Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“

„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“

„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“

„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf.“ — JÚD. 21.

1, 2. Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann elskar okkur, og hvernig vitum við það er ekki sjálfgefið að Jehóva láti kærleika sinn varðveita okkur?

JEHÓVA GUÐ hefur sýnt okkur kærleika sinn á ótal vegu. Sterkasta sönnun þess að hann elski okkur er þó lausnarfórnin. Kærleikur hans til manna er svo mikill að hann sendi ástkæran son sinn til jarðar til að deyja í okkar þágu. (Jóh. 3:16) Jehóva gerði þetta vegna þess að hann vill að við getum lifað að eilífu og að við getum notið góðs af kærleika hans að eilífu.

2 En getum við gengið að því sem gefnum hlut að Jehóva láti kærleika sinn varðveita okkur, hvað sem við gerum? Nei, því að í 21. versi Júdasarbréfsins segir: „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf.“ Með orðinu „látið“ er gefið til kynna að við þurfum að gera eitthvað sjálf. En hvað þurfum við að gera til að láta kærleika Guðs varðveita okkur?

Hvernig getum við látið kærleika Guðs varðveita okkur?

3. Hvað sagði Jesús að hann þyrfti að gera til að kærleikur föðurins varðveitti hann?

3 Við fáum svar við þessari spurningu í orðum Jesú nóttina áður en hann dó. Hann sagði: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ (Jóh. 15:10, Biblían 1981) Jesús vissi greinilega að það var nauðsynlegt að halda boðorð föðurins til að eiga velþóknun hans. Fyrst sú var raunin hjá fullkomnum syni Guðs, hlýtur þá ekki hið sama að gilda um okkur?

4, 5. (a) Hvernig getum við fyrst og fremst sýnt að við elskum Jehóva? (b) Af hverju höfum við enga ástæðu til að hafa óbeit á því að hlýða lögum Jehóva?

4 Við sýnum að við elskum Jehóva fyrst og fremst með því að vera honum hlýðin. Jóhannes postuli lýsti þessu svona: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóh. 5:3) Margir í heimi nútímans hafa andúð á því að hlýða. En tökum eftir því sem Jóhannes sagði: „Boðorð hans eru ekki þung.“ Jehóva er ekki að biðja okkur um að gera eitthvað sem er of erfitt fyrir okkur.

5 Tökum dæmi. Myndirðu biðja góðan vin um að bera eitthvað sem væri of þungt fyrir hann? Auðvitað ekki. Jehóva er langtum fremri okkur í að sýna góðvild og skilur takmörk okkar miklu betur en við. Í Biblíunni erum við fullvissuð um að Jehóva „minnist þess að vér erum mold“. (Sálm. 103:14) Hann myndi aldrei fara fram á meira en við getum gert. Við höfum því enga ástæðu til að hafa óbeit á því að hlýða lögum Jehóva. Við gerum okkur öllu heldur ljóst hvaða frábæra tækifæri þetta gefur okkur — að sýna himneskum föður okkar að við elskum hann einlæglega og viljum láta kærleika hans varðveita okkur.

Einstök gjöf frá Jehóva

6, 7. (a) Hvað er samviska? (b) Lýstu hvernig samviskan getur hjálpað okkur að láta kærleika Guðs varðveita okkur.

6 Í þessum flókna heimi þurfum við að taka margar ákvarðanir sem snerta hlýðni okkar við Guð. Hvernig getum við verið viss um að þessar ákvarðanir séu í samræmi við vilja hans? Jehóva hefur gefið okkur gjöf sem getur hjálpað okkur við það — samviskuna. En hvað er samviska? Þetta er sérstakur hæfileiki sem gerir okkur kleift að vera meðvituð um sjálf okkur. Samviskan er eins og innri dómari sem lítur á þær ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir eða þær sem við höfum þegar tekið og metur hvort þær séu góðar eða slæmar, réttar eða rangar. — Lestu Rómverjabréfið 2:14, 15.

7 Hvernig getur samviskan komið okkur að gagni? Ímyndum okkur göngumann sem fer um óbyggðir. Þar er engin slóð, enginn vegur og enginn vegvísir. En hann kemst samt á leiðarenda án nokkurra vandkvæða. Hvernig fer hann að því? Hann er með áttavita. Á skífu áttavitans eru merktar höfuðáttirnar fjórar og ofan á skífunni liggur segulnál sem vísar í norðurátt. Án áttavitans væri þessi göngumaður rammvilltur. Á svipaðan hátt mætti segja að sá sem er án samvisku sé í raun rammvilltur þegar hann reynir að taka siðferðilega réttar ákvarðanir í lífinu.

