Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúi ráðsmaðurinn og hið stjórnandi ráð

Trúi ráðsmaðurinn og hið stjórnandi ráð

Trúi ráðsmaðurinn og hið stjórnandi ráð

„Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?“ — LÚK. 12:42.

1, 2. Hvaða mikilvægu spurningu varpaði Jesús fram þegar hann lýsti tákni hinna síðustu daga?

„HVER er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?“ spurði Jesús þegar hann lýsti samsettu tákni hinna síðustu daga. Hann bætti síðan við að húsbóndinn myndi umbuna þjóninum trúmennskuna með því að setja hann yfir allar eigur sínar. — Matt. 24:45-47.

2 Jesús hafði varpað fram svipaðri spurningu nokkrum mánuðum áður. (Lestu Lúkas 12:42-44.) Þá kallaði hann þjóninn ‚ráðsmann‘. Ráðsmaður hefur það hlutverk að standa fyrir búi og veita hjúum eða þjónum forstöðu. En ráðsmaðurinn er líka þjónn. Hver er þessi þjónn eða ráðsmaður og hvernig gefur hann „mat á réttum tíma“? Það er mikilvægt fyrir okkur öll að vita hvaða farvegur er notaður til að útbýta andlegri fæðu.

3. (a) Hvernig hafa biblíuskýrendur í kristna heiminum reynt að skýra orð Jesú um ‚þjóninn‘? (b) Hver er ‚ráðsmaðurinn‘ eða ‚þjónninn‘ og hver eru ‚hjúin‘?

3 Biblíuskýrendur í kristna heiminum líta gjarnan svo á að Jesús hafi átt við þá sem fara með ábyrgðarstöður í trúfélögum kristna heimsins. En Jesús, sem er „húsbóndinn“ í dæmisögunni, sagði ekki að hann myndi eiga fullt af þjónum sem væru dreifðir meðal ýmissa sértrúarflokka kristna heimsins. Hann sagði greinilega að hann myndi setja aðeins einn „þjón“ eða „ráðsmann“ yfir allar eigur sínar. Eins og oft hefur verið bent á í þessu tímaritið hlýtur ráðsmaðurinn að tákna „litla hjörð“ andasmurðra lærisveina hans í heild. Í Lúkasarguðspjalli var Jesús nýbúinn að ávarpa þennan hóp þegar hann minnist á ráðsmanninn. (Lúk. 12:32) Þegar talað er um ‚hjúin‘ er átt við sama hópinn en þá er lögð áhersla á hlutverk einstaklinganna í hópnum. Þetta vekur áhugaverða spurningu: Taka allir sem mynda þennan þjónshóp þátt í að útbýta andlegri fæðu á réttum tíma? Svarið kemur í ljós þegar við skoðum vandlega orð Biblíunnar.

Þjónn Jehóva til forna

4. Hvað kallaði Jehóva Ísraelsþjóðina og hverju er mikilvægt að taka eftir?

4 Jehóva talaði um Ísraelsmenn, þjóð sína til forna, sem þjón. „Þér [fleirtala] eruð vottar mínir [fleirtala], segir Drottinn, þjónn minn [eintala] sem ég hef útvalið.“ (Jes. 43:10) Allir sem tilheyrðu þjóðinni mynduðu sameiginlega einn þjón. Hins vegar er mikilvægt að taka eftir að þeir einu sem höfðu það verkefni að kenna þjóðinni voru prestar og aðrir Levítar. — 2. Kron. 35:3; Mal. 2:7.

5. Hvaða breyting átti að eiga sér stað, að sögn Jesú?

5 Var Ísraelsþjóðin sá þjónn sem Jesús átti við í dæmisögu sinni? Nei, við vitum það vegna þess að Jesús sagði við Gyðinga síns tíma: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ (Matt. 21:43) Ljóst er að breyting var í vændum því að Jehóva ætlaði sér að nota nýja þjóð. Engu að síður átti þjónninn í dæmisögu Jesú að hafa svipað hlutverk og „þjónn“ Guðs í Ísrael til forna hvað varðar fræðslu um vilja Jehóva.

