Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samvinna stuðlar að framförum í trúnni

Samvinna stuðlar að framförum í trúnni

Samvinna stuðlar að framförum í trúnni

ÞAÐ er nauðsynlegt fyrir hjón að vinna vel saman ef þau vilja kenna börnum sínum að elska Jehóva og tilbiðja hann. Þegar Jehóva skapaði fyrstu hjónin lagði hann áherslu á samvinnu. Eva átti að vinna með Adam og vera „meðhjálp“ hans. (1. Mós. 2:18) Hjónaband ætti að byggjast á samvinnu og hjónin ættu að styðja hvort annað. (Préd. 4:9-12) Foreldrar og börn þurfa líka að vinna vel saman svo að þau geti gert góð skil því hlutverki sem Jehóva hefur falið þeim í fjölskyldunni.

Biblíunám fjölskyldunnar

Barry og Heidi eiga fimm börn. Þeim finnst það hjálpa sér að taka framförum þegar þau vinna saman að því að tryggja að biblíunám fjölskyldunnar falli ekki niður. Barry segir: „Ég læt börnin stundum fá einföld verkefni til að undirbúa fyrir biblíunámsstund fjölskyldunnar. Stundum bið ég þau að gera útdrátt úr greinum sem birst hafa í Vaknið! Við æfum líka það sem við ætlum að segja í boðunarstarfinu þannig að öll börnin muni kynningarorðin.“ Heidi bætir við: „Við höfum öll skrifað niður nokkur markmið sem við viljum ná í þjónustunni við Jehóva. Öðru hverju notum við biblíunámsstundina til að fara saman yfir þessi markmið og sjá hvaða framförum við höfum tekið.“ Þessi hjón hafa líka slökkt á sjónvarpinu ákveðin kvöld og finnst það gefa öllum í fjölskyldunni tækifæri til að einbeita sér að lestri.

Safnaðarsamkomur

Mike og Denise hafa alið upp fjögur börn. Hvernig nýttist góð samvinna fjölskyldu þeirra? Mike segir: „Oft var það svo að bestu áform gengu ekki upp en góð samvinna hjálpaði okkur að vera komin tímanlega á samkomur.“ Denise segir: „Þegar börnin voru að alast upp höfðu þau öll verkefni á heimilinu. Dóttir okkar Kim hjálpaði til við eldamennskuna og lagði á borð.“ Michael, sonur þeirra, segir: „Á þriðjudagskvöldum var samkoma heima hjá okkur svo að við tókum til í stofunni, ryksuguðum gólfið og röðuðum upp stólunum.“ Annar sonur þeirra, Matthew, bætir við: „Pabbi passaði upp á að vera kominn snemma heim úr vinnu á samkomukvöldum til að sjá til þess að allir væru tilbúnir á réttum tíma fyrir samkomuna.“ Hver hefur árangurinn verið?

Það er erfiðisins virði

Mike segir: „Við Denise gerðumst brautryðjendur árið 1987. Á þeim tíma bjuggu þrjú barna okkar enn heima. Tvö þeirra gerðust líka brautryðjendur og hin hafa unnið við byggingarframkvæmdir á Betel. Annað sem hefur glatt okkur fjölskylduna er að við höfum getað hjálpað 40 einstaklingum að verða hæfir til að vígjast Guði og skírast. Okkur hefur líka hlotnast sá heiður að vinna saman sem fjölskylda við byggingarframkvæmdir á vegum safnaðarins, meira að segja erlendis.“

Já, samvinna innan fjölskyldunnar er erfiðisins virði. Getið þið unnið meira saman sem fjölskylda? Þið megið vera viss um að góð samvinna hjálpar ykkur að taka meiri framförum í trúnni.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Það getur stuðlað að framförum í boðunarstarfinu að æfa kynningarorðin.