Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Nú hafði Jesús prédikað um allt landið. Hvers vegna sagði Pétur postuli þá við Gyðingana og leiðtoga þeirra, eftir að þeir létu taka Jesú af lífi, að þeir hefðu ‚gert það af vanþekkingu‘? — Post. 3:17.

Þegar Pétur postuli ávarpaði hóp Gyðinga vegna aðildar þeirra að dauða Messíasar sagði hann: „Nú veit ég, systkin, að þið gerðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar ykkar.“ (Post. 3:14-17) Sumir Gyðingar höfðu kannski ekki skilið boðskap Jesú eða áttað sig á að hann væri Messías. Ein ástæðan sem lá að baki vanþekkingu annarra var að þá langaði ekki til að þóknast Guði. Aðrir voru fullir af fordómum, öfund eða hreinu og beinu hatri.

Ef fólk langaði ekki til að þóknast Jehóva hlýtur það að hafa haft áhrif á viðhorf þess til kennslu Jesú. Hann notaði oft dæmisögur og útskýrði þær fyrir öllum sem voru áfjáðir í að vita meira. En sumir af þeim sem hlustuðu á Jesú gengu einfaldlega í burtu og gerðu sér lítið far um að skilja það sem hann var að kenna. Eitt sinn er Jesús talaði í líkingum hneyksluðust jafnvel nokkrir af lærisveinunum vegna orða hans. (Jóh. 6:52-66) Þeir sem höfðu slíkt hugarfar skildu ekki að líkingarnar og dæmisögurnar sem Jesús notaði í kennslu sinni voru prófsteinn á vilja þeirra til að breyta hugsunum sínum og gerðum. (Jes. 6:9, 10; 44:18; Matt. 13:10-15) Þeir gáfu heldur engan gaum að þeim spádómi að Messías myndi nota líkingar í kennslu sinni. — Sálm. 78:2.

Fordómar voru önnur ástæða fyrir því að margir höfnuðu boðskap Jesú. Fólkið „undraðist stórum“ þegar hann kenndi í samkundunni í heimabæ sínum Nasaret. En í staðinn fyrir að viðurkenna hann sem Messías einblíndu menn á uppruna hans og sögðu: „Hvaðan kemur honum þetta? . . . Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?“ (Mark. 6:1-3) Vegna þess að Jesús var alinn upp við fábrotnar aðstæður fannst Nasaretbúum lítið til kennslu hans koma.

Hvað um trúarleiðtogana? Flestir þeirra hlustuðu ekki á Jesú vegna svipaðra ástæðna. (Jóh. 7:47-52) Þeir höfnuðu líka boðskapnum vegna öfundar í garð Jesú sem fékk athygli fólksins. (Mark. 15:10) Og margir hátt settir menn brugðust vissulega illa við þegar hann fordæmdi hræsni þeirra og blekkingar. (Matt. 23:13-36) Vegna vísvitandi vanþekkingar þeirra dæmdi Jesús þá réttilega þegar hann sagði: „Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið hrifsað til yðar lykil viskunnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn [til Guðsríkis] og þeim hafið þér varnað sem inn vildu ganga.“ — Lúk. 11:37-52

Jesús ferðaðist um Ísrael í þrjú og hálft ár og boðaði fagnaðarerindið. Hann hjálpaði einnig mörgum að taka þátt í boðuninni. (Lúk. 9:1, 2; 10:1, 16, 17) Jesús og lærisveinar hans voru svo dugmiklir í starfi sínu að farísearnir kvörtuðu og sögðu: „Allur heimurinn eltir hann.“ (Jóh. 12:19) Ástæðan var sem sagt ekki sú að Gyðingar upp til hópa hafi ekki vitað nokkurn skapaðan hlut. En þeir völdu að vera í „vanþekkingu“ varðandi hlutverk Jesú sem Messías. Þeir hefðu getað dýpkað þekkingu sína og kærleika til Messíasar en þeir gerðu það ekki. Sumir þeirra urðu jafnvel meðsekir um dauða Jesú. Þess vegna hvatti Pétur postuli þá og sagði: „Takið því sinnaskiptum og snúið ykkur til Guðs svo að hann afmái syndir ykkar. Þá mun Drottinn láta upp renna endurlífgunartíma og hann mun senda Krist sem ykkur er fyrirhugaður sem er Jesús.“ (Post. 3:19, 20) Það er athyglisvert að þúsundir Gyðinga lögðu þá við hlustir, þar á meðal „mikill fjöldi presta“. Þeir lifðu ekki lengur í vanþekkingu heldur iðruðust og hlutu þar með velþóknun Jehóva. — Post. 2:41; 4:4; 5:14; 6:7.