Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar ættir þú að vera þegar endirinn kemur?

Hvar ættir þú að vera þegar endirinn kemur?

Hvar ættir þú að vera þegar endirinn kemur?

HVERNIG mun ráðvöndu fólki reiða af þegar Jehóva eyðir vondu heimskerfi nútímans í Harmagedónstríðinu. Í Orðskviðunum 2:21, 22 er því svarað: „Hinir hreinlyndu munu byggja landið og hinir ráðvöndu verða þar áfram. En hinir ranglátu verða upprættir úr landinu og hinum svikulu verður tortímt.“

En hvernig verða hinir ráðvöndu áfram á jörðinni? Verður einhver staður þar sem þeir geta leitað athvarfs? Hvar ættu hinir hreinlyndu að vera þegar endirinn kemur? Fjórar frásögur í Biblíunni varpa ljósi á það.

Þegar staðsetning skipti máli

Í 2. Pétursbréfi 2:5-7 má lesa um björgun ættfeðranna Nóa og Lots: „Ekki þyrmdi [Guð] hinum forna heimi en varðveitti Nóa, boðbera réttlætisins, við áttunda mann er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu. Hann dæmdi borgirnar Sódómu og Gómorru til eyðingar og brenndi þær til ösku og setti þær til viðvörunar þeim er síðar lifðu óguðlega. En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.“

Hvernig lifði Nói af flóðið? Guð sagði við hann: „Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna. Nú eyði ég þeim ásamt jörðinni. En þú skalt gera þér örk af góferviði.“ (1. Mós. 6:13, 14) Nói smíðaði örk eins og Jehóva hafði skipað honum að gera. Sjö dögum áður en flóðið byrjaði sagði Jehóva honum að safna dýrunum í örkina og fara sjálfur inn í hana ásamt fjölskyldu sinni. Á sjöunda degi var dyrunum lokað á eftir honum og „það rigndi á jörðina í fjörutíu daga og fjörutíu nætur“. (1. Mós. 7:1-4, 11, 12, 16) Þannig var Nóa og fjölskyldu hans bjargað frá flóðinu. (1. Pét. 3:20) Þau þurftu að vera í örkinni til að bjargast. Enginn annar staður á jörðinni tryggði öryggi þeirra. — 1. Mós. 7:19, 20.

Leiðbeiningarnar til Lots voru dálítið öðruvísi. Tveir englar sögðu honum hvar hann ætti ekki að vera. „Aðra sem þú átt að í borginni [Sódómu] skaltu hafa á burt héðan,“ sögðu englarnir. „Við munum tortíma þessum stað.“ Lot og skyldulið hans átti að ‚flýja til fjalla‘. —1. Mós. 19:12, 13, 17.

Frásögurnar af Nóa og Lot sýna að Jehóva veit „hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags“. (2. Pét. 2:9) Bæði dæmin sýna að það skipti miklu máli að vera á réttum stað. Nói þurfti að fara inn í örkina en Lot þurfti að fara út úr Sódómu. En er þetta alltaf svona? Getur Jehóva bjargað réttlátu fólki hvar sem það er án þess að það þurfi að flytja sig úr stað? Til að svara þeirri spurningu skulum við skoða tvær aðrar frásögur af björgun.

Er staðsetning alltaf mikilvæg?

Áður en Jehóva lét tíundu pláguna ganga yfir Egyptland á dögum Móse skipaði hann Ísraelsmönnum að bera blóð páskalambsins á dyratré og dyrastafi húsa sinna. Af hverju? Þegar Jehóva ‚gengi um til að ljósta Egypta myndi hann sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum og ganga fram hjá dyrunum. Hann myndi ekki hleypa eyðandanum inn í hús þeirra‘. Þessa sömu nótt „laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi til bana, frá frumburði faraós, sem sat í hásæti sínu, til frumburðar fangans, sem sat í fangelsinu, og alla frumburði búfjár“. Frumburðum Ísraelsmanna var bjargað án þess að þeir þyrftu að flytja sig úr stað. —2. Mós. 12:22, 23, 29.

Skoðum einnig frásöguna af vændiskonunni Rahab sem bjó í Jeríkó. Ísraelmenn voru um það bil að hefjast handa við að leggja undir sig fyrirheitna landið. Rahab áttaði sig á því að Jeríkó var dæmd til að falla. Hún sagði tveim njósnurum Ísraelsmanna að allir í borginni væru lamaðir af ótta við árás þeirra. Hún faldi njósnarana og bað þá að vinna sér eið að því að henni og fjölskyldu hennar yrði þyrmt þegar þeir legðu undir sig borgina. Njósnararnir sögðu Rahab að safna fjölskyldu sinni í hús sitt sem var áfast borgarmúrnum. Þeir sem yfirgæfu húsið myndu tortímast ásamt öðrum íbúum borgarinnar. (Jós. 2:8-13, 15, 18, 19) Nokkru seinna sagði Jehóva hins vegar við Jósúa að ‚borgarmúrinn ætti eftir að hrynja til grunna‘. (Jós. 6:5) Staðurinn, sem njósnararnir höfðu sagt að væri öruggur, virtist nú vera hættulegur. Hvernig yrði Rahab og fjölskyldu hennar bjargað?