8, 9. (a) Hvað þurfum við að hafa í huga í sambandi við samviskuna? (b) Hvað getum við gert svo að samviskan reynist okkur nytsamleg?

8 En áttavitinn er ekki óskeikull og samviskan ekki heldur. Ef göngumaðurinn myndi setja segul í nánd við áttavitann myndi nálin vísa í aðra átt en norður. Hvað myndi gerast ef við leyfðum löngunum hjartans að stýra ákvörðunum okkar? Eigingjarnar tilhneigingar gætu brenglað samviskuna. Í Biblíunni er að finna þessi varnaðarorð: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert.“ (Jer. 17:9; Orðskv. 4:23) Ef göngumaðurinn hefði auk þess ekki nákvæmt og áreiðanlegt kort myndi áttavitinn ekki koma að miklu gagni. Það er sömuleiðis óvíst að samviskan komi okkur að miklu gagni ef við reiðum okkur ekki á trausta og óhagganlega leiðsögn orðs Guðs, Biblíunnar. (Sálm. 119:105) Því miður láta margir stjórnast af löngunum hjartans og gefa siðferðisreglum Biblíunnar lítinn sem engan gaum. (Lestu Efesusbréfið 4:17-19.) Þess vegna fremja svo margir rangindi þótt þeir hafi samvisku. — 1. Tím. 4:2.

9 Við skulum vera staðráðin í því að verða aldrei þannig heldur skulum við láta orð Guðs fræða og þjálfa samviskuna svo að hún reynist okkur nytsamleg. Við verðum að hlusta á biblíufrædda samvisku okkar í stað þess að láta eigingjarnar langanir ná yfirhöndinni. Samhliða því ættum við að leggja okkur fram um að virða samvisku trúsystkina okkar. Við gerum allt sem við getum til að hneyksla þau ekki og höfum í huga að samviska þeirra gæti verið vandlátari eða viðkvæmari en okkar eigin. — 1. Kor. 8:12; 2. Kor. 4:2; 1. Pét. 3:16.

10. Hvaða þrjú atriði munum við nú skoða?

10 Við skulum nú líta á þrennt sem við getum gert til að sýna að við elskum Jehóva. Samviskan kemur við sögu á öllum þessum sviðum en til þess að hún virki rétt þarf hún auðvitað að mótast af innblásnum hegðunarreglum Biblíunnar. Við getum sýnt Jehóva að við elskum hann og viljum hlýða honum með því að (1) elska þá sem Jehóva elskar, (2) sýna virðingu fyrir yfirvaldi og (3) leitast við að vera hrein í augum Jehóva.

Elskum þá sem Jehóva elskar

11. Af hverju ættum við að elska þá sem Jehóva elskar?

11 Í fyrsta lagi verðum við að elska þá sem Jehóva elskar. Fólk er að vissu leyti eins og svampur. Það hefur tilhneigingu til að drekka í sig hvaðeina sem það kemst í snertingu við. Skaparinn veit mætavel að ófullkomnir menn geta bæði orðið fyrir góðum og slæmum áhrifum af félögum sínum. Þess vegna gefur hann okkur þetta góða ráð: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskv. 13:20; 1. Kor. 15:33) Enginn vill að ‚illa fari fyrir sér‘ heldur viljum við öll ‚verða vitur‘. Jehóva getur ekki orðið vitrari en hann er og enginn getur spillt honum. Samt sem áður er hann okkur frábært fordæmi í vali sínu á vinum. Veltu fyrir þér hvaða ófullkomnu menn Jehóva gerir að vinum sínum.

12. Hvers konar vini velur Jehóva sér?

12 Jehóva kallaði ættföðurinn Abraham vin sinn. (Jes. 41:8) Þessi maður sýndi einstaka trúfesti, hlýðni og réttvísi — hann lifði samkvæmt trú sinni. (Jak. 2:21-23) Jehóva laðast að einstaklingum með þess konar eiginleika og hann vingast við slíkt fólk enn þann dag í dag. Fyrst hann velur sér slíka vini, ættum við þá ekki líka að vanda valið og ‚eiga samneyti við vitra menn og verða vitur‘?

