Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Talaðu sannleika við náungann

Talaðu sannleika við náungann

Talaðu sannleika við náungann

„Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga.“ — EF. 4:25.

1, 2. Hvernig líta margir á sannleika?

SANNLEIKUR hefur verið umdeilt mál frá ómunatíð. Gríska ljóðskáldið Alkaios orti á sjöttu öld fyrir Krist: „Í víni er sannleikur.“ Með þessum orðum gaf hann í skyn að vín losaði um málbeinið í fólki og það segði fyrst sannleikann eftir að hafa drukkið einum of mikið. Rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus á fyrstu öld hafði einnig öfugsnúna sýn á sannleikann þegar hann spurði Jesú með nokkurri kaldhæðni: „Hvað er sannleikur?“ — Jóh. 18:38.

2 Á okkar tímum eru einnig uppi ólíkar skoðanir á sannleika. Margir segja að orðið „sannleikur“ hafi ýmis merkingarbrigði eða að sannleikur sé jafn breytilegur og mennirnir eru margir. Aðrir segja aðeins sannleikann þegar það er þægilegt eða hentugt fyrir þá. Í bókinni The Importance of Lying segir: „Það er eflaust háleit hugsjón að vera heiðarlegur en hún hefur lítið gildi í baráttu manna fyrir lífi og öryggi — og það er barátta upp á líf og dauða. Maðurinn á ekki um neitt að velja — hann þarf að ljúga til að lifa.“

3. Að hvaða leyti er Jesús okkur góð fyrirmynd?

3 En lærisveinar Krists hugsa ekki þannig. Afstaða Jesú til sannleika byggðist ekki á heimspekilegum vangaveltum. Hann sagði alltaf sannleikann. Óvinir hans viðurkenndu það meira að segja og sögðu: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika.“ (Matt. 22:16) Sannkristnir menn nú á dögum líkja sömuleiðis eftir Jesú. Þeir hika ekki við að segja sannleikann. Þeir taka heilshugar undir með Páli postula sem sagði við trúsystkini sín: „Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga.“ (Ef. 4:25) Með hliðsjón af orðum Páls skulum við líta á þrjár spurningar: Í fyrsta lagi, hver er náungi okkar? Í öðru lagi, hvað merkir það að tala sannleika? Og í þriðja lagi, hvernig getum við farið eftir orðum Páls í daglegu lífi?

Hver er náungi okkar?

4. Hvernig endurspeglaði Jesús afstöðu Jehóva, ólíkt leiðtogum Gyðinga á fyrstu öld?

4 Sumir af leiðtogum Gyðinga á fyrstu öld kenndu að enginn verðskuldaði að kallast ‚náungi‘ manns nema hann væri Gyðingur eða náinn vinur. Jesús endurspeglaði hins vegar persónuleika og hugsunarhátt föður síns fullkomlega. (Jóh. 14:9) Hann sýndi lærisveinum sínum fram á að Guð taki ekki einn kynþátt eða eina þjóð fram yfir aðra. (Jóh. 4:5-26) Og heilagur andi opinberaði Pétri postula að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:28, 34, 35) Við ættum því að líta á alla menn sem náunga okkar og sýna kærleika jafnvel þeim sem hegða sér eins og þeir séu óvinir okkar. — Matt. 5:43-45.

5. Hvað merkir það að tala sannleika við náungann?

5 En hvað átti Páll við þegar hann sagði að við ættum að tala sannleika við náungann? Að tala sannleika merkir að gefa réttar upplýsingar, án allra blekkinga. Sannkristnir menn hagræða ekki staðreyndum eða rangfæra þær til að blekkja aðra. Þeir ‚hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða‘. (Rómv. 12:9) Við ættum að líkja eftir Guði sannleikans og leggja okkur fram um að vera hrein og bein í öllum samskiptum við aðra. (Sálm. 15:1, 2; Rómv. 3:4) Með því að vanda val orða okkar er jafnvel hægt að leysa úr vandræðalegum eða óþægilegum aðstæðum án þess að vera með nokkrar blekkingar. — Lestu Kólossubréfið 3:9, 10.