Trúi þjónninn kemur fram

6. Hvaða nýja þjóð varð til á hvítasunnu árið 33 og hverjir tilheyrðu henni?

6 Nýja þjóðin, „Ísrael Guðs“, er mynduð af andlegum Ísraelsmönnum. (Gal. 6:16; Rómv. 2:28, 29; 9:6) Hún varð til þegar heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33. Þaðan í frá urðu allir andasmurðir kristnir menn hluti af þjóðinni sem húsbóndinn, Jesús Kristur, hafði nú skipað í þjónshlutverk. Allir sem mynduðu þjóðina fengu það verkefni að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) En áttu allir í hópnum að útbýta andlegri fæðu á réttum tíma? Við skulum kanna hvernig þessari spurningu er svarað í Biblíunni.

7. Hvert var meginverkefni postulanna í byrjun en hvernig var það síðar útvíkkað?

7 Þegar Jesús útnefndi postulana 12 sendi hann þá til að boða fagnaðarerindið enda var það aðalverkefni þeirra. (Lestu Markús 3:13-15.) Það var í samræmi við aðalmerkingu gríska orðsins apostolos en það er dregið af sögn sem merkir einfaldlega „að senda“. Þegar fram liðu stundir og það kom að því að stofna kristna söfnuðinn varð postulahlutverkið hins vegar að „umsjónarembætti“. — Post. 1:20-26, NW.

8, 9. (a) Hvað var postulunum 12 efst í huga? (b) Hverjum var falin aukin ábyrgð sem hið stjórnandi ráð staðfesti?

8 Hvað var postulunum 12 efst í huga? Það má sjá af atburðum sem áttu sér stað eftir hvítasunnu. Þegar deila kom upp um daglega úthlutun matar til ekkna kölluðu postularnir 12 saman lærisveinana og sögðu: „Ekki hæfir að við hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.“ (Lestu Postulasöguna 6:1-6.) Postularnir útnefndu aðra hæfa bræður til að sinna þessu nauðsynlega starfi þannig að þeir gætu sjálfir helgað sig „þjónustu orðsins“. Jehóva blessaði þessa ráðstöfun og „orð Guðs breiddist út og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi“. (Post. 6:7) Það hlutverk að dreifa andlegri fæðu hvíldi því aðallega á postulunum. — Post. 2:42.

9 Með tímanum voru öðrum falin alvarleg ábyrgðarstörf. Það var eftir leiðsögn heilags anda að Páll og Barnabas voru sendir sem trúboðar frá söfnuðinum í Antíokkíu. Þeir voru líka kallaðir postular enda þótt þeir hafi ekki verið taldir meðal postulanna 12. (Post. 13:1-3; 14:14; Gal. 1:19) Hið stjórnandi ráð í Jerúsalem staðfesti útnefningu þeirra. (Gal. 2:7-10) Skömmu síðar fékk Páll það verkefni að útbýta andlegri fæðu þegar hann skrifaði fyrsta innblásna bréfið.

10. Tóku allir hinna andasmurðu á fyrstu öld þátt í að útbúa andlegu fæðuna? Skýrðu svarið.

10 En höfðu allir hinna andasmurðu umsjón með boðunarstarfinu? Tóku þeir allir þátt í að útbúa andlegu fæðuna? Nei, Páll postuli spyr: „Geta allir verið postular? Eru allir spámenn? Eru allir kennarar? Eru allir kraftaverkamenn?“ (1. Kor. 12:29) Þó að allir andagetnir kristnir menn hafi boðað fagnaðarerindið voru örfáir — nánar tiltekið átta — látnir skrifa hinar 27 bækur Grísku ritninganna.