13. Hvað getur hjálpað okkur að velja góða vini?

13 Hvað getur hjálpað þér við val á vinum? Við getum lært margt af vináttu fólks sem talað er um í Biblíunni. Tökum sem dæmi vinskapinn milli Rutar og Naomí, tengdamóður hennar, milli Davíðs og Jónatans eða Tímóteusar og Páls. (Rut. 1:16, 17; 1. Sam. 23:16-18; Fil. 2:19-22) Vinátta þeirra dafnaði fyrst og fremst vegna þess að hún byggðist á kærleika til Jehóva. Geturðu fundið vini sem elska Jehóva eins mikið og þú gerir? Já, þú finnur þess konar fólk í kristna söfnuðinum. Slíkir vinir munu ekki hvetja þig til að gera neitt sem myndi misbjóða Jehóva heldur hjálpa þér að hlýða honum, styrkja sambandið við hann og ‚sá í andann‘. (Lestu Galatabréfið 6:7, 8.) Þeir munu hjálpa þér að láta kærleika Guðs varðveita þig.

Sýnum virðingu fyrir yfirvaldi

14. Af hverju eigum við stundum erfitt með að sýna virðingu fyrir yfirvaldi?

14 Til að sýna Jehóva að við elskum hann verðum við í öðru lagi að sýna virðingu fyrir yfirvaldi. Af hverju eigum við stundum erfitt með að gera það? Meðal annars af því að þeir sem fara með yfirráð eru ófullkomnir. Við erum auk þess sjálf ófullkomin og eigum í baráttu við meðfædda tilhneigingu til að gera uppreisn.

15, 16. (a) Af hverju verðum við að virða þá sem Jehóva hefur falið að sjá um fólk sitt? (b) Hvaða dýrmæta lærdóm getum við dregið af því hvernig Jehóva leit á uppreisn Ísraelsmanna gegn Móse?

15 Þú gætir því velt fyrir þér hvers vegna við verðum að sýna virðingu fyrir yfirvaldi fyrst það er svona erfitt fyrir okkur. Svarið snýst um deilumálið um drottinvald. Hvaða stjórnanda velur þú þér? Ef við veljum Jehóva verðum við að virða yfirvald hans. Ef við gerum það ekki, gætum við þá í raun sagt að við lútum stjórn hans? Jehóva birtir oft drottinvald sitt fyrir milligöngu ófullkominna manna sem hann treystir fyrir fólki sínu. Hvernig myndi Jehóva líta á það ef við gerðum uppreisn gegn þessum mönnum? — Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.

16 Þegar Ísraelsmenn mögluðu og gerðu uppreisn gegn Móse leit Jehóva á það eins og uppreisn gegn sér. (4. Mós. 14:26, 27) Hann hefur ekki breyst. Ef við myndum rísa upp gegn þeim sem hann hefur skipað í valdastöður værum við að gera uppreisn gegn honum!

17. Hvaða viðhorf ættum við að þroska með okkur til þeirra sem gegna ábyrgðarstörfum í kristna söfnuðinum?

17 Páll postuli bendir á hvaða viðhorf við eigum að þroska með okkur til þeirra sem gegna ábyrgðarstörfum í kristna söfnuðinum. Hann skrifar: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlát til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri ykkur til ógagns.“ (Hebr. 13:17) Við þurfum auðvitað að leggja hart að okkur til að geta sýnt slíka hlýðni og undirgefni. En munum að við erum að vinna að því að láta kærleika Guðs varðveita okkur. Er það ekki erfiðisins virði?

Verum hrein í augum Jehóva

18. Af hverju vill Jehóva að við séum hrein?

18 Í þriðja lagi sýnum við að við elskum Jehóva með því að leitast við að vera hrein í augum hans. Foreldrar leggja sig yfirleitt fram um að halda börnum sínum hreinum. Af hverju? Fyrir það fyrsta stuðlar hreinlæti að góðri heilsu og velferð barnsins. Auk þess er hreint barn fjölskyldunni til sóma og ber vott um kærleika og umhyggju foreldranna. Það er af svipuðum ástæðum sem Jehóva vill að við séum hrein. Hann veit að hreinlæti stuðlar að velferð okkar. Hann veit líka að það er honum til sóma ef við höldum okkur hreinum. Þetta skiptir miklu máli því að fólk getur laðast að þeim Guði sem við þjónum þegar það tekur eftir að við skerum okkur úr í þessum spillta heimi.