6, 7. (a) Þurfum við að gefa öllum allar upplýsingar til að vera sannsögul? Skýrðu svarið. (b) Hverjum getum við treyst fyrir trúnaðarupplýsingum?

6 Þurfum við þá að segja öllum allt sem við vitum um ákveðið mál ef þeir spyrja okkur? Ekki endilega. Jesús sýndi fram á að sumir verðskuldi ekki að fá beint svar eða vissar upplýsingar. Þegar trúarleiðtogar spurðu hann með hvaða valdi hann gerði tákn og kraftaverk svaraði hann: „Ég vil leggja eina spurningu fyrir ykkur. Svarið henni og ég mun segja ykkur með hvaða valdi ég geri þetta.“ Þegar fræðimenn og öldungar vildu ekki svara sagði Jesús: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hver fól mér að gera þetta.“ (Mark. 11:27-33) Hann taldi sér ekki skylt að svara spurningu þeirra af því að þeir voru bæði hræsnisfullir, spilltir og trúlausir. (Matt. 12:10-13; 23:27, 28) Þjónar Jehóva nú á tímum þurfa að vera á varðbergi gagnvart fráhvarfsmönnum og öðrum vondum mönnum sem beita slægð og blekkingum í eigingjörnum tilgangi. — Matt. 10:16; Ef. 4:14.

7 Páll gaf einnig í skyn að sumir ættu kannski ekki rétt á tæmandi svörum. Hann minntist á fólk sem væri ‚málugt og hlutsamt og talaði það sem eigi bæri að tala‘. (1. Tím. 5:13) Þeir sem hnýsast í mál annarra eða er ekki treystandi til að þegja yfir trúnaðarupplýsingum uppgötva kannski að fólk hikar við að ræða einkamál sín við þá. Það er miklu betra að fara eftir innblásnum leiðbeiningum í bréfi Páls: „Leggið metnað ykkar við að lifa kyrrlátu lífi og stunda hvert sitt starf.“ (1. Þess. 4:11) Öldungar safnaðarins geta þó stöku sinnum þurft að spyrja fólk út í einkamál til að rækja skyldustörf sín. Þá er mikils metið að við séum samvinnuþýð og segjum satt og rétt frá. — 1. Pét. 5:2.

Sannsögli í fjölskyldunni

8. Hvernig styrkjum við fjölskylduböndin með því að vera opinská?

8 Yfirleitt er það fjölskyldan sem við eigum nánustu tengslin við. Til að styrkja böndin er mikilvægt að vera sannsögul hvert við annað. Hægt er að draga úr alls konar vandamálum og fyrirbyggja misskilning með því að vera opinská, heiðarleg og vingjarnleg í öllum samskiptum. Erum við treg til að viðurkenna mistök okkar fyrir makanum, börnunum eða öðrum nánum ættingjum? Við stuðlum að friði og einingu í fjölskyldunni með því að biðjast innilega afsökunar. — Lestu 1. Pétursbréf 3:8-10.

9. Er nokkurn tíma réttlætanlegt að vera ónærgætinn og hranalegur?

9 En þó að við séum sannsögul þurfum við ekki að vera ónærgætin eða tillitslaus. Við aukum ekki vægi eða áhrif orða okkar með því að vera hranaleg. Páll sagði: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“ (Ef. 4:31, 32) Við styrkjum það sem við segjum með því að vera vingjarnleg og sýna viðmælanda okkar virðingu. — Matt. 23:12.

