Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég fann tilgang í lífinu

Ég fann tilgang í lífinu

Ég fann tilgang í lífinu

Gaspar Martínez segir frá

Saga mín er á vissan hátt sagan um fátæka sveitadrenginn sem varð ríkur í borginni. En auðurinn, sem ég safnaði, var ekki nákvæmlega sá sem ég hafði vænst.

ÉG ÓLST upp í hrjóstrugri sveit á fjórða áratug síðustu aldar í Riojahéraðinu á Norður-Spáni. Tíu ára gamall varð ég að hætta í skóla en hafði þá bæði lært að lesa og skrifa. Dagarnir liðu úti í haga þar sem við sjö systkinin gættum kindanna eða ræktuðum litla landskika fjölskyldunnar.

Fátæktin varð til þess að við töldum efnislega hluti skipta miklu máli. Við öfunduðum þá sem áttu meira en við. Biskupinn lét samt einu sinni þau orð falla að þorpið okkar væri „það trúræknasta í biskupsdæminu“. Ekki bauð hann í grun að margir myndu yfirgefa kaþólska trú þegar fram liðu stundir.

Leit að einhverju betra

Ég kvæntist Mercedes, stúlku úr sama þorpi. Það leið ekki á löngu þar til við höfðum fyrir ungum syni að sjá. Árið 1957 fluttum við til Logroño, nærliggjandi borgar, og öll fjölskylda mín um síðir. Ég áttaði mig fljótlega á því að þar sem ég var ófaglærður hafði ég litla möguleika á því að vinna fyrir sómasamlegum launum. Ég velti fyrir mér hvar ég gæti leitað leiðsagnar. Ég fór fyrst á bókasafnið án þess að vita almennilega að hverju ég ætti að leita.

Seinna heyrði ég um útvarpsþátt sem bauð upp á biblíunámskeið með bréfaskiptum. Stuttu eftir að ég lauk því höfðu menn úr trúarsöfnuði mótmælenda samband við mig. Ég fór á nokkrar samkomur hjá þeim og varð var við að samkeppni ríkti milli áhrifamanna í söfnuðinum. Ég fór ekki aftur og hugsaði með mér að öll trúarbrögð hlytu að vera eins.

Augu mín opnast

Árið 1964 kom ungur maður að nafni Eugenio í heimsókn til okkar. Hann var vottur Jehóva. Þann trúarsöfnuð hafði ég aldrei heyrt getið um. En ég vildi mjög gjarnan tala um Biblíuna. Mér fannst ég hafa góða þekkingu á henni. Ég svaraði honum með því að nota nokkra af biblíutextunum sem ég hafði lært á bréfanámskeiðinu. Ég reyndi að verja ákveðnar kenningar mótmælenda en innst inni trúði ég þeim ekki.

Þegar við Eugenio höfðum í tvígang átt í löngum samræðum varð ég að játa að hann fór af mikilli snilld með orð Guðs. Ég undraðist að sjá hvernig hann gat flett upp á ritningarstöðum og heimfært síðan merkingu þeirra þrátt fyrir að skólaganga hans hafi verið styttri en mín. Eugenio sýndi mér í Biblíunni að við lifum á síðustu dögum og Guðsríki muni bráðlega koma á paradís á jörð. Áhugi minn var vakinn. — Sálm. 37:11, 29; Jes. 9:5, 6; Matt. 6:9, 10.

Ég þáði hiklaust biblíunámskeið. Nánast allt sem ég lærði var nýtt fyrir mér og hafði djúp áhrif á mig. Við mér blasti framtíðarsýn sem var þess virði að lifa fyrir. Leitinni var lokið. Nú fannst mér ekki lengur skipta svo miklu máli að bæta félagslega stöðu mína og áhyggjurnar út af atvinnuleit urðu minni háttar mál. Sjúkdómar og dauði verða meira að segja ekki framar til. — Jes. 33:24; 35:5, 6; Opinb. 21:4.

Ég byrjaði undir eins að segja ættingjum mínum frá því sem ég var að læra. Hugfanginn sagði ég þeim að Guð lofi að koma á paradís hér á jörð þar sem trúfastir menn geti lifað að eilífu.

Fjölskyldan tekur við sannleika Biblíunnar

Fljótlega ákváðu rúmlega tíu af okkur að hittast á heimili föðurbróður míns síðdegis á hverjum sunnudegi og ræða um loforð Biblíunnar. Þessar umræður okkar fóru fram vikulega, tvær til þrjár klukkustundir í senn. Þegar Eugenio sá að svo stór hópur ættingjanna hafði áhuga á Biblíunni kom hann því í kring að hverri fjölskyldu yrði sinnt út af fyrir sig.

Ég átti aðra ættingja í bænum Durango, í um 120 kílómetra fjarlægð. Þar bjuggu engir vottar. Ég tók því tveggja daga frí þrem mánuðum síðar til að heimsækja þá og segja þeim frá trúnni sem ég var nýbúinn að kynnast. Í þeirri heimsókn hittumst við tíu saman bæði kvöldin og ég talaði við þau langt fram yfir miðnætti. Allir hlustuðu með ánægju. Þegar þessari stuttu heimsókn var lokið skildi ég eftir hjá þeim nokkrar Biblíur og biblíutengd rit. Við héldum síðan sambandi.

