Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfum sama hugarfar og Kristur

Höfum sama hugarfar og Kristur

Höfum sama hugarfar og Kristur

„[Verið] samhuga að vilja Krists Jesú.“ — RÓMV. 15:5.

1. Af hverju ættum við að reyna að tileinka okkur hugarfar Krists?

„KOMIÐ til mín,“ sagði Jesús Kristur. „Lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matt. 11:28, 29) Þessi hlýlegu orð lýsa vel kærleiksríku hugarfari Jesú. Enginn maður er okkur betri fyrirmynd. Jafnvel þó að hann væri sonur Guðs og mjög voldugur var hann mildur og fann til með fólki, einkum bágstöddum.

2. Hvaða þætti í fari Jesú ætlum við að skoða?

2 Í þessari grein og næstu tveim er fjallað um það hvernig við getum endurspeglað „huga Krists“ og tileinkað okkur sama hugarfar og hann. (1. Kor. 2:16) Við beinum athyglinni aðallega að fimm þáttum í fari Jesú: Hógværð hans og mildi, gæsku hans, hlýðni við Guð, hugrekki og óbilandi kærleika.

Líkjum eftir hógværð og mildi Jesú

3. (a) Hvaða lexíu í auðmýkt kenndi Jesús lærisveinunum? (b) Hvernig brást Jesús við veikleikum lærisveinanna?

3 Jesús, fullkominn sonur Guðs, kom fúslega til jarðar til að þjóna meðal ófullkominna og syndugra manna. Hann vissi að síðar myndu þeir taka hann af lífi. En Jesús var alltaf glaður og sýndi fullkomna sjálfstjórn. (1. Pét. 2:21-23) Ef við „beinum sjónum okkar“ að Jesú eigum við auðveldara með að líkja eftir honum þegar gallar og ófullkomleiki annarra snertir okkur með einhverjum hætti. (Hebr. 12:2) Jesús bauð lærisveinum sínum að ‚taka á sig ok sitt‘ og læra af sér. (Matt. 11:29) Hvað gátu þeir lært? Meðal annars að Jesús var mildur og hógvær, og hann var þolinmóður við lærisveinana þrátt fyrir galla þeirra. Nóttina áður en hann dó sýndi hann þeim hvað það væri að vera „af hjarta lítillátur“ þegar hann þvoði fætur þeirra. Hann kenndi þeim þar með lexíu sem þeir gleymdu aldrei. (Lestu Jóhannes 13:14-17.) Síðar sömu nótt bað Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes að vaka en þeir sofnuðu samt. Jesús var skilningsríkur gagnvart veikleikum þeirra. „Símon, sefur þú?“ spurði hann. „Vakið og biðjið svo að þið fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn en holdið veikt.“ — Mark. 14:32-38.

4, 5. Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað okkur að bregðast rétt við göllum annarra?

4 Hver eru viðbrögð okkar ef trúsystir eða trúbróðir er of kappgjarn, móðgunargjarn eða seinn að bregðast við leiðbeiningum frá öldungunum eða hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘? (Matt. 24:45-47) Við erum kannski reiðubúin að afsaka slíka galla og telja þá eðlilega meðal fólks í heimi Satans en treg til að fyrirgefa trúsystkinum okkar slíka hegðun. Ef við látum galla annarra fara í taugarnar á okkur þurfum við að spyrja okkur hvernig við getum endurspeglað „huga Krists“ betur. Reynum að hafa hugfast að Jesús æsti sig aldrei við lærisveinana, ekki einu sinni þegar þeim gekk illa að tileinka sér hugarfar hans.