Sannsögli í söfnuðinum

10. Hvað geta safnaðaröldungar lært af frábæru fordæmi Jesú?

10 Jesús var hreinn og beinn við lærisveina sína. Hann var alltaf kærleiksríkur þegar hann gaf þeim ráð en gætti þess engu að síður að útvatna ekki sannleikann til að þóknast áheyrendum. (Jóh. 15:9-12) Þegar postularnir deildu um það aftur og aftur hver þeirra væri mestur kenndi hann þeim með þolinmæði en festu að þeir þyrftu að vera hógværir. (Mark. 9:33-37; Lúk. 9:46-48; 22:24-27; Jóh. 13:14) Safnaðaröldungar líkja eftir Kristi með því að drottna ekki yfir hjörðinni en hvika þó ekki frá því sem er rétt. (Mark. 10:42-44) Þeir eru ‚góðviljaðir hver við annan‘ og ‚miskunnsamir‘ í garð annarra.

11. Hvernig notum við tunguna ef við elskum trúsystkini okkar?

11 Við getum verið hreinskilin og sagt trúsystkinum hvað okkur býr í brjósti án þess að vera móðgandi. Ekki viljum við að tunga okkar sé eins og „beittur hnífur“. Við viljum ekki beita henni þannig að við særum aðra með meiðandi og niðrandi orðum. (Sálm. 52:4; Orðskv. 12:18) Ef við elskum trúsystkini okkar ‚varðveitum við tunguna frá illu og varir okkar frá svikatali‘. (Sálm. 34:14) Þá heiðrum við Guð og stuðlum að einingu í söfnuðinum.

12. Hvenær getur lygi þurft að koma til kasta dómnefndar? Skýrðu svarið.

12 Öldungar leggja sig í líma við að vernda söfnuðinn gegn fólki sem fer með illgjarnar lygar. (Lestu Jakobsbréfið 3:14-16.) Sá sem fer með illgjarnar lygar ætlar sér að gera öðrum mein. Hann vill valda skaða eða sársauka. Það er annað og meira en örlítið villandi staðhæfingar eða ýkjur. Auðvitað er alltaf rangt að ljúga en ósannsögli er ekki alltaf þess eðlis að skipa þurfi dómnefnd. Öldungar þurfa því að vera yfirvegaðir, sanngjarnir og sýna góða dómgreind þegar þeir meta hvort sá sem sagði eitthvað ósatt er búinn að venja sig á að fara vísvitandi með illgjarnar lygar að því marki að það kalli á meðferð dómnefndar. Stundum nægir að veita skýra, ákveðna og kærleiksríka áminningu með hjálp Biblíunnar.

Sannsögli í atvinnulífinu

13, 14. (a) Hvaða dæmi eru um óheiðarleika gagnvart atvinnurekendum? (b) Hvað getur hlotist af því að vera heiðarlegur og sannsögull á vinnustað?

13 Þar sem óheiðarleiki er í algleymingi umhverfis okkur getur verið freistandi að vera ekki fyllilega heiðarlegur við vinnuveitanda. Margir segja hreint og beint ósatt þegar þeir sækja um vinnu. Þegar þeir semja ferilskrána ýkja þeir kannski starfsreynslu sína eða menntun í von um að fá betri vinnu eða hærri laun. Oft þykjast starfsmenn vera að vinna en eru í rauninni að sinna einkamálum, þó að það sé bannað samkvæmt reglum fyrirtækisins. Kannski eru þeir að lesa efni sem kemur vinnunni ekkert við, sinna einkamálum í síma, senda smáskilaboð og tölvupóst eða vafra á Netinu.

14 Sannkristnir menn eru ekki þeirrar skoðunar að það sé valfrjálst að vera heiðarlegur og sannsögull. (Lestu Orðskviðina 6:16-19.) Páll sagðist vilja breyta vel og heiðarlega í öllum greinum. (Hebr. 13:18) Kristinn maður skilar því vinnuveitanda sínum fullu dagsverki fyrir full daglaun. (Ef. 6:5-8) Við getum líka verið föðurnum á himnum til lofs með því að vera samviskusamir starfsmenn. (1. Pét. 2:12) Roberto býr á Spáni. Vinnuveitandi hans hrósaði honum fyrir að vera heiðarlegur og ábyrgur starfsmaður. Góð breytni Robertos varð til þess að fyrirtækið réð fleiri votta í vinnu. Þeir reyndust líka prýðilegir starfsmenn. Með tímanum útvegaði Roberto 23 skírðum bræðrum og 8 biblíunemendum vinnu.