Enginn hafði prédikað áður í Durango en þegar vottarnir komu þangað biðu 18 manns óþreyjufullir eftir að fræðast um Biblíuna. Með ánægju sáu vottarnir hverri fjölskyldu fyrir biblíunámskeiði.

Fram til þessa hafði Mercedes ekki haft áhuga á sannleikanum en það var frekar af því að hún óttaðist menn en að hún væri ósammála kenningum Biblíunnar. Á þessum tíma var starf votta Jehóva bannað á Spáni svo að hún óttaðist að yfirvöld vísuðu tveim sonum okkar úr skóla og okkur yrði öllum útskúfað. En þegar hún sá að öll fjölskyldan tók sannleikanum opnum örmum langaði hana einnig til að fræðast um Biblíuna.

Innan tveggja ára voru 40 úr fjölskyldunni orðnir vottar og létu skírast til tákns um vígslu sína til að þjóna Guði. Já, fjölskylda mín hafði sama markmið og tilgang í lífinu og ég. Mér fannst ég hafa áorkað einhverju sem var mikils virði. Okkur hafði veist mikill andlegur auður.

Lífið varð innihaldsríkara með árunum

Næstu tvo áratugina einbeitti ég mér að því að ala upp syni okkar tvo og hjálpa til í söfnuðinum. Þegar við Mercedes fluttum til Logroño voru aðeins um 20 vottar í þessari 100.000 manna borg. Áður en langt um leið fékk ég margs konar ábyrgðarstörf í söfnuðinum.

En þegar ég var 56 ára var verksmiðjunni, þar sem ég vann, óvænt lokað. Ég varð atvinnulaus. Mig hafði alltaf langað mjög mikið til að boða fagnaðarerindið í fullu starfi svo að ég nýtti mér þessar nýju aðstæður og varð brautryðjandi. Eftirlaunin, sem ég fékk, voru rýr og ekki auðvelt að lifa af þeim. En Mercedes hjálpaði upp á með því að vinna við hreingerningar. Við komumst af og okkur skorti aldrei það nauðsynlegasta. Ég er enn þá brautryðjandi og hún starfar stundum sem aðstoðarbrautryðjandi. Hún nýtur þess að vera í boðunarstarfinu.

Fyrir nokkrum árum var Mercedes vön að fara með blöðin frá söfnuðinum til ungrar konu sem hét Merche en hún hafði sem barn kynnt sér Biblíuna. Hún las ritin af áhuga og Mercedes tók eftir því að innst inni þótti henni enn þá vænt um sannindi Biblíunnar. Loks þáði Merche biblíunámskeið og tók örum framförum. En Vicente, eiginmaður hennar, drakk mikið og gat ekki haldið fastri vinnu. Þar af leiðandi sá hann ekki fyrir henni og áfengisneyslan ógnaði hjónabandi þeirra.

Konan mín stakk upp á við Merche að Vicente talaði við mig. Hann gerði það að lokum. Eftir nokkrar heimsóknir þáði hann biblíunámskeið. Vicente fór að breyta sér og hætti að drekka nokkra daga í senn. Síðan drakk hann ekki í viku eða meira. Að lokum steinhætti hann að neyta áfengis. Viðmótið og útlitið batnaði til muna og fjölskyldan sameinaðist. Þau hjónin, ásamt dótturinni, styðja dyggilega við fámenna söfnuðinn á Kanaríeyjum þar sem þau eiga nú heima.

Góðar minningar um tilgangsríkt líf

Þótt sumir ættingja minna, sem lærðu sannleika Biblíunnar á árum áður, séu nú dánir hefur stórfjölskyldan haldið áfram að vaxa og Guð hefur blessað okkur ríkulega. (Orðskv. 10:22) Það er ánægjulegt að sjá að næstum allir sem byrjuðu að kynna sér Biblíuna fyrir 40 árum hafa haldið áfram að þjóna Jehóva trúfastlega, og svo hafa börnin og barnabörnin bæst í hópinn.

Ég á fjölda ættingja sem eru vottar. Margir þeirra eru öldungar, safnaðarþjónar og brautryðjendur. Eldri sonur minn og eiginkona hans vinna á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Madríd. Þegar ég varð vottur vorum við um 3.000 á Spáni. Nú erum við yfir 100.000. Ég nýt þess út í ystu æsar að hafa boðunarstarfið að aðalstarfi og ég er innilega þakklátur Guði fyrir dásamlega ævi í þjónustu hans. Þrátt fyrir stutta skólagöngu get ég þjónað við og við sem staðgengill farandhirðis.

Fyrir fáeinum árum komst ég að raun um að þorpið, sem ég ólst upp í, var nánast komið í eyði. Vegna fátæktar neyddust allir íbúarnir um síðir til að yfirgefa akra sína og heimili í leit að betra lífi. Sem betur fer hefur verulegur fjöldi þessara útflytjenda, þar á meðal ég, fundið andlegan fjársjóð. Við uppgötvuðum að lífið hefur tilgang og að þjónustan við Jehóva veitir mestu gleði sem hugsast getur.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Nánast allir úr fjölskyldu bróður Mastínez sem eru í sannleikanum.