5 Tökum Pétur postula sem dæmi. Jesús bauð honum einu sinni að stíga út úr bátnum og ganga til sín á vatninu. Pétur gerði það. En þegar hann horfði á ofviðrið byrjaði hann að sökkva. Reiddist Jesús honum? Sagði hann: „Gott á þig! Reyndu nú að læra af þessu“? Nei, „Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: ‚Trúlitli maður, hví efaðist þú?‘“ (Matt. 14:28-31) Ef það gerist einhvern tíma að trúbróðir sýnir ekki næga trú getum við þá í táknrænni merkingu rétt út höndina til að hjálpa honum að styrkja trú sína? Það er lærdómur sem má greinilega draga af mildilegum orðum Jesú við Pétur.

6. Hvernig benti Jesús postulunum á að þeir ættu ekki að vera framagjarnir?

6 Pétur tók einnig þátt í langvinnri deilu postulanna um það hver þeirra væri mestur. Jakob og Jóhannes vildu fá að sitja Jesú á hægri og vinstri hönd í ríki hans. Pétri og hinum postulunum gramdist þegar þeir urðu þess áskynja. Jesús vissi að þessi hugsunarháttur þeirra átti sennilega upptök sín í viðhorfum samfélagsins þar sem þeir ólust upp. Hann kallaði þá til sín og sagði: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar.“ Síðan benti Jesús á sjálfan sig sem dæmi og sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ — Matt. 20:20-28.

7. Hvernig getum við öll stuðlað að einingu í söfnuðinum?

7 Ef við hugleiðum hve hógvær Jesús var getur það hjálpað okkur að hegða okkur eins og „sá sem minnstur er“ í söfnuðinum. (Lúk. 9:46-48) Það stuðlar að einingu. Jehóva er eins og faðir stórrar fjölskyldu og vill að börn sín búi saman í friði og einingu. (Sálm. 133:1) Jesús bað þess í bæn til föður síns að allir sannkristnir menn væru sameinaðir „til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig“, sagði hann. (Jóh. 17:23) Eining okkar er eitt af því sem sýnir að við erum fylgjendur Krists. Til að viðhalda þessari einingu þurfum við að sjá ófullkomleika annarra sömu augum og Jesús. Hann fyrirgaf og kenndi að eina leiðin til að hljóta fyrirgefningu væri að fyrirgefa öðrum. — Lestu Matteus 6:14, 15.

8. Hvað má læra af þeim sem hafa þjónað Guði árum saman?

8 Við getum líka lært margt af trú þeirra sem hafa líkt eftir Kristi árum saman. Þeir eru yfirleitt skilningsríkir gagnvart ófullkomleika annarra, líkt og Jesús var. Þeir hafa komist að raun um að umhyggja hjálpar okkur að „bera veikleikann með hinum óstyrku“ og stuðlar jafnframt að einingu. Og þetta hvetur allan söfnuðinn til að sýna sama hugarfar og Jesús. Þessir þjónar Guðs bera sömu ósk í brjósti og Páll postuli lýsti í bréfi sínu til kristinna manna í Róm: „Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists.“ (Rómv. 15:1, 5, 6) Við erum Jehóva til lofs þegar við tilbiðjum hann í einingu.

9. Af hverju þurfum við heilagan anda til að líkja eftir fordæmi Jesú?

9 Jesús talaði um að vera „af hjarta lítillátur“ og hógvær en hógværð er einn af ávöxtum heilags anda Guðs. Þegar við kynnum okkur fordæmi Jesú þurfum við jafnframt á heilögum anda Jehóva að halda til að geta líkt sem best eftir honum. Við ættum að biðja Jehóva að gefa okkur heilagan anda sinn og leggja okkur fram um að rækta með okkur ávöxt hans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi“. (Gal. 5:22, 23) Með því að temja okkur að vera mild og hógvær, líkt og Jesús, gleðjum við Jehóva, föður okkar á himnum.

Jesús sýndi gæsku

10. Hvernig sýndi Jesús gæsku?

10 Gæska er líka einn af ávöxtum heilags anda. Jesús var alltaf góður í viðmóti við aðra. Hann „tók mönnum vel“ sem leituðu hann uppi af réttu tilefni. (Lestu Lúkas 9:11.) Hvað má læra af gæsku Jesú? Gæskuríkur maður er vingjarnlegur, þægilegur, samúðarfullur og viðfelldinn. Jesús var þannig. Hann kenndi í brjósti um fólk „því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa“. — Matt. 9:35, 36.