Þegar árásin á Jeríkó hófst æptu Ísraelsmenn og blésu í lúðra. „Þegar fólkið [Ísraelsmenn] heyrði hornablásturinn æpti það heróp mikið og borgarmúrinn hrundi til grunna,“ segir í Jósúabók 6:20. Þegar hér var komið sögu gat enginn maður haft stjórn á hruni múrsins. En á undraverðan hátt stöðvaðist hrunið við hús Rahab. Jósúa skipaði njósnurunum tveim: „Farið í hús skækjunnar og sækið konuna og allt hennar fólk eins og þið sóruð henni.“ (Jós. 6:22) Allir sem voru í húsi Rahab lifðu af.

Hvað skipti mestu máli?

Hvað getum við lært af björgun Nóa, Lots, Rahab og björgun Ísraelsmanna á dögum Móse? Hvernig hjálpa þessar frásögur okkur að ákveða hvar við ættum að vera þegar núverandi heimskerfi líður undir lok?

Það er rétt að Nói bjargaðist af því að hann var í örkinni. En hvers vegna var hann þar? Var það ekki af því að hann sýndi trú og var hlýðinn? „Nói gerði allt eins og Guð bauð honum,“ segir í Biblíunni. (1. Mós. 6:22; Hebr. 11:7) Hvað um okkur? Gerum við allt sem Guð hefur skipað okkur að gera? Nói var einnig ‚boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5) Erum við kappsöm í boðunarstarfinu eins og hann jafnvel þó að fólk á starfssvæði okkar sýni lítil viðbrögð?

Lot bjargaði lífi sínu með því að flýja út úr Sódómu. Honum var þyrmt vegna þess að hann var réttlátur í augum Guðs og hann tók mjög nærri sér svívirðilegan lifnað hinna guðlausu í Sódómu og Gómorru. Tökum við svívirðilegt líferni umheimsins nærri okkur? Eða erum við orðin svo ónæm fyrir því að það angrar okkur ekki? Gerum við allt sem við getum til að „lifa í friði . . . flekklaus og vammlaus“? — 2. Pét. 3:14.

Fyrir Ísraelsþjóðina í Egyptalandi og Rahab í Jeríkó var hjálpræðið háð því að þau væru kyrr í húsum sínum. Þetta krafðist trúar og hlýðni. (Hebr. 11:28, 30, 31) Ímyndaðu þér hvernig hver einasta fjölskylda meðal Ísraelmanna hefur fylgst með frumburði fjölskyldunnar þegar það „varð mikið harmakvein“ í hverju húsi Egypta á fætur öðru. (2. Mós. 12:30) Hugsaðu þér hvernig Rahab og fjölskylda hennar hafa hjúfrað sig saman þegar þau heyrðu gnýinn af hrynjandi múrnum færast nær og nær. Hún hefur þurft sterka trú til að hlýða og vera um kyrrt í þessu húsi.

Bráðum líður illur heimur Satans undir lok. Við vitum ekki enn hvernig Jehóva verndar fólk sitt á hinum mikla „reiðidegi Drottins“. (Sef. 2:3) Þá skiptir engu máli hvar við erum eða hverjar aðstæður okkar eru. Hins vegar getum við verið viss um að við verðum að trúa á Jehóva og hlýða honum til að bjargast. Þangað til skulum við gæta þess að sjá í réttu ljósi það sem kallað er „herbergi“ í spádómsbók Jesaja.

„Gakktu . . . inn í herbergi þín“

„Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín og læstu dyrum á eftir þér,“ stendur í Jesajabók 26:20. „Feldu þig skamma hríð uns reiðin er liðin hjá.“ Þessi spádómur kann að hafa átt sína fyrstu uppfyllingu árið 539 f.Kr. þegar Medar og Persar unnu Babýlon. Þegar Kýrus hinn persneski fór inn í borgina mun hann hafa skipað öllum að halda sig innandyra. Ástæðan var sú að hermönnum hans hafði verið skipað að taka af lífi alla sem voru utandyra.

Á okkar tímum má vera að ‚herbergin‘ í þessum spádómi séu nátengd söfnuðum votta Jehóva um allan heim sem eru meira en 100.000 talsins. Söfnuðirnir gegna veigamiklu hlutverki í lífi okkar núna og munu gera það áfram í „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:14) Fólki Guðs er skipað að fara inn í „herbergi“ sín og fela sig „uns reiðin er liðin hjá“. Það er afar mikilvægt að tileinka sér jákvæða afstöðu til safnaðarins og vera ákveðin í að vera í nánum tengslum við hann. Við getum tekið til okkar hvatningu Páls: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ —  Hebr. 10:24, 25.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Hvað getum við lært af því hvernig Guð bjargaði fólki sínu í fortíðinni?

[Mynd á blaðsíðu 8]

Hverju er hugsanlegt að ‚herbergin‘ tengist á okkar tímum?