Trúi þjónninn á okkar dögum

11. Yfir hvaða „eigur“ var þjónninn settur?

11 Af orðum Jesú í Matteusi 24:45 er auðséð að það yrði enn þá trúr og hygginn þjónshópur á jörðinni þegar kæmi fram á endalokatímann. Í Opinberunarbókinni 12:17 eru þeir sem eru í þessum hópi kallaðir ‚aðrir afkomendur‘ konu Guðs. Sem hópur hafa þeir verið settir yfir allar eigur Krists hér á jörð. ‚Eigurnar‘, sem trúa ráðsmanninum er falið að annast, eru hagsmunir konungsins á jörð, þar á meðal jarðneskir þegnar Guðsríkis og efnislegar eignir sem notaðar eru til að boða fagnaðarerindið.

12, 13. Hvernig veit kristinn maður að hann hafi fengið köllun til himna?

12 Hvernig veit kristinn maður hvort hann hefur himneska von og tilheyrir hópi þeirra sem eftir eru af andlegu Ísraelsþjóðinni? Svarið er að finna í orðum Páls postula til annarra sem áttu sömu himnesku vonina og hann: „Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: ‚Abba, faðir.‘ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.“ — Rómv. 8:14-17.

13 Þessir einstaklingar eru með öðrum orðum smurðir heilögum anda Guðs og fá „köllun“ eða boð til himna. (Hebr. 3:1) Þetta er persónulegt boð frá Guði og þeir þiggja það tafarlaust. Þeir eru óhræddir og efast ekki um að þeir hafi verið getnir sem börn Guðs. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:20, 21.) Þeir velja sér ekki þessa von sjálfir heldur setur Jehóva á þá innsigli sitt, heilagan anda. — 2. Kor. 1:21, 22; 1. Pét. 1:3, 4.

Rétta sjónarmiðið

14. Hvernig líta hinir andasmurðu á köllun sína?

14 Hvaða augum eiga hinir andasmurðu að líta á sjálfa sig meðan þeir bíða launanna á himnum? Þeir vita að enda þótt þeir hafi fengið stórfenglegt boð er það aðeins boð. Þeir verða að vera trúir allt til dauða til að hljóta launin. Þeir eru auðmjúkir og taka undir með Páli sem sagði: „Ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.“ (Fil. 3:13, 14) Þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu þurfa að gera sitt ýtrasta til að ‚hegða sér svo sem samboðið er þeirri köllun sem þeir hafa hlotið og vera í hvívetna lítillátir‘. Þeir gera það „með ugg og ótta“. — Ef. 4:1, 2; Fil. 2:12; 1. Þess. 2:12.

15. Hvernig ætti að líta á þá sem taka af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni og hvernig líta hinir andasmurðu á sjálfa sig?

15 En hvernig ættu aðrir í söfnuðinum að líta á þá sem segjast hafa hlotið andasmurningu og byrja að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni? Enginn ætti að dæma viðkomandi. Þetta mál er á milli hans og Jehóva. (Rómv. 14:12) En þeir sem hafa í raun og veru fengið andasmurningu krefjast ekki sérstakrar athygli. Þeir telja sig ekki hafa sérstakan skilning umfram reynda einstaklinga af múginum mikla þó að þeir séu andasmurðir. (Opinb. 7:9) Þeir eru ekki þeirrar skoðunar að þeir hljóti að hafa fengið drýgri skammt af heilögum anda en félagar þeirra af hópi annarra sauða. (Jóh. 10:16) Þeir vænta þess ekki að fá sérstaka meðferð af því að þeir neyta af brauðinu og víninu og þeir telja sig ekki yfir safnaðaröldungana hafna.

16-18. (a) Eiga allir hinir andasmurðu þátt í að koma á framfæri nýjum andlegum sannindum? Lýstu með dæmi. (b) Af hverju þarf hið stjórnandi ráð ekki að ráðfæra sig við alla sem neyta af brauðinu og víninu?