15. Hvernig ætti kristinn maður sem stundar viðskipti að sýna að hann er sannsögull?

15 Ef við erum með eigin atvinnurekstur erum við þá sannsögul í öllum viðskiptum eða kemur fyrir að við tölum ekki sannleika við náungann? Kristinn maður ætti ekki að „fegra“ vöru eða þjónustu sem hann selur, í þeim tilgangi að greiða fyrir viðskiptum, og hann ætti ekki heldur að bjóða eða þiggja mútur. Við viljum koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. — Orðskv. 11:1; Lúk. 6:31.

Sannsögli gagnvart yfirvöldum

16. Hvað gjalda kristnir menn (a) yfirvöldum? (b) Jehóva?

16 Jesús sagði: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ (Matt. 22:21) Hvað eigum við að gjalda keisaranum, það er að segja yfirvöldum? Þegar Jesús sagði þetta var hann að svara spurningu um greiðslu skatta. Til að varðveita hreina samvisku fyrir Guði og mönnum hlýða kristnir menn landslögum, þar á meðal skattalögum. (Rómv. 13:5, 6) En við viðurkennum líka að Jehóva er alvaldur Drottinn, hinn eini sanni Guð, og við elskum hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Mark. 12:30; Opinb. 4:11) Þess vegna gjöldum við líka Jehóva Guði það sem honum ber, það er að segja skilyrðislausa undirgefni. — Lestu Sálm 86:11, 12.

17. Hvernig líta þjónar Jehóva á fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera?

17 Víða um lönd er félagsleg aðstoð í boði fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Það er ekkert athugavert við það að kristinn maður þiggi slíka aðstoð — að því gefnu að hann eigi rétt á henni. Sá sem talar sannleika við náungann gefur yfirvöldum ekki rangar eða villandi upplýsingar til að fá fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera.

Sannsögli er til blessunar

18-20. Hvaða blessun hefur það í för með sér að tala sannleika við náungann?

18 Sannsögli er til blessunar á marga vegu. Við varðveitum hreina samvisku og það gefur okkur hugarró og innri frið. (Orðskv. 14:30; Fil. 4:6, 7) Hrein samviska er ákaflega mikils virði í augum Guðs. Og þegar við erum heiðarleg og sannsögul í einu og öllu þurfum við ekki að lifa í stöðugum ótta um að það komist upp um okkur. — 1. Tím. 5:24.

19 Lítum á aðra blessun sem fylgir því að vera sannsögull. Páll sagði: „Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs . . . með orði sannleikans.“ (2. Kor. 6:4, 7) Þetta var reynsla bróður nokkurs í Bretlandi. Hann var að reyna að selja bíl og lýsti öllum kostum hans og göllum fyrir væntanlegum kaupanda, einnig göllum sem ekki sáust við fyrstu sýn. Eftir að hafa prófað bílinn spurði kaupandinn bróðurinn hvort hann væri vottur Jehóva. Af hverju dró hann þá ályktun? Hann hafði veitt því athygli að bróðirinn var heiðarlegur og snyrtilega til fara. Í framhaldi af þessu fékk bróðirinn gott tækifæri til að vitna fyrir manninum.

20 Erum við líka skapara okkar til sóma með því að vera alltaf heiðarleg og sannsögul? Páll sagði: „Ég hafna allri skammarlegri launung, ég beiti ekki klækjum.“ (2. Kor. 4:2) Við skulum því leggja okkur öll fram um að tala sannleika við náungann. Þá heiðrum við föður okkar á himnum og söfnuð hans.

Hvert er svarið?

• Hver er náungi okkar?

• Hvað merkir það að tala sannleika við náungann?

• Hvernig getum við verið Guði til sóma með því að vera sannsögul?

• Hvaða blessun hefur það í för með sér að vera sannsögull?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 17]

Viðurkennirðu fúslega minni háttar mistök?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Ertu sannsögull þegar þú sækir um vinnu?