11, 12. (a) Lýstu atviki þar sem Jesús sýndi umhyggju sína í verki. (b) Hvað má læra af þessu atviki?

11 Jesús sýndi líka í verki að hann kenndi í brjósti um fólk. Lítum á eitt dæmi. Kona nokkur hafði þjáðst af óeðlilegum blæðingum í heil 12 ár. Hún vissi að samkvæmt Móselögunum var hún og hver sem snerti hana óhreinn í trúarlegu tilliti. (3. Mós. 15:25-27) En orðstír Jesú og framkoma hlýtur að hafa sannfært hana um að hann gæti læknað hana og myndi gera það. Hún hugsaði með sér: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.“ Hún tók í sig kjark, snerti klæði hans og fann þegar í stað að hún læknaðist.

12 Jesús skynjaði að einhver hafði snert hann og leit í kringum sig til að sjá hver hefði gert það. Konan bjóst sennilega við ávítum fyrir að hafa brotið gegn lögmálinu. Hún féll skjálfandi til fóta honum og sagði honum allan sannleikann. Ávítaði Jesús þessa fátæku og þjáðu konu? Síður en svo. „Dóttir,“ sagði hann hlýlega, „trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“ (Mark. 5:25-34) Það hlýtur að hafa verið ákaflega hughreystandi fyrir hana að heyra þessi vinsamlegu orð.

13. (a) Að hvaða leyti hugsaði Jesús ólíkt faríseunum? (b) Hvernig kom Jesús fram við börn?

13 Kristur notaði aldrei vald sitt til að íþyngja fólki. Þar var hann ólíkur hinum harðbrjósta faríseum. (Matt. 23:4) Hann kenndi fólki vilja Jehóva með hlýju og þolinmæði. Hann átti náið samband við fylgjendur sína og var alltaf kærleiksríkur og vingjarnlegur við þá. Hann var sannur vinur þeirra. (Orðskv. 17:17; Jóh. 15:11-15) Börnum leið meira að segja vel í návist Jesú og honum leið augljóslega vel í félagsskap þeirra. Hann var ekki svo upptekinn að hann staldraði ekki við til að vera með börnunum. En lærisveinarnir voru enn að hugsa um stöðu sína svipað og trúarleiðtogar Gyðinga og reyndu einu sinni að hindra fólk í að koma með börnin til hans svo að hann gæti snert þau. Jesús var ekki sáttur við að lærisveinarnir skyldu gera þetta. Hann sagði við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.“ Síðan benti hann á börnin til að kenna þeim mikilvægan lærdóm og sagði: „Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ — Mark. 10:13-15.

14. Hvernig njóta börn góðs af heilbrigðum áhuga fullorðinna?

14 Við getum rétt ímyndað okkur hvernig sumum þessara barna hefur verið innanbrjósts þegar þau voru vaxin úr grasi og rifjuðu upp hvernig Jesús Kristur „tók þau sér í faðm . . . og blessaði þau“. (Mark. 10:16) Börn á okkar tímum eiga líka eftir að hugsa með hlýju til þess hvernig öldungar og aðrir sýna þeim heilbrigðan og óeigingjarnan áhuga. Síðast en ekki síst læra börn, sem kynnast þessari umhyggju í söfnuðinum, að andi Jehóva starfar með fólki hans.

