðið mig og ég skal þegja.“ Hann var fús til að hlusta þögull meðan þeir töluðu. Og þegar komið var að honum að leggja orð í belg bað hann þá: „Þagnið nú því að ég ætla að tala.“ — Job. 6:24; 13:13.
Merki um hyggni og visku
Í Biblíunni stendur: „Sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni“ og: „Vitur maður þegir.“ (Orðskv. 10:19; 11:12) Hugsaðu þér hve mikla hyggni og visku Jesús sýndi með því að þegja þegar það átti við. Hann vissi að það þjónaði engum tilgangi að tala við þær fjandsamlegu aðstæður sem óvinir hans sköpuðu. „Jesús þagði“ því. (Matt. 26:63) Síðar „svaraði [hann] engu“ þegar Pílatus yfirheyrði hann. Hann sýndi þá visku að láta orðspor sitt svara fyrir sig. — Matt. 27:11-14.
Það er líka viturlegt af okkur að hafa taumhald á tungunni, ekki síst þegar okkur er ögrað. „Sá sem er seinn til reiði er skynsamur,“ segir orðskviðurinn, „en hinn bráðláti setur heimskuna í hásæti.“ (Orðskv. 14:29) Að svara fyrir sig í fljótfærni við erfiðar aðstæður getur orðið til þess að við segjum eitthvað vanhugsað sem við sjáum síðan eftir. Þá geta orð okkar virst heimskuleg og við getum misst hugarfriðinn.
Það er hyggilegt af okkur að gæta tungunnar þegar við erum innan um óguðlega. Þegar við hittum fólk í boðunarstarfinu sem hæðist að okkur getur vel verið að við svörum best fyrir okkur með því að segja ekki neitt. Væri ekki líka stundum viturlegt að þegja til að sýna að við leggjum ekki blessun okkar yfir klúra brandara eða ljótt orðbragð Ef. 5:3) Sálmaritarinn sagði: „Ég vil hafa taumhald á tungu minni þegar guðleysingjar eru í nánd við mig.“ — Sálm. 39:2.
skólasystkina eða vinnufélaga? („Vitur maður“ bregður ekki trúnaði. (Orðskv. 11:12) Sannkristinn maður ljóstrar ekki upp trúnaðarmálum með því að tala ógætilega. Safnaðaröldungar þurfa að vera sérstaklega varkárir hvað þetta varðar svo að þeir geti átt trúnað safnaðarmanna.
Þótt þögnin sé orðalaus getur hún haft jákvæð áhrif. Enski rithöfundurinn Sydney Smith, sem var uppi á 19. öld, sagði um einn samtímamann sinn: „Hann bregður fyrir sig einstaka þögnum sem gerir ákaflega þægilegt að ræða við hann.“ Hversdagslegar samræður tveggja vina ættu auðvitað að vera þannig að báðir fái tækifæri til að tjá sig. Til að vera fær í samræðulist þarf maður að kunna að hlusta.
„Málæðinu fylgja yfirsjónir,“ aðvaraði Salómon, „en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.“ (Orðskv. 10:19) Því minna sem við segjum því minni líkur eru á að við tölum af okkur. „Jafnvel heimskinginn virðist vitur, þegi hann, og skynsamur, loki hann vörum sínum.“ (Orðskv. 17:28) Við ættum því að biðja Jehóva að ‚gæta hliðs vara okkar‘. — Sálm. 141:3.
Hjálp til að hugleiða
Í Biblíunni er talað um ráðvandan mann sem „hugleiðir lögmál [Guðs] dag og nótt“. (Sálm. 1:2) Hvaða aðstæður eru best fallnar til slíkrar hugleiðingar?
Ísak, sonur ættföðurins Abrahams, „gekk út á akurinn að kvöldlagi til að gera bæn sína [„hugleiða“, NW]“. (1. Mós. 24:63) Hann valdi hljóðlátan stað og stund til að hugleiða. Davíð konungur hugleiddi á kyrrlátum næturvökunum. (Sálm. 63:7) Jesús, þótt fullkominn væri, gerði sér far um að vera stundum einn með sjálfum sér til að hugleiða, fjarri skarkala mannfjöldans. Hann fór upp til fjalla, út á eyðimörkina eða á aðra óbyggða staði til þess. — Matt. 14:23; Lúk. 4:42; 5:16.
Kyrrð er endurnærandi. Hún getur skapað okkur kjöraðstæður til að rannsaka sjálf okkur — en það er forsenda þess að bæta sig. Hún getur stuðlað að hugarfriði. Hugleiðing á kyrrlátum stundum getur gert okkur hógvær og lítillát og fengið okkur til að meta betur það sem er mikilvægast í lífinu.
Þögnin er góð en ‚að tala hefur líka sinn tíma‘. (Préd. 3:7) Sannir þjónar Guðs eru önnum kafnir við að boða fagnaðarerindið „um alla heimsbyggðina“. (Matt. 24:14) Kliðurinn af boðun þeirra hækkar stöðugt er þeim fjölgar. (Míka 2:12) Við skulum endilega vera með í því að boða Guðsríki af kappi og tala um dásemdarverk Guðs. En um leið og við tökum þátt í þessu áríðandi starfi skulum við sýna með breytni okkar að við gerum okkur grein fyrir því að stundum er þögnin gulls ígildi.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Við ættum að hlusta vel og læra á safnaðarsamkomum.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Stundum er best að segja ekkert þegar okkur er úthúðað í boðunarstarfinu.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Það er gott að hafa ró og næði þegar við hugleiðum.