19. Hvernig vitum við að líkamlegt hreinlæti er mikilvægt?

19 Á hvaða sviðum verðum við að vera hrein? Á öllum sviðum lífsins. Jehóva gerði Ísraelsmönnum til forna ljóst að líkamlegt hreinlæti væri algert grundvallaratriði. (3. Mós. 15:31) Í Móselögunum voru ákvæði um hvernig ganga ætti frá úrgangi, hreinsa ílát og þvo hendur, fætur og fatnað. (2. Mós. 30:17-21; 3. Mós. 11:32; 4. Mós. 19:17-20; 5. Mós. 23:13, 14) Ísraelsmenn voru minntir á að Jehóva, Guð þeirra, væri hreinn og heilagur að öllu leyti. Þeir sem þjóna hinum heilaga Guði verða líka að vera heilagir. — Lestu 3. Mósebók 11:44, 45.

20. Á hvaða sviðum verðum við að halda okkur hreinum?

20 Við verðum þess vegna að vera hrein að öllu leyti. Við leitumst við að halda huganum hreinum. Við lifum samkvæmt siðferðisreglum Guðs þó að umheimurinn verði æ siðspilltari. Síðast en ekki síst þarf tilbeiðsla okkar að vera hrein og því forðumst við hvaðeina sem tengist falstrú á einhvern hátt. Við höfum stöðugt í huga innblásin varnaðarorð í Jesaja 52:11: „Farið burt, farið burt, haldið af stað þaðan. Snertið ekkert óhreint, haldið burt frá borginni, hreinsið yður.“ Við höldum okkur andlega hreinum með því að forðast að snerta nokkuð sem himneskur faðir okkar telur óhreint í trúarlegum skilningi. Þess vegna tökum við ekki þátt í neinu sem tengist trúarlegum hátíðum og hátíðisdögum sem njóta svo mikilla vinsælda nú á dögum. Það er talsverð áskorun að halda okkur hreinum en það stuðlar hins vegar að því að kærleikur Jehóva varðveiti okkur.

21. Hvað getum við gert til að kærleikur Guðs haldi áfram að varðveita okkur?

21 Jehóva vill að kærleikur hans varðveiti okkur að eilífu. En við verðum hvert og eitt að gera okkar ýtrasta til að láta kærleika hans varðveita okkur. Við þurfum að fylgja fordæmi Jesú og sanna kærleika okkar til Jehóva með því að hlýða boðum hans. Ef við gerum það getum við verið þess fullviss að ekkert „muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum“. — Rómv. 8:38, 39.

Manstu?

• Hvernig getur samviskan hjálpað okkur að láta kærleika Guðs varðveita okkur?

• Af hverju ættum við að elska þá sem Jehóva elskar?

• Af hverju er nauðsynlegt að sýna virðingu fyrir yfirvaldi?

• Hvernig lítur fólk Guðs á hreinleika?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 20]

BÓK SEM HVETUR TIL KRISTILEGRAR HEGÐUNAR

Á umdæmismótinu árið 2008 var gefin út 224 blaðsíðna bók sem heitir „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. Hvert er markmiðið með útgáfu þessarar nýju bókar? Hún er samin með það fyrir augum að hjálpa kristnum mönnum að skilja og elska siðferðisreglur Jehóva og er athyglinni aðallega beint að kristilegri hegðun. Ítarlegur lestur og nám í „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“ mun styrkja þá sannfæringu okkar að það sé okkur fyrir bestu að lifa í samræmi við mælikvarða Guðs núna og leiði til eilífs lífs í framtíðinni.

Enn fremur á þessi bók að hjálpa okkur að líta ekki á það sem byrði að hlýða Jehóva. Þvert á móti getum við sýnt Jehóva með hlýðni okkar hve heitt við elskum hann. Þessi bók mun því fá okkur til að skoða af hverju við hlýðum Jehóva.

Þegar sumir gera þau mistök að snúa baki við kærleika Jehóva er það yfirleitt ekki af kenningarlegum ástæðum heldur vegna rangrar breytni. Það er því afar mikilvægt að við lærum að elska og kunna að meta lög og meginreglur Jehóva sem eru okkur til leiðsagnar í lífinu. Við erum þess fullviss að þessi nýja bók muni hjálpa þjónum Jehóva um allan heim að vera ákveðnir í að gera það sem er rétt, sanna að Satan sé lygari og umfram allt láta kærleika Guðs varðveita sig. — Júd. 21.

[Mynd á blaðsíðu 18]

„Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“