Sýnum gæsku í hörðum heimi

15. Af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart að gæska skuli vera á undanhaldi?

15 Mörgum finnst þeir ekki mega vera að því að sýna af sér gæsku. Þjónar Jehóva mæta því anda heimsins dagsdaglega í skóla og vinnu, þegar þeir ferðast milli staða og þegar þeir boða fagnaðarerindið. Þetta viðmót veldur okkur kannski vonbrigðum en það ætti ekki að koma okkur á óvart. Jehóva innblés Páli að segja fyrir að á hinum erfiðu „síðustu dögum“ myndu margir verða „sérgóðir“ og „kærleikslausir“, og sannkristnir menn myndu vera í snertingu við þess konar fólk. — 2. Tím. 3:1-3.

16. Hvernig getum við sýnt gæsku í verki innan safnaðarins?

16 Andrúmsloftið í sannkristna söfnuðinum er hressandi tilbreyting frá hinum harða heimi. Með því að líkja eftir Jesú getum við öll stuðlað að þessu heilnæma andrúmslofti. Hvernig förum við að því? Meðal annars má nefna að margir í söfnuðinum þarfnast hjálpar okkar og hvatningar vegna heilsubrests eða annars mótlætis. Slíkir erfiðleikar eru alls engin nýlunda þó að þeir færist kannski í aukana núna á „síðustu dögum“. Frumkristnir menn áttu við svipaða erfiðleika að glíma. Það er því jafn mikils virði núna og það var þá að sýna trúsystkinum umhyggju í verki. Páll hvatti til dæmis trúsystkini sín til að ‚hughreysta ístöðulitla, taka að sér óstyrka og vera þolinmóð við alla‘. (1. Þess. 5:14) Til að gera það þurfum við að líkja eftir Kristi og sýna gæsku í verki.

17, 18. Nefndu dæmi um hvernig við getum líkt eftir gæsku Jesú.

17 Sú skylda hvílir á kristnum mönnum að hjálpa trúsystkinum og koma fram við þau eins og Jesús hefði gert. Við eigum að sýna ósvikna umhyggju hvort sem við höfum þekkt viðkomandi árum saman eða kannski aldrei hitt hann áður. (3. Jóh. 5-8) Við ættum að eigin frumkvæði að sýna öðrum umhyggju líkt og Jesús gerði og reyna alltaf að hvetja og uppörva. — Jes. 32:2; Matt. 11:28-30.

18 Við getum öll sýnt gæsku með því að hafa vakandi áhuga á velferð annarra. Höfum augun opin fyrir slíkum tækifærum eða sköpum okkur þau. „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu,“ skrifaði Páll. (Rómv. 12:10) Þetta merkir að líkja eftir fordæmi Krists og sýna öðrum hlýju og gæsku. Við þurfum að læra að sýna ‚falslausan kærleika‘. (2. Kor. 6:6) Páll lýsir þessum kærleika þannig: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.“ (1. Kor. 13:4) Í stað þess að ala með okkur óvild í garð bræðra og systra skulum við gera eins og hvatt er til í Efesusbréfinu 4:32: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“

19. Hverju skilar það ef við sýnum gæsku eins og Kristur gerði?

19 Það skilar sér ríkulega ef við leggjum okkur í líma við að líkja eftir Kristi og sýna gæsku öllum stundum og við öll tækifæri. Þá getur andi Jehóva starfað óhindrað í söfnuðinum og hjálpað öllum að þroska með sér ávöxt hans. Og þegar við líkjum eftir Jesú og hjálpum öðrum að gera það líka gleðjum við Guð með því að tilbiðja hann í sameiningu. Við skulum því reyna öllum stundum að endurspegla gæsku Jesú, hógværð hans og mildi í samskiptum við aðra.

Geturðu svarað?

• Hvernig sýndi Jesús að hann var „hógvær og af hjarta lítillátur“?

• Hvernig sýndi Jesús gæsku?

• Hvernig getum við líkt eftir Kristi og sýnt hógværð og gæsku í þessum ófullkomna heimi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Réttum við hjálparhönd ef bróðir verður óstyrkur í trúnni eins og gerðist hjá Pétri?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvernig geturðu stuðlað að gæskuríku andrúmslofti í söfnuðinum?