Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Englarnir þjóna þeim sem „hjálpræðið eiga að erfa“

Englarnir þjóna þeim sem „hjálpræðið eiga að erfa“

Englarnir þjóna þeim sem „hjálpræðið eiga að erfa“

„Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?“ — HEBR. 1:14, Biblían 1981.

1. Hvaða hughreystingu er að finna í Matteusi 18:10 og Hebreabréfinu 1:14?

JESÚS KRISTUR sagði þeim sem kynnu að tæla fylgjendur hans til falls: „Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður að englar þeirra á himnum njóta jafnan návistar míns himneska föður.“ (Matt. 18:10) Páll postuli skrifaði um réttláta engla: „Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?“ (Hebr. 1:14, Biblían 1981) Þetta eru hughreystandi orð sem fullvissa okkur um að Guð noti þessar himnesku verur til að hjálpa mönnum. Hvað stendur í Biblíunni um engla? Hvernig hjálpa þeir okkur? Hvað getum við lært af þeim?

2, 3. Útskýrðu hvaða störfum englar sinna.

2 Á himnum eru milljónir trúfastra engla. Þeir eru allir ‚voldugar hetjur er framkvæma boð Guðs‘. (Sálm. 103:20; lestu Opinberunarbókina 5:11.) Þessir andasynir hans hafa mismundandi persónuleika, guðlega eiginleika og frjálsan vilja. Þeir eru þaulskipulagðir, gegna háum stöðum í þjónustu Guðs og höfuðengillinn er Míkael (himneskt nafn Jesú). (Dan. 10:13; Júd. 9) Þessi „frumburður allrar sköpunar“ er „Orðið“ eða talsmaður Guðs sem notaði hann til að skapa alla aðra hluti. — Kól. 1:15-17; Jóh. 1:1-3.

3Serafar heyra undir höfuðengilinn en þeir lýsa yfir heilagleika Jehóva og hjálpa þjónum hans að lifa eftir lögum hans. Kerúbar þjóna Guði með því að halda hátign hans á lofti. (1. Mós. 3:24; Jes. 6:1-3, 6, 7) Aðrir englar eða sendiboðar hafa ýmis önnur verkefni í þjónustu Guðs. — Hebr. 12:22, 23.

4. Hvernig leið englunum þegar jörðin var grundvölluð og hvað hefði það þýtt fyrir mannkyn ef frjálsi viljinn hefði verið notaður rétt?

4 Allir englarnir fögnuðu þegar ‚jörðin var grundvölluð‘ og þeir sinntu glaðir verkefnum sínum þegar þessum gimsteini í geimnum var breytt í heimili fyrir manninn. (Job. 38:4, 7) Jehóva gerði manninn „englunum lægri“ en eftir sinni „mynd“ og gerði honum því kleift að endurspegla háleita eiginleika sína. (Hebr. 2:7; 1. Mós. 1:26) Með því að nota frjálsan vilja á réttan hátt hefðu Adam og Eva og afkomendur þeirra getað notið þess að lifa í paradís og tilheyrt alheimsfjölskyldu Jehóva.

5, 6. Hvaða uppreisn átti sér stað á himnum og hvernig tók Guð á málinu?

5 Englum Guðs hefur örugglega blöskrað þegar þeir sáu fyrstu merki um uppreisn í himneskri fjölskyldu Guðs. Einn úr þeirra hópi var ekki lengur ánægður með að lofa Jehóva heldur vildi sjálfur vera tilbeðinn. Hann gerði sig að Satan (sem merkir „andstæðingur“) með því að draga í efa rétt Jehóva til að stjórna og með því að reyna að koma á fót annarri stjórn í samkeppni við hann. Þegar Satan laug að fyrstu hjónunum fékk hann þau til að sameinast sér í uppreisn gegn kærleiksríkum skapara sínum. — 1. Mós. 3:4, 5; Jóh. 8:44.

6 Jehóva kvað fljótt upp dóm yfir Satan með því að bera fram fyrsta spádóminn í Biblíunni: „Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn.“ (1. Mós. 3:15) Fjandskapur myndi ríkja á milli Satans og ‚konu‘ Guðs. Já, í augum Jehóva voru trúfastir englar eins og ástkær eiginkona sem er bundin eiginmanni sínum. Spádómurinn veitti örugga von þó svo að hann væri í meginatriðum ‚leyndardómur‘ sem yrði opinberaður smám saman. Guð ákvað að einn úr himneskri fjölskyldu sinni myndi eyða öllum sem gerðu uppreisn og að fyrir milligöngu hans yrði „öllu sem til er á himni og jörðu“ safnað saman. — Ef. 1:8-10.