16 Mynda allir hinir andasmurðu í heiminum tengslanet til að eiga með einhverjum hætti þátt í að opinbera ný andleg sannindi? Nei, þó svo að þjónshópurinn sem heild hafi það verkefni að útbýta andlegri fæðu til hinna andasmurðu hafa ekki allir sama hlutverk eða sömu verkefni. (Lestu 1. Korintubréf 12:14-18.) Eins og áður hefur komið fram tóku allir þátt í hinu mikilvæga boðunarstarfi á fyrstu öld. Aðeins örfáir höfðu hins vegar það verkefni að skrifa biblíubækurnar og hafa umsjón með kristna söfnuðinum.

17 Lýsum þessu með dæmi: Stundum er komist svo að orði að ‚söfnuðurinn‘ grípi til vissra aðgerða í dómsmálum. (Matt. 18:17) Í reynd eru það þó aðeins öldungarnir sem grípa til þessara aðgerða fyrir hönd safnaðarins. Öldungarnir hafa ekki samband við alla í söfnuðinum til að spyrja þá álits áður en þeir taka ákvörðun. Þeir gegna því hlutverki sem þeim er falið samkvæmt fyrirkomulagi Guðs og koma þá fram fyrir hönd alls safnaðarins.

18 Á svipaðan hátt er það takmarkaður hópur andasmurðra karlmanna sem hefur það hlutverk nú á tímum að koma fram fyrir hönd þjónshópsins. Þeir skipa hið stjórnandi ráð Votta Jehóva. Þessir andasmurðu menn hafa umsjón með boðunarstarfinu og því að deila út andlegu fæðunni. En hið stjórnandi ráð ráðfærir sig ekki við alla sem mynda þjónshópinn áður en það tekur ákvarðanir, ekki frekar en gert var á fyrstu öld. (Lestu Postulasöguna 16:4, 5.) Allir andasmurðir vottar vinna þó af kappi að hinni mikilvægu uppskeru sem er í gangi núna. Sem hópur er hinn „trúi og hyggni þjónn“ ein heild en einstaklingarnir, sem mynda hann, hafa ólík verkefni. — 1. Kor. 12:19-26.

19, 20. Hvernig lítur múgurinn mikli á ‚trúa og hyggna þjóninn‘ og hið stjórnandi ráð?

19 Hvaða áhrif ættu þessar staðreyndir að hafa á múginn mikla sem á þá von að hljóta eilíft líf á jörð? Þeir sem mynda múginn eru hluti af eigum húsbóndans og styðja fúslega allar ráðstafanir sem hið stjórnandi ráð gerir. Þeir eru þakklátir fyrir andlegu fæðuna sem er útbúin undir umsjón hins stjórnandi ráðs, fulltrúa ‚trúa og hyggna þjónsins‘. En þó þeir virði þjóninn sem hóp gæta þeir þess að upphefja engan sem telur sig vera hluta af þessum þjóni. Enginn kristinn maður, sem hefur fengið smurningu anda Guðs, vill eða býst við slíkri meðferð. — Post. 10:25, 26; 14:14, 15.

20 Hvort sem við erum „hjú“ og tilheyrum hópi hinna andasmurðu eða erum af múginum mikla skulum við vera staðráðin í að vinna af heilum hug með trúa ráðsmanninum og hinu stjórnandi ráði. Við skulum öll halda vöku okkar og vera trúföst allt til enda. — Matt. 24:13, 42.

Manstu?

• Hver er hinn „trúi og hyggni þjónn“ og hver eru hjúin?

• Hvernig veit þjónn Guðs að hann hefur fengið köllun til himna?

• Hver hefur öðrum fremur það verkefni að útbúa nýja andlega fæðu?

• Hvernig eiga þeir sem eru andasmurðir að líta á sjálfa sig?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hið stjórnandi ráð er fulltrúi trúa og hyggna þjónsins nú á dögum. Svipað fyrirkomulag var á fyrstu öldinni.