Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir hollustu Ittaí

Líkjum eftir hollustu Ittaí

Líkjum eftir hollustu Ittaí

„MIKIL og dásamleg eru verk þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur [„trúr“, NW].“ Þeir sem „höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess“ sungu þennan söng á himnum og beina þannig athyglinni að hollustu Jehóva. (Opinb. 15:2-4) Jehóva vill að tilbiðjendur hans líki eftir honum með því að tileinka sér þennan æskilega eiginleika.

Á hinn bóginn gerir Satan djöfullinn allt sem í hans valdi stendur til að gera jarðneska þjóna Guðs viðskila við kærleika þess Guðs sem þeir tilbiðja. Margir hafa samt sýnt Guði hollustu og það við mjög erfiðar aðstæður. Við getum verið þakklát að Jehóva metur mikils slíka tryggð. Við erum líka sannfærð um að „Drottinn hefur mætur á réttlæti og yfirgefur eigi sína trúuðu“. (Sálm. 37:28) Hann hefur látið segja frá verkum margra trúfastra manna í orði sínu til að hjálpa okkur að vera trúföst. Ein af þessum frásögum fjallar um Ittaí frá Gat.

Útlendingur og útlagi

Ittaí var að líkindum ættaður frá Gat, hinni nafntoguðu borg Filistea, heimaborg risans Golíats og annarra ógnvekjandi fjandmanna Ísraels. Í Biblíunni er, án frekari kynningar, getið um hinn vaska stríðsmann Ittaí um það leyti sem Absalon gerir uppreisn gegn Davíð konungi. Ittaí bjó þá í útlegð í nágrenni Jerúsalem ásamt 600 Filisteum sem höfðu slegist í för með honum.

Aðstæður Ittaí og sveitunga hans gætu hafa minnt Davíð á dagana þegar hann var flóttamaður í útlegð. Þá höfðu hann og 600 ísraelskir stríðsmenn flust til Filistealands og sest að á umráðasvæði Akíss, konungs í Gat. (1. Sam. 27:2, 3) Hvað ætli Ittaí og menn hans geri þegar Davíð stendur frammi fyrir uppreisn Absalons, sonar síns? Standa þeir með Absalon, eru þeir hlutlausir eða ganga þeir í lið með Davíð og mönnum hans?

Sjáum Davíð fyrir okkur á flótta frá Jerúsalem. Hann nemur staðar við ysta húsið sem gæti verið síðasta húsið í Jerúsalem í átt að Olíufjallinu áður en farið er yfir Kedrondalinn. (2. Sam. 15:17) Þar stendur Davíð og kannar liðið meðan allt fólkið gengur fram hjá. Og hvað sér hann? Þar eru ekki aðeins dyggir Ísraelsmenn heldur einnig allir Kretarnir og Pletarnir. Þar að auki eru Gatítarnir, það er að segja Ittaí og 600 stríðsmenn hans. — 2. Sam. 15:18.

Þá segir Davíð samúðarfullur við Ittaí: „Hvers vegna ætlar þú einnig að koma með okkur? Snúðu við og vertu með nýja konunginum [greinilega átt við Absalon] því að þú ert útlendingur og útlægur úr heimabyggð. Þú komst í gær, ætti ég þá í dag að taka þig með okkur út í óvissuna? Ég verð að fara eitthvað en veit ekki hvert. Snúðu við og taktu landa þína með þér og megi Drottinn sýna þér náð og trúfesti.“ — 2. Sam. 15:19, 20.

Ittaí lýsir yfir óbifanlegri hollustu og segir: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem herra minn, konungurinn, lifir, þá mun þjónn þinn einnig verða þar sem herra minn, konungurinn, verður, hvort sem það verður til dauða eða lífs.“ (2. Sam. 15:21) Þetta gæti hafa minnt Davíð á svipuð orð Rutar, langömmu hans. (Rut. 1:16, 17) Yfirlýsing Ittaí snerti Davíð og hann segir: „Haltu þá áfram og gakktu fram hjá“ yfir Kedrondalinn. „Ittaí frá Gat gekk þá fram hjá ásamt öllum mönnum sínum og fjölskyldum þeirra“. — 2. Sam. 15:22, neðanmáls.

„Okkur til fræðslu“

„Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu,“ segir í Rómverjabréfinu 15:4. Við gætum því spurt okkur: Hvaða lærdóm getum við dregið af fordæmi Ittaí? Hvað skyldi hafa valdið því að hann sýndi Davíð hollustu? Þótt Ittaí væri útlendingur og útlagi frá Filisteu vissi hann að Jehóva var hinn lifandi Guð og Davíð smurður konungur hans. Ittaí gat litið fram hjá fjandskapnum sem var á milli Ísraelsmanna og Filistea. Í augum hans var Davíð ekki bara maðurinn sem hafði fellt Golíat, risann frá Filisteu, og marga aðra samlanda hans. (1. Sam. 18:6, 7) Ittaí sá í Davíð mann sem elskaði Jehóva og veitti án efa athygli frábærum eiginleikum hans. Og Davíð virti Ittaí mikils. Það sést meðal annars á því að hann setti einn þriðja af her sínum „undir stjórn Ittaí“ þegar bardaginn við her Absalons stóð sem hæst. — 2. Sam. 18:2.

Við ættum einnig að horfa fram hjá menningar-, kynþátta- og þjóðernismun — hvers konar langvarandi fordómum og fjandskap — og sjá góðu eiginleikana í fari annarra. Tengslin, sem mynduðust á milli Davíðs og Ittaí, sýna að með því að kynnast Jehóva og elska hann getum við unnið bug á slíkum hindrunum.

Þegar við hugsum um fordæmi Ittaí getum við spurt okkur: Sýni ég Jesú Kristi, hinum meiri Davíð, álíka hollustu? Sýni ég hollustu mína með því að taka drjúgan þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum? (Matt. 24:14; 28:19, 20) Hve mikið vil ég leggja á mig til að sanna hollustu mína?

Þeir sem hafa fjölskylduforráð hafa einnig gagn af að hugleiða hollustu Ittaí. Tryggð hans við Davíð og ákvörðun hans að fylgja smurðum konungi Guðs hafði áhrif á menn hans. Þegar sá sem fer með fjölskylduforráð ákveður að styðja sanna tilbeiðslu hefur það sömuleiðis áhrif á fjölskyldu hans og getur haft í för með sér tímabundna erfiðleika. Við erum samt fullvissuð um að Jehóva er „trúföstum trúfastur“. — Sálm. 18:26.

Í Biblíunni er ekkert frekar sagt um Ittaí eftir bardaga Davíðs við Absalon. Svipmyndin, sem brugðin er upp af honum í orði Guðs, veitir samt innsýn í persónuleika hans á þessu erfiða tímabili í lífi Davíðs. Innblásin frásaga Biblíunnar af hollustu Ittaí er sönnun þess að Jehóva metur og umbunar slíka hollustu. — Hebr. 6:10