7. Hvað gerðu sumir englar á dögum Nóa og með hvaða afleiðingum?

7 Á dögum Nóa yfirgáfu nokkrir englar „eigin bústað“ og holdguðust til að fullnægja eigingjörnum löngunum á jörðinni. (Júd. 6; 1. Mós. 6:1-4) Jehóva varpaði þessum uppreisnarseggjum út í ystu myrkur og þar með gengu þeir til liðs við Satan. Þeir urðu „andaverur vonskunnar“ og hættulegir óvinir þjóna Guðs. — Ef. 6:11-13; 2. Pét. 2:4.

Hvernig hjálpa englar okkur?

8, 9. Hvernig hefur Jehóva notað engla til að hjálpa mönnum?

8 Englar hafa þjónað mörgum, þar á meðal Abraham, Jakobi, Móse, Jósúa, Jesaja, Daníel, Jesú, Pétri, Jóhannesi og Páli. Réttlátir englar framkvæmdu dóma Guðs og fluttu spádóma hans og leiðbeiningar, þar á meðal Móselögmálið. (2. Kon. 19:35; Dan. 10:5, 11, 14; Post. 7:53; Opinb. 1:1) Núna höfum við alla Biblíuna og því þurfa englar ekki endilega að flytja boð frá Guði. (2. Tím. 3:16, 17) En bak við tjöldin eru þeir mjög uppteknir við að gera vilja Guðs og styðja þjóna hans.

9 Í Biblíunni er eftirfarandi loforð: „Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann og frelsar þá.“ (Sálm. 34:8; 91:11) Jehóva leyfir Satan að leggja alls konar raunir á okkur vegna þess að Satan dró ráðvendni mannsins í efa. (Lúk. 21:16-19) En Guð veit hvenær prófraun hefur þjónað hlutverki sínu og við höfum sannað ráðvendni okkar. (Lestu 1. Korintubréf 10:13.) Englarnir eru alltaf tilbúnir að grípa inn í samkvæmt vilja Guðs. Þeir björguðu Sadrak, Mesak, Abed-Negó, Daníel og Pétri en komu ekki í veg fyrir að Stefán og Jakob féllu fyrir hendi óvina. (Dan. 3:17, 18, 28; 6:23; Post. 7:59, 60; 12:1-3, 7, 11) Aðstæðurnar voru ólíkar í hverju máli fyrir sig. Sumir bræður okkar í fangabúðum nasista voru sömuleiðis teknir af lífi þó svo að Jehóva hafi séð til þess að flestir þeirra lifðu af.

10. Hvaða aðstoð gætum við fengið auk þess að fá hjálp frá englum?

10 Biblían kennir ekki að allir menn eigi sér verndarengil. Við treystum því að ef við „biðjum um eitthvað eftir [Guðs] vilja, þá heyrir hann okkur“. (1. Jóh. 5:14) Jehóva gæti að sjálfsögðu sent engil okkur til aðstoðar en hjálpin gæti borist með öðrum hætti. Trúsystkini finna sig kannski knúin til að hjálpa okkur og hughreysta. Guð gæti gefið okkur þá visku og þann innri styrk sem við þurfum til að þola ‚flein í holdinu‘ sem hrjáir okkur eins og „Satans engill“ væri að slá okkur. — 2. Kor. 12:7-10; 1. Þess. 5:14.

Líkjum eftir Jesú

11. Hvernig voru englar notaðir til að hjálpa Jesú og hverju áorkaði hann með því að vera Guði trúfastur?

11 Lítum á hvernig Jehóva notaði engla í tengslum við Jesú. Þeir tilkynntu fæðingu hans og upprisu og þjónuðu honum þegar hann var á jörðinni. Englarnir hefðu getað komið í veg fyrir að hann yrði handtekinn og líflátinn á grimmilegan hátt. En í stað þess var engill sendur til að styrkja hann. (Matt. 28:5, 6; Lúk. 2:8-11; 22:43) Samkvæmt fyrirætlun Jehóva dó Jesús fórnardauða og sannaði þar með að fullkominn maður getur varðveitt ráðvendni við Guð þrátt fyrir að vera reyndur til hins ýtrasta. Jehóva reisti því Jesú upp til himna og veitti honum ódauðleika. Jehóva gaf honum síðan „allt vald“ og setti englana undir hann. (Matt. 28:18; Post. 2:32; 1. Pét. 3:22) Jesús reyndist vera aðalniðji ‚konu‘ Guðs. — 1. Mós. 3:15; Gal. 3:16.

12. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

12 Jesús vissi að það væri rangt að reyna Jehóva með því að vænta þess að englar björguðu honum ef hann sýndi fífldirfsku. (Lestu Matteus 4:5-7.) Við skulum því líkja eftir Jesú og „lifa hóglátlega“. Vörumst að taka óþarfa áhættu en stöndum hughraust andspænis ofsóknum. — Tít. 2:12.

Lærum af trúföstum englum

13. Hvað getum við lært af trúföstum englum sem talað er um í 2. Pétursbréfi 2:9-11?

13 Pétur postuli bendir á gott fordæmi trúfastra engla þegar hann ávítar þá sem „lastmæla“ andasmurðum þjónum Jehóva. Enda þótt englarnir séu voldugir eru þeir auðmjúkir og setjast hvorki í dómarasæti né bera fram ákærur „vegna virðingar fyrir Jehóva“. (Lestu 2. Pétursbréf 2:9-11. *) Við skulum líka gæta þess að vera ekki dómhörð heldur virða þá sem fara með umsjón í söfnuðinum og fela málin í hendur Jehóva sem er æðsti dómarinn. — Rómv. 12:18, 19; Hebr. 13:17.

14. Hvernig eru englarnir okkur til fyrirmyndar í auðmýkt?

14 Englarnir eru okkur til fyrirmyndar í að þjóna Jehóva af auðmýkt. Sumir þeirra hafa neitað að gefa mönnum upp nöfn sín. (1. Mós. 32:29; Dóm. 13:17, 18) Þótt til séu milljónir engla á himnum eru í Biblíunni aðeins tveir nafngreindir, þeir Míkael og Gabríel. Það verndar okkur gegn því að veita englunum óviðeigandi lotningu. (Lúk. 1:26; Opinb. 12:7) Þegar Jóhannes postuli féll fram til að tilbiðja engil áminnti engillinn hann og sagði: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og systkina þinna.“ (Opinb. 22:8, 9) Við ættum að dýrka Guð einan og biðja aðeins til hans. — Lestu Matteus 4:8-10.

15. Hvernig gefa englarnir gott fordæmi í þolinmæði?

15 Englarnir gefa líka gott fordæmi í þolinmæði. Þótt þeir séu mjög áhugasamir um leyndardóma Guðs fá þeir ekki að vita allt. „Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast,“ segir í Biblíunni. (1. Pét. 1:12) Hvað gera þeir þá? Þeir bíða þolinmóðir uns tími Guðs kemur til að opinbera ‚margháttaða speki‘ sína fyrir milligöngu safnaðarins. — Ef. 3:10, 11.

16. Hvernig hefur hegðun okkar áhrif á englana?

16 Kristnir menn í prófraunum eru eins og „á leiksviði, frammi fyrir . . . englum“. (1. Kor. 4:9, Biblían 1981) Það gleður englana að sjá að við erum trúföst og þeir fagna þegar syndari iðrast. (Lúk. 15:10) Englarnir taka eftir því þegar kristnar konur hegða sér í samræmi við háleitar kröfur Guðs. Í Biblíunni segir að „konan [eigi] að bera á höfði sér tákn um valdsvið sitt vegna englanna“. (1. Kor. 11:3, 10) Já, englarnir eru ánægðir að sjá að kristnar konur og allir aðrir þjónar Guðs á jörðinni fylgja fyrirkomulagi hans og leiðbeiningum um forystu. Það er gagnlegt fyrir himneska syni Guðs að fylgjast með slíkri hlýðni.

Englar styðja prédikunarstarfið

17, 18. Hvers vegna getum við sagt að englar styðji boðunarstarf okkar?

17 Englar eiga hlut í að vinna stórkostleg verk á „Drottins degi“. Þeir tóku þátt í að stofnsetja ríkið árið 1914 og ásamt Míkael vörpuðu þeir Satan og illum öndum af himni. (Opinb. 1:10; 11:15; 12:5-9) Jóhannes postuli sá „engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap til að boða þeim sem á jörðunni búa.“ Engillinn sagði hárri röddu: „Óttist Guð og gefið honum dýrðina. Stundin er komin er hann kveður upp dóm sinn. Tilbiðjið þann sem hefur gert himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ (Opinb. 14:6, 7) Þjónar Jehóva eru því fullvissaðir um að þeir hafi stuðning englanna þegar þeir boða fagnaðarerindið um stofnsetta ríkið þrátt fyrir harða andstöðu frá Satan. — Opinb. 12:13, 17.

18 Nú á dögum leiða englarnir okkur ekki til einlægra manna með því að tala við okkur eins og engill talaði við Filippus og sendi hann til eþíópíska hirðmannsins. (Post. 8:26-29) En margar nútímafrásögur sýna svo að ekki verður um villst að englar styðja boðunarstarfið bak við tjöldin og leiða okkur til þeirra sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘. * (Post. 13:48, NW) Það er því mikilvægt að fara reglulega í boðunarstarfið svo að við getum gert okkar til að finna þá sem langar til að „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika“. — Jóh. 4:23, 24.

19, 20. Hvaða þátt eiga englarnir í þeim atburðum sem gerast „við endi veraldar“?

19 Jesús var að tala um okkar daga þegar hann sagði að „við endi veraldar“ myndu englarnir „skilja vonda menn frá réttlátum“. (Matt. 13:37-43, 49) Englarnir taka þátt í að safna þeim síðustu af hinum andasmurðu og setja innsigli á þá. (Lestu Matteus 24:31; Opinb. 7:1-3) Auk þess eru englar í för með Jesú þegar hann „skilur sauði frá höfrum“. — Matt. 25:31-33, 46.

20 „Þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum“ verður öllum þeim eytt „sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. (2. Þess. 1:6-10) Þegar Jóhannes sá sama atburðinn í sýn lýsti hann því hvernig Jesús og englahersveitirnar kæmu ríðandi á hvítum hestum til að berjast með réttlæti. — Opinb. 19:11-14.

21. Hvað gerir engillinn, sem heldur „á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér“, við Satan og illu andana?

21 Jóhannes sá líka „engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér“. Þessi engill er enginn annar en höfuðengillinn Míkael. Hann bindur Satan og illu andana og kastar þeim í undirdjúpið. Þeir verða leystir úr haldi í stutta stund við lok þúsundáraríkis Krists og þá gengst fullkomið mannkyn undir lokapróf. Síðan verður Satan og öllum uppreisnarseggjum eytt. (Opinb. 20:1-3, 7-10; 1. Jóh. 3:8) Öll uppreisn gegn Guði verður þá úr sögunni.

22. Hvaða hlutverki gegna englarnir í þeim atburðum sem eru fram undan og hvað finnst okkur um það?

22 Lausn undan heimskerfi Satans er rétt fram undan. Englar munu gegna þýðingarmiklu hlutverki í þessum merkilegu atburðum sem leiða til þess að drottinvald Jehóva verður upphafið og fyrirætlun hans með jörðina og mennina nær fram að ganga. Já, réttlátir englar eru „þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa“. Verum því Guði þakklát fyrir það hvernig hann notar englana til að hjálpa okkur að gera vilja sinn og öðlast eilíft líf.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 2. Pétursbréf 2:11 (NW): „En englarnir, sem eru þó meiri að mætti og valdi, ákæra þá ekki með lasti, vegna virðingar fyrir Jehóva.“

^ gr. 18 Sjá Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 549-551.

Hvert er svarið?

• Í hvaða hópa skiptast englarnir?

• Hvað gerðu sumir englar á dögum Nóa?

• Hvernig hefur Guð notað engla til að hjálpa okkur?

• Hvaða hlutverki gegna réttlátir englar á okkar dögum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Englar gleðjast yfir því að gera vilja Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Englarnir eru alltaf tilbúnir að grípa inn í samkvæmt vilja Guðs líkt og sjá má af reynslu Daníels.

[Myndir á blaðsíðu 24]

Verum hugrökk því að englar styðja boðunarstarfið.

[Credit line]

Hnöttur